V/ fréttatilkynningar NBI

Í fréttatilkynningu frá Nýja Landsbankanum (NBI) er því haldið fram ég fari með rangt mál um stöðu og framtíðarhorfur bankans.  Því hafna ég alfarið.

Á fundi viðskiptanefndar 14. febrúar kom fram að óvissa ríkir um raunvirði eigna bankans, þ.e.a.s. hversu stór hluti þeirra sé í íslenskum krónum eða erlendum myntum. Á sínum tíma var NBI endurreistur undir þeim formerkjum að stór hluti eignasafnsins væri í erlendri mynt. Því þótti mikilvægt að endurfjármögnun bankans yrði m.a. í formi erlends skuldabréfs á milli nýja og gamla bankans til að rétta af gjaldeyrisjöfnuð nýja bankans.

Skuldir og eignir í erlendri mynt yrðu þannig í jafnvægi.

Gengið var frá endurfjármögnun NBI þrátt fyrir að á þeim tíma hefði ráðamönnum átt að vera ljóst að mikil óvissa væri um lögmæti gengistryggðra lána, verðmæti lánasafnsins og getu bankans til að endurgreiða skuldabréfið í erlendri mynt. Bankinn varð því of stór með lág meðalgæði útlána, auk þess sem nauðsynlegt var að leiðrétta reiknaða skekkju í gjaldeyrisjöfnuði bankans með útgáfu skuldabréfs á milli gamla og nýja bankans.

Þetta var vandarmál sem var fyrirsjáanlegt og lagði þingflokkur Framsóknarmanna fram þingsályktun um endurreisn íslensku bankanna í júlí 2009, sem byggði á því að stærð hins nýja bankakerfis miðaðist við innlendar innstæður en ekki innlendar eignir.  Þar var bent á að ef endurskipulagning bankakerfisins færi úrskeiðis væri hætta á að ríkið yrði aftur að leggja til meira eigið fé.

Þessar ábendingar voru hunsaðar og samkomulag um endurreisn bankakerfisins undirritað í lok árs 2009.

Meira eigið fé í krónum leysir þó ekki vandann varðandi framboð á erlendum gjaldeyri, en það á eftir að vera viðvarandi vandamál á næstu árum í ljósi mikilla erlendra skulda þjóðarbúsins.  Það er von mín að það muni reynast NBI auðvelt að kaupa gjaldeyri til að standa við skilmála skuldabréfsins, en um það ríkir mikil óvissa.

Óvissan er til staðar, það var staðfest á fundi viðskiptanefndar og því stend ég við orð mín.
--------------------------
Þingsályktun um endurreisn bankakerfisins.


Skýrsla...

Jón Baldvin Hannibalsson segir að vandamál Framsóknarflokksins sé að við höfum ekki skrifað skýrslu þar sem við fordæmum vinnubrögð fyrrum forystumanna flokksins.  

Það er greinilegt að Jón Baldvin hefur ekki lesið bókanir okkar í skýrslu þingmannanefndarinnar um einkavæðingu bankanna.  Greinilegt að hann hefur ekki hlustað á fjöldann allan af ræðum okkar á Alþingi. Né afsökunarbeiðnir sem núverandi og fyrrverandi forystumenn hafa flutt á flokksþingum.

Auk þess höfum við gert nokkuð sem enginn annar flokkur hefur gert, endurnýjað meira og minna bæði forystu flokksins, þingflokk og sveitarstjórnarmenn okkar hringinn í kringum landið.

Sumir vilja einfaldlega trúa því versta um Framsóknarflokkinn.  Þeim viðhorfum munum við aldrei breyta, hvorki  með skýrslu eða raunverulegum gjörðum.

Staðreyndin er hins vegar sú að það þarf mikið til, - til að endurheimta aftur traust og stuðning kjósenda.  Það tekur tíma og krefst samkvæmni, trúverðugleika og hugsjóna sem hugnast kjósendum.

Að því erum við að vinna.


XD og XS?

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, náði að toga rúman helming þingflokks síns í að styðja Icesave samninginn.  

Hann talar um ískalt hagsmunamat og ég tel að þar fari Bjarni rétt með.  Undir eru gífurlegir hagsmunir, baráttan um flokkinn og hvert hann mun stefna í framtíðinni.  Þrýstingur frá fulltrúum atvinnulífsins hefur verið mikill um að ljúka málinu. 

Með þessari ákvörðun er formaðurinn að reyna að losa um heljartök ákveðinna afla á Sjálfstæðisflokknum og sýna að hann ætlar sér að vera formaður Sjálfstæðisflokksins, ekki afleysingamaður eða vikapiltur ákveðinna afla.

Hann er einnig að gefa mjög skýr merki um að hann er tilbúinn til að taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi, allavega með Samfylkingunni. Enda auðveldar úrlausn Icesave ESB umsóknarferlið, - sem ætti að hugnast þeim armi Sjálfstæðisflokksins sem nú vill ljúka Icesave.  

Framundan eru því átök, - og hver veit nema hrunstjórnin rísi upp úr þeim eins og fuglinn Fönix?


Fín ráðstefna!

Ráðstefnan um samvinnu og félagslega hagkerfið tókst með miklum ágætum þrátt fyrir smá tæknilega örðugleika í byrjun (lesist: Microsoft...). Vona ég að allir hafa farið heim fróðari um mikilvægi þriðja geirans í íslensku samfélagi. 

Hér að neðan eru glærurnar mínar um fyrirlesturinn Samvinnuhreyfingin: Er þörf á samvinnu? en að sjálfsögðu var svarið já, - það er þörf á samvinnu.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ráðstefna um samvinnu og félagslega hagkerfið

Á laugardaginn verður haldin ráðstefna um samvinnu og félagslega hagkerfið frá kl. 11-13 að Hverfisgötu 33.  Ráðstefnan er öllum opin.

Dagskrá:

11.00-11.05 Ráðstefnan sett. Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins.

11.05-11.30 Samvinna og félagslega hagkerfið. Ívar Jónsson, sviðsstjóri á Landsbókasafninu og fv. prófessor Jónasar frá Hriflu við Bifröst fjallar um félagslega hagkerfið á Íslandi, - starfsemi sem liggur milli hins opinbera og markaðarins, umfang þess og stöðu.  Félagsleg starfsemi hefur að leiðarljósi félagslega og/eða efnahagslega köllun af ýmsu tagi sem einkennist af vilja til að starfa að almannaheill án þess að lokamarkmiðið sé að hagnast á starfseminni.

11.30-11.45 Konur, samvinna og almannaheill.  Hildur Helga Gísladóttir, framkvæmdastjóri Kvenfélagssambands Ísland og varamaður í stjórn Almannaheilla, heildarsamtaka almannaheillasamtaka á Íslandi fjallar um kvenfélögin, hlutverk góðgerðarsamtaka í samfélaginu og samspil við ríkisvaldið og sveitarfélög.

11.45-12.00 Æskan og samvinna.  Björn Ármann Ólafsson stjórnarmaður í Ungmennafélagi Íslands. Fjallað verður um  hlutverk æskulýðssamtaka, þátttöku ungs fólks í starfi frjálsra félagasamtaka og samspil við hið opinbera.

12.00-12.15 Samvinnuhreyfingin: Er þörf á samvinnu?  Eygló Harðardóttir alþingismaður. Fjallað um íslensku samvinnuhreyfinguna, stöðu hennar í dag, hugmyndafræði og  lagaumhverfi.

12.15-13 Pallborðsumræður


Aumingja Sjóvá

Eigendasaga Sjóvá er búinn að vera hreinn harmleikur síðustu árin, en virðist núna að vera breytast í farsa. 

Viðskiptanefnd Alþingis fundaði um málið í dag með seðlabankastjóra, ríkisendurskoðanda og fulltrúum Fjármálaráðuneytisins og niðurstaðan fundarins var að: Já, við vitum að SF1 (kaupandi Sjóvá) er til, en við vitum ekki hver hann er.

Ha? Opið og gagnsætt söluferli hvað?

Ég hef stundum sagt að íslenskir embættismenn hljóta að taka próf í að svara ekki beint spurningum þingmanna.  Seðlabankastjóri náði þó nýjum hæðum þar sem meginþorri fundartímans fór í að ræða um þagnarskyldu SÍ og hvort hann mætti almennt segja nokkuð.

Okkur til huggunar var lofað að allt yrði upp á borðum.  FME fengi allar nauðsynlegar upplýsingar til að meta hæfi viðkomandi eigenda (sbr. 43.gr. laga um vátryggingastarfsemi þegar við vitum hverjir þeir eru) og við ættum ekki að hafa neinar áhyggjur, - þetta yrði allt opið og gagnsætt.

Á endanum...

Er ekki einhver sem vill líka selja mér 1 stk. Brooklyn brú?

 


Skilaboð frá Eysteini

Árið 1965 gaf Félagsmálaráðuneytið út bækling um stjórnmálaflokka og stefnur þeirra.

Þar skrifaði Eysteinn Jónsson, fv. formaður Framsóknarflokksins:

"Framsóknarflokkurinn vill byggja upp á Íslandi sannkallað frjálst lýðræðis- og menningarþjóðfélag efnalega sjálfstæðra manna, sem leysa sameiginleg verkefni eftir leiðum samtaka, samvinnu og félagshyggju. Þjóðfélag, þar sem manngildi er metið meira en auðgildi, og vinnan, þekkingin og framtak er sett ofar og látið vega meira en auðdýrkun og fésýsla."

Þessi orð eiga jafnvel betur við í dag en árið 1965.  

Svona þjóðfélag vil ég búa í.

(Þakka Björg Reehaug Jensdóttur kærlega fyrir að hafa komið þessu gullkorni á framfæri við  mig).


Landhelgisgæslan á Suðurnes

Ríkisstjórnin hélt nýlega fund á Suðurnesjum þar sem samþykkt var aðgerðaáætlun til að takast á við hið mikla atvinnuleysi sem þar ríkir.  Þar var innanríkisráðherra falið að skoða vandlega kosti þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar á öryggissvæðið á Miðnesheiði og að gerð yrði hagkvæmniathugun á þeim kosti. Niðurstöður eiga að liggja fyrir í byrjun febrúar.

Hugmyndin um flutning Landhelgisgæslunnar á Suðurnesin er ekki ný af nálinni og voru þingsályktunartillögur þess efnis fluttar á 116. löggjafarþingi og 130. löggjafarþingi af þingmönnunum Árna R. Árnasyni og Hjálmari Árnasyni, en voru ekki útræddar.

Höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar eru í Reykjavík.  Þar er skrifstofuhald, þar liggja 3 skip hennar á milli verkefna og þar er flugkostur hennar geymdur, flugvél og tvær þyrlur. Hjá stofnuninni starfa um 150 manns auk tuga nýrra starfsmanna frá Varnarmálastofnun.

Oft getur verið erfitt að flytja heila stofnun, en ýmislegt mælir með því á þessum tímapunkti.  Frá og með síðustu áramótum tók Landhelgisgæslan við stórum hluta verkefna Varnarmálastofnunar sem staðsett var á gamla varnarliðssvæðinu á Suðurnesjum.  Framundan er því mikið starf hjá starfsmönnum við að sameina og aðlaga verkefni þessara tveggja stofnana í nýja heild og gæti flutningur í nýrri og betri aðstöðu verið mikilvægur þáttur í að byggja upp Landhelgisgæsluna.

Varnarmálastofnun bjó yfir góðum húsakosti sem gæti hentað mjög vel fyrir starfsemi Landhelgisgæslunnar, en fram hefur komið í máli forstjóra gæslunnar að húsakostur stofnunarinnar gæti verið betri. Besti flugvöllur landsins er staðsettur á Suðurnesjum.   Hafnaraðstaða er þar næg og varðskipin væru óneitanlega nokkru nærri almennum miðum en í Reykjavíkurhöfn.  Síðast en ekki síst þá hafa íbúar svæðisins mikla reynslu og þekkingu af því að þjónusta starfsemi af þessu tagi. Því eru bæði öryggis- og rekstrarleg rök sem mæla með flutningi. Til viðbótar eru mikilvæg byggðarök. Hvergi hefur atvinnuleysi verið meira en á Suðurnesjum enda skildi brottför varnarliðsins, hrun byggingageirans og bankakreppan eftir svöðusár á atvinnulífi svæðisins.

Fulltrúar stjórnmálaflokka hafa lýst sig fylgjandi flutningi Landhelgisgæslunnar og ályktaði félagsfundur VG á Suðurnesjum síðast um málið í október 2010 þar sem stjórnvöld voru hvött til að flytja Landhelgisgæsluna og starfsemi henni tengda á Suðurnesin.

Því hvet ég innanríkisráðherra til taka af skarið og styðja flutning Landhelgisgæslunnar á Suðurnesin.

(Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. janúar 2011)


Sjávarútvegsráðstefna Framsóknarflokksins

Þann 14. janúar kl. 13.00-17.00 á Hverfisgötu 33, Reykjavík 3. hæð verður haldin sjávarútvegsráðstefna flokksins.

Ráðstefnan er hluti af endurskoðun á sjávarútvegsstefnu flokksins og mun fjöldi góðra gesta taka þátt.

Dagskráin er svohljóðandi:

13.00 Kynning – Sigurður Ingi Jóhannsson formaður sjávarútvegshóps Framsóknarflokksins.
13.05-13.15  Sigmundur Davíð Gunnlaugsson  formaður Framsóknarflokksins – ávarp og setning ráðstefnunnar.
13.15-13.45  Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar – staða fiskistofna við núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis.
13.45-14.15  Kolbeinn Árnason  formaður samningshóps um sjávarútvegsmál við ESB – markmið og staða viðræðna.
14.15-14.45  Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans - fjárhagsleg staða sjávarútvegsins.
14.45-15.15  Björn Theódórsson líffræðingur – nýsköpun og önnur nýting sjávarauðlindar.
15.15-15.30 – kaffi
15.30-16.00 Páll Jóhann Pálsson bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Grindavík – viðhorf innanbúðarmanns.
16.00-16.30 Gunnar Bragi Sveinsson alþingismaður, fulltrúi Framsóknarflokks í Samráðshópi ráðherra um sjávarútveg – niðurstöður samráðshóps.

Pallborðsumræður

Hvet fólk til að mæta.


Gleðileg jól!

Vonandi verða jólin gleðileg og nýtt ár farsælt.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband