Þórólfur og Nostradamus

Þórólfur Matthíasson, Háskólaprófessorinn, taldi allt færi á versta veg ef ekki yrði gengið að Icesave I og II. 

Ætli Nostradamus geti ekki legið rólegur í gröfinni. 

PS. Afsökunarbeiðnalistinn er sífellt að lengjast: Steingrímur, Jóhanna, Þórólfur, Jón Kaldal, Ólafur Stephensen, Svavar, Gylfi, Gylfi, Vilhjálmur...

, þ


Hollenski fjármálaráðherra um Icesave

Hér er tengilinn á þýðingu á bréfinu frá hollenska fjármálaráðherranum til hollenska þingsins um nýja Icesave samkomulagið.

Fastir vextir 3,0 til Hollands, 3,3 til Bretlands fram til lok júní 2016.  Greiðsluhlé til júlí 2016, þak sett á hámarksgreiðslu á ári við 5% af tekjum ríkissjóðs, ef greiðslan fer yfir 5% á ári þá færist mismunurinn á næsta ár fram til 2046.

Eftir það miðast vextir við CIRR vexti á pund og evru.

 

 

 


Hugsjónir og hugrekki

Oft hef ég orðið fyrir vonbrigðum með skort á hugsjónum í stjórnmálum. 

Það sem hefur sviðið sérstaklega undan er hin háværa krafa um það eigi ekki að vera neinar hugsjónir í stjórnmálum.  Stjórnmálamenn eigi bara að fara í verkin og ljúka þeim. Ef þeir geta það ekki þá eigi bara að fá einhverja aðra.

Þetta viðhorf virðist byggjast á hugmyndinni um að það sé alltaf einhver ein rétt lausn fyrir hvert vandamál. Hugmyndinni um málamiðlun frekar en hugrekki til að standa fyrir það sem er rétt og sanngjarnt. 

Þessu er ég einfaldlega ósammála.

Ég tel að lausnir verði að byggjast á ákveðinni hugmyndafræði, ákveðinni  sýn og mati á því hvað við teljum vera rétt, sanngjarnt og gott samfélag.

Og við verðum hvert og eitt að hafa hugrekki til að standa fyrir okkar hugsjónir.

 


Saga SA trygginga ehf.

Fyrirtækið Sjóvá Almennar tryggingar hf. sætti sérstöku eftirliti Fjármálaeftirlitsins á árunum 2008 og 2009 samkvæmt 90. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi, þar sem félagið uppfyllti ekki skilyrði lágmarksgjaldþols. Samkvæmt drögum að efnahagsreikningi frá 28. febrúar 2009 var eigið fé félagsins neikvætt um 13,5 ma.kr. en þurfti að lágmarki að vera jákvætt um 2 ma.kr. Var því ljóst að leggja þyrfti félaginu til nýtt eigið fé að fjárhæð 15,5 ma.kr. til að uppfylla grunnskilyrði um vátryggingarekstur.

Að öðrum kosti yrði félagið gjaldþrota.

Í minnisblaði Fjármálaeftirlitsins frá 29. júní 2009 kom fram að vátryggingarekstur félagsins hefði verið með ágætum en fjárfestingarstarfsemi og tilteknar aðrar ráðstafanir fyrrum eigenda, stjórnar og lykilstarfsmanna hefðu komið félaginu í þrot. Bent var á að íslenska ríkinu bæri ekki lagaleg skylda til að bjarga félaginu frá gjaldþroti. Einnig var bent á að hér á landi væri ekki ábyrgðakerfi vegna gjaldþrots vátryggingafélaga.

Í nefndu minnisblaði kom hins vegar fram að gjaldþrot félagsins hefði alvarlegar afleiðingar. Tekið var fram að m.a. myndu viðskiptamenn félagsins líklega tapa hluta af kröfum sínum og traust til vátryggingastarfsemi hér á landi myndi minnka til muna. Áhrifin á endurtryggingasamninga annarra vátryggingafélaga yrðu neikvæð sem gæti leitt af sér hærri iðgjöld.

Fjármálaeftirlitið lýsti stuðningi við aðgerðir Glitnis hf., Íslandsbanka hf. og fjármálaráðuneytisins til að forða félaginu frá gjaldþroti. Ákveðið var að stofna sérstakt félag utan um vátryggingastarfsemina og var stofnsamningur undirritaður 20. júní 2009.
 
Heiti félagsins er SA tryggingar hf. (Sjóvá) og voru stofnendur Glitnir Banki hf (17,67%), Íslandsbanki hf. (9,30%) og SAT Eignarhaldsfélag (ríkið, 73,03%).  

Hinn 8. júlí 2009 tilkynnti fjármálaráðherra að ákveðið hefði verið í samráði við ríkisstjórnina að ríkið tæki þátt í endurskipulagningu vátryggingafélagsins Sjóvár. Sama dag var undirritaður samningur þar sem ríkissjóður seldi SAT eignarhaldsfélagi hf. eftirtaldar eignir:

  • Kröfu á hendur Askar Capital hf. sem metin var á um 6 ma.kr. Lánið var
    tryggt með 3. veðrétti í öllum almennum kröfum samkvæmt vörureikningum sem Avant hf. á eða fær í rekstri sínum. Avant er dótturfélag Askar Capital. Samhliða þessum lánssamningi hvílir einnig á 3. veðrétti í ofangreindri eign eigið skuldabréf útgefið af Avant að fjárhæð rúmlega 2,8 ma.kr. með eins mánaðar Reibor‐vöxtum að viðbættu 3,75% álagi. Með veði í verðtryggðum skuldabréfum útgefnum af Landsvirkjun að
    fjárhæð um 4,7 ma.kr.
  • Verðtryggt skuldabréf að nafnvirði 4,2 ma.kr. útgefið af Landsvirkjun 21. mars
    2005 með 3,5% föstum vöxtum og gjalddaga árið 2020. Skuldabréfið er skráð í
    Kauphöll Íslands og er með einfaldri ábyrgð ríkissjóðs.

Verðmæti skuldabréfanna sem ríkissjóður seldi vegna Sjóvár var samtals 11,6 ma.kr.

Samkvæmt samkomulaginu á SAT eignarhaldsfélag að greiða kaupverðið innan 18 mánaða eða við sölu Sjóvár. Krafan var óverðtryggð og vaxtalaus en tryggð með 73% eignahlut SAT eignarhaldsfélags í SA tryggingum. Þó er eignarhaldsfélaginu óheimilt að selja hlutina fyrir lægra verð en kaupverð án samþykkis fjármálaráðuneytisins. SAT eignarhaldsfélag keypti hinn 16. september 2009 hlut Glitnis í nýja félaginu og á því nú 90,7% hlut í SA tryggingum.

Fjármálaeftirlitið heimilaði yfirfærslu á vátryggingastofni Sjóvár Almennra trygginga til SA trygginga með bréfi dagsettu 22. september 2009.

Hinn 22. september 2010 hóf Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) formlega rannsókn á 11,6 ma.kr. eiginfjárframlagi ríkisins til endurreisnar Sjóvár. Í tilkynningu frá ESA er talað um formlega rannsókn á veitingu ríkisstyrks til félagsins. Fram kemur að það sé frummat ESA að með þessum viðskiptum hafi íslenska ríkið leitt björgunaraðgerðir í þágu ógjaldfærs tryggingafélags. Vafi leiki á því að einkaaðilar á markaði hefðu farið út í slíka fjárfestingu. Einnig er fundið að því að þetta hafi verið gert án þess að tilkynna það sérstaklega til ESA og að eignarhaldsfélagið hafi fengið 18 mánaða vaxtalausan greiðslufrest. ESA mun óska eftir frekari skýringum frá íslenskum stjórnvöldum og
öðrum aðilum sem eiga hagsmuna að gæta.

Þessi viðskipti voru ekki færð í bókhaldi ríkisins þegar þau fóru fram og telur Ríkisendurskoðun það ámælisvert. Fjársýslan gaf þá skýringu að þar sem viðskipti vegna Sjóvár hafi flust til Eignarhaldsfélags Seðlabanka Íslands í árslok 2009 hafi þau ekki verið bókuð hjá ríkissjóði.

Ríkisendurskoðun óskaði eftir því við fjármálaráðuneytið að það gerði grein fyrir þeirri lagaheimild sem byggt var á við ákvörðun um eiginfjárframlag ríkisins til SAT eignarhaldsfélags.

Ráðuneytið hefur ekki upplýst um þetta.

Ríkisendurskoðun telur því óljóst á hvaða lagaheimild ákvörðunin byggði. Eins og fram hefur komið bar íslenska ríkinu ekki lagaleg skylda til að bjarga félaginu.

(Tekið úr skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings árið 2009, 6.12.2010)


Einkavæðing raforku

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, var í Sprengisandi í dag.  Þar sagði hann að raforkuverð hefði framan af verið lágt en tekið að hækka um síðustu aldamót.  Ástæðan hefði verið, dadada (lesist: trommusláttur) vegna EINKAVÆÐINGAR í raforkugeiranum beggja vegna Atlantshafsins.  

Erlend stjórnvöld settu sér ýmis markmið með því að fá einkaaðilum orkufyrirtæki.  Markmiðin voru m.a. að auka skilvirkni, innleiða meiri samkeppni, auka markaðsaðhald fyrirtækjanna, draga úr hlutverki ríkisins í efnahagslífinu, stuðla að víðtækari hlutdeild í eignarhaldi, hækka tekjur ríkisins, og auðvelda aðgang að fjármagni.   

Árangurinn fyrir almenning = hærra verð og lélegri þjónusta.

Það hlýtur að vera einhver betri leið en ríkisvæða allt eða einkavæða til fjársterkra einstaklinga.

Einhver góð miðjuleið :)

(Frekara lesefni:

1) Hryllingssaga af raforkumarkaðnum.

2) Northeast Blackout of 2003.

3) Kaliforníu orkukrísan.

4) Afleiðing nýrra raforkulaga.)


Skattar á Rauða krossinn?

Frjáls félagasamtök hafa aldrei verið mikilvægari en einmitt núna. Þau sinna fræðslu almennings, efla menningar- og listalíf, inna af hendi margs konar samfélagsþjónustu og halda á lofti málstað einstakra þjóðfélagshópa. Dæmi um frjáls félagasamtök sem snerta líf okkar allra eru Landsbjörg, Kvenfélagasamband Íslands, Heimili og skóli og Rauði kross Íslands.

Á grundvelli þess mikilvæga samfélagslega hlutverks sem frjáls félagasamtök gegna hafa þau lengi notið ýmissa undanþága frá skattgreiðslum, þá sérstaklega frá greiðslu tekjuskatts og eignarskatts. Enda mætti gera ráð fyrir að opinberir aðilar þyrftu sjálfir að sinna verkefnum þeirra ef félagasamtökin gerðu það ekki.

Íslensk félagasamtök njóta þó ekki sömu skattaívilnana og algengt er í samanburðarlöndunum, s.s. undanþágu frá greiðslu fjármagnstekjuskatts, erfðafjárskatts og endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðföngum. Stærsti munurinn felst þó í því að einstaklingum hér á landi er ekki leyfilegt að draga gjafir til góðgerðarfélaga frá skattskyldum tekjum sínum líkt og almennt er heimilt í löndum Evrópu og N-Ameríku.

Á undanförnum áratugum hafa skattaívilnanir stjórnvalda fyrst og fremst beinst að fyrirtækjum sem eru á markaði í hagnaðarskyni. Sífellt hefur hallað á starfsemi sem rekin er á grundvelli ákveðinna hugsjóna, s.s. frjáls félagasamtök og samvinnufélög. Má þar nefna að afnám ákvæða um frádrátt frá skattskyldum tekjum einstaklinga vegna gjafa til góðgerðarfélaga árið 1979, ákvörðun um að félagasamtök skyldu greiða fjármagnstekjuskatt árið 1996 og álagning erfðafjárskatts á gjafir til líknarfélaga vorið 2004.

Það geta ekki verið rétt skilaboð til samfélagsins að hagkvæmara sé að græða sjálfur en að gefa náunganum. Frjáls félagasamtök hafa ekki farið varhluta af kreppunni. Framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum hafa dregist saman, auk þess sem hið opinbera hefur minna getað stutt við starfsemi þeirra með beinum styrkjum. Á sama tíma hefur álag og eftirspurn eftir þjónustu aukist.

Með breyttum skattareglum, sérstaklega hvað varðar góðgerðar- og líknarfélög, væri hægt að bæta starfsumhverfi frjálsra félagasamtaka umtalsvert. Starfsemin myndi eflast og þau yrðu betur í stakk búin að hlaupa undir baggann með ríki og sveitarfélögum við þessar erfiðu efnahagsaðstæður.

Ríkið á að styðja við frjáls félagasamtök, ekki hagnast á starfsemi þeirra.

(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. desember 2010)


Ótrúlegur Gylfi

Gylfi Arnbjörnsson mætti brattur í viðtal hjá R2 og tilkynnti að ASÍ væri boðið og búið að vinna með öllum og hefði lagt fram tillögur til lausnar efnahagsvandans sem þjóðin glímdi við.  Stjórnmálaöflin væru hins vegar að þvælast fyrir og litu ekki við neinum tillögum frá ASÍ.

Þetta er ótrúlegur málflutningur. 

Ég veit ekki betur en að ríkisstjórnin hafi tekið nánast allar tillögur ASÍ hvað varðar skuldavanda heimilanna og gert þær að sínum.  Dæmi um þetta er að Gylfi Arnbjörnsson stýrði á sínum tíma starfshóp um vanda lántakenda með verðtryggingu á vegum félagsmálaráðuneytisins. 

Jóhanna Sigurðardóttir var þá félagsmálaráðherra og flutti tölu um af hverju væri ekki hægt að leiðrétta verðtrygginguna afturvirkt og byggði það á rökstuðningi Gylfa. Þar sagði hún m.a.: "Að mati hópsins er ljóst að afnám verðtryggingar á lánsfé mundi draga úr skuldum lántakenda en hætt er við ýmsum hliðarverkunum sem kæmu heimilunum í landinu illa. Gagnvart lánveitendum eru alvarleg formerki á því að afnema verðtryggingu lána. Samkvæmt því sem fram kom í starfshópnum liggur fyrir að ef verðtrygging á fasteignalánum til heimila væri felld niður tímabundið, til dæmis frá júní 2008 til júní 2009, mundu tekjur lánveitenda verða 180 milljörðum kr. minni á tímabilinu en ella, ef verðbólguspá Seðlabanka Íslands er lögð til grundvallar."

Áhyggjur þeirra af minnkandi tekjum lánveitenda leiddu til að Gylfi og co lögðu til svokallaða greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, sem þýddi lægri greiðslubyrði en mun hærri heildargreiðslur fasteignaveðlána í stað leiðréttingar á verðtryggingunni eða afnám hennar!

Ríkisstjórnin lagði svo til aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins með sértækri skuldaaðlögun og breytingum á lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána, og ASÍ fagnaði.  Lántakendur fengu ekki úrræðin eða afþökkuðu pent.

Í vor lagði ríkisstjórnin til nokkur frumvörp í samræmi við tillögur ASÍ um sértæk skuldaúrræði.  Lög um umboðsmann skuldara, lög um greiðsluaðlögun einstaklinga og  lög um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota. Þúsundum einstaklinga þótti svo mikið um þessi úrræði að þeir fjölmenntu á Austurvöll við þingsetningu og stefnuræðu forsætisráðherra til að láta í ljós "ánægju" sína.

Gylfi Arnbjörnsson hefur aldrei tekið í mál almenna skuldaleiðréttingu, og eyddi töluverðum tíma í að útskýra fyrir okkur Framsóknarmönnum hversu arfavitlaus sú hugmynd væri á fundi sem við áttum með honum.  Hann hefur einnig barist hatrammlega gegn afnámi verðtryggingarinnar enda virðast hagsmunir lífeyrissjóðanna ganga framar öllu.

Sárast er þó að horfa til þess að Gylfi hafði gullið tækifæri til að taka á verðtryggingunni en gerði ekki. 

 

 


Samvinna um skuldavanda og atvinnu

Mótmælin á Austurvelli sýna mikla örvæntingu, reiði og hræðslu við framtíðina. Vandinn er gífurlegur. Við stöndum frammi fyrir gjaldþrota bankakerfi, gjaldþrota fyrirtækjum, gjaldþrota einstaklingum og nánast gjaldþrota ríkissjóði. Enginn, ég endurtek, enginn stjórnmálamaður leikur sér að því að leggja til 30-40 milljarða króna niðurskurð á velferðarkerfinu.

Enginn stjórnmálamaður vill sjá nokkra fjölskyldu missa heimili sitt á uppboði. Enginn stjórnmálamaður vill sjá íslenskt atvinnulíf í þeim lamasessi sem það er í dag.

Þetta er þó sá ömurlegi veruleiki sem við höfum staðið frammi fyrir síðan í október 2008.

Síðustu daga hafa fjölmargir tölvupóstar borist til þingmanna. Margir lýsa yfir vantrú sinni á að þingmenn geti yfir höfuð starfað saman. Stjórnvöld standa í einu horninu, stjórnarandstaðan í öðru, hagsmunasamtök atvinnurekenda og launþega í því þriðja og lífeyrissjóðirnir í því fjórða, allir með boxhanskana á lofti. Í miðjunni stendur svo almenningur og á honum dynja höggin úr öllum áttum.

Því hafa mjög blendnar tilfinningar bærst í mínu brjósti. Ein af spurningunum sem ég hef spurt mig er hvernig stjórnmálamenn Íslendingar vilja. Viljum við stjórnmálamenn sem segja það hreint út að engin kanína sé í hattinum og að engar töfralausnir séu til? Eða viljum við stjórnmálamenn sem segja okkur það sem við viljum heyra?

Það er sannfæring mín að það séu til lausnir en þær eru ekki einfaldar. Almenn skuldaleiðrétting er ekki einföld, en hún er framkvæmanleg. Réttlátur niðurskurður í velferðarkerfinu er ekki einfaldur en hann er framkvæmanlegur. Endurreisn atvinnulífsins er ekki einföld en hún er framkvæmanleg. Sanngjörn skipting byrðanna er ekki einföld en hún er framkvæmanleg.

Í ályktun þingmannanefndarinnar voru þingmenn hvattir til að sýna heiðarleika, hugrekki og festu í störfum sínum. Það viljum við Framsóknarmenn gera. Við viljum að tekið verði á skuldavanda heimila og fyrirtækja af festu. Dreifa verður byrðunum og allir verða að axla ábyrgð á vandanum af hugrekki. Ekki bara skuldarar, ekki bara lífeyrisþegar, ekki bara atvinnurekendur og ekki bara launþegar. Heldur við öll.

Skilaboð okkar Framsóknarmanna eru því skýr. Við viljum samvinnu um almennar aðgerðir í þágu heimilanna og endurreisn atvinnulífsins. Við erum reiðubúin til samvinnu við hvern þann sem vill takast á við það mikla verkefni með okkur.

(Birtist fyrst í Fréttablaðinu, 7. október 2010)


Hjálpum fyrirtækjum

Bankarnir segja skv. frétt á RÚV að ýmsar hindranir séu í veginum fyrir endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja.  Mikið hefur verið rætt og skrifað um skuldir heimilanna en minna um skuldir fyrirtækja, þá sérstaklega lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Mér skilst að það séu um 6000 fyrirtækií landinu með minna en 750 milljónir kr. í skuldir.  Mjög lítið hefur verið gert fyrir þessi fyrirtæki þar sem bankarnir hafa fyrst og fremst verið að einbeita sér að stærri fyrirtækjum. Þessi fyrirtæki eru undirstaða atvinnulífsins og ef ekki verður tekið á vanda þeirra mun ríkja hér stöðnun árum saman. 

Því neita ég alveg að samþykkja svona tal frá bönkunum.

Bankarnir sannfærðu sjálfa sig og stjórnvöld um að þeir væru best til þess fallnir að endurskipuleggja heimili og fyrirtæki og ríkið ætti sem minnst að koma að þessu.  Nú hafa þeir fengið falleinkunn skv. skýrslu eftirlitsnefndar með aðgerðum í þágu heimila, einstaklinga og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

Vinna er og verður forsenda fyrir vexti og velferð. Til lítils er að grípa til aðgerða vegna skulda einstaklinga og heimila ef engin er vinnan.

Því verður að grípa til aðgerða strax og stjórnvöld eiga að grípa inn.  Ég hef fjórum sinnum lagt fram frumvarp um stofnun ráðgjafastofu fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.  Þeirri tillögu var aftur dreift í dag á Alþingi með stuðningi þingmanna úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum.

Ég vona því svo sannarlega að Alþingi taki nú við sér og samþykki tillöguna.


Um atkvæðagreiðsluna

Virðulegi forseti,

Við munum núna greiða atkvæði um hvort ákæra eigi Geir H. Haarde, Árna M. Mathiesen, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Björgvin G. Sigurðsson fyrir embættisbrot í störfum þeirra sem ráðherrar.

Ég er einn af flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar. 

Að baki þeirri ákvörðun liggur sú sannfæring mín að málsmeðferðin uppfylli mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar.

Að baki þeirri ákvörðun sú sannfæring mín að viðkomandi ráðherrar hafi brotið tvö ákvæði ráðherraábyrgðarlaganna, sem varða brot á stjórnarskránni og góðri ráðsmennsku.

Brotin ógnuðu heill ríkisins, ógnuðu heill almennings og ógnuðu þingræðinu og lýðræðinu í landinu.

Valdi verður að fylgja ábyrgð.

Því mun ég segja já við því að ákæra fyrrnefnda ráðherra fyrir Landsdómi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband