20.5.2007 | 08:04
Með vonina eina að vopni
Síðan bætir hann við að stjórnvöld hljóti að fara yfir þetta á næstu dögum og vikum hvernig sé hægt að bregðast við og vonar að sem mest af kvótanum verði keyptur af Vestfirðingum.
Hljómar kunnuglega. Skyldi næsta skýrsla vera í bígerð?
Og hvernig eiga Vestfirðingar að fjármagna kaupin á aflaheimildunum? Greinilegt er að Einar K. hefur ekki nýlega reynt að fara í fjármálastofnun á höfuðborgarsvæðinu til að óska eftir láni til að kaupa aflaheimildir. Auðveldara er fyrir eignarlaus ungmenni að fá lán til íbúða- og bílakaupa á höfuðborgarsvæðinu en fyrir útgerðarmenn að fá lán til að kaupa aflaheimildir á landsbyggðinni.
Í Eyjum hefur bæjarstjórn Sjálfstæðismanna margoft lýst yfir ánægju sinni með sjávarútvegskerfið á Íslandi. Nýlega spurðist út að Guðmundur í Brimi hefði gert hluthöfum Vinnslustöðvarinnar tilboð um kaup á hlut þeirra. Titringur hefur farið um bæjarfélagið. Enda væri staðan í bænum ekki góð ef Guðmundur myndi rölta í burtu með aflaheimildir eins stærsta fyrirtækis bæjarins með veltu upp á fleiri milljarða króna.
Munu þessir sömu Sjálfstæðismenn dásama framsalið jafnmikið ef meirihluta eigendur Vinnslustöðvarinnar ná ekki að fjármagna afskráningu fyrirtækisins af markaði?
Eða munu þeir, líkt og sjávarútvegsráðherra, hvetja Eyjamenn til að vona hið besta?
![]() |
Staða starfsfólks Kambs mjög alvarleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.5.2007 | 14:59
Scotty og aðrir Trekkarar
Rakst á frétt um að aska Scotty (annars þekktur sem James Doohan) og 200 annarra hefði fundist eftir mikla leit í New Mexico. Ástæðan fyrir að askan var á þessu flakki var að henni hafði verið skotið út í geiminn, ekki náð að komast nógu langt út fyrir lofthjúpinn og brotlent á jörðunni.
Ég og maður minn eru miklir aðdáendur Star Trek. Uppáhaldsserían mín er Voyager og kafteinn Janeway á meðan hann getur setið tímunum saman yfir Jean-Luc Picard og Next Generation. Við héldum lengi vel að við værum soldið ein á báti varðandi þetta áhugamál okkar, en það má finna Trekkara á ótrúlegustum stöðum.
T.d. var ég svo heppin að hitta annan aðdáenda á meðgöngudeildinni í henni Soffíu minni og við lágum tímunum saman og horfðum á Voyager og Magna síðasta sumar á meðan við biðum eftir komu erfingjanna.
Af hverju líkar mér svona vel við Janeway? Væntanlega vegna þess að hún er vel gefin, skemmtileg, metnaðarfull, mjög ákveðin og stundum ægilega þrjósk.
Kannski soldið eins og ég.
![]() |
Scotty fundinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.5.2007 | 17:01
Baugsstjórnin
Turnarnir tveir eru að sameinast undir stjórn Baugsins. Jón Ásgeir er í hlutverki Sauron og væntanlega er Björn Bjarnason Saruman, sem neyðist til að sætta sig við vald Saurons til að halda áhrifum.
Maður er bara næstu orðinn ljóðræn...
Sjálfstæðismenn eru þegar búnir að fallast á fyrstu kröfur Baugs í stjórnarmyndunarviðræðunum um að staða ríkissaksóknara verði auglýst aftur.
Ég spái erfiðara verði fyrir Sjálfstæðismenn að fallast á kröfu nr. 2 um að Björn Bjarnason víki úr ráðherrastól, en að málamiðlunartillagan verður væntanlega að hann fari í eitthvað annað ráðuneyti.
Það verður einstaklega kaldhæðnislegt að sjá þann stjórnmálamann sem hefur gengið næst Davíð Oddssyni í hatri sínu á Baugi, taka sæti í ríkisstjórn sem mynduð er að undirlagi Hreins Loftssonar, Jóhannesar Jónssonar og Baugs.
Og verður réttnefnd Baugsstjórnin.
![]() |
Jón Sigurðsson: Staðfestir trúnaðarbrest milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
17.5.2007 | 17:18
Búið!
Formaður minn ásamt Geir H. Haarde voru að tilkynna um að ekki sé lengur ætlunin að starfa saman.
Loksins, loksins erum við laus úr viðjum Sjálfstæðisflokksins!
![]() |
Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
17.5.2007 | 10:23
Strengjabrúður auðmanns II
Í gær skrifaði ég stuttan pistil um yfirlýsingu Björns Bjarnasonar um útstrikanir sem hann hlaut í kosningunum. Í athugasemdum sem ég fékk við pistlinum var m.a. bent á áhrifamátt auglýsinga.
Við það vaknaði eftirfarandi spurning: Geta auglýsingar, þ.e.a.s. allar auglýsingar, haft áhrif eða stjórnað gerðum fólks?
Ég held að svarið við þessari spurningu sé einfaldlega nei. Dag hvern verðum við fyrir óendanlegu áreiti af hendi auglýsinga. Í flestum tilvikum er þetta eins og einhver hávaði sem okkur gengur ágætlega að blokkera. Í sumum tilvikum stöldrum við við, hugsum ef til vill áhugavert, og í öðrum tilvikum gerum við eitthvað s.s. að kaupa viðkomandi vöru eða þjónustu.
Mér er einstaklega minnisstætt þegar Thule bjórauglýsingarnar fengu verðlaun hjá Ímark (að mér minnir) og framleiðandinn taldi sérstaka ástæðu til að minnast á hversu mikið salan hefði aukist við þær. Greinilega eitthvað sem þeir voru ekki vanir, að geta séð svona mikil bein tengsl á milli auglýsingaherferðar og söluaukningar.
Við Framsóknarmenn getum bent á kosingabaráttuna núna og þá síðustu. Árið 2003 gekk mjög vel að kynna flokkinn í gegnum auglýsingar, og árangurinn var tiltölulega góður. Við héldum okkar þingmannafjölda. Í ár eyddum við einnig umtalsverðum fjármunum í auglýsingar, flennistór skilti, dreifibréf og ég veit ekki hvað. Uppskeran var ekkert til að hrópa húrra fyrir, - fimm þingmenn töpuðust.
Af hverju?
Ég tel að ástæðan er að árið 2003 var samhljómur með verkum okkar, fulltrúum okkar á listum og herferðinni sjálfri. Slagorðið var geysilega gott, vinna-vöxtur-velferð sem að mínu mati er kjarni þess sem Framsókn stendur fyrir. Fólkið okkar var reynslumikið og traust, skipting á milli karla og kvenna var einstök og auglýsingarnar náðu að endurspegla þetta.
Í ár var slagorðið Árangur áfram - ekkert stopp. Ég átti sjálf í erfiðleikum með þetta slagorð, enda hefur mér fundist ástæða til að staldra við ýmislegt s.s. eins og áframhaldandi uppbyggingu stóriðju á suðvesturhorninu. Árangur já, en stundum má staldra aðeins við. Og hvar var velferðin? Reynslan var ekki alveg jafnmikil í brúnni og auglýsingarnar endurspegluðu það, þar sem miklu skipti að kynna formanninn okkar fyrir þjóðinni.
Ég get því engan veginn tekið undir að Íslendingar séu viljalaust verkfæri eins eða neins, né strengjabrúður hvorki auðmanna eða stjórnmálamanna. Heldur einmitt fullkomlega færir um að taka sínar eigin ákvarðanir á eigin forsendum, vega og meta og í sumum tilvikum hreinlega hafna.
![]() |
Hreinn: Dómur kjósenda um verk Björns liggur fyrir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.5.2007 | 19:39
Strengjabrúður auðmanna?
Eru kjósendur viljalaus verkfæri eða strengjabrúður auðmanna? Það virðist vera hægt að lesa út úr yfirlýsingu Björns Bjarnasonar, alþingismanns og dómsmálaráðherra, um útstrikanir og auglýsingar Jóhannes í Bónus fyrir kosningar. Að hans mati virðist kjósendur Sjálfstæðisflokksins ekki vera færir um taka sjálfstæðar ákvarðanir, heldur stjórnast af vilja einhvers annars.
Nú get ég alveg viðurkennt að mér hefur stundum fundist nóg um hvað Sjálfstæðismenn geta verið flokkshollir og samhljóða.
En að trúa því að fólk hafi látið auglýsingar stjórna uppröðun eða útstrikunum á lista, hvort sem viðkomandi eigi mikla peninga eður ei, sýnir alveg ótrúlegan skort á virðingu fyrir vilja kjósenda. Voru þá einhverjir auðmenn á bak við kosningu Guðlaugs Þórs í prófkjörinu? Eða getur ekki vel verið að fólki hafi blöskrað vinnubrögð Björns sem birtust m.a. í auglýsingunni í "felulitum" eða "frestun" á ráðningu ríkissaksóknara rétt fyrir kosningar.
Allavega hefur enginn komið og haldið því fram að kjósendur Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hafi verið strengjabrúður einhvers auðmanns þegar þeir strikuðu út Árna Johnsen.
Gott að einhverjir Sjálfstæðismenn hafa enn trú á sjálfstæðum vilja sinna kjósenda...
15.5.2007 | 13:50
Einkavæðing heilbrigðiskerfisins
Sjálfstæðismenn töluðu töluvert fyrir "nýjum rekstrarformum" í heilbrigðisþjónustunni. Vildi þeir nú ekki fullyrða að um væri að ræða einkavæðingu, heldur myndi ríkið kaupa þjónustu af einkafyrirtækjum. Telja þeir þannig sé hægt að sameina kosti einkareksturs og almenningsþjónustu.
Hljómar ægilega vel, - en svo les maður frétt um að bandaríska heilbrigðiskerfið sem byggir mjög á þessari hugmyndafræði sé ekki bara það dýrasta í heimi heldur kemur líka verst út í samanburði við heilbrigðiskerfi í öðrum ríkum löndum.
Skilvirknin sé lítil, og þótt hið opinbera greiði umtalsverða fjármuni til heilbrigðiskerfisins s.s. í gegnum Medicare er ekkert almennt almannatryggingakerfi. Kannanir hafa ítrekað sýnt að á Norðurlöndunum, Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi og þeim löndum sem byggja á almannatryggingakerfi eru með bestu heilbrigðisþjónustu. Hér á landi sést þetta t.d. í miklu heilbrigði ungabarna og háum lífslíkum bæði karla og kvenna hérlendis.
Þegar ég bjó í Bandaríkjunum var það mér mjög minnisstætt hvernig fjölskyldufaðirinn í skiptinemafjölskyldunni minni þeyttist um allt hús að leita að tryggingarskírteininu sínu þegar yngsti sonur hans fékk gat á hausinn með tilheyrandi blæðingum. Ekki var hægt að fara á stað á sjúkrahúsið fyrr en skírteinið var fundið, - og þá bara á það sjúkrahús sem tryggingin dekkaði.
Einnig sá maður oft að börn þurftu að slasa sig umtalsvert meira þar en hér áður en leitað var til læknis.
Í þessu tel ég að land hinna frjálsu sé langt frá því að vera einhver fyrirmynd fyrir íslenskt samfélag.
![]() |
Bandaríska heilbrigðiskerfið það versta meðal ríkra þjóða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.5.2007 | 09:29
Allt í gríni hjá VG
Steingrímur J. virðist hafa meiri áhyggjur af ímynd sinni, en þátttöku flokksins í næstu ríkisstjórn. Enn á ný virðist hann ætla að sanna að VG eru ekki stjórntækur flokkur. Nýjasta útspilið eru ægileg sárindi hans yfir auglýsingu sem Ungir Framsóknarmenn birtu síðustu vikuna fyrir kosningar.
Pétur Gunnarsson bendir á í góðum pistli á vefnum hjá sér að það væri kannski nærtækt fyrir Steingrím og félaga hans að líta sér nær. Hver hefur gleymt bókinni Aldrei kaus ég Framsókn eftir Skerjafjarðarskáldið Kristján Hreinsson sem var uppfull af níði um Framsókn. Bók sem var dreift í gríð og erg af stuðningsmönnum VG, auk þess sem mér minnir að framleidd hafi verið barmmerki með þessari setningu. Og við Framsóknarmenn eru ekki búnir að gleyma barmmerkinu Zeró Framsókn.
Allt bara ágætis grín að mati Steingríms.
Og hver man ekki eftir borðanum þar sem lagt var til að drekkja Valgerði, sem var bara hluti af því einelti sem Steingrímur J. lagði Valgerði Sverrisdóttur í á þinginu.
Allt bara ágætis grín að mati Steingríms.
Nei, - er ekki kominn tími til að Steingrímur J. fari að haga sér eins og fullorðinn maður í stað þess að liggja í gólfinu, baðandi út öllum öngum, argandi og gargandi eins og illa uppalið hrekkjusvín.
13.5.2007 | 17:30
"Trukkalessa" vann Eurovision...
segir Páll Óskar Hjálmtýsson í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Einhvern veginn held ég að enginn annar hefði komist upp með að láta þetta orð út úr sér í sjónvarpi.
13.5.2007 | 11:37
Ingibjörg Sólrún forsætisráðherra?
Fagur dagur er runninn upp, sólin skín og í fyrsta skipti í töluverðan tíma þarf ég ekki að gera neitt. Heill dagur, bara með fjölskyldunni.
Niðurstöður kosninganna eru vonbrigði, formaðurinn og Jónína úti. Staðan hér í Suðurkjördæmi hefði getað verið betri en við náðum okkar mönnum inn á þing. Bjarni á eftir að standa sig vel næstu fjögur árin. Valgerður stóð sig einnig vel, tók tvo með sér og hefur virkilega staðið sig vel á undanförnu. Herdís komst því miður ekki inn á NV. Flottu fréttirnar eru að sjálfsögðu að Siv komst inn sem kjördæmakjörin og um tíma leit út fyrir að Samúel Örn færi inn með henni.
Flestir hægri menn á blogginu eru að láta sig dreyma um að Sjálfstæðismenn nái að lokka Samfylkinguna yfir til sín. En hvað myndi það þýða? Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd síðustu 16 ár og hafa skilið bæði Alþýðuflokkinn og minn flokk eftir í sárum. Er það eitthvað sem hugnast Ingibjörgu Sólrúnu? Sérstaklega þar sem að Samfylkingin tapar tveimur mönnum. Og ég get bara ekki trúað því að VG vilji fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, sem talaði í gegnum allar kosningarnar fyrir áframhaldandi uppbyggingu stóriðju.
Ég bendi á athyglisverðan pistil Egils Helgasonar á visir.is þar sem hann veltir fyrir sér ýmsum möguleikum. Samkvæmt hans greiningu og niðurstöðu kosninganna er raunverulega bara einn möguleiki til staðar fyrir Ingibjörgu Sólrúnu til að verða forsætisráðherra. Það er VG+S+Framsókn, - eða endurreisn R-listans undir hennar stjórn.
En líkt og Jón sagði þá er það ekki okkar að ákveða hverjir verða næst í stjórn.
![]() |
Miklar sviptingar í þingsætum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |