8.12.2007 | 22:18
Kurt Cobain vs. Amy Winehouse
Eftir að hafa teygt mig eftir Back to black og Blackout stóð ég augnablik og tvísteig. Í gegnum hugann flugu hugsanir eins og hvers konar fyrirmyndir væru eiginlega Amy og Britney. Væri ekki miklu sniðugra að gefa disk með Páli Óskari, þar sem hann virðist lifa svo miklu heilbrigðara lífi en þessar tvær?
Eða var ég kannski að meta tónlist þeirra eftir einhverri annarri forsendu en ég myndi meta tónlist karlmanna?
Ekki lifðu Mick Jagger eða Kurt Cobain sérstaklega heilbrigðu líferni og enn eru þeir feikna vinsælir listamenn. Virtir um allan heim, og skilst mér að nú séu að koma út tvær myndir um Kurt Cobain og líf hans.
Því fannst mér athyglisvert að sjá spjallþráð á washingtonpost.com um nákvæmlega þetta. Þar var spurt af hverju fá karlkyns listamenn ekki sömu neikvæðu umfjöllunina og t.d. Amy Winehouse? Í spjallþræðinum er minnst á Kiefer Sutherland og Pete Doherty. Báðir þessir menn hafa verið nappaðir fyrir áfengis- og fíkniefnamisnotkun, án þess að það hafi haft nein sérstök áhrif á fjölmiðlaumfjöllun eða starfsferil þeirra. Þeir virðast jafnvel fá aukna athygli og allt að því aðdáun fyrir að vera alvörutöffarar.
Eftir að hafa lesið þennan spjallþráð, var ég eiginlega frekar stolt af sjálfri mér.
Ég nefnilega hnussaði yfir mínum eigin hugsunum, skellti Amy og Britney í körfuna og hugsaði um leið að ég væri allavega að borga brotabrot af lögfræðikostnaði þeirra.
5.12.2007 | 15:01
Föst á Heimaey
Það er yndislegt að búa í Vestmannaeyjum, mannlífið gott og þjónustan yfirleitt ágæt. Yfirleitt pirrar fátt mig varðandi búsetuna, nema samgöngurnar.
Ég held að hver einasti Eyjamaður sé sérfræðingur í samgöngumálum. Í Vestmannaeyjum ræða menn ekki veðrið (logn í miðbænum, rok á Stórhöfða) þegar fólk hittist á alfaraleið, heldur samgöngur.
Því skil ég eiginlega ekki hvað er í gangi núna. Í gær og í dag, og væntanlega á morgunn líka er engin leið fyrir hinn almenna Eyjamanna að fara upp á meginlandið. Þjóðvegurinn okkar, Herjólfur, er í slipp og á meðan erum við þjóðvegslaus.
Og enginn segir neitt!!
Ekki bæjarstjórnin eða hinir svokölluðu Eyjaþingmenn Árni Johnsen og Lúðvík Bergvinsson. Þaðan af síður heyrist eitthvað í varaþingmanni Samfylkingarinnar og "Eyjamanninum" Róberti Marshall sem gegnir nú starfi aðstoðarmanns samgönguráðherra.
Væntanlega eru þeir allir alltof uppteknir af mikilvægari málum eins og ræðutíma þingmanna.
Enda nokkuð pottþétt að þeir eru ekki fastir á Heimaey...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.12.2007 | 14:34
Hvernig byggja bændur?
"Þetta er eins og bændur hefðu gert í gamla daga þegar þeir voru að lappa upp á fjósið hjá sér."
Seinna í greininni kemur fram hvernig stjórnarmaðurinn taldi að bændur hefðu byggt hérna áður fyrr, -á eins ódýran hátt og mögulegt hafi verið.
Ég verð að segja að mér finnst þetta einstaklega einkennileg samlíking hjá manninum. Hvernig getur hann fullyrt svona um vinnubrögð heillar stéttar? Eða jafnvel um alla Íslendinga, þar sem í gamla daga voru nánast allir Íslendingar bændur eða búsettir á bændabýlum.
Því má jafnvel ætla að eitthvað af þessum gömlu húsum sem Torfusamtökin hafa verið að reyna viðhalda, hafi verið byggð af bændum...
![]() |
Eins og bændur hefðu gert í gamla daga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.11.2007 | 10:04
Þar vaxa peningar á trjánum...
Enn á ný hefur her embættismanna Menntamálaráðuneytisins undir stjórn menntamálaráðherra lagt fram ný frumvörp um leik-, grunn- og framhaldsskóla. Nýjasta nýtt er að lengja á nám kennara í meistaranám eða úr 3-4 árum í 5 að jafnaði. Þetta sér menntamálaráðherra fyrir sér að muni að sjálfsögðu hækka laun stéttanna.
Háleitt og fallegt markmið.
Enn á ný er vandamálið sú staðreynd að það er ekki ríkið sem greiðir laun kennara í leikskólum og grunnskólum, heldur sveitarfélögin. Öllum ætti að vera ljóst að sveitarfélögin eru mörg ansi illa stödd fjárhagslega. En hvergi kom fram í máli ráðherrans að hún hafi eitthvað talað við félaga sinn í fjármálaráðuneytið um hvernig eigi að greiða fyrir þessar launahækkanir.
Væntanlega eiga þeir peningar bara að vaxa á trjánum, eins og er með alltof margar fallegar og háleitar tillögur ráðamanna sem snerta málefni sveitarfélaganna.
![]() |
Samræmd próf aflögð og kennaranám lengt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.11.2007 | 14:08
Vildarvinir á Suðurnesjum
Þegar Þorgerður K. Gunnarsdóttir varð varaformaður Sjálfstæðisflokksins, var orðið lítið pláss fyrir Árna Mathiesen í Kraganum. Hann varð því að fara eitthvert annað. Í Suðurkjördæmi var fyrsta sætið laust eftir fráfall Árna R. Árnasonar á síðasta kjörtímabili, en stóra spurning var hvað ætlaði Árni Sigfússon að gera? Hann var ótvíræður leiðtogi Sjálfstæðismanna á Suðurnesjunum og hafði unnið hreinan meirihluta í annað sinn í sveitarstjórnarkosningunum í Reykjanesbæ.
Þegar Árni Mathiesen tilkynnti um framboð sitt í Suðurkjördæmi þann 7. september 2006, stóð Árni Sigfússon hins vegar bakvið hann, afslappaður með kaffibolla. Skilaboðin voru skýr, - menn höfðu náð samkomulagi. En um hvað?
Sala Hitaveitu Suðurnesja
Eftir að samkomulag náðist milli Árnanna í Suðurkjördæmi ákvað fjármálaráðherrann að sölu ríkisins á hlut í Hitaveitu Suðurnesja yrði háttað þannig að aðrar opinberar orkuveitur mættu ekki kaupa. Þar með voru t.d. Landsvirkjun, OR og Rarik útlokuð frá kaupunum.
Á sama tíma lá fyrir að fjárhagsleg staða sveitarfélaganna á starfssvæði HS væri slæm, og þá sérstaklega Reykjanesbæjar. Í kjölfar sölu ríkisins á hlut sínum til Geysis Green og Glitnis keyptu fyrirtækin upp hluti nokkurra sveitarfélaga í HS, meðal annars hluta af eignarhlut Reykjanesbæjar. Það var dýrmæt innspýting í reikninga bæjarins og plástur á stanslausan hallarekstur hans.
Samstarfið hafði virkað vel.
Sala á Keflavíkurflugvelli
Árni Mathiesen náði naumlega fyrsta sætinu í prófkjörinu og eftir kosningar settist hann aftur í fjármálaráðuneytið. Böðvar Jónsson, sveitarstjórnarmaður í Reykjanesbæ og hægri hönd Árna Sigfússonar, varð aðstoðarmaður ráðherrans og nú þurfti að selja nokkra þúsund fermetra af húsnæði á Keflavíkurflugvelli.
Og hvert er leitað nema til vina og ættingja sem reynst höfðu vel? Skítt með einhverjar EES kvaðir um útboð og umsjón Ríkiskaupa.
Er nema von að maður spyrji; á fjármálaráðherra eitthvað fleira uppi í erminni fyrir nafna sinn í Reykjanesbæ?
Birtist í Fréttablaðinu 23. nóvember 2007
![]() |
Bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ leitar til umboðsmanns Alþingis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.11.2007 | 08:18
Bankalánin bitnuðu ekki á almenningi..
Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings, ætlar sér greinilega að halda áfram að styrkja "gott" samband bankans við almenning í landinu. Það gerir hann nú síðast með því að lýsa yfir að bankarnir beri enga ábyrgð á þenslunni í landinu, og segist vera ósammála því að innkoma bankanna inn á fasteignalánamarkaðinn hafi bitnað á almenningi.
Því vil ég bara rifja upp nokkur orð úr greiningarskýrslu Landsbankans frá 14. september 2004. Þar segir: "Óvænt innkoma bankanna á fasteignalánamarkað hefur óhjákvæmilega töluverð áhrif á efnahagsframvinduna á næstu misserum. Lægri vextir og aukið framboð á lánsfé mun kynda undir eftirspurn; bæði einkaneyslu og fjárfestingum. Líklegt er að eftirspurnin muni að stórum hluta beinast að innflutningi og því auka enn á þann halla sem myndast hefur í utanríkisviðskiptum. Megináhrifin koma þó fyrst og fremst fram á húsnæðismarkaði, með hækkun fasteignaverðs og síðar með auknu framboði fasteigna."
Í greiningunni er bent á að engar hámarksfjárhæðir eru á lánum bankanna (líkt og hjá Íbúðalánasjóði), bankarnir hafi þegar boðið (á þessum tíma) 80% veðhlutfall í upphafi kjörtímabilsins, en ríkið ætlaði að bjóða 90% í lok kjörtímabilsins og bankarnir buðu fasteignalán án fasteignaviðskipta.
En að sjálfsögðu munu allir skynsamir menn halda áfram að trúa á góðmennsku Ingólfs og Kaupþings, og hjúfra sig að flísteppunum sínum í boði Kaupþings...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.11.2007 | 17:33
Ég og genin mín
Ástæða þessa morgunglens hjá mínum heittelskaða var frétt þess efnis að DeCode hefði formlega hafið að selja einstaklingum greiningu á genunum þeirra. Fyrir aðeins 60.000 kr. ($985) býður DeCode "...annars vegar vinnslu á erfðaefni viðskiptavina og hins vegar aðgang að vefsíðunni [www.decodeme.com] þar sem erfðaupplýsingarnar eru settar í samhengi við þá þekkingu sem er til staðar í heiminum í dag.", líkt og Morgunblaðið orðaði það í morgunn.
Markaðinum líkaði greinilega framtakið vel, og hluturinn í DeCode tók töluverðan kipp upp á við. DeCode er ekki eina fyrirtækið sem hefur hafið að bjóða þessa þjónustu. Fyrirtækið 23andMe kynnti sína þjónustu í síðasta mánuði í San Diego og mun þeirra þjónusta kosta svipað og DeCodes. Annað fyrirtæki, sem heitir Navigenics ætlar að bjóða upp á ráðgjöf og greining, og mun það kosta um $2.500.
En hvað ætti maður að fá út úr þessu? Blaðamaður á nytimes.com fékk tækifæri til að vera ein sú fyrsta til að prófa þjónustu 23andMe. Niðurstöður hennar útskýrðu t.d. af hverju hún neitaði að drekka mjólk sem barn (vantar stökkbreytingu sem auðveldar meltingu mjólkurensíma), af hverju henni líkar ekki við rósakál (bragðast biturt vegna smá breytileika á litningi 7), líkur hennar á að fá brjóstakrabbamein og Alzheimer (ekki hærri en meðaltalið), sem og að hún væri 23% ólíklegri en meðaltalið til að fá sykursýki 2 og 23% líklegri en meðaltalið til að fá hjartaslag.
Öll fyrirtækin ætla síðan að bæta jafnt og þétt við upplýsingarnar á vefsíðunum, eftir því sem þekkingu fleytir fram.
En hverju mun þetta breyta? Munu konur sem eru með brjóstakrabbameinsgenin fara í auknu mæli að fjarlægja á sér brjóstin, og þeir sem eru með sykursýkisgenin hætta að borða sykur? Munu tryggingarfélög fara að neita fólki sem eru með auknar líkur á hjartaslögum um líftryggingar? Má þar minna á að þeir eru þegar að neita fólki með forsögu um þunglyndi, áfengissýki eða foreldra sem hafa fengið heilablóðfall. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað þeir myndu segja við einhvern sem hefði hjartaslagsgenin?
Stórar spurningar og fátt um svör.
Hins vegar segir þetta okkur að tæknin er komin og löggjafinn verður að fylgja henni eftir til að tryggja að ekki sé hægt að mismuna fólki á grundvelli erfðamengis þeirra.
Og þar sem engin lækning er komin á fótaóeirðinni (sem pirrar mig ekki neitt, en manninn óskaplega) held ég að óskalistinn í ár muni innihalda Arnald og náttfötin svona venju samkvæmt...
15.11.2007 | 15:14
Salan vanreifuð og vanhugsuð!
Eftirfarandi var ályktað á nýafstöðu kjördæmisþingi Framsóknarmanna á Hvolsvelli:
"Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi telur að hægja beri á einkavæðingu og varar mjög við hlutafjárvæðingu orkuauðlinda þjóðarinnar.
Þingið telur að ákvörðunin um að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja í gegnum einkavæðingarnefnd hafi verið vanreifuð og vanhugsuð og þar af leiðandi mistök. Sambandið leggur áherslu á að stjórnvöld og sveitarfélög grípi til ráðstafana sem hamla því að veitufyrirtæki og háhitasvæði sjálf komist á alþjóðlegan hlutabréfamarkað. Sambandið leggur einnig áherslu á að ekki verði ráðist í einkavæðingu Landsvirkjunar, Íbúðalánasjóð né velferðar- og heilbrigðisþjónustu landsmanna."
Bravó Hafnarfjörður, Grindavík og Vogar!
![]() |
Nýtt félag um orkuauðlindir í undirbúningi á Suðurnesjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.11.2007 | 10:06
Ekki lengur óskabörn?
Síðustu ár hefur varla liðið sá fréttatími að ekki sé talað um kaup bankanna á einhverju fyrirtæki erlendis eða hversu mikið þeir eru að græða. Við urðum t.d. stórmóðguð fyrir hönd bankanna þegar einhverjir menn í Danske Bank dirfðust að gera athugasemdir við viðskiptahætti þeirra, og öll erum við búin að gleyma flísteppunum sem nokkrir viðskiptavinir Kaupþings skiluðu vegna neikvæðrar ávöxtunar lífeyrissjóða bankans.
Nú virðist tíðin vera önnur.
Í gærkvöldi var RÚV með frétt af vaxtaauka SPRON. Þar var bent á að hversu "mikið" viðskiptavinir bankans myndu græða ef þeir væru að spara hjá SPRON. Var nefnt m.a. sem dæmi að hámarksávöxtun af 100.000 kr. gæfi tæpar 300 krónur í vasa viðskiptavinarins. Til samanburðar var nefnt að kostnaðurinn við færslu af debetkortum væri 13 krónur og ef maður vildi tala við einhver til að millifæra pening, þá kostaði það 100 krónur.
Ég held að ég muni bara ekki eftir svona frétt áður um einhver af þessum frábæru tilboðum bankanna. Erum við ekki lengur sátt við að borga hæstu vexti í heimi og að bankarnir okkar græði svona ofsalega mikið m.a. á vaxtamuninum og öllum þjónustugjöldunum?? Eru þeir ekki lengur sérleg óskabörn þjóðarinnar?
Ef við höldum áfram á þessari braut þá hlýtur einhver framsækinn fréttamaður að fylgja eftir fréttinni af sölu Straums Burðarrás í sjálfum sér á lægsta mögulega gengi, og athuga hver það var sem raunverulega átti geymslusjóðinn í Landsbankanum í Lúxemburg.
Þið munið, þessu sem forstjóri bankans vildi ekki svara neinu um...
![]() |
300 króna vaxtaauki af 100 þúsund krónum hjá SPRON |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.11.2007 | 14:04
Jólabakstur og fjölgun...
Ég hef legið yfir jólauppskriftum frá þingmönnum okkar og öðrum forystumönnum flokksins síðustu daga, enda er verið að leggja lokahönd á jólauppskriftabók Framsóknarmaddömunnar. Maður er bara kominn í þokkalegt jólaskap enda ekki annað hægt þegar verið er að renna yfir jólaísinn og algjöra nammi forrétti og allar smákökurnar sem ég hreinlega verð að baka í ár.
Helst í fréttum í gær var fjölgun í Framsóknarflokknum. Sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum eru alfarið búnir að segja skilið við allt sem tengist einkaframtaki og kapítalisma og búnir að taka upp góða samvinnuhugsun a la Framsókn. Þeir ætla í samstarfi við Vinnslustöðina að taka þátt í forvali um rekstur Bakkaferjunnar.
Enda alveg ljóst að það er ekki hægt að treysta hverjum sem er fyrir rekstri almenningsþjónustu af þessu tagi...