21.1.2009 | 17:22
Viljum kosningar!!
Þingflokkur framsóknarmanna veiti í dag formanni okkar fullt umboð til að bjóða forsvarsmönnum Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, að mynda minnihlutastjórn flokkanna tvegga, sem varin yrði vantrausti af hálfu Framsóknarflokksins á meðan alþingiskosningar verða undirbúnar
Það yrði gert með þeim formerkjum að boðað yrði til kosninga eigi síðar en 25. apríl næstkomandi og strax yrði farið í aðgerðir til að styðja við heimili og fyrirtæki í landinu. Við viljum einnig marka stefnu í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar og stetja á stjórnlagaþing til að skrifa nýja stjórnarskrá fyrir íslenska lýðveldið.
Ríkisstjórnin er að þrotum komin, algjörlega rúin trausti og trúnaði við þjóðina, og skortir mátt til að grípa til nauðsynlegra aðgerða í efnahagsmálum þjóðarinnar.
Framsóknarmenn geta ekki setið hjá og bjóða því Vinstri Grænum og Samfylkingunni þetta í trausti þess að boðað verði til kosninga sem fyrst.
![]() |
Vill verja minnihlutastjórn falli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2009 | 09:33
Grátbeiðni um aðstoð
"Aðsókn í lögfræðiaðstoð Orators, félags laganema í Háskóla Íslands, hefur aukist gríðarlega á umliðnum mánuðum, eða frá því í byrjun október. Spurningar um fjármál heimilanna, fjárnám, gjaldþrot og gjaldþrotaskipti eru mjög algengar en það er breyting frá því sem áður var. Aðsóknin er raunar svo mikil að hringt er í stjórnarmenn félagsins utan símatímans - á öllum tímum sólarhringsins - og þeir nánast grátbeðnir um aðstoð."
Þessi frétt var á forsíðu Moggans í gær. Ekki löngu áður birtist frétt um að sýslumaðurinn á Selfossi hafði tekið sig til og gefið út handtökuskipun á hundruðir manna fyrir það eitt að skulda ekki nógu mikið... og CreditInfo Ísland spáir því að á fjórða þúsund fyrirtækja verði gjaldþrota á næstu 12 mánuðum.
Er að furða að fólki hafi gjörsamlega blöskrað sinnuleysi ríkisstjórnarflokkanna á fyrsta þingfundi eftir jólafrí? Á dagskrá var vátryggingastarfsemi, greiðsla fyrir líffæragjöf og síðast en alls ekki síst smásala á áfengi. Fjármálaráðherra lýsti því yfir að hann sæi enga ástæðu til að segja af sér, enda allt í lagi í hans ráðuneyti, dómsmálaráðherra impraði á að ríkisstjórnin hefði loksins loksins samþykkt að leggja fram frumvarp um greiðsluaðlögun eftir margra mánaða bið og viðskiptaráðherra virtist telja að helsta vandamál íslensku þjóðarinnar væru lánveitingar Íbúðarlánasjóðs.
Þvílík veruleikafirring.
20.1.2009 | 13:08
Flauelsbyltingin hafin!
Hrun bankanna sýndi hversu veikt stjórnkerfið er og hversu vanmáttug stjórnsýslan og Alþingi voru til að taka á málunum. Þótt Samfylkingin hafi komið ný inn í ríkisstjórn fyrir tveimur árum síðan breytti það engu varðandi vinnubrögðin í þinginu og hjá ríkisstjórninni. Meira segja þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru farnir að tala um hvernig það sé að vinna í hálfgerri afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið.
Því held ég að orð Sigmundar Davíðs (sjá DV í dag) um að Framsókn væri tilbúin að verja minnihlutastjórn vantrausti séu einkar athyglisverð. Á Íslandi hefur ekki verið nein hefð fyrir minnihlutastjórnum, heldur hafa ríkisstjórnir keyrt mál í gegnum þingið í krafti stjórnarmeirihluta. Samstarf við stjórnarandstöðuna hefur verið til málamynda, eiginlega bara til sparibrúks.
Með minnihlutastjórn þá yrðu vinnubrögðin allt önnur. Áherslan væri á málefnin, hugmyndafræði og samvinnu en ekki hver fengi hverja stóla.
Sem sagt upphaf flauelsbyltingarinnar, þar sem siðbót og hugsjónir yrðu í forgrunni íslenskra stjórnmála.
19.1.2009 | 23:02
Að svara kallinu
Steingrímur J. Sigfússon var kosin á Alþingi árið 1983. Hann var ráðherra árin 1988-1991 og hefur setið í flestum nefndum þingsins. Það hlýtur því að fara um atvinnupólitíkus eins og hann að sjá hversu kröftuglega Framsóknarmenn hafa brugðist við kalli almennings eftir endurnýjun og nýjum vinnubrögðum í stjórnmálum.
Það eru nýir tímar framundan, þar sem byggt verður á raunverulegum hugsjónum, raunverulegri siðbót og raunverulegum lausnum. Framsóknarmenn hafna öfgum til vinstri og hægri, bæði gegndarlausri græðgisvæðingu Sjálfstæðisflokksins og eitthvað-annað stefnu Vinstri Grænna.
Kallinu eftir endurnýjun er nefnilega ekki bara beint að forystumönnum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, heldur til allra þeirra sem hafa litið á stjórnmál sem lífsviðurværi frekar en hugsjónastarf.
![]() |
Vill færa flokkinn frá hægri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.1.2009 | 12:21
Ný Framsókn fyrir nýtt Ísland
Stórglæsilegu flokksþingi er lokið og endurreisnin er hafin.
Ég þakka Framsóknarmönnum kærlega fyrir stuðninginn og traustið sem þeir hafa sýnt mér með kjöri sem ritari Framsóknarflokksins. Jafnframt vil ég þakka öðrum frambjóðendum fyrir góða og drengilega baráttu, þá sérstaklega Sæunni Stefánsdóttur fráfarandi ritara.
Ég er sannfærð um að Sigmundur Davíð og Birkir Jón munu standa sig frábærlega og að gleði og kraftur mun nú dreifa sér um allt flokksstarfið.
Nú hefst baráttan fyrir samvinnu, samstöðu og sanngirni í íslensku samfélagi.
Með nýrri Framsókn fyrir nýtt Ísland.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
15.1.2009 | 22:37
Hreinsunareldur gjaldþrota?
CreditInfo Ísland segir að á næstu 12 mánuðum lenda 3.527 fyrirtæki í miklum greiðsluerfiðleikum. Staða fyrirtækja er langverst á Suðurnesjum eða tæplega átján prósent fyrirtækja á Reykjanesi eru líkleg til að verða gjaldþrota áður en árið er á enda. Samkvæmt spá Creditinfo Ísland fara 248 af 1.403 fyrirtækjum á Reykjanesi í þrot á næstu tólf mánuðum. Hlutfallið er hærra en í nokkrum öðrum landshluta.
Í Speglinum í dag var spurt hvort það væri einhver leið til að komast út úr þessu? Yrðu fyrirtækin ekki bara að fara í gegnum hreinsunareld gjaldþrota og nauðasamninga?
Ég segi nei! Andvaraleysi og vanmáttur ríkisstjórnarinnar hefur þegar valdið þjóðinni ómældum skaða.
Nú verður að grípa til aðgerða!
PS:
12.1.2009 | 10:45
Ályktun SASS um heilbrigðismál
Stjórn SASS fundaði í gær og ályktaði um heilbrigðismál. Spurning er hvort þessi ályktun muni birtast á vefsíðu heilbrigðisráðuneytisins eins og ályktunin frá Ólafsvík.
"Stjórn SASS lýsir mikilli óánægju með þær hagræðingaraðgerðir
sem felast í sameiningu heilbrigðisstofnana á svæðinu sem munu
skerða þjónustu og fækka störfum á landsbyggðinni. Er það í
hróplegri mótsögn við þá stefnu ríkisvaldsins að fjölga beri
opinberum störfum á landsbyggðinni ef þess er kostur.
Stjórn SASS mótmælir harðlega þeirri ákvörðun að leggja niður
vaktþjónustu á skurðdeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á
Selfossi sem mun leiða til lokunar á fæðingarþjónustu
stofnunarinnar þar sem óhugsandi er talið að starfrækja
fæðingardeild sem ekki er studd af fæðingarlækni á bakvakt. Í
þessu sambandi ber að hafa í huga að að fæðingar á síðasta ári voru
um 200 talsins auk allrar annarrar þjónustu sem fæðingardeildin
veitir. Þessi þjónusta færist því til Landsspítalans með öllu því
óhagræði sem því fylgir fyrir notendur þjónustunnar. Auk þess er
bent á að öryggi sjúklinga og sængurkvenna getur verið ógnað
vegna ótryggra samgangna að vetri til.
Stjórn SASS lýsir einnig yfir mikilli óánægju með þá ákvörðun að
færa yfirráð Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja frá
Vestmannaeyjum. Fordæmin sýna að sú aðferðarfræði að flytja
forræði stofnana frá þjónustusvæðunum leiðir jafnan til skerðingar
á þjónustu. Samgöngum við Vestmannaeyjar er enn fremur
þannig háttað að til þess að komast á Selfoss þurfa Eyjamenn að
ferðast í um 4 tíma.
Stjórn SASS telur einsýnt að vegna landfræðilegrar sérstöðu
Vestmannaeyja og Hornafjarðar verður ekki um
samrekstrarmöguleika að ræða milli þessara stofnana.
Þá leggur stjórn SASS áherslu á að sveitarfélög hafi eftir sem áður
möguleika á að yfirtaka rekstur heilbrigðisstofnana með
þjónustusamningum við yfirvöld sbr. þann samning sem verið
hefur í gildi við Sveitarfélagið Hornafjörð."
11.1.2009 | 10:12
Út úr öngstrætinu
Óveður ríkir í íslensku efnahagslífi. Neyðarástand er að skapast á þúsundum heimila í landinu og gjaldþrot blasir við mörgum þeirra. Atvinnulausir eru orðnir yfir 10 þúsund og enn fleiri ráða ekki við greiðslubyrði sína. Fjöldi fyrirtækja á í miklum greiðsluerfiðleikum og spáir Creditinfo Ísland að á fjórða þúsund fyrirtækja verði gjaldþrota á næstunni.
Viðbrögð ríkisins við þessu ástandi hafa verið að hækka skatta, auka álögur í formi þjónustugjalda, kjaraskerðing og nú síðast uppsagnir opinberra starfsmanna. Til þess að koma í veg fyrir þá flóðbylgju gjaldþrota sem blasir við og leggja mun líf þúsunda fjölskyldna í rúst verður að grípa til aðgerða strax og aðstoða fólk út úr öngstrætinu.
Margt þarf að koma til, svo sem greiðsluaðlögun, félagsleg aðstoð og víðtækur stuðningur við fyrirtæki í landinu.
Greiðsluaðlögun
Frá því að núverandi ríkisstjórn tók við völdum hefur lögum um greiðsluaðlögun ítrekað verið lofað. Greiðsluaðlögun þýðir að skuldurum er hjálpað að komast út úr mesta svartnættinu og lánskjörum breytt til að létta greiðslubyrðina. Það getur falið í sér að vöxtum og/eða lánstíma sé breytt eða skuld lækkuð eða fryst um tíma á meðan fólk leitar lausna á tímabundnum erfiðleikum. Mikilvægt er að greiðsluaðlögun nái jafnt til skulda við ríki, innlánsstofnanir, lífeyrissjóði, verkalýðsfélög sem og húsnæðisskulda.
Þá er nauðsynlegt að bjóða einstaklingum, sem hafa tekið á sig miklar persónulegar skuldbindingar vegna reksturs fyrirtækja, upp á greiðsluaðlögun, að því gefnu að viðkomandi hafi ekki orðið uppvís að neinu ólöglegu í sínum rekstri.
Það síðasta sem heyrðist frá ríkisstjórninni um þetta mál var viðtal við Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra á Stöð 2 þar sem hún lýsti hversu gríðarlegum vandkvæðum væri bundið að afskrifa skuldir einstaklinga og engrar niðurstöðu væri að vænta á næstunni. Það er af sem áður var, því Jóhanna taldi þetta litlum vandkvæðum bundið þegar hún lagði fram frumvarp um greiðsluaðlögun ár eftir ár á meðan hún var í stjórnarandstöðu.
Þá hafa Vinstri grænir og framsóknarmenn einnig lagt fram frumvarp um greiðsluaðlögun og því má spyrja hvort Sjálfstæðisflokknum, varðhundi auðvaldsins, hafi tekist að sannfæra félagsmálaráðherra um hversu flókið og erfitt það væri að styðja við fólk sem er ófært um að greiða skuldir sínar.
Henni verður hins vegar velkomið að styðja við frumvarp framsóknarmanna sem lagt verður fram þegar þing kemur saman.
Félagsleg aðstoð
Páll Pétursson, fyrrum félagsmálaráðherra, setti á stofn ráðgjafarstofu heimilanna til að aðstoða fólk í greiðsluerfiðleikum. Frá því stofan var stofnuð hefur hún aðstoðað mörg þúsund einstaklinga. Helstu ástæður greiðsluerfiðleika í gegnum tíðina hafa verið veikindi og vankunnátta í fjármálum, en nú bætist atvinnuleysi við.
Stórauka þarf framlög til ráðgjafarstofunnar svo hún geti staðið undir auknum verkefnum og auka samstarf hennar við félagsþjónustu sveitarfélaganna. Einstaklingar sem eru í fyrirtækjarekstri hafa átt í fá hús að venda þegar þeir hafa lent í greiðsluerfiðleikum, auk þess sem ríkið hefur innheimt opinber gjöld af hörku.
Setja þarf á stofn ráðgjafarstofu fyrirtækja sem gæti starfað með ráðgjafarstofu heimilanna, Nýsköpunarmiðstöð eða sem sjálfstæð stjórnsýslueining. Hlutverk hennar yrði að aðstoða eigendur og stjórnendur fyrirtækja við að yfirfara reksturinn, semja við lánardrottna og ráðleggja um hvort halda skuli rekstri áfram eður ei.
Stuðningur við fyrirtæki
Sambærilegur stuðningur við starfandi fyrirtæki í landinu hefur verið enginn. Ekkert hefur heyrst af neinum tillögum þeim til handa á meðan útbúnir eru milljarða ívilnanapakkar fyrir stórfyrirtæki og fjárfestingarsjóði.
Ýmislegt er hægt að gera auk laga um greiðsluaðlögun og ráðgjafarstofu fyrirtækja. Aðgangur að lánsfé og ábyrgðum er mjög takmarkaður. Ríkið getur sett á stofn endurreisnarsjóð til að kaupa hlutafé og lána til fyrirtækja, ekki bara sprota heldur einnig starfandi fyrirtækja. Önnur leið til að auðvelda sjóðstreymi fyrirtækja er að leyfa þeim að skila virðisaukaskatti þriðja hvern mánuð í stað annars hvers og einfalda regluverk og eftirlit hins opinbera.
Ef ekkert verður að gert mun fjöldi gjaldþrota einstaklinga og fyrirtækja margfaldast. Afleiðingarnar verða aukinn kostnaður í velferðar- og dómskerfinu, en ekki síst örvænting einstaklinga og fjölskyldna og sár í þjóðfélaginu sem seint munu gróa.
Það munu framsóknarmenn aldrei sætta sig við.
(Greinin birtist í Fréttablaðinu í gær)
10.1.2009 | 00:01
Hvernig ekki á að sameina!
Með einum blaðamannafundi, mjög svo takmörkuðu upplýsingaflæði og alls engu samráði tókst Guðlaugi Þór Þórðarsyni, heilbrigðisráðherra, að koma heilbrigðiskerfinu á Íslandi á hliðina. Starfsmenn hafa lagt niður störf eða verið reknir, harðorðar ályktanir eru skrifaðar og sveitarfélög óska í ofboði eftir viðræðum um að bjarga stofnununum úr klóm Guðlaugs.
Sparnaðartillögur ráðherrans gera ráð fyrir að fækka stofnunum úr 23 í 6 og eiga breytingarnar að taka gildi eftir tæpa tvo mánuði. Markmiðið er að skera niður um 1,5 milljarða með þessum aðgerðum.
Vinnubrögðin við tilkynninguna eru einkar óvenjuleg. Kvöldið fyrir blaðamannafundinn er stjórnendum væntanlegra umdæmissjúkrahúsa tilkynnt hvað stæði til. Stjórnendur minni sjúkrahúsanna fengu flestir símtal innan við klukkutíma fyrir fundinn þar sem þeim var tilkynnt að glærupakki væri á leiðinni í tölvupósti og þeir ættu að kynna hann fyrir starfsmönnum á sama tíma og blaðamannafundurinn væri haldinn. Forstöðumennirnir máttu þannig, án neins fyrirvara, tilkynna starfsfólki sínu að þeim sjálfum væri hér með sagt upp, stofnunin yrði lögð niður sem sjálfstæð stjórnsýslueining, sjúkraflutningar yrðu stórauknir til að styðja við olíufélögin og konur á landsbyggðinni ættu helst að hætta að fæða börn. Ef þær héldu því til streitu að eignast blessuð börnin skyldu þær gjöra svo vel að gera það í dagvinnutíma.
Samráð við sveitarfélögin var ekkert. Samráð við starfsfólk var ekkert. Heilbrigðisnefnd Alþingis fékk engan tölvupóst, engar upplýsingar,- nema þær að nefndarmenn gætu komið upp í ráðuneyti einhvern tímann seinna til að fá upplýsingar um umfangsmestu skipulagsbreytingar sögunnar á íslenska heilbrigðiskerfinu.
Í síðasta mánuði gaf fjármálaráðuneytið út rit um hvernig eigi að standa að sameiningu ríkisstofnana. Í innganginum kemur fram að sameiningar og aðrar meiriháttar breytingar skili sjaldan þeim árangri sem vonast er eftir, eða í undir 15% tilvika. Helstu ástæðurnar eru taldar vera:
- Markmið og framtíðarsýn eru ekki nógu skýr eða ekki útskýrð nógu vel.
- Fjárhagsleg samlegð er ofmetin.
- Undirbúningi og skipulagningu er áfátt.
- Ekki tekst að kveikja nægan áhuga á sameiningunni.
- Starfsmannamálum er ekki sinnt nógu vel.
- Breytingastarfið lognast út af áður en því er lokið.
Til að auka árangurinn ráðleggur fjármálaráðherra samráðherrum sínum hvernig þeir eigi að standa að sameiningum.
- Gera frumathugun til að skilgreina markmið og kanna hversu fýsilegt er að sameina. (Engin frumathugun hefur verið lögð fram.)
- Eiga samráð til að afla málinu stuðnings og taka ákvörðun um sameiningu. (Samráðið er ekkert.)
- Undirbúa framkvæmd sameiningar með gerð vandaðrar samrunaáætlunar. (Á að liggja fyrir eftir 10 daga.)
- Hrinda sameiningu í framkvæmd með virkri þátttöku starfsmanna. (Hvernig skilgreinir Guðlaugur eiginlega virka þátttöku?)
- Gera úttektir til að meta árangur og draga lærdóm af sameiningu. (Hversu líklegt er að það verði gert?)
Tíminn frá því að ákveðið er að sameina þar til sameining á sér formlega stað getur tæplega verið styttri en 6 mánuðir," segir vegvísirinn.
Að öllu sögðu má ljóst vera að þessar harkalegu aðgerðir heilbrigðisráðherra eru ekki byggðar á faglegum forsendum. Þær eru heldur ekki góð stjórnsýsla og kunna jafnvel að brjóta í bága við lög.
Og því miður lítur út fyrir, ef mark er takandi á samráðherra Guðlaugs Þórs og embættismönnum fjármálaráðuneytisins, að þrátt fyrir þá þjónustuskerðingu, uppsagnir og almennt tjón sem aðgerðirnar munu valda á heilbrigðiskerfinu muni þær ekki ná þeim tilgangi sem vonast er eftir.
(Birtist fyrst á Smugunni 9. janúar 2009)
![]() |
Læknar lýsa áhyggum af breytingum á St. Jósefs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.1.2009 | 16:50
Tilkynning um framboð
Framsóknarstefnan og samvinnuhugsjónin hafa átt hug minn og hjarta undanfarin ár. Ég tel miklu skipta að Framsóknarflokkurinn komi út af flokksþingi með skýra stefnu og sterka forystu, sem byggi á samvinnu, samstöðu og valddreifingu í samfélaginu. Fyrir rúmum níutíu árum tóku menn höndum saman til að berjast gegn fákeppni, einokun og kúgun auðvaldsins. Það var hlutverk Framsóknarflokksins við stofnun og það þarf að verða hans megin hlutverk að nýju.
Í þeirri stöðu sem nú er uppi í samfélaginu er ekki síður mikilvægt að standa vörð um hinar dreifðu byggðir landsins. Samþjöppun og fákeppni er ekki bara af hinu slæma í atvinnulífinu, heldur einnig í búsetu þjóðarinnar. Landsbyggðin sér nú fram á að verða á ný hjartað í íslensku atvinnulífi og tryggja þarf samkeppnisstöðu hennar á þeirri leið.
Að þessum verkefnum vil ég vinna og því hef ég ákveðið að gefa kost á mér til embættis ritara Framsóknarflokksins.
Ég hef haft mikla ánægju af flokksstarfinu og samstarfi við félagsmenn í gegnum starf mitt sem ritari Landssambands Framsóknarkvenna, ritari Kjördæmissambands Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi og gjaldkeri Framsóknarfélags Vestmannaeyja. Ég var í 4. sæti á lista Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi fyrir tvennar síðustu alþingiskosningar og sat um tíma á Alþingi sem varaþingmaður. Í nóvember tók ég sæti á Alþingi við afsögn Guðna Ágústssonar. Að auki
hef ég gegnt fjölda trúnaðarstarfa á vegum Vestmannaeyjabæjar, m.a. setið í skólamálaráði, stjórn Nýsköpunarstofu Vestmannaeyja, Visku,- fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar og sem stjórnarformaður Náttúrustofu Suðurlands. Í atvinnulífinu hef ég sinnt margvíslegum störfum í
landbúnaði, sjávarútvegi, verslun og ferðaþjónustu, með sérstaka áherslu á kynningar- og markaðsmál.
Mikið starf er framundan við að sameina krafta Framsóknarmanna, rétta hlut okkar og koma sjónarmiðum samvinnustefnunnar á framfæri við þjóðina. Við þurfum öll að taka höndum saman til að hefja endurreisnina og baráttuna og það innra starf vil ég leiða í góðu samstarfi við formann, varaformann og aðra félagsmenn.