Að kasta krónunni...

Þessi frétt er dæmigerð fyrir þær aðgerðir sem einkennt hafa stjórnartíð Guðlaugs Þórs í heilbrigðisráðuneytinu. Flatur niðurskurður, ekkert samráð og alger skortur á heildarstefnu í heilbrigðismálum.

Í stað þess að leggja fjármagn í að hjálpa fólki við að búa heima hjá sér eins lengi og mögulegt er, verða aðgerðir sem þessar til að neyða aldraða inn í rándýr hjúkrunarrými. Fyrir fólk sem enn hefur viljann og getuna til að lifa sjálfstæðu lífi, en þarf aðstoð til þess, er fátt ömurlegra en að þurfa annað hvort að leggjast upp á ættingja eða enda inni á stofnun langt fyrir aldur fram. 

Fjárfesting í þjónustu sem þessari, þ.e. allt að fjögurra vikna greiningu, endurhæfingu og þjálfun, til þess að hjálpa fólki til að búa áfram heima, sem og efling heimahjúkrunar, getur þegar á heildina er litið sparað gríðarlegar fjárhæðir í heilbrigðiskerfinu, án þess að leggja óhóflegar byrðar á herðar ættingja viðkomandi.

Eins og Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir, bendir á dugar fjármagnið sem sparast við að loka 200 rýmum á borð við þessi aðeins til að reka 15 hjúkrunarrými. Þarna er verið að spara eyrinn, en kasta krónunni.


mbl.is Deildum lokað á Landakoti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokksblaðið á fullu

Morgunblaðið virðast eiga orðið ægilega erfitt með að höndla hlutleysi fréttamanna þegar á reynir. Í forsíðufrétt blaðsins er fyrirsögnin: "Greinir á um kosningar - Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn styðja ekki frystingu eigna auðmanna".

Þar er sem sagt ýjað að því að Framsóknarflokkurinn setji sig upp á móti hugmyndum VG um frystingu eigna auðmanna, væntanlega í þeim tilgangi að sá fræjum tortryggni meðal almennings. Þessi fullyrðing er reyndar hrakin síðar í greininni, þar sem Steingrímur J. Sigfússon segir slíkt ekki einu sinni hafa verið borið undir Framsóknarmenn.

Ég veit ekki til þess að þessar hugmyndir hafi almennt verið ræddar í okkar hópi, því við eigum ekki beina aðkomu að þessum stjórnarmyndunarviðræðum.

Einfalt hefði verið fyrir viðkomandi blaðamann að hafa samband við forystu flokksins og fá staðfestingu á því hvort eitthvert tilefni væri til að slengja svo gildishlaðinni fullyrðingu í undirfyrirsögn á forsíðu blaðsins. En menn verða víst að kyssa vöndinn uppi í Hádegismóum ef þeir ætla að starfa áfram fyrir Sjálfstæðisflokkinn Morgunblaðið.


Annarleg hugsun X-D

Ég var hugsi yfir Frá degi til dags pistlinum í Fréttablaðinu í morgun.  Þar segir:

"Bannað að mótmæla?...

Fréttavefurinn AMX fjallar um orð og æði rithöfundanna Þráins Bertelssonar og Hallgríms Helgasonar, sem umsjónarmanni vefsins þykir hafa farið offari undanfarna daga. AMX segir að Hallgrímur hafi ráðist á bíl Geirs H. Haarde og "barið hann allan afmyndaður af reiði"; Þráinn hafi hins vegar vegið ósmekklega að veikindum formanna stjórnarflokka á bloggi sínu. AMX þykir þessi framkoma sérstaklega alvarleg í ljósi þess að Hallgrímur Helgason hefur þegið ritlaun frá hinu opinbera og Þráinn nýtur heiðurslauna frá Alþingi.

...á launum hjá ríkinu

Nú er sjálfsagt að gagnrýna menn ef einhverjum þykir þeir fara yfir strikið. Hitt er þó verra að AMX virðist líta á það sem svo að með því að þiggja ritlaun eða heiðurslaun frá hinu opinbera afsali menn sér réttinum til að mótmæla stjórnvaldinu eða gagnrýna það. Það er reglulega annarleg hugsun."

Ég gæti ekki verði meira sammála pistlahöfundi Fréttablaðsins.  Er þetta hugsun Sjálfstæðismanna almennt þegar þeir eru að tilnefna fólk á heiðurslaunalista, eða hjálpa góðum og gegnum Sjálfstæðismönnum á borð við Þorstein Davíðsson og Jón Steinar Gunnlaugsson við atvinnuleit þeirra? 

Að þeir þar með afsali sér öllum rétti til sjálfstæðar hugsunar? Eða er það kannski bara inngönguskilyrði almennt í Sjálfstæðisflokkinn?

 


Málefnin á oddinn!

Stjórnarslit urðu í dag og Geir H. Haarde skilaði stjórnarmyndunarumboðinu til forseta seinni partinn í dag. 

Ég er algjörlega sammála forseta Íslands um að víkja hefðum til hliðar.  Það gerði forsetinn þegar hann kynnti hugmyndir sínar um brýnustu verkefnin framundan.  Þau eru að hans mati:

1) Ná samfélagslegri sátt svo að átök lægði í samfélaginu.
2) Ákvarðanir yrðu teknar af öryggi og ábyrgð.
3) Kjósa ætti til Alþingis sem fyrst.
4) Fundinn yrði farvegur fyrir umræðuvettvang til að ræða nýja stjórnskipan og nýja stjórnarskrá, nýtt lýðvelda eins og það hefði verið orðað í opinberri umræðu undanfarið.

Þetta er algjörlega í samræmi við tilboð Framsóknarmanna um stuðning við minnihlutastjórn Vinstri Grænna og Samfylkingarinnar.  Þar segir: "Þetta er háð því að kosningar fari fram eigi seinna en 25. apríl næstkomandi og að strax verði ráðist í aðgerðir til að koma til móts við skuldsett heimili í landinu og bæta rekstrarskilyrði íslensks atvinnulífs. Í því felist meðal annars að mörkuð verði stefna í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar. Jafnframt verði komið á stjórnlagaþingi sem semji nýja stjórnarskrá íslenska lýðveldisins."

Ný ríkisstjórn án aðkomu Sjálfstæðisflokksins, varðhundi auðvaldsins, og hreinsun í stjórnkerfinu ætti að leiða til þess að átök lægi.  Taka þarf ákvarðanir, punktur, ólíkt þeirri ákvarðanafælni sem einkennt hefur ríkisstjórn Geirs H. Haarde og gæta hagsmuna fólksins í landinu.  Kosið verði sem fyrst, og þá í síðasta lagi 25. apríl skv. okkar tillögu.  Að lokum eru Framsóknarmenn tilbúnir með farveg fyrir gerð nýrrar stjórnarskrár, eins og kemur fram í ályktun okkar um stjórnlagaþing.

Þetta á ekki að snúast um einhverja stóla eða hver getur ausið meiri drullu yfir hvern.

Þetta á að snúast um málefnin og velferð þjóðarinnar.


mbl.is Ekki verið samið um neitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjörsbaráttan hafin

Björgvin G. Sigurðsson hóf prófkjörsbaráttu Samfylkingarinnar í morgun. Hann hefur séð sæng sína út breidda og áttað sig á að aðeins tveir kostir voru í stöðunni.

Annar var sá að ríkisstjórnin springi, hann missti ráðherradóminn og sæti uppi með Svarta Pétur eftir að hafa sofið á vaktinni í viðskiptaráðuneytinu.

Hinn var að ríkisstjórnin sæti, en hreinsanir yrðu í ráðherraliði og stjórnkerfi, hann yrði settur af og sæti uppi með Svarta Pétur.

Björgvin átti hins vegar snjallan leik í morgun, varð fyrri til og sagði af sér áður en honum var sparkað. Þannig getur hann gengið til prófkjörs og kosninga sem ráðherrann sem "axlaði ábyrgð".  

Hefði Björgvin hinsvegar raunverulega haft hug á að axla ábyrgð hefði hann sagt af sér fyrir þremur mánuðum og hreinsað út úr Fjármálaeftirlitinu þá.

Kannski má segja "betra seint en aldrei", en þetta er bara allt of seint. 


Í villu og svima, Geir...

Ein helstu rök Geirs H. Haarde fyrir að núverandi ríkisstjórn haldi áfram er að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vilji það. Sú fullyrðing virðist ekki eiga við rök að styðjast miðað við svör Mark Flanagan, yfirmanns áætlunar sjóðsins gagnvart Íslandi við fyrirspurn Fréttablaðsins. Þar segir: "Mörg ríki hafa farið í gegnum kosningar og sum hafa jafnvel skipt um ríkisstjórn á meðan unnið er eftir áætlun Sjóðsins, án þess að áætlunin truflist mikið," og "Áætlanir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins styðja góðar stefnur og eins lengi og viðeigandi stefna er við lýði á Íslandi mun áætlunin halda áfram."

Geir virðist því vaða í villu og svima um hversu ómissandi Sjálfstæðisflokkurinn er í núverandi ástandi miðað við svör Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

En MBL virðist telja stórhættulegt að skipta út ríkisstjórninni, en það er s.s. allt í lagi að skipta út eins og einum forsætisráðherra tímabundið, ef ég skil fréttina rétt.

 


mbl.is Stjórnarskipti breyta engu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

17% vilja Framsókn

Í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins styðja 16,8% Framsóknarflokkinn, Samfylkingin hrynur algjörlega og mælist með 19,8%. Aðeins 22,1% vilja Sjálfstæðisflokkinn og 32,8% styðja Vinstri Græna. Frjálslyndir standa í stað hvort sem litið er til fylgis eða viðhorfs til Evrópusambandsins.
Þessar tölur staðfesta niðurstöður könnunar MMR, en þar mældumst við með 17,2%. 
PS. Gunnar Axel Axelsson (formaður Samfylkingarfélagsins í Hafnarfirði) Andrés Magnússon (bróðir Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins) og Stefanía Óskarsdóttir (fyrrum varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins) voru í Vikulokunum í morgun.  Niðurstaðan var að ef einhverjum hefur dottið í hug að svokallaðir „pundits“ séu hlutlausir þá ættu þeir að hlusta aftur á þáttinn.  Þarna spóluðu þau fram og aftur, reyndu að halda því fram að besta ríkisstjórnin væri sú sem sæti núna. 
Jú, jú það mætti kannski athuga það að láta seðlabankastjóra fara en þetta væru nú algjörar hetjur sem væru að starfa undir ómanneskjulegum kringumstæðum og væru þannig nánast ómissandi.
Jamm.
  

mbl.is Fylgi VG mælist rúmlega 32%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blendnar tilfinningar

Það eru mjög blendnar tilfinningar sem bærast í brjósti mér þessa stundina.

Rétt fyrir hádegi bárust fréttir af því að höfuðmein Ingibjargar Sólrúnar væri góðkynja, en skömmu síðar tilkynnti Geir H. Haarde að greinst hafi illkynja æxli í vélinda hans. Hugur okkar hlýtur að vera með Geir, ættingjum hans og vinum, nú þegar hann hefur þá þrautagöngu sem Ingibjörg hefur verið á undanfarið misseri. Við getum aðeins vonað að rætist úr hjá honum eins og virðist vera að gera hjá formanni Samfylkingarinnar.

Það hlýtur þó að vera fagnaðarefni, mitt í þessari persónulegu sorg, að báðir stjórnarflokkarnir virðast samstíga um að boða til þingkosninga í vor. Geir hefur gefið út að þær verði 9. maí og verður það að teljast ásættanlegt, þó Framsóknarmenn hefðu gjarnan viljað kjósa fyrr, úr því sem komið er.

Það er þó áhyggjuefni ef ætlunin er að framlengja líf þessarar ríkisstjórnar fram að kosningum. Það aðgerðaleysi og pattstaða sem einkennt hefur stjórnina frá því efnahagshrunið varð er ekki það sem þjóðin þarf á að halda næstu mánuði. Við þurfum nauðsynlega að hreinsa til í stjórnkerfinu og bankakerfinu og það strax. Sú hreinsun verður ekki gerð á vakt núverandi stjórnarflokka. Svo mikið er víst.


Neró með hendur í skauti

Það eru svartir dagar framundan.  Endurskoðuð þjóðhagsspá gerir ráð fyrir að landsframleiðslan dragist saman um nærri 10 prósent, þrátt fyrir áframhaldandi viðsnúning í þróun utanríkisviðskipta og aukinn þorskkvóta. Verðbólgan stefnir yfir 13 prósent og skuldir ríkissjóðs stefna hraðbyri yfir tvö þúsund milljarða með tilheyrandi niðurskurði fjárlaga.

Afleiðingarnar eru að fjöldi einstaklinga og fyrirtækja ramba á barmi gjaldþrots.  CreditInfo Ísland áætlar að á fjórða þúsund fyrirtækja verði gjaldþrota á næstu árum. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar eru nú rúmlega 12.000 manns án atvinnu. Þessi tala á eftir að hækka á næstu vikum og ef spár bjartsýnustu manna ganga eftir verða milli 15 og 20 þúsund íslendingar atvinnulausir á næstu mánuðum.

Ég óttast að sú tala verði jafnvel enn hærri. Það þýðir að þúsundir fjölskyldna í landinu verða búnar að missa aðra eða báðar fyrirvinnur sínar.

Og hvað gerir ríkisstjórnin? Hún stendur ráðþrota frammi fyrir vandanum. Á meðan almenningur ber utan Alþingishúsið í veikri von um að hægt sé að koma viti fyrir ráðherrana svo þeir skammist í það minnsta til að segja af sér, niðurlægja þeir þjóð og þing með því að ætla að bjóða upp á umræður á Alþingi um einhverja blauta drauma stuttbuxnadrengja um bjór og vín í Bónus.

Hvernig halda hæstvirtir ráðherrar að ástandið verði þegar tugþúsundir Íslendinga hafa ekki ofan í sig eða á, búnir að missa húsið sitt, bílinn sinn, vinnuna, sjálfsvirðinguna, jafnvel fjölskylduna og mæla göturnar í örvæntingu? Ég er hrædd um að mótmælin, sem hafa staðið hér síðustu daga, verði barnaleikur í samanburði við það sem þá mun ganga á.

Það eina sem maður getur vonað er að að minnsta kosti annar stjórnarflokkurinn sjái sóma sinn í að binda enda á þetta hraksmánarlega stjórnarsamstarf. Stjórnarsamstarf sem þegar hefur klofið þjóðina í herðar niður þar sem hundelta á með handjárnum almúgann sem skuldar síðustu afborgun af bílaláninu sínu á meðan þeir menn sem hreinsuðu hundruð milljarða út úr bönkunum og skildu þennan sama almúga eftir með reikninginn, spranga enn um á einkaþotum og þyrlum og hafa ekkert að óttast.

Sjálfstæðismönnum er vorkunn, því samkvæmt möntrunni sem þeir þylja á hverjum degi undir myndum af Friedman og foringjanum í Svörtu loftum, er græðgin af hinu góða.

Samfylkingunni er hins vegar ekki vorkunn. Stjórnmálaflokknum sem hefur predikað frá stofnun að hann væri höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins. Að gott og grandvart fólk, á borð við hæstvirtan félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hingað til hefur borið hag almennings fyrir brjósti, skuli verja þau efnahagslegu hryðjuverk sem ríkisstjórnin er að fremja á þegnum þessa lands, er óskiljanlegt.

Afleiðingar þessa gríðarlega efnhagslega hruns og atvinnuleysis verða hræðilegar og beint fjárhagslegt tjón heimilanna í landinu vegna þess bætist ofan á það tjón sem þegar hefur orðið með aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar á öðrum sviðum.

En fjárhagslega tjónið er ekki það versta. Félagslegir fylgikvillar atvinnuleysis eru jafnvel enn alvarlegri og kostnaður samfélagsins vegna þeirra á eftir að hlaupa á tugum, ef ekki hundruðum milljóna á næstunni.

Hlustið á fólkið.  Hlustið á íslenskan almenning.  Það verður að grípa til aðgerða strax.  Boða þarf til kosninga og ráðast strax í aðgerðir til að koma til móts við skuldsett heimili í landinu og bæta þarf rekstrarskilyrði íslensks atvinnulífs.

Framsóknarmenn vilja að gjaldeyrisvandinn verði leystur strax með því að tengja krónuna við aðra mynt tímabundið eða til frambúðar.
Endurskoða þarf vísitölutengingu lána, bjóða upp á greiðsluaðlögun og endurskoða algjörlega lagaumhverfi viðskiptalífsins.  Hefja þarf undirbúning aðildarviðræðna við Evrópusambandið til að fá niðurstöðu um hvort hagsmunum Íslendinga sé best borgið þar. Tryggja þarf fyrirtækjum rekstrargrundvöll með stofnun sérstaks Endurreisnarsjóðs sem getur bæði lánað fyrirtækjum og keypt hlutafé í þeim.  Sjóður þessi fái heimild til lántöku með ríkisábyrgð hjá íslenskum lífeyrissjóðum og verði einnig heimilt að lána sveitarfélögum til viðhalds- og uppbyggingarverkefna.

Síðast en alls ekki síst verða stjórnarflokkarnir að fara að skilja hvað það þýðir að axla ábyrgð.  Orðin tóm duga ekki lengur, þjóðin mun ekki sætta sig við að sömu mennirnir og sátu að völdum við hrun bankanna sitji áfram eins og ekkert hafi í skorist, sitji eins og Neró með hendur í skauti og horfi á meðan landið brennur og almenningur horfir á eftir húsnæði sínu, starfinu sínu, sjálfsvirðingunni og jafnvel fjölskyldunni.

Sýnið fólkinu að aðgerðir ykkar séu meira en orðin tóm, ella sjáið sóma ykkar í að láta ykkur hverfa.

(Ræða flutt á Alþingi 22. janúar 2009)


Langlundargeð ASÍ

Forysta Alþýðusambandsins virðist loksins vera búið að fá nóg af langlundargeði Gylfa Arnbjörnssonar gagnvart ríkisstjórninni. Aftur og aftur hafa forystumenn ríkisstjórnarinnar hagað sér likt og þeir væru með bæði Samtök atvinnulífsins og ASÍ í vasanum og þyrftu ekkert að vera eiga neitt samráð eða samstarf við þessa lykilaðila á vinnumarkaðnum.

Meira að segja harkalegur niðurskurður ríkisstjórnarinnar á greiðslum til öryrkja, eldri borgara og nýbakaðra foreldra og hækkun ýmissa sjúklingaskatta og annarra þjónustugjalda fékk nánast engin viðbrögð.  

Upplifunin var að Samfylkingin væri búin að taka yfir höfuðstöðvar ASÍ með Gylfa Arnbjörnsson í broddi fylkingar, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn SA með Vilhjálm Egilsson.

Því ber að fagna þegar langlundargeðið brestur og forysta ASÍ áttar sig að samtakamáttur þeirra á að vera með íbúum þessa lands, en ekki ríkisstjórninni.

Skilaboðin eru einföld, - boðum til kosninga sem fyrst. 


mbl.is ASÍ vill nýja ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband