Neró með hendur í skauti

Það eru svartir dagar framundan.  Endurskoðuð þjóðhagsspá gerir ráð fyrir að landsframleiðslan dragist saman um nærri 10 prósent, þrátt fyrir áframhaldandi viðsnúning í þróun utanríkisviðskipta og aukinn þorskkvóta. Verðbólgan stefnir yfir 13 prósent og skuldir ríkissjóðs stefna hraðbyri yfir tvö þúsund milljarða með tilheyrandi niðurskurði fjárlaga.

Afleiðingarnar eru að fjöldi einstaklinga og fyrirtækja ramba á barmi gjaldþrots.  CreditInfo Ísland áætlar að á fjórða þúsund fyrirtækja verði gjaldþrota á næstu árum. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar eru nú rúmlega 12.000 manns án atvinnu. Þessi tala á eftir að hækka á næstu vikum og ef spár bjartsýnustu manna ganga eftir verða milli 15 og 20 þúsund íslendingar atvinnulausir á næstu mánuðum.

Ég óttast að sú tala verði jafnvel enn hærri. Það þýðir að þúsundir fjölskyldna í landinu verða búnar að missa aðra eða báðar fyrirvinnur sínar.

Og hvað gerir ríkisstjórnin? Hún stendur ráðþrota frammi fyrir vandanum. Á meðan almenningur ber utan Alþingishúsið í veikri von um að hægt sé að koma viti fyrir ráðherrana svo þeir skammist í það minnsta til að segja af sér, niðurlægja þeir þjóð og þing með því að ætla að bjóða upp á umræður á Alþingi um einhverja blauta drauma stuttbuxnadrengja um bjór og vín í Bónus.

Hvernig halda hæstvirtir ráðherrar að ástandið verði þegar tugþúsundir Íslendinga hafa ekki ofan í sig eða á, búnir að missa húsið sitt, bílinn sinn, vinnuna, sjálfsvirðinguna, jafnvel fjölskylduna og mæla göturnar í örvæntingu? Ég er hrædd um að mótmælin, sem hafa staðið hér síðustu daga, verði barnaleikur í samanburði við það sem þá mun ganga á.

Það eina sem maður getur vonað er að að minnsta kosti annar stjórnarflokkurinn sjái sóma sinn í að binda enda á þetta hraksmánarlega stjórnarsamstarf. Stjórnarsamstarf sem þegar hefur klofið þjóðina í herðar niður þar sem hundelta á með handjárnum almúgann sem skuldar síðustu afborgun af bílaláninu sínu á meðan þeir menn sem hreinsuðu hundruð milljarða út úr bönkunum og skildu þennan sama almúga eftir með reikninginn, spranga enn um á einkaþotum og þyrlum og hafa ekkert að óttast.

Sjálfstæðismönnum er vorkunn, því samkvæmt möntrunni sem þeir þylja á hverjum degi undir myndum af Friedman og foringjanum í Svörtu loftum, er græðgin af hinu góða.

Samfylkingunni er hins vegar ekki vorkunn. Stjórnmálaflokknum sem hefur predikað frá stofnun að hann væri höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins. Að gott og grandvart fólk, á borð við hæstvirtan félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hingað til hefur borið hag almennings fyrir brjósti, skuli verja þau efnahagslegu hryðjuverk sem ríkisstjórnin er að fremja á þegnum þessa lands, er óskiljanlegt.

Afleiðingar þessa gríðarlega efnhagslega hruns og atvinnuleysis verða hræðilegar og beint fjárhagslegt tjón heimilanna í landinu vegna þess bætist ofan á það tjón sem þegar hefur orðið með aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar á öðrum sviðum.

En fjárhagslega tjónið er ekki það versta. Félagslegir fylgikvillar atvinnuleysis eru jafnvel enn alvarlegri og kostnaður samfélagsins vegna þeirra á eftir að hlaupa á tugum, ef ekki hundruðum milljóna á næstunni.

Hlustið á fólkið.  Hlustið á íslenskan almenning.  Það verður að grípa til aðgerða strax.  Boða þarf til kosninga og ráðast strax í aðgerðir til að koma til móts við skuldsett heimili í landinu og bæta þarf rekstrarskilyrði íslensks atvinnulífs.

Framsóknarmenn vilja að gjaldeyrisvandinn verði leystur strax með því að tengja krónuna við aðra mynt tímabundið eða til frambúðar.
Endurskoða þarf vísitölutengingu lána, bjóða upp á greiðsluaðlögun og endurskoða algjörlega lagaumhverfi viðskiptalífsins.  Hefja þarf undirbúning aðildarviðræðna við Evrópusambandið til að fá niðurstöðu um hvort hagsmunum Íslendinga sé best borgið þar. Tryggja þarf fyrirtækjum rekstrargrundvöll með stofnun sérstaks Endurreisnarsjóðs sem getur bæði lánað fyrirtækjum og keypt hlutafé í þeim.  Sjóður þessi fái heimild til lántöku með ríkisábyrgð hjá íslenskum lífeyrissjóðum og verði einnig heimilt að lána sveitarfélögum til viðhalds- og uppbyggingarverkefna.

Síðast en alls ekki síst verða stjórnarflokkarnir að fara að skilja hvað það þýðir að axla ábyrgð.  Orðin tóm duga ekki lengur, þjóðin mun ekki sætta sig við að sömu mennirnir og sátu að völdum við hrun bankanna sitji áfram eins og ekkert hafi í skorist, sitji eins og Neró með hendur í skauti og horfi á meðan landið brennur og almenningur horfir á eftir húsnæði sínu, starfinu sínu, sjálfsvirðingunni og jafnvel fjölskyldunni.

Sýnið fólkinu að aðgerðir ykkar séu meira en orðin tóm, ella sjáið sóma ykkar í að láta ykkur hverfa.

(Ræða flutt á Alþingi 22. janúar 2009)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Heyr heyr!!!

Kristbjörg Þórisdóttir, 22.1.2009 kl. 16:24

2 identicon

Sæl Eygló.  Þú verður að byrja á því að fá einræðisfólkið í ráðherraliði Samfó að skilja hvað felst í lýðræði.  Á meðan flokksmenn og sumir alþingismenn eru sammála um stjórnarslit þá koma veikburða hálfkveðnar vísur frá ráðherrunum.  Jú, þingkosningar í vor en við verðum að gæta þess að ekki verði stjórnarkreppa.  Hvað er stjórnarkreppa?  Þau eru orðin jafnlituð- og rugluð og valdfastir sjálfstæðismenn.  Hlusta á Pétur Blöndal í morgun að reyna færa rök fyrir því hvers vegna ekki er hægt að fara í kosningar.  Því þá getur enginn stjórnað landinu?  Afneitunin er með ólíkindum.  Bregðast krosstré sem önnur, hélt að Blöndal væri aðeins greindari en þetta en dómgreind þeirr er reyndar ekki upp á margar krónur. En flott ræða hjá þér og viljið þið gjöra svo vel og ganga frá þessu sem allra fyrst.  Takk og kveðja.

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 19:48

3 Smámynd: Guðmundur Helgi Þorsteinsson

Ég held að allar þessar staðreyndir sem að þú fluttir í þessari ræðu séu þekktar staðreyndir. Því miður er illa í efni komið. Það sem almenningur og fyrirtæki í þessu landi hefur áhuga á að vita er hvað kjörnir fulltrúar þjóðarinnar leggja til. Kosningar núna gætu skilað afgerandi lausn en þær gætu líka skilað ástandi þar sem erfitt verður að ná saman sterkri stjórn. Ég get vel tekið undir sumt af því sem þú segir en þegar að sjúkdómurinn gerir vart við sig þá líður alltaf einhver tími frá því að greiningin er sett fram og þar til lyfjagjöfin er ákveðin og þar til líkaminn bregst við ástandinu. Það er skammsýni að ætla að við leysum okkar bráðavanda á nokkrum mánuðum. Það þarf líka að gera ráð fyrir því að flokkarnir ráði sínum ráðum og endurskipuleggi sig í samræmi við ríkjandi aðstæður, ekki satt?

Guðmundur Helgi Þorsteinsson, 22.1.2009 kl. 22:43

4 identicon

ekki ánægður með þig núna, kosningabull

haukur (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 05:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband