Lýðræði of dýrt?

Samkvæmt Fréttablaðinu í morgun segir að stjórnarþingmenn styðji ekki frumvarp okkar Framsóknarmanna um stjórnlagaþing þar sem það verði of dýrt. Í frumvarpi okkar er lagt til að fulltrúar á stjórnlagaþinginu verði 63, líkt og fulltrúar á Alþingi Íslendinga. 

Hefur kostnaður við þingið verið áætlaður um 200 milljónir kr.  Því hlýtur maður að spyrja hvað má lýðræði kosta?

Á sínum tíma taldi forsætisráðherra okkar nægjanlegt að fulltrúar á stjórnlagaþingi yrðu 41, eða um 22 færri en okkar frumvarp gerir ráð fyrir. Gott og vel, - einfalt ætti að vera að fækka fulltrúum í meðferðum þingsins.

Ég tel einnig að til að draga sem mest úr kostnaði ætti að kjósa til stjórnlagaþings samhliða alþingiskosningunum nú í vor.  Síðan ættum við Íslendingar að geta kosið um nýja stjórnarskrá samhliða sveitastjórnarkosningunum að ári.

Því lýðræði hlýtur að mega kosta, enda erum við öll að upplifa hvað einræði forystumanna ríkisstjórnarflokka og óheft græðgisvæðing hefur kostað okkur.

Algjört efnahagslegt hrun Íslands!

PS. Einkennilegt að stjórnarliðar skulu hins vegar telja að breytt kosningalöggjöf um persónukjör, korteri fyrir kosningar, þar sem eyða þarf væntanlega tugum ef ekki hundruðum milljóna í kynningu gagnvart almenningi er alls ekki of dýrt.


Pólitískt moldviðri í boði Geirs

Virðulegi forseti

Fyrir réttum þremur vikum ræddum við hér á Alþingi skýrslu fyrrverandi hæstvirts forsætisráðherra um stöðu efnahagsmála. Síðan þá hefur margt breyst.

Samfylkingin hætti að verja hin efnahagslegu hryðjuverk sem unnin hafa verið á íslensku þjóðinni eftir að Framsóknarflokkurinn opnaði henni leið út úr myrkrinu.Núverandi ríkisstjórn, með stuðningi Framsóknar, vinnur nú hörðum höndum að því að hreinsa upp skítinn eftir frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins, sem náði næstum að leggja Ísland í rúst með 18 ára óstjórn á íslensku efnahagslífi.Samfylkingin þarf að borga fyrir að hafa sofið á verðinum og verður að gera upp við fortíðina líkt og Framsóknarmenn hafa þegar gert.

En almenningur hefur því miður ekki enn orðið var við breytingarnar í bókhaldinu hjá sér. Fyrir þremur vikum voru um 12.000 manns á atvinnuleysisskrá. Í dag eru þeir orðnir nærri 15.000. Á þessum þremur vikum hafa nær 3.000 manns misst vinnuna og þeim fjölgar enn.

Á meðan á þessu stendur snúa þingstörf sjálfstæðismanna aðallega að því að þyrla upp moldviðri í sölum Alþingis. Þeir gera sér grein fyrir því að ábyrgð þeirra á ástandinu er alger og reyna nú í örvæntingu að beina athygli almennings eitthvað annað. Smjörklípurnar hreinlega spýtast ofan úr Valhöll og innan úr Svörtuloftum og hingað inn á Alþingi.

Sjálfstæðismenn fara hér hamförum við að verja það valdakerfi sem þeir hafa með mikilli eljusemi, pólitískum ráðningum og helberri spillingu byggt upp síðustu tvo áratugi og þeir ætla ekki að gefa það eftir.Skítt veri með íslenska þjóð og það sem á henni brennur.Þetta gengur svo langt að heilu leikritin eru sett á svið til að reyna að gera störf ríkisstjórnarinnar tortryggileg og hindra framgang mikilvægra mála hér í þinginu.

Þannig lagði háttvirtur þingmaður Geir H. Haarde fram sérkennilega fyrirspurn hér á mánudag um pólitískar hreinsanir í bankaráðum og strax daginn eftir sögðu tveir formenn bankaráðanna af sér með mikilli viðhöfn.Það er ljóst að heragi Valhallar er slíkur að háttsettir liðsmenn falla umsvifalaust á sverðin berist þeim boð um það frá herforingjunum. Það væri óskandi að yfirhershöfðinginn í Svörtuloftum sæi sóma sinn í að gera það sama.

En það er einmitt þessi hráskinnaleikur sem við erum búin að fá nóg af. Því fyrr sem sjálfstæðismenn játa brot sín gagnvart íslensku þjóðinni, því fyrr getum við snúið okkur að því að byggja upp nýtt Ísland. Sjálfstæðismönnum er vorkunn, því eftir að hugmyndafræði þeirra hrundi til grunna vita þeir hreinlega ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Það vitum við Framsóknarmenn hinsvegar vel. Við ætlum okkur að byggja upp nýtt Ísland á grundvelli samvinnu, samstöðu, sanngirni og sjálfsábyrgðar.

Til að reisa íslenskan efnahag við þarf að grípa til aðgerða.

 

  • Við þurfum að hefja strax viðræður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að lækka stýrivexti. Vaxtalækkun verður að koma til fljótt, eigi einstaklingar og fyrirtæki að hafa einhverja möguleika á að komast af.
  • Við þurfum að losa um gjaldeyrishöftin, en til þess þurfum við að semja um jöklabréfin.
  • Við þurfum að ráða erlenda sérfræðinga strax til að aðstoða okkur við að semja um IceSave reikningana og þar má ekkert gefa eftir.
  • Við þurfum að setja á stofn Endurreisnarsjóð sem tekur lán hjá lífeyrissjóðunum og endurlánar fyrirtækjum og sveitarfélögum til atvinnusköpunar.
  • Við þurfum að tryggja fjármögnun orkufyrirtækja á nýjum virkjunum.
  • Við þurfum að klára fjárfestingarsamning við Norðurál vegna Helguvíkur og sá samningur þarf að komast í gegnum þingið fyrir þinglok í vor.
  • Við þurfum að tryggja fjármagn í markaðssetningu Íslands erlendis til að draga gjaldeyri til landsins með erlendum ferðamönnum.

 

Fyrir kosningar 1996 lofuðum við Framsóknarmenn 12.000 nýjum störfum og við stóðum við það loforð. Við þurfum að taka höndum saman og hefja atvinnuuppbyggingu að nýju. Þar höfum við Framsóknarmenn ýmislegt til málanna að leggja.Það er það sem við þurfum.

Ekki innantómt karp um keisarans skegg.

(ræða flutt á Alþingi við umræður um efnahagsmál) 


Í bullandi fráhvarfi

Björn Bjarnason, alþingismaður, virðist haldinn miklum fráhvarfseinkennum ef marka má geðvonskulega pillu sem ég fékk frá honum á bloggi hans í gær. Valdhrokinn sem skín úr skrifum hans er yfirgengilegur og greinilegt að hann á erfitt með að höndla hlutverk sitt sem þingmaður eftir að hann missti ráðherraembættið. Orðrétt segir hann:

 

"Þá var þarna einnig rætt um frumvarp um greiðsluaðlögun frá framsóknarmönnum en það er þannig úr garði gert, að því verður ýtt til hliðar í þingnefnd. Eygló Harðardóttir var talsmaður Framsóknarflokksins í þessu máli. Nýjum þingmönnum fer ekki vel að tileinka sér þá takta, sem hún hefur gert, það er einfaldlega ekki nein innistæða fyrir þeim."

 

Fyrir utan þá einkennilegu áráttu lögfræðingagengis Sjálfstæðisflokksins að halda að enginn geti samið lög nema þeir, var það síðasta setningin sem vakti athygli mína. Væntanlega er Björn að vísa til orðaskipta okkar í ræðustól Alþingis í gær, þegar ég velti upp þeirri einföldu spurningu hvers vegna hefði tekið 18 ár og eitt efnahagshrun fyrir Sjálfstæðisflokkinn að leggja fram frumvarp um greiðsluaðlögun.


Ekki veit ég þó hvaða takta hann er að vísa til, svo ég gekk á hann í morgun, þegar ég hitti hann við upphaf þingfundar. Viðbrögðin voru nú ekki eins og maður á að venjast frá samstarfsmönnum hér á Alþingi, en til að gera langa sögu stutta varð fátt um svör.

Hvort Birni þyki ég ekki sýna honum tilhlýðilega virðingu vegna aldurs og fyrri starfa, eða hvort hann sé bara orðinn of vanur því úr eigin flokki að fólk sitji og þegi fyrstu 1-2 kjörtímabilin áður en það fái náðarsamlegast leyfi til að tjá sig veit ég ekki. Hitt er víst að 14 ára vist í ráðherrastóli hefur ekki haft góð áhrif á hæfni hans til mannlegra samskipta, sérstaklega nú eftir að hann er orðinn almennur þingmaður á ný.


Uppbyggingin er hafin!

Virðulegi forseti, góðir landsmenn,

Fyrir tveimur árum vék Framsóknarflokkurinn úr ríkisstjórn eftir 12 ára setu. Honum hafði tekist furðuvel að halda sjó í sambúðinni við Sjálfstæðisflokkinn þótt mörgum þætti hjónasvipur þessara tveggja flokka orðinn fullmikill á síðustu metrunum.

Við náðum þó að standa vörð um velferðina sem almenningur hafði byggt upp með blóði, svita og tárum síðustu áratugi. Má þar nefna Íbúðalánasjóð, heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið, sem við vörðum með kjafti og klóm þar til yfir lauk.

En enginn er fullkominn. Við framsóknarmenn gerðum okkar mistök. Bæði í okkar eigin verkum, en ekki síst þegar kom að því að hemja frjálshyggjuskepnuna sem ólmaðist í túni Valhallarbóndans.

Trúarstríð sjálfstæðismanna gegn hvers kyns eftirliti með hinum frjálsa markaði er það sem reið íslenskum efnahag nærri því að fullu.Vissulega berum við framsóknarmenn okkar sök og okkar ábyrgð. Þá sök höfum við viðurkennt og þá ábyrgð höfum við axlað. Hjá okkur er uppgjörinu að ljúka og endurnýjun og uppbygging hafin.

Íslenskt samfélag þarf að ganga í gegnum samskonar ferli. Við þurfum að gera upp við fortíðina. Við þurfum endurnýjun og í kjölfarið þarf að byggja upp að nýju. Fráfarandi ríkisstjórn gerði ekkert af þessu.

Í stjórnartíð hennar var skollaeyrum skellt við öllum viðvörunum sérfræðinga, embættismanna og stjórnarandstöðu. Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins varaði ítrekað við þenslufjárlögum og yfirvofandi hættum í fjármálakerfinu en óheft gandreið frjálshyggjunnar hélt áfram. Afleiðingin er sorglegri en tárum taki.

En hafi lítið verið gert til að forðast hrun var enn minna gert til að bregðast við því.Hér hefur ekkert uppgjör farið fram. Hér hefur engin endurnýjun átt sér stað. Hér hefur engin uppbygging hafist.

Fyrr en nú.

Fólkið í landinu sagði hingað og ekki lengra. Eins og grasrótin í Framsókn krafðist hún uppgjörs, endurnýjunar og uppbyggingar.

Með nýjum formanni Framsóknar voru innleiddir nýir tímar í íslensk stjórnmál.Tilboð um stuðning við minnihlutastjórn Vinstri Grænna og Samfylkingar hefur losað þjóðina úr spennitreyju frjálshyggjunnar. Þetta tilboð opnaði Samfylkingunni leið úr kæfandi faðmlagi Sjálfstæðisflokksins, sem hún nýtti sér, til heilla fyrir þing og þjóð.

En þetta tilboð var enginn óútfylltur tékki. Því fylgdu frá upphafi skýr skilyrði.

 

  • Kosningar í síðasta lagi 25. apríl næstkomandi.
  • Stjórnlagaþing til að semja nýja stjórnarskrá lýðveldisins.
  • Og raunhæfar leiðir til að styðja við heimilin og fyrirtækin í landinu.

 

Með þessum einföldu og skýru skilyrðum töldum við Framsóknarmenn okkur vera að koma til móts við vilja fólksins í landinu, þess fólks sem með búsáhaldabyltingu sinni lagði grunninn að hinu nýja Íslandi.

Uppgjörið er hafið.

Endurnýjunin er hafin.

Uppbyggingin er hafin.

Við Framsóknarmenn ætlum ekki að bera ábyrgð ríkisstjórn Vinstri-Grænna og Samfylkingar en við ætlum að styðja hana til allra góðra verka. Mikilvægast er að brjótast út úr þeim vítahring ákvarðanafælni og aðgerðaleysis sem einkenndi síðustu ríkisstjórn. Það virðist hin nýja stjórn ætla að gera.

En þær leiðir sem farnar verða við uppbygginguna eru ekki síður mikilvægar.

Við Íslendingar höfum löngum verið haldnir óbilandi bjartsýni og trú á okkur sjálf. Endalaus vinnusemi og mottóið "Þetta reddast" hafa fleytt okkur lengra en nokkur hefði trúað, og sumir segja að einmitt það mottó hafi kannski fleytt okkur fram af brúninni.

En við megum ekki glata trúnni á okkur sjálf. Endurreisnin mun byggja á hinni meðfæddu bjartsýni okkar Íslendinga og trúnni á hið Nýja Ísland. En við þurfum líka að hafa trú á þeim leiðum sem stjórnvöld marka út úr myrkrinu. Við þurfum að treysta því að þær leiðir sem valdar eru komi okkur á braut velmegunar á ný.

Framsóknarmenn hafa lagt fram skýrar tillögur um hvert skal stefna. Við vonum að þær fái hljómgrunn hjá núverandi ríkisstjórn, enda sýnist okkur sú stefna sem hér hefur verið mörkuð að mörgu leiti samhljóma okkar.

Við viljum lækka vexti til að bjarga heimilum og fyrirtækjum í landinu.

Við viljum ráðast gegn atvinnuleysi með auknum framkvæmdum ríkis og einkaaðila.

Við viljum efla eftirlitsstofnanir og endurskoða peningamálastefnuna, til að hrunið geti aldrei átt sér stað aftur.

Og síðast en ekki síst viljum við brjótast út úr þeim þankagangi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir í íslenskum stjórnmálum, þar sem flokkurinn gengur framar öllu.

Nýr formaður Framsóknar var spurður af þingfréttamanni Ríkisútvarpsins, hvað Framsókn fengi í staðinn fyrir stuðning við stjórnina.Henni var sýnilega brugðið þegar formaðurinn svaraði "vonandi betra Ísland". Hin nýja Framsókn fer ekki fram á skrauthúfur, bitlinga eða vegtyllur.

Í hinu Nýja Íslandi verðum við að setja þjóðina í fyrsta sæti. Smákóngaslagur um stóla og embætti verður að heyra sögunni til. Sú umræða sem efnt var til á Alþingi í dag er sorglegt dæmi um hið Gamla Ísland Sjálfstæðisflokksins, Ísland sem vonandi er liðið undir lok.

Þjóðin vill Nýtt Ísland. Hið Nýja Ísland munum við byggja á samvinnu, samstöðu og sanngirni.

(ræða flutt við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi) 


Forgangsröðun flokksins

Alþingi kom saman í fyrsta skipti eftir að ný ríkisstjórn tók við og Sjálfstæðismenn gátu ekki beðið eftir því að komast í ræðustól. Formanns "wanna-be"-in ruku hver á fætur öðrum upp í pontu og lýstu yfir áhyggjum sínum af stöðu mála.

Voru það greiðsluerfiðleikar fyrirtækja og einstaklinga, verðbólgan, gjaldeyriskreppan, gjaldþrot bankanna eða síhækkandi atvinnuleysistölur sem orsakaði vanlíðan þeirra?

Nei, nei, nei, nei, og já.

Það er að segja, þeir höfðu miklar áhyggjur af því að Sjálfstæðismaðurinn Sturla Böðvarsson væri að missa starf sitt sem forseti Alþingis. Þeir ætluðu að vísu sjálfir að láta hann fara í vor, en nú var hann orðinn algjörlega ómissandi að þeirra mati. Alveg eins og væntanlega fyrrum fjármálaráðherra, fyrrum forsætisráðherra og svo að sjálfsögðu (bráðlega) fyrrum yfirseðlabankastjórinn. 

Algjörlega ómissandi fyrir land, þjóð og síðast en síðast en ekki síst fyrir flokkinn.


mbl.is Gagnrýna forsetaskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilkynning um framboð

Undirrituð hefur ákveðið að gefa kost á sér í fyrsta sæti lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi í komandi alþingiskosningum. Ég tók sæti á Alþingi í nóvember síðastliðnum eftir að hafa verið varaþingmaður síðan 2003. Á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins hlaut ég afgerandi stuðning til forystu í flokknum og býð mig því fram til að leiða lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.

Gríðarlega stór verkefni eru framundan við að verja heimilin og fyrirtækin í landinu svo halda megi uppi því velferðarríki sem Framsóknarflokkurinn hefur átt þátt í að byggja. Hugmyndafræði framsóknarmanna um samvinnu, samstöðu og sanngirni verður lykilþáttur í úrlausn þeirra. Þessari hugmyndafræði hef ég haldið á lofti í mínu stjórnmálastarfi hingað til og mun gera áfram sem leiðtogi framsóknarmanna í Suðurkjördæmi.

Virðingarfyllst,
Eygló Harðardóttir
alþingismaður og ritari Framsóknarflokksins


Þegar vinirnir eiga ekki lengur pening...

Loksins, loksins ætla sjálfstæðismenn að leggja fram frumvarp um greiðsluaðlögun. Eftir heilmikla leit á Alþingisvefnum, tel ég mig geta fullyrt að þetta sé í fyrsta sinn sem eitthvað þessu líkt kemur upp í huga þeirra, en bæði framsóknarmenn og vinstri flokkar hafa lagt fram þess konar frumvörp áður. Nýjasta frumvarpið um greiðsluaðlögun lögðum við framsóknarmenn fram 26. janúar sl.

Samkvæmt Moggafréttinni var frumvarpið fullunnið af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar en náðist ekki að leggja fram á þingi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir í fréttinni: „Við teljum mjög brýnt að þetta komi fram, það er búið að boða okkur til þings á miðvikudag og við viljum sýna það strax að á okkar þingsflokksfundi núna áðan var ýtt á að við færum fram með þetta, enda var löngu búið að ákveða þessi mál,“ segir Þorgerður.

Til að sýna hversu hratt og vel sjálfstæðismenn hafa unnið í þessu máli má minna á að frumvarpi um greiðsluaðlögun var lofað strax á fyrstu dögum ríkisstjórnar Sjálfstæðismanna og Samfylkingarinnar. Babb kom þó í bátinn, sem má hugsanlega rekja til viðvörunar Lögmannafélagsins að þarna væri verið að ganga á réttindi fjármagnseigendanna. Nú þegar þeir eiga ekki lengur pening til að leggja í kosningasjóði þurfa sjálfstæðismenn ekki lengur að taka sérstakt tillit til þeirra.

(ath. niðurlag vistaðist ekki rétt í upphaflegri útgáfu sem birt var í gærkvöldi)


Helvítis andskotans...

Helvitis_andskotans_Framsokn

Þetta skrípó er að finna á vef Henrý Þórs Baldurssonar,  undir fyrirsögninni Helvítis andskotans Framsókn.

Segir hún ekki bara allt sem segja þarf.? 


Niðurstaða liggur fyrir

Þingflokkurinn hefur fallist á að verja ríkisstjórn Samfylkingar og VG vantrausti. Einnig er stefnt að kosningum 25. apríl nk., unnið verður að því að koma á stjórnlagaþingi sem semji nýja stjórnarskrá auk þess sem gripið verður til aðgerða til hjálpar heimilum og fyrirtækjum í landinu.

Miðstjórn Framsóknarflokksins mun koma saman á morgun og fara yfir málin og vona ég að sem flestir sjái sér fært að mæta. Nánari upplýsingar um fundartíma og fundarstað verður að finna á www.framsokn.is

PS: Ó, já - ef einhver er að velta því fyrir sér þá er Framsóknarflokkurinn ekki að fá einn eða neinn stól, hvorki ráðherrastól né forseta Alþingis.


mbl.is Framsókn ver nýja stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumurinn um nýtt Ísland

Upphafleg skilyrði Framsóknarflokksins fyrir að verja minnihlutastjórn VG og S vantrausti voru skýr.

  1. Kosningar í síðasta lagi 25. apríl nk.
  2. Strax verði ráðist í aðgerðir til að koma til móts við skuldsett heimili í landinu og bæta rekstrarskilyrði íslensks atvinnulífs.  Í því felst meðal annars að mörkuð verði stefna í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar.
  3. Komið verði á stjórnlagaþingi sem semji nýja stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.

Ljóst er að allir þrír flokkarnir eru sammála um þessi meginmarkmið.  Enginn ágreiningur er um lokamarkmiðin, heldur snýst þetta um raunhæfar leiðir að markmiðunum.  Leiðirnar eru sérstaklega mikilvægar þar sem ríkisstjórninni er ætlað að starfa í mjög skamman tíma.

Geysilega mikið er undir, framtíð þjóðarinnar og von okkar allra um betra samfélag byggt á samfélagslegri ábyrgð, sanngirni, samvinnu og samstöðu.

Draumurinn um nýtt Ísland.


mbl.is Ný ríkisstjórn eftir helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband