21.9.2010 | 07:16
Mannréttindi tryggð
Fyrrverandi forsætisráðherra, Þorsteinn Pálsson fullyrðir að þeir fyrrverandi ráðherrar sem Alþingi íhugar nú að stefna fyrir Landsdóm sæti málsmeðferð sem stríði gegn mannréttindum. Einu rök hans virðast vera að Landsdómur byggi á stjórnskipun nítjándu aldar. Því sé réttlætanlegt að víkja til hliðar stjórnarskrá og lögum landsins. Mannréttindi sem hluta af nútíma stjórnskipun má rekja til nokkurra sögulegra skjala; hins breska Magna Carta (1215), frönsku mannréttindayfirlýsingarinnar (1789), mannréttindaviðauka bandarísku stjórnarskrárinnar (1789) og mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna (1948). Það eitt að lögin um Landsdóm eigi sér gamlar rætur þýðir því ekki sjálfkrafa að þau stríði gegn nútíma mannréttindum.
Ég tel þvert á móti að vel hafi verið gætt að mannréttindum í meðferð málsins og treysti að svo mun verða áfram ákveði Alþingi að stefna umræddum fyrrum ráðherrum fyrir Landsdóm.
Þá afstöðu mína byggi ég m.a. á niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í máli danska ráðherrans Erik Ninn-Hansen. Danska þingið skipaði rannsóknarrétt, sambærilegan við rannsóknarnefnd Alþingis, til að rannsaka hvort einstaklingar innan stjórnkerfisins hefðu brotið lög um pólitíska flóttamenn og fjölskyldur þeirra. Ráðherra fékk afrit af yfirheyrslum en þær voru annars að mestu leyti opinberar. Ráðherra fékk einnig að hafa með sér lögfræðing og gat neitað að tjá sig til að bera ekki á sig sök. Sama gilti hér, en til viðbótar samþykkti Alþingi að ekki mætti byggja á yfirheyrslunum fyrir dómstólum.
Skýrsla rannsóknaréttarins danska var tekin fyrir í þingskapanefnd danska þingsins og meirihluti nefndarinnar samþykkti að stefna ráðherranum fyrir ríkisrétt. Þar komu ráðherrar ekki fyrir nefndina. Hér fengu ráðherrar tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum skriflega á framfæri við þingmannanefndina.
Í kærunni til Mannréttindadómstóls Evrópu var m.a. kvartað undan óréttlátri málsmeðferð fyrir rannsóknarréttinum, að ríkisrétturinn hafi ekki verið óháður og óvilhallur dómstóll, að sakborningur hefði ekki fengið að leiða vitni fyrir dóminn, að heimilað hefði verið að leggja afrit yfirheyrsla fyrir rannsóknarréttinum fyrir ríkisréttinn, að meðferð málsins hefði haldið áfram þrátt fyrir slæmt heilsufar sakbornings og málinu ekki lokið innan hæfilegs tíma.
Öllum kæruatriðum var vísað frá. Þar sem réttindi íslensku ráðherranna fyrrverandi eru jafnvel betur tryggð en þess danska tel ég að hin íslenska málsmeðferð standist kröfur Mannréttindadómstóls Evrópu.
Ákvörðun Alþingis verður því að byggjast á efnisatriðum málsins.
(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. september 2010)
30.8.2010 | 08:09
Að fá svör frá framkvæmdavaldinu...
Í dag heldur viðskiptanefnd og efnahags- og skattanefnd sameiginlegan fund. Fundarefnið er gengistrygging lána, áhrif þeirra á uppgjör bankanna og vinnubrögð stjórnsýslunnar.
Kl. 14.30 ætla fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra að mæta.
Kl. 15.30 mæta fulltrúar Fjármálaeftirlitsins, Seðlabanka Íslands og Bankasýslunnar.
Erfiðlega gekk að fá svör við ýmsum spurningum nefndarmanna á síðasta sameiginlega fundi, eða þar til við lögðum fram skriflegar spurningar. Hafa hugsanlega ekki skilið þær munnlega... Alþingi hefur nú birt svörin á vefsíðu sinni frá FME og SÍ en enn þá vantar að birta svör ráðuneytis efnahags- og viðskiptamála.
Til að menn átti sig betur á hversu vel gengur yfirleitt að fá svör frá framkvæmdavaldinu þá getur verið mjög upplýsandi að kíkja á þennan bút úr Já, ráðherra ;)
27.8.2010 | 18:34
Ástur Árna Páls
Ástu Ragnheiði var sparkað úr Félagsmálaráðuneytinu svo Árni Páll kæmist inn.
Árni Páll gerði hvað hann gat til að komast hjá því að ráða Ástu Sigrúnu sem umboðsmann skuldara svo hann gæti komið karli að.
Nú er Árni Páll orðinn svartur á tungunni við að reyna að koma í veg fyrir að Ásta H. Bragadóttir verði ráðin framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs svo hann komi karli að.
Hefur Árni Páll eitthvað á móti konum, eða bara konum sem heita Ásta?
Hvað næst? Verður Ásta Ragnheiður sett af sem forseti Alþingis fyrir einhvern kall?
16.8.2010 | 19:22
Jóhanna stendur með litla manninum...
Gylfi Magnússon er búinn að biðjast afsökunar, nokkurn veginn. Hann er einnig greinilega búinn að íhuga stöðu sína, velt fyrir sér hvort að hann ætti að hætta eða ekki og komist að þeirri niðurstöðu að hann mun hætta.
Bara ekki núna.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra telur að ómaklega hafi verið vegið að viðskiptaráðherra og virðist finna mikið til með aumingja manninum.
Ég myndi eflaust geta fundið til einhverjar samúðar við ráðherranum ef ég væri ekki svona þurrausin.
Öll mín samúð og vorkunnsemi hefur nefnilega farið til fólksins sem staðið hefur í stríði við fjármálafyrirtækin undanfarin tvö ár. Allt fólkið sem hefur misst heimilin sín, bílana sína, vinnuna sína, fyrirtækin sín, fjölskylduna sína, föðurlandið sitt og í einstaka tilfellum líf sitt vegna gengistryggðu lánanna.
Í raun er það aðalatriði málsins.
Ekki hvort ráðherrann hafi óviljandi eða viljandi sagt Alþingi rangt frá. Ekki hvort lögfræðiálitin voru eitt eða tvö eða þrjú. Heldur sú staðreynd að stjórnvöld höfðu rökstuddan grun um ólögmætt athæfi fjármálafyrirtækjanna og völdu að gera ekki neitt.
Á meðan þjáðustu þúsundir Íslendinga og gera enn.
Svona stendur víst Jóhanna með litla manninum árið 2010...
Gylfi situr áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.8.2010 | 15:48
Ráðherra og háskólarnir
Fátt er meira bloggað um núna en umboðsmanninn, ráðherrann, pólitík og siðferði. Það er mjög freistandi að steypa sér inn í þá umræðu og bæta við það sem ég hef þegar skrifað í fyrri pistli mínum.
En í dag vil ég frekar hrósa en gagnrýna. Hrósið í dag fær Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra. Hún tók ákvörðun um að setja 1 milljón króna í að rannsaka þátt háskólanna í hruninu. Ég hef oft velt fyrir mér hvers vegna svona lítil gagnrýni kom frá háskólunum á íslenskt efnahags- og viðskiptalíf fyrir hrun. Samhliða hef ég einnig talið að við yrðum að skoða hvernig staðið er að ráðningum inn í háskólana og því umbunarkerfi sem þar er til staðar.
Styrknum er ætlað að styrkja rannsóknir á þátt háskólakerfisins í hruninu og vonandi vekja fræðimenn og stjórnendur háskóla til umhugsunar um siðferðilega ábyrgð þeirra og skyldur við samfélagið.
Við verðum að tryggja að við veljum hæfasta fólkið inn í háskólana (ekki á grundvelli stjórnmálaskoðana) og um leið búa til þannig starfsumhverfi að það getið tjáð sig á grundvelli sinnar fagþekkingar.
Oft erum við stjórnmálamennirnir viðkvæmir fyrir gagnrýni sem kemur frá fræðimönnum, en ég tel mjög mikilvægt að þeir taki virkan þátt í opinberri umræðu. Vonandi mun þessi rannsókn sem Páll Skúlason á að leiða skila tillögum um hvernig við getum bætt háskólaumhverfið og gert háskólana að alvöru gagnrýnendum á íslenskt samfélag.
Ég er reyndar þeirrar skoðunar að Katrín sé að standa sig vel í erfiðu ráðuneyti á niðurskurðartímum. Hún hlustar og tekur vel við gagnrýni. Stundum má segja að það eina sem ég get gagnrýnt hana fyrir er að vera ekki ákveðnari, sem nú heilmikið sagt verandi stjórnarandstæðingur í menntamálanefnd ;)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.7.2010 | 13:10
Pólitískar ráðningar
Leiðarinn hennar Steinunnar Stefánsdóttur í FBL í morgun er mjög áhugaverður. Þar skrifar hún:
"Eftir langt skeið skeið hægristjórnar á Íslandi með tilheyrandi ráðningum á vildarvinum um alla stjórnsýslu og dómskerfi voru margir vinstrimenn svo bláeygir að halda að þegar vinstristjórn tæki við völdum þá myndi kaflanum um tengsla- og greiðaráðningar í stjórnsýslusögunni ljúka, að minnsta kosti í bili. Það fór þó ekki svo þótt vera kunni að tengslaráðningarnar séu ekki alveg eins blygðunarlausar og áður. Um þetta tala mörg dæmi og sum splunkuný.
Það er alls ekki skrýtið þegar ný pólitísk öfl taka við völdum að stjórnmálafólk, ráðherrar og sveitarstjórnarfólk til dæmis, vilji velja með sér fagfólk, fólk sem það þekkir og treystir. Það er hins vegar ámælisvert þegar hlutirnir eru ekki kallaðir réttum nöfnum. Öllum á að vera ljóst hvaða stöður eru pólitískar stöður og hvaða stöður eru það ekki og ráðningarferlið í stöðurnar á að vera í samræmi við það."
Væntingar kjósenda VG og Samfylkingarinnar voru eflaust miklar þess efnis að nú ætti að breyta vinnubrögðunum. Vonbrigðin hafa því verið mikil.
Eitt af því sem rannsóknarnefndarskýrslan kennir okkur er mikilvægi þess að hæfustu einstaklingarnir séu valdir inn í embættismannakerfið. Pólítískar ráðningar eigi líka að geta verið faglegar, - því á endanum hljóta bæði kjörnir fulltrúar og kjósendur að njóta góðs af því að velja hæfasta og besta fólkið hverju sinni.
28.7.2010 | 08:49
Hvar er Sóley?
27.7.2010 | 16:53
Bíð enn eftir SÍ og FME...
Þann 13. júlí síðastliðinn var haldinn sameiginlegur fundur efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar um forsendur tilmæla Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.
Á fundinum lögðum við Birkir Jón Jónsson fram skriflegar spurningar og óskuðum eftir að FME, SÍ og efnahags- og viðskiptaráðuneytið svöruðum þeim eftir bestu getu.
Í dag þann 27. júlí hefur aðeins efnahags- og viðskiptaráðuneytið haft fyrir að svara spurningum okkar, en þó að mjög takmörkuðu leyti. SÍ hefur þó svarað fyrirspurn umboðsmanns Alþingis, en hér má finna svarbréf bankans.
Hér má finna þær spurningar sem við lögðum fyrir þessar stofnanir:
Tilmælin
1. Á hvaða lögfræðilega mati byggjast tilmæli Seðlabankans og FME? (Minnisblað eða annar rökstuðningur fyrir lögmæti þeirra, t.d. frá lögfræðisviði bankans eða utanaðkomandi lögfræðilegu mati og/eða útreikningar).
2. Er hætta á mögulegri skaðabótaábyrgð ríksins vegna tilmæla FME og SÍ?
3. Hver er skoðun FME, SÍ og ráðuneytisins á tilmælum talsmanns neytenda og tilmælum HH?
4. Hyggjast ráðuneytið og stofnanir bregðast á einhvern hátt við tilmælum talsmanns neytenda?
Ábyrgð
5. Voru gerðir útreikningar um mögulega niðurstöðu dómsins og áhrif á fjármálastöðugleika fyrir dóminn? Miðað við eftirfarandi forsendur: Lögleg, samningsvextir, óverðtryggðir vextir Seðlabankans, verðtrygging plús samningsvextir, bílalán, húsnæðislán og fyrirtækjalán.
6. Er til lögfræðiálit sem Seðlabankinn og FME létu gera fyrir dóminn um væntanlegt lögmæti gengistryggðra lána? (Fá lögfræðiálit).
7. Hver ber ábyrgð á því að samþykkja uppgjör milli gömlu og nýju bankanna án þess að gera ráð fyrir því að það væri vafi á lögmæti gengistryggðra lána? Hver ber ábyrgð innan FME, hver ber ábyrgð innan SÍ, hver ber ábyrgð innan efnahags- og viðskiptaráðuneytis?
8. Á hvern máta hafa viðkomandi axlað ábyrgð eða hyggjast axla ábyrgð á mögulegu 100 milljarða króna tapi ríkissjóðs, skv. yfirlýsingum efnahags- og viðskiptaráðherra?
9. Hverjar eru líkurnar á mögulegum skaðabótakröfum frá kröfuhöfum vegna uppgjörsins á milli gömlu og nýju bankanna, þar sem ekki var tekið tillit til þess við uppgjörið að vafi leiki á lögmæti gengistryggðu lánanna?
Icesave
10. Hver verða áhrif dómsins á Icesave?
11. Er búið að reikna áhrif dómsins á heimtur úr gamla Landsbankanum vegna Icesave út frá þeim forsendum að öll bílalán, húsnæðislán og fyrirtækjalán verði gerð upp miðað við samningsvexti, vexti Seðlabankans?
Það má kannski vona að þeir finni tíma til að svara þingmönnum þegar búið er að svara umboðsmanni Alþingis...
24.7.2010 | 14:25
Verðtrygging - skuldir - réttlæti
Það hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með umræðunni í athugasemdunum undanfarinn sólarhring. Mjög margt hefur verið undir, allt frá sanngirni, réttlæti, verðtrygging, skuldir, forsendubrestur svo maður gleymi nú ekki tjáningafrelsinu.
Ég er að melta þetta allt saman, sérstaklega viðhorf okkar Íslendinga til skulda og þeirra sem skulda.
Svona á meðan ég er að reyna að púsla þessu saman, þá vildi ég samt koma eftirfarandi á framfæri varðandi verðtrygginguna. Ég held að enginn stjórnmálaflokkur hafi viljað gera meira fyrir fólk sem tók verðtryggð lán en Framsóknarflokkurinn. Tillaga okkar um 20% leiðréttingu byggðist þá á þeim forsendubresti sem við töldum alla lántakendur hafa orðið fyrir, bæði þá sem eru með verðtryggð lán og gengistryggð lán. Við höfum margítrekað lagt fram tillögu um 20% leiðréttingu eða almenna leiðréttingu á skuldum heimilanna, nú síðast í þjóðarsáttartillögum okkar.
Ég hef í tvígang lagt fram frumvarp um að setja þak á verðtrygginguna á meðan við værum að leita leiða til að afnema verðtrygginguna enn frekar. Við sömdum um að haldinn yrðinn opinn fundur um verðtrygginguna í viðskiptanefnd, sem má finna hér.
Við tvö þinglok höfum við lagt megináherslu á að ná samkomulagi við stjórnarmeirihlutann um hvernig við getum dregið úr vægi verðtryggingar í íslensku samfélagi, annað hvort á grundvelli okkar tillagna eða annarra tillagna sem stjórnarliðar væru tilbúnir að leggja fram.
Það varð að samkomulagi fyrir þinghlé að viðskiptanefnd legði fram frumvarp um skipan þverpólitískrar nefndar sem kanni forsendur verðtryggingar á Íslandi, meti kosti og galla þess að dregið verði úr vægi verðtryggingar í íslensku fjármálakerfi og hvaða leiðir eru hagfelldastar í því skyni. Nefndin á að skoða á heildstæðan hátt áhrif verðtryggingar á lántaka og lánveitendur sem og áhrif hennar á virkni hagstjórnar og efnahagslegan stöðugleika almennt. Hún á jafnframt a leggja fram tillögur til að draga úr umfangi verðtryggingar án þess að fjármálastöðugleika sé ógnað.
Samkomulag varð um að framsóknarmenn leiddu þá vinnu og að ég tæki sæti í nefndinni fyrir hönd flokksins. Nefndin á að skila af sér í lok árs 2010.
Það sem ég tel mjög áhugavert að skoða eru tengsl og samspil verðtryggingar, vaxta, óstöðugleika, stjórnun peningamála, inn- og útlána og hegðun okkar í verðtryggðu umhverfi. Hvernig losnum við við verðbólgu? Hvernig getum við lækkað vexti á Íslandi? Hvaða peningamálastefnu viljum við hafa?
Ef okkur tækist að lækka vexti varanlega og verðbólgu, - værum við þá að ræða fram og tilbaka óverðtryggða eða verðtryggða vexti SÍ eða samningsvexti á lánasamningum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)