Verðtrygging - skuldir - réttlæti

Það hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með umræðunni í athugasemdunum undanfarinn sólarhring.  Mjög margt hefur verið undir, allt frá sanngirni, réttlæti, verðtrygging, skuldir, forsendubrestur svo maður gleymi nú ekki tjáningafrelsinu.

Ég er að melta þetta allt saman, sérstaklega viðhorf okkar Íslendinga til skulda og þeirra sem skulda. 

Svona á meðan ég er að reyna að púsla þessu saman, þá vildi ég samt koma eftirfarandi á framfæri varðandi verðtrygginguna.  Ég held að enginn stjórnmálaflokkur hafi viljað gera meira fyrir fólk sem tók verðtryggð lán en Framsóknarflokkurinn.  Tillaga okkar um 20% leiðréttingu byggðist þá á þeim forsendubresti sem við töldum alla lántakendur hafa orðið fyrir, bæði þá sem eru með verðtryggð lán og gengistryggð lán.  Við höfum margítrekað lagt fram tillögu um 20% leiðréttingu eða almenna leiðréttingu á skuldum heimilanna, nú síðast í þjóðarsáttartillögum okkar

Ég hef í tvígang lagt fram frumvarp um að setja þak á verðtrygginguna á meðan við værum að leita leiða til að afnema verðtrygginguna enn frekar. Við sömdum um að haldinn yrðinn opinn fundur um verðtrygginguna í viðskiptanefnd, sem má finna hér.

Við tvö þinglok höfum við lagt megináherslu á að ná samkomulagi við stjórnarmeirihlutann um hvernig við getum dregið úr vægi verðtryggingar í íslensku samfélagi, annað hvort á grundvelli okkar tillagna eða annarra tillagna sem stjórnarliðar væru tilbúnir að leggja fram.

Það varð að samkomulagi fyrir þinghlé að viðskiptanefnd legði fram frumvarp um skipan þverpólitískrar nefndar  sem kanni forsendur verðtryggingar á Íslandi, meti kosti og galla þess að dregið verði úr vægi verðtryggingar í íslensku fjármálakerfi og hvaða leiðir eru hagfelldastar í því skyni. Nefndin á að skoða á heildstæðan hátt áhrif verðtryggingar á lántaka og lánveitendur sem og áhrif hennar á virkni hagstjórnar og efnahagslegan stöðugleika almennt.  Hún á jafnframt a leggja fram tillögur til að draga úr umfangi verðtryggingar án þess að fjármálastöðugleika sé ógnað. 

Samkomulag varð um að framsóknarmenn leiddu þá vinnu og að ég tæki sæti í nefndinni fyrir hönd flokksins. Nefndin á að skila af sér í lok árs 2010.

Það sem ég tel mjög áhugavert að skoða eru tengsl og samspil verðtryggingar, vaxta, óstöðugleika, stjórnun peningamála, inn- og útlána og hegðun okkar í verðtryggðu umhverfi.  Hvernig losnum við við verðbólgu?   Hvernig getum við lækkað vexti á Íslandi?  Hvaða peningamálastefnu viljum við hafa?  

Ef okkur tækist að lækka vexti varanlega og verðbólgu, - værum við þá að ræða fram og tilbaka óverðtryggða eða verðtryggða vexti SÍ eða samningsvexti á lánasamningum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þú ert að gera góða hluti öfugt við marga samþingmenn þína Eygló. En ég er þeirrar skoðunar að verðtryggingin sé eins og tannpína á efnahagslífinu. Eina ráðið er að afnema hana með lögum. Við vitum öll að verðtryggingin og vaxtaokrið haldast í hendur af því verðtrygging ýtir undir verðbólgu sem aftur viðheldur háum vöxtum. En pólitíkusar með ríkisstjórn í broddi fylkingar hafa framselt vald á efnahagsstjórnun í hendur Seðlabanka vegna þess að Seðlabankanum hafa alltaf stýrt pólitískir eftirlaunaþegar. Þessvegna hefur þetta kerfi þótt þægilegt. Ef pólitíkusar vilja ekki taka ábyrgð þá verðum við að taka upp aðra mynt og þarafleiðandi gangast undir vald erlends Seðlabanka.  Ég tek það fram að ég er ekki hlynntur aðild að ESB. Mér finnst ekki fullreynt að við getum stjórnað okkar málum

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.7.2010 kl. 15:34

2 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Ef það á að takast að afnema verðtryggingu þá verður að takast mun betur með hagstjórn en undanfarna áratugi.

Sigurður Sigurðsson, 24.7.2010 kl. 17:07

3 identicon

Nú hefur Seðlabankinn fengið það staðfest í héraðsdómi að landsmenn skulu borga lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabankans, af gengisbundnu lánunum,ca. 15-18%.

Þá væri nú mjög fróðlegt að vita á hvaða kjörum Seðlabankinn lánaði Kaupþing 80 miljarða með veði FIH bankanum, það væri gaman að bera þessa vexti saman. Og væri nú ekki ráð fyrir Steingrím að fara að innheimta þessa 80 miljarða + vexti áður en hann hækkar skatta meira á almenning í landinu.

Síðan eru það Jón og Gunna í Grafarvoginum sem sem eru með verðtryggt lán, og skilja ekki upp eða niður í því að lánið hækkar alltaf þegar Steingrímur hækkar álögur á vín og tóbak,

því hvorugt þeirra hefur nokkurntíman reykt, eð notað áfengi.

Siggi T (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 16:07

4 identicon

Og aðilar eins go Saga capital fengu 2% frá Steingrimi.

Friðjón (IP-tala skráð) 26.7.2010 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband