560 þús. tonn af CO2!

Þegar vinstri menn eru spurðir um hvað eigi að koma í stað stóriðju, er gjarnan bent á ferðaþjónustu.  Steini Briem, mikill bloggvinur minn, hefur t.d. ritað heilu ritgerðirnar um ágæti ferðaþjónustu umfram stóriðju.  Spár um fjölgun ferðamanna telja að innan skamms muni um einn milljón erlendra ferðamanna koma hingað árlega.  Ef hver og einn þeirra eyðir um 100 þús. kr mun atvinnugreinin velta um 100 milljörðum króna árlega um land allt.  

Gefum Steina orðið:  “Um 400 þúsund erlendir ferðamenn komu hingað í fyrra og fyrstu tvo mánuði þess árs fjölgaði þeim um 20,5% miðað við sama tímabil í fyrra.  MEÐ SAMA ÁFRAMHALDI VERÐA FERÐAMENNIRNIR ÞVÍ ORÐNIR EIN MILLJÓN Á ÁRI EFTIR EINUNGIS FIMM ÁR, árið 2012, og heildartekjurnar af þeim hefðu þá aukist um 55 milljarða króna Á ÁRI á þessu fimm ára tímabili, úr 45 milljörðum nú í 100 milljarða króna á ári.” 

Ég spurði á móti: Hvað með mengunina frá ferðaþjónustunni?  Einn ferðamaður sem flýgur fram og tilbaka frá London til Keflavíkur mengar um 0,42 tonn af CO2.  Hann vill heimsækja stærsta þjóðgarð Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarð og ekur 904 km fram og tilbaka frá Reykjavík til Hornafjarðar.   Mengun frá sparneytnum bíl er 0.14 tonn af CO2.

Til einföldunar gefum okkur að 1 milljón ferðamanna komi allir frá London og fari bara til Hornafjarðar og aftur (og skilji 100 milljarðana eftir í mínu kjördæmi Wink). Heildarmengunin af CO2 yrði 560 þús. tonn árlega eða svipað og landbúnaður, og alls ekki langt frá öllum samgöngum landsins eða fiskiskipunum árið 2004.  

Fjölgun ferðamanna þýðir einnig að bæta þarf samgöngukerfið til muna og jafnvel byggja vegi og húsnæði á viðkvæmum eða vernduðum svæðum.  Þetta er umræða sem Norra Dalarna í Svíþjóð hafa þurft að fara í gegnum og tapað ítrekað.  Fyrst 1998 og nú aftur þar sem sænska ríkisstjórnin hefur hafnað hugmyndum um að byggja upp útvistarsvæði til skíðaiðkunar sem myndi tengja fjöllin Städjan og Idre í Dalarna.

En þetta er umræða sem er ekki einu sinni hafin hér á landi.

PS. Góðu fréttirnar eru að við getum keypt okkur syndaaflausn eða mengunarkvóta hjá ClimateCare  fyrir aðeins tæpar 500 milljónir kr. á ári.  Suðurlandsskógar gætu jafnvel séð þetta sem viðskiptatækifæri og við keypt kvótann af þeim.  Þannig værum við 99,5 milljörðum króna í plús. 

Af hverju var enginn búinn að benda Alcan á þetta? 


Aumingja Posh

Nú er víst hafin herferð gegn því að Victoria Beckham flytji til Bandaríkjanna með maka sínum.  Aumingja konan,  - stutt er síðan ritstjórar US Weekly heimtuðu að hún breytti innri klæðaburði sínum fyrst hún ætlaði að setjast í landi hinna frjálsu og vill fatahönnuðurinn Sheila Cameron að hún komi bara alls ekki.

Ég geri ráð fyrir að Posh muni nú hunsa þetta líkt og vinkona hennar Katie Holmes gerði gagnvart sínum maka.

PS. Skyldi Cameron vera að kynna nýja fatalínu? 


mbl.is Vilja Becks án Posh
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rasismi eða fordómar?

Mikill fjöldi erlendra ríkisborgara á Íslandi á undanförnu virðist valda sumum áhyggjum.  Frjálslyndi flokkurinn stefnir markviss á að nýta sér þessa hræðslu í kosningunum, og hóf þá ógeðfelldu baráttu ma. með heilsíðu auglýsingu í Morgunblaðinu í síðustu viku.  Sumir hafa viljað kalla málflutning þeirra rasisma. 

Páll Vilhjálmsson, blaðamaður og bloggari, mótmælir notkun þessa orðs á þeirri forsendu að orðið rasismi þýðir kynþáttastefna eða kynþáttahatur og telur að í auglýsingunni og væntanlega málflutningi þeirra felist engin slík skilaboð.  Væntanlega hefur Páll sleppt því að lesa greinar og erindi Jóns Magnússonar um fólk frá ólíkum menningarheimum eða öðrum trúarbrögðum.  

Það getur vel verið að Frjálslyndir hafi passað sig á því að ráðast ekki sérstaklega á kynþætti, en þeir hafa svo sannarlega orðið uppvísir að fordómum gagnvart innflytjendum.  Ræða Guðjóns Arnars á flokksþingi þeirra sýndi það og sannaði.

Páll talar um mikilvægi þess að útlendingar aðlagist íslensku samfélagi.  Ég get alveg tekið undir að aðlögun skiptir máli.  Aðlögun nýbúa og okkar hinna.  Fordómar og hræðsla við það sem við þekkjum ekki byggist á fáfræði, og við verðum öll að aðlagast með breyttu samfélagi.  

Ég skil heldur ekki hvernig við getum talið það gott og eðlilegt að Íslendingar geti farið út um allan heim, unnið og stundað nám, rekið fyrirtæki og ég veit ekki hvað.  En við hikstum þegar borgarar annarra ríkja vilja koma hingað, stunda nám og vinnu og reka hér fyrirtæki.  

Einhvern veginn hélt ég að við hefðum náð meiri þroska en þetta.


Til hamingju

Gullbergið var að koma, og var mikill fjöldi til að taka á móti því.  Allir glaðir og ánægðir.  Nýtt skip er tilefni til að fagna í Vestmannaeyjum, - enda skiptir fátt meira máli hér en að sjávarútvegurinn gangi vel.  

Stutt er síðan tekið var á móti Vestmannaeynni, nú var Gullbergið að sigla inn í höfnina og mér skilst að það sé vona á tveimur skipum í viðbót.  Vinnslustöðin er á fullu að undirbúa byggingu kæligeymslu þannig að það er greinilegt að menn hafa trú á greininni og áframhaldandi velgegni hennar hér í Eyjum.

Innilega til hamingju! 


mbl.is Nýtt skip til Vestmannaeyja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitthvað annað

Margrét Sverrisdóttir, varaformaður bráðabirgðarstjórnar Íslandshreyfingarinnar, segist vera með nýja hugsun, enda komin með nýjan flokk og nýja félaga.  

Þá segir hún niðurstöðuna sýna að stjórnmál 21. aldarinnar þurfi að snúast um mannauð, hugvit og nýsköpun en Íslandshreyfingin fær 5,2% atkvæða samkvæmt könnuninni. 

Vá, - hún er bara að enduruppgötva hjólið.

Hvað annað hafa árin frá því við fengum heimastjórnina snúist um annað en mannauð, hugvit og nýsköpun?  Við búum á landi sem hefur mjög takmarkaðar auðlindir: Fiskinn í sjónum, orkuna og fólkið.  Þrátt fyrir það erum við í dag ein ríkasta þjóð heims skv. mælikvörðum OECD.

En það er gott að vita að Margrét er komin með nýja hugsun.  Við fáum vonandi fljótlega að vita hvað hún og félagar ætla að gera með þessa nýja hugsun fyrir utan að stöðva álversframkvæmdir og ná markmiði Davíðs um 5% atvinnuleysi innan þriggja ára.

 


Bókaormur

Amazon.com er uppáhaldsvefur hjá mér.  Það er ekkert sem er skemmtilegra en að geta skoðað bækur um allt á milli himins og jarðar án þess að fara að heiman.  Vefurinn varð enn betri þegar, líkt og í venjulegum bókabúðum, ég gat farið að skoða inn í bækurnar.  En ekkert er fullkomið, ekki einu sinni Amazon.  

´Recommendations´ pirra mig óendanlega.  Ég hef verið í heimsókn og skoðað fullt af bókum um meðgöngu og af einhverri ástæðu, þegar ég kem næst er forsíðan full af bókum um meðgöngu og fæðingu.  Trúið mér! Móðir með nýfætt barn hefur engan áhuga á einu eða neinu sem varðar fæðingu og meðgöngu!  

En eftir að hafa setið á rúmstokknum hjá mér einn morguninn og skoðað bókahrúguna á náttborðinu, undir náttborðinu og rúminu þá held ég að þeir muni aldrei ná markmiði sínu um að gefa mér góð meðmæli.  Hér kemur listinn (ekki ritskoðaður, eins og ég gruna alltaf fólkið sem segist bara lesa Vonnegut eða Laxness):
  • Prime Time e. Liza Marklund.  Ýkt góður sænskur rithöfundur, skrifar um blaðamanninn Annika Bengtzon
  • The further observations of Lady Whistledown e. J. Quinn, S. Enoch, K. Hawkins og M. Ryan. Fjórar stuttar ástarsögu sagðar af Lady Whistledown.
  • Bad Men e. John Connolly. Flottur thriller með yfirnáttúrulegu ívafi. 
  • Catherine de Medici e. Leonie Frieda. Ævisaga frönsku drottningamóðurinnar og einnar alræmdustu konu mannkynssögunnar.
  • Dansað við engil e. Åke Edwardson.  Glæpasaga sem gerist í London og Gautaborg, en ekki eins góð og Wallander.
  • Darkly dreaming Dexter e. Jeff Lindsay.  Flottur Dexter.
  • Italy e. Eyewitness Travel Guides.  Allt um Ítalíu.
  • The Barbed Coil e. J.V. Jones.  Ein flottasta science fantasy bók sem ég hef lesið.  
  • Dordogne e. Berlitz.  Um Dordogne hérað í Frakklandi.
  • Wintersmith, Thud og the Amazing Maurice and his Educated Rodents e. Terry Pratchett.  Uppáhaldshöfundurinn.
  • Islam – the Straight Path e. John L. Esposito.  Bók um Islamstrúnna.  Veit núna að Múhammeð var ekki bara trúarleiðtogi heldur pólitískur og hernaðarlegur snillingur sem sameinaði Saudi Arabíu.
Aumingja Amazon.

Ótrúlegt!

Þvílík og aðra eins frekju, yfirgang og kvenfyrirlitningu hef ég nú sjaldan heyrt eða lesið um á síðum slúðurblaðanna.  Að ritstjórar einhvers blaðs telji sig geta sagt konu hvort hún eigi að vera í ákveðinni tegund af undirfötum eða ekki!   Allt í þeim tilgangi að forða henni frá þeim ósköpum sem hendir ansi margar konur í þessum heimi, - þar að segja að brjóstin sígi með hækkandi aldri og barneignum.

Hvenær sást síðast svona bréf til einhvers karls um að hann ætti kannski að hætta greiða yfir, eða fara í líkamsrækt að því að maginn væri orðinn aðeins of stór, eða bara almennt lyfta sér soldið þar sem hrukkurnar væru orðnar svo margar?

Hnuss! 


mbl.is Viktoría beðin um að nota brjóstahaldara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG og D í eina sæng?

Mikil umræða hefur spunnist um bloggfærslu Péturs Gunnarssonar um orðróm um að Sjálfstæðisflokkurinn sé í viðræðum við Vinstri-Græna.  Pétur segist hafa heimildir fyrir því að Steingrímur hafi leitað til Geirs, en talsmenn VG Árni Þór og Hlynur Hallsson mótmæla hástöfum.

Jón Bjarnason reyndi í gærkvöldi að verjast (ekkert sérstaklega fimlega) spurningum Sigmunds Ernis um hvort VG gæti hugsað sér að fara í stjórnarsamstarf við Framsókn.  Hvernig stæði á því að aðalatriðið væri “Zero Framsókn” en Sjálfstæðisflokkurinn væri enn álitlegur samstarfskostur eftir 16 ára í ríkisstjórn, spurði Sigmundur Ernir og svo Egill Helgason.  Og Jón vildi bara ekkert svara svona leiðinlegri spurningu.

Ég verð að viðurkenna að ég hef þrælgaman af þessu.  Þarna eru VG á fullu að keppast við að verða stelpan sem gerir sama gagn, eins og forsætisráðherrann okkar orðaði svo pent einu sinni.  Sjálfstæðisflokkurinn er skíthræddur við að fá ekki stjórnarumboðið eftir næstu kosningar, líkt og formaður Heimdallar viðurkenndi í Silfrinu síðasta sunnudag og því er keppst við að mynda stjórnarmeirihluta fyrir kosningar.  

Eins og þetta komi kjósendum bara ekkert við!  

Einhver sagði eftir sveitarstjórnarkosningarnar að þeir væru orðnir þreyttir á að sama hvað þeir kysu þá kæmi alltaf Framsókn upp úr kössunum.  En ef það fer fram sem horfir þá verður væntanlega Sjálfstæðisflokkurinn sem kíkir upp úr kössunum, sama hvað kjósendur kjósa...

Undirskriftasöfnun vonbrigði

Framtíðarlandið var að ljúka undirskriftarsöfnun sinni.  Sjaldan held ég hafi jafn miklu fé verið eytt í undirskriftasöfnun og árangurinn var 8.169 nöfn.

Til samanburðar söfnuðust 32.044 undirskriftir um að DV endurskoðaði ritstjórnarstefnu sína. Alls 37.597 sögðu stopp við dauðaslysum í umferðinni á vegum Umferðarstofu.  Yfir 25 þúsund undirskriftir fengust um tvöföldun og lýsingu Suðurlandsvegar og um 2000 undirskriftir söfnuðust um bættar samgöngur við Vestmannaeyjar, án þess að krónu væri eytt í markaðssetningu.  

Þetta hljóta að vera forsvarsmönnum Framtíðarlandsins mikil vonbrigði.  


mbl.is Fulltrúar flokkanna gera grein fyrir afstöðu til umhverfismála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu fylgjast með?

Erindi mitt til Vestmannaeyjabæjar  um hvenær verð á skólamáltíðum o.fl. verði lækkað í samræmi við lækkun á virðisaukaskatti og vörugjöldum var tekið fyrir á fundi skólamálaráðs þann 20. mars sl.

Erindið var afgreitt á eftirfarandi máta:

Forsendur þess að Vestmannaeyjabær getur lækkað verð á útseldum matvælum án þess að auka niðurgreiðslur er að verð á aðkeyptum matvælum og hráefni lækki. Það hefur ekki gerst nema að óverulegu leyti. Ástæðan fyrir þessu er meðal annars hækkun á flutningsgjöldum.
Það skal tekið fram að matur til leik- og grunnskólabarna er niðurgreiddur af bænum, auk þess sem ýmis kostnaður við utanumhald er ekki inni í matarverði. Skólamálaráð beinir til starfsmanna fjölskyldu- og fræðslusviðs að halda áfram að fylgjast með þróun lækkunnar matvælaverðs og leita allra leiða til að stuðla að lækkun matarkostnaðar leik- og grunnskólabarna.

Frekar aumt, svo meira sé nú ekki sagt.

Á vefsíðu Neytendasamtakanna  kemur skýrt fram að mötuneyti, bæði í skólum og vinnustöðum eigi að lækka verð.  Rétt er að virðisaukaskattur er ekki lagður á mat sem er seldur í skólamötuneytum.  En sá matur sem er keyptur af bænum ber virðisaukaskatt, og því er í hæsta máta óeðlilegt að bæjarfélagið geri ekki þá kröfu til sinna byrgja að þeir lækki verð til bæjarins í samræmi við lækkun virðisaukaskattsins á matvæli og rafmagn, og lækkun vörugjalda á matvæli.  

Matvöruverslanir í bæjarfélaginu hafa þegar brugðist við og lækkað verð hjá sér í samræmi við lækkunina, þrátt fyrir aukinn flutningskostnað.  Eða eins og Neytendasamtökin segja á vefsíðu sinni: ”Þessi lækkun er ætluð neytendum og seljendum ber að skila þeim til neytenda.  Allt annað er óásættanlegt.”

Ég tek bara undir orð Neytendasamtakanna, - allt annað er óásættanlegt!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband