VG og D í eina sæng?

Mikil umræða hefur spunnist um bloggfærslu Péturs Gunnarssonar um orðróm um að Sjálfstæðisflokkurinn sé í viðræðum við Vinstri-Græna.  Pétur segist hafa heimildir fyrir því að Steingrímur hafi leitað til Geirs, en talsmenn VG Árni Þór og Hlynur Hallsson mótmæla hástöfum.

Jón Bjarnason reyndi í gærkvöldi að verjast (ekkert sérstaklega fimlega) spurningum Sigmunds Ernis um hvort VG gæti hugsað sér að fara í stjórnarsamstarf við Framsókn.  Hvernig stæði á því að aðalatriðið væri “Zero Framsókn” en Sjálfstæðisflokkurinn væri enn álitlegur samstarfskostur eftir 16 ára í ríkisstjórn, spurði Sigmundur Ernir og svo Egill Helgason.  Og Jón vildi bara ekkert svara svona leiðinlegri spurningu.

Ég verð að viðurkenna að ég hef þrælgaman af þessu.  Þarna eru VG á fullu að keppast við að verða stelpan sem gerir sama gagn, eins og forsætisráðherrann okkar orðaði svo pent einu sinni.  Sjálfstæðisflokkurinn er skíthræddur við að fá ekki stjórnarumboðið eftir næstu kosningar, líkt og formaður Heimdallar viðurkenndi í Silfrinu síðasta sunnudag og því er keppst við að mynda stjórnarmeirihluta fyrir kosningar.  

Eins og þetta komi kjósendum bara ekkert við!  

Einhver sagði eftir sveitarstjórnarkosningarnar að þeir væru orðnir þreyttir á að sama hvað þeir kysu þá kæmi alltaf Framsókn upp úr kössunum.  En ef það fer fram sem horfir þá verður væntanlega Sjálfstæðisflokkurinn sem kíkir upp úr kössunum, sama hvað kjósendur kjósa...

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Það er verst að Pétur skuli ekki hafa dregið þennan heimildarmann, eða önnur vitni fram í dagsljósið. Samkvæmt sögunni á ,,starfsmaður" Steingríms J. að hafa verið að viðra umrædda vitneskju sína um fund Steingríms og Geirs á brennivínsknæpu í Reykjavík í vitna viðurvist. Nú er bara að drífa eitthvert þessara vitna fram í dagsljósið og staðfesta Péturssöguna góðu. Ef það gerist ekki, er annað að sjá en að spunameistaranum hafi fatast flugið á heldur ófagmannlegan hátt.   

Jóhannes Ragnarsson, 29.3.2007 kl. 10:32

2 identicon

PÉTUR VINUR MINN hefur gaman af skáldskap, ég er búinn að þekkja hann í 20 ár, en hann er búinn að vera með svo mikla steypu og neikvæðni undanfarið að ég er að spá í að yrkja til hans neikvæði. Hins vegar vill hann endilega að ég fari að gagnrýna hans skrif aftur en nú í styttra máli en áður og sendi mér þessar línur í tölvupósti:

Ég veit þú kemur í kvöld til mín,
þó kveðjan væri stutt í gær,
ég trúi ekki á orðin þín,
ef annað segja stjörnur tvær.

Og þá mun allt verða eins og var,
sko áður en þú veist, þú veist,
og þetta eina sem út af bar,
okkar á milli í friði leyst.

Er þetta ekki stolið frá einhverjum Vestmanneyingi? Geta þeir ekki samið eitthvað sjálfir, þessir Framsóknarmenn?! Pétur hefur því örugglega fengið þennan skáldskap um þetta meinta kossaflens Sjalla og Vinstri grænna undir réttarveggnum frá einhverjum öðrum spekingi.

Steini Briem (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 12:15

3 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Þetta ágæta kvæði er eftir sjáfan Ása í Bæ, sem var sko alls enginn framsóknarmaður. Þar að auki er hér ekki um ástarljóð að ræða, þó einhverjir freistist til að halda annað.

Jóhannes Ragnarsson, 29.3.2007 kl. 13:13

4 identicon

Urgur í framsókn, hiti mönnum. Einhver fullur niðri bæ að babla yfir ölkrúsum og það orðið að fréttamat. Furðulegt...

Baldvin Esra Einarsson (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 01:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband