2.7.2007 | 20:24
Er landsbyggðin Darfur Íslands?
Öðru hverju berast fréttir af miklum hörmungum í Darfur, héraði í Súdan. Ástæðan fyrir ógnarástandinu er að íbúar Darfur dirfðust að gera kröfu um eðlilega hlutdeild m.a. í olíugróða landsins. Stjórnvöldum og íbúum í öðrum héruðum blöskraði algjörlega frekjan í Darfur-búum og gripu til ansi harkalegra aðgerða til að koma vitinu fyrir íbúana.
Nú er ég ekki að ætla að íslensk stjórnvöld eða íbúar höfuðborgarsvæðisins munu senda á íbúa landsbyggðarinnar vígamenn til að brenna, myrða og nauðga... en tóninn hefur nú ekki verið ósvipaður. Stöðugt heyrir maður talað um vælið í landsbyggðinni, eilífðarkröfur um ölmusu og lítinn skilning á aðstæðum íbúa sem búa utan stór-Reykjavíkursvæðisins. Þetta skilningsleysi birtist t.d. í skýrslu Hagfræðistofnunar um veiðar á þorski og niðurstöðu starfsmanna hennar að það gæti verið ágætt að hætta alveg að veiða þorsk í svona 2-3 ár. Staðan í þjóðfélaginu væri svo góð að auðvelt yrði að standa undir svona áfalli. Myndi jafnvel kæla efnahaginn aðeins, sagði einhver. Engu skiptir að landsbyggðin hefur meira og minna misst af þenslunni og góðærinu sem hefur verið á höfuðborgarsvæðinu.
Gestur í Vikulokunum á laugardaginn gaf til kynna að íbúarnir gætu bara sjálfum sér um kennt að byggja bara á sjávarútveginum. En hver eru viðbrögðin þegar reynt er að fjölga stoðunum í atvinnulífinu og nýta hina auðlind landsbyggðarinnar, jarðvarmann og fallvötnin? Sjaldan hefur meira verið tekist á í samfélaginu og um Kárahnjúka og álverið á Reyðarfirði.
Og nú um væntanlegt álver á Bakka. Það er staðreynd að álver mengar og til þess að mæta menguninni hafa stjórnendur Norðurþings samið um að álverið verði kolefnisjafnað með mikilli skógrækt. Fá sveitarfélög eru eins vel til uppgræðslu fallin og Norðurþing þar sem það nær yfir geysilegt gróðurvana landflæmi.
Nei, - þetta er bara syndaaflausn. Engu skiptir að þar væri komin ein stoð í viðbót í atvinnulífinu og jafnvel tvær með skóglendinu sem myndi nýtast bæði í ferðaþjónustu og hugsanlega skógarhöggi innan 10-20 ára.
Nei, við skulum frekar kolefnisjafna Volkswagen bíla og flugmiða til London.
PS. Og er ekki bara hægt að flytja þetta landsbyggðarlið í Kópavoginn, eins og allt eðlilegt fólk?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:29 | Facebook
Athugasemdir
Þessi grein hlýtur að egia að vera brandari, en hann fellur frekar stutt hjá mér. Íbúar Darfur eru kristnir og fjölgyðjutrúar og búa við trúarhreynsun Súdanskra Múslíma, sem. Múslímsk ríkisstjórnin þar notar arabíska leiguliða til að stunda útrýmingu svæðisins. Síðast sem ég vissu trúðu lansbyggðarmenn og borgarbúar á svipaða hluti. Þessi samlíking er annaðhvort lélegur brandari, eða frekar viðurstyggileg.
Guðjón (IP-tala skráð) 2.7.2007 kl. 21:10
Tímarnir breytast.
Einu sinni lifðum við á fiski nú lifum við á skuldapappíraframleiðslu. Sennilega snýst það við þegar allt er komið á annað vænginn, með öðrum orðum þegar allir eru orðnir kaupendur að viðteknum gildum og enginn seljandi er eftir. Menn yfirskjóta alltaf hvort sem er upp eða niður á við. Það er vegna þess að þeir skilja ekki sem gjörla að innra eðli mannsins breytist aldrei nokkurn skapaðan hlut á þúsundum ára. Hann stjórnast mikið til á græðgi og ótta og hefur alltaf gert. Valdhafarnir og þeirra handbendi spila síðan á þetta.
Baldur Fjölnisson, 2.7.2007 kl. 21:45
Mér finnst alveg merkilegt þetta tískuorð í dag, "kolefnisjöfnun".
Þú kolefnisjafnar ekki heilt álver með nokkrum hríslum uppi í sveit. Efast um að allur landsmassi Íslands dygði til þess.
Það er löngu upplýst að yfir 95% kolefnis úr andrúmslofti er geymt í höfunum, og losnar þaðan þegar höfin hlýna og taka það svo aftur í sig þegar þau kólna. Kannski smá einföldun, en svona í meginatriðum.
Norðmenn mega svo sem eiga það að þeir eru byrjaðir á tilraunum með að binda koldíoxíð í hafið aftur, með sérstaklega hönnuðum (bor)pöllum í Norðursjó.
Þeir sem tala um að þetta og hitt sé "kolefnisjafnað" og þar af leiðandi "grænt" eru bara að slá ryki í augu almennings til að selja sína vöru/hugmynd.
Ívar Jón Arnarson, 2.7.2007 kl. 22:17
Skammastu þín, Eygló. Þessi samlíking er svæsin smekkleysa og ber vott bæði um dómgreindarleysi og heimóttarskap.
Valdimar (IP-tala skráð) 2.7.2007 kl. 22:51
það væri fínt að hafa staðreyndir um Darfur á hreinu, áður en lagt er í blogg vinsamlega lesa komment #1 og leiðrétta.
halkatla, 2.7.2007 kl. 22:54
Búin að leiðrétta, og áður en ég las komment nr. 1, Anna Karen, en takk fyrir ábendinguna.
Valdimar og Guðjón, ég segi í greininni að ég geri ekki ráð fyrir að sendir verði vopnaðir vígamenn á okkur, en að tóninn væri ekkert ósvipaður. Ég tel að niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar varðandi þorskaflann muni virka líkt og borinn hafi verið eldur að mörgum sjávarbyggðum. Fólk stendur eftir, án atvinnu og húsnæðis, allslaust. Viðbrögð höfuðborgarbúa gegn viðleitni okkar á landsbyggðinni að fjölga atvinnutækifærum hefur síðan verið nákvæmlega á borð við þær athugasemdir sem þessi grein hefur þegar fengið.
Hvernig væri að rökstyðja aðeins mál sitt, líkt og ég tel mig gera, í stað þess að koma bara með svona yfirlýsingar um dómgreindarleysi og heimóttarskap?
Eygló Þóra Harðardóttir, 2.7.2007 kl. 23:12
Þetta er hræðilega ósmekkleg samlíking. Ég legg til að þú verjir mánuði á landsbyggðinni og síðan mánuði í Darfur.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 3.7.2007 kl. 04:55
Alveg furðuleg grein hjá Eygló.
Og ósköp lík viðhorfi landsbyggðarfólks til höfuðborgarbúa. Þar sem þeir samt alls ekki vilja búa. Svo legg ég til að þeir einblíni ekki á eitthvað eitt, sem gæti bjargað öðru, heldur leggist undir feld og hugsi sitt mál vandlega, og mæli svo, þegar eitthvað bitastætt er komið í þeirra huga.
Það hefur áður verið gert, með góðum árangri.
Það á ekki að kenna neinum um, hvernig fiskurinn hagar sér í hafinu. Hann er til fyrir sig, en ekki okkur. Við mýtum hann og kannski ofnýtum, kannski er eitthvað annað að. En allavega er svona komið. Og hver um sig ræður sinni búsetu, og það að flytja til einhvers staðar á Íslandi, þar sem atvinnu er að fá, getur ekki verið alvont.
Það er ekki eins og þið verðið lokuð inni í flóttamannabúðum eða hvað?
Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 15.7.2007 kl. 22:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.