Nýtt blogg

Ég er komin með nýtt blogg á slóðinni blog.eyjan.is/eyglohardar. Endilega kíkja við á nýju síðunni, skila eftir ummæli og vera í sambandi.

Ég vil líka minna á Facebook síðuna mína og vil gjarnan að þú ýtir á 'LIKE' til að fylgjast með störfum mínum á Alþingi, pistlum og öðrum fréttum af mér.


Peningastefna og evra

Ítrekað heyrist frá stuðningsmönnum aðildar Evrópusambandsins að eina leiðin til að ná tökum á peningamálum landsins sé upptaka evru, og þar með aðild að Evrópusambandinu. Það sé einnig eina leiðin til að afnema verðtryggingu, lækka fjármagnskostnað og ná stöðugleika í íslensku efnahagslífi

Reynsla hinna ýmsu ESB landa sannar að lykilatriðið er ekki hvaða mynt er notuð í hverju ríki, heldur hvernig einstök lönd stjórna sínum efnahagsmálum. Dæmi um þetta eru Svíþjóð og Írland. Svíar hafa haldið sig við sænsku krónuna með góðum árangri. Hagvöxtur er mikill, verðbólga lág og skuldir ríkisins lágar. Írland tók upp evru og nýtur nú aðstoðar AGS eftir að írska fjármálakerfið fór í gegnum mikla erfiðleika.

Myntin endurspeglar efnahagsstjórnun, - hún mótar hana ekki. Verðbólga mælir óstöðuga efnahagsstjórnun, - hún skapar hana ekki. Hár fjármagnskostnaður endurspeglar skort á fjármagni, - en skapar hann ekki.

Ábyrgð á peningastefnu er ekki bara Seðlabankans. Ábyrg peningastefna er sambland ábyrgrar stefnu í fjármálum ríkisins, ábyrgrar stefnu í rekstri fjármálafyrirtækja og ábyrgrar stefnu í fjármálum heimila og fyrirtækja. Allt hagkerfið þarf að spila saman og allir bera ábyrgð á efnahagsstjórninni. Ekki bara stjórnvöld og Seðlabankinn.

Samhliða hefðbundnum stýritækjum Seðlabankans þarf að tengja vexti og afborganir á húsnæðislánum við almenna markaðsvexti og það gera þeir ekki með núverandi fyrirkomulagi verðtryggingar. Tryggja þarf að fjármálafyrirtæki geti ekki stækkað efnahagsreikninga sína óstjórnlega og aðskilja verður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Hvetja þarf almenning til að spara fyrir útgjöldum og greiða niður skuldir. Aukinn sparnaður mun auka framboð á fjármagni og lækka vexti. Koma þarf í veg fyrir myndun eignabóla og jafnvægi verður að nást í fjármálum ríkisins.

Allt þetta þarf að gera óháð því hvort við göngum inn í ESB og tökum upp evru eða ekki. Með upptöku evru er ábyrg stjórnun efnahagsmála jafnvel enn brýnni. Reynsla annarra landa sýnir að þá er hætta á auknu innflæði fjármagns, aukinni skuldsetningu heimila og fyrirtækja, eignabólum og aðlögun að þrengri kosti er erfiðari með evru og fastgengi.

Því er orðið tímabært að gera sér grein fyrir því að prinsar á hvítum hestum frá Brussel munu ekki bjarga okkur.

Ábyrgðin er okkar og hana verðum við öll að axla.

(Birtist fyrst í FBL 4. mars 2011)


Rannsókn á sparisjóðum

Ég hef ásamt Sigurði Inga Jóhannssyni, Birgittu Jónsdóttur og Margréti Tryggvadóttur lagt fram frumvarp um að rannsókn fari fram á sparisjóðunum.  

Íslenskir sparisjóðir hafa orðið fyrir miklu skakkaföllum.  Nauðsynlegt er að varpa skýru ljósi á aðdraganda og orsakir rekstrarerfiðleika íslenskra sparisjóða, sem leiddu m.a. til gjaldþrots Sparisjóðs Mýrarsýslu, SPRON og Byrs Sparisjóðs og nauðsynlegrar endurfjármögnunar Sparisjóðsins í Keflavík, Sparisjóðs Bolungarvíkur, Sparisjóðs Svarfdæla, Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis. 

Alþingi ályktaði í september 2010 um nauðsyn þess að sjálfstæð og óháð rannsókn færi fram á aðdraganda og orsökum falls sparisjóða á Íslandi frá því að viðskipti með stofnfé voru gefin frjáls. Í kjölfar skyldi fara fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi sparisjóðanna. (Þskj. 1537, 705 mál á 138. löggjafarþingi)

Rannsóknin á ekki að einskorðast við aðdraganda hrunsins í október 2008 heldur taka einnig til tímans eftir hrun eftir hrun, enda eru sífellt að koma fram nýjar upplýsingar um áhrif og orsakir hrunsins hjá sparisjóðum um allt land.

Með samþykkt þessa frumvarps yrði afmarkað með skýrum hætti verkefni og verklýsingu rannsóknarnefndarinnar, sem ályktun þingmannanefndarinnar og almenn löggjöf gerir ekki .


Þingkonur, þingkarlar og RÚV

Ég er að skoða svör sem Tryggvi Þór Herbertsson fékk um viðmælendur í frétta- og þjóðlífsþáttum RÚV út frá kynjahlutföllum árið 2010. Ég er eiginlega mjög hugsi yfir niðurstöðum útreikninganna, sem eru mínir.

Það sem kemur á óvart er að Silfur Egils er eini þátturinn þar sem þingkonur og þingkarlar komu jafn oft fram.  Þetta er þrátt fyrir, eða kannski vegna þess, að Egill Helgason hafi fengið hvað mesta gagnrýni fyrir að hafa of fáar konur í þætti sínum.

Hlutföllin eru langverst í Speglinum, þar sem talað er við karla í 78,95% tilfella en konur í 21,05%. Síðan koma kvöldfréttir sjónvarpsins með 73,4% karlar en 26,6% konur. Sexfréttirnar og Kastljósið er nokkuð svipuð 69,49%/68,82% karlar og 30,51%/31,18% konur.

Konur eru í dag 41% þingmanna. Hluta til skýrist þetta væntanlega með því að formenn stjórnarandstöðuflokkanna eru karlar, - og því oft talsmenn flokkanna en þetta skýrir engan veginn niðurstöðuna hvað varðar Spegilinn. 

Nú verða þáttastjórnendur frétta- og þjóðlífsþátta RÚV að hugsa sinn gang.

Hægt er að skoða skjalið hér að neðan.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Framsóknarhugsjónir

Biturleiki, reiði og rangfærslur eru ekki fyndnar. Það var það sem ég hugsaði eftir að hafa lesið síðasta pistil Svarthöfða undir fyrirsögninni Framsóknarforsetinn. Ég er ósátt við að í pistlinum er því haldið fram að Framsóknarmenn hafi engar hugsjónir og hafi aldrei unnið þjóðinni gagn.  Að ég hafi engar hugsjónir, að Ólafur Ragnar Grímsson hafi ekki haft neinar hugsjónir og að stofnandi Framsóknarflokksins Jónas Jónsson frá Hriflu hafi ekki haft neinar hugsjónir,- aðrar en að hugsa um okkar eigið skinn.

Jónas frá Hriflu er einn umdeildasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar.  Staðreyndin er samt að Jónas og samherjar hans stóðu fyrir ákveðna hugmyndafræði og hugsjónir, sem leiddu til mikilla samfélagsumbóta. Má þar einna helst nefna uppbygging menntakerfisins og velferðarkerfisins.  „Í stuttu máli má segja að Jónas hafi verið félagshyggjumaður sem barðist fyrir auknum jöfnuði í samfélaginu, uppbyggingu öflugs menntakerfis, eflingu samvinnuhreyfingar og sjálfboðaliðahreyfinga á borð við ungmennafélögin. Með orðræðu nútímans getum við sagt að Jónas hafi verið talsmaður þekkingarsamfélags og félagshagkerfis.“ (Ívar Jónsson, Samtíminn í Jónasi – Jónas í samtímanum)

Samvinnuhugsjónin byggir á hugsjónum um sjálfshjálp, sjálfsábyrgð, lýðræði, jafnrétti, sanngirni og samstöðu, sem og siðferðilegum gildum um heiðarleika, opna starfshætti, félagslega ábyrgð og umhyggju fyrir öðrum. 

Þessar hugsjónir endurspegluðust sterkt í skrifum ungra Framsóknarmanna á áttunda áratugnum, þar sem hugmyndafræði forseta Íslands fór í gegnum sitt mótunarskeið. Ungir Framsóknarmenn vildu skapa þjóðfélag sem myndi tryggja sókn þjóðarinnar til æ fulkomnara og virkara lýðræðis, þar sem ákvörðunarrétturinn byggir á virku lýðræði, ekki aðeins kosningum til löggjafarþings og sveitarstjórna heldur og í fyrirtækjum, í hagsmunasamtökum og í skólum.  Klofningur í röðum Sambands Ungra Framsóknarmanna þá hafði þannig bæði með hugsjónir og ágreining um framkvæmd þeirra, frekar en metorð einstakra forystumanna. (Sjá skrá að neðan)

Ákvörðun forseta Íslands um að virkja beint lýðræði á Íslandi er því í fullu samræmi við hugsjónir hans.   Fátt virðist vera erfiðara fyrir stjórnmálamenn en að gefa frá sér vald, og er það því athyglisvert að forsetinn hafi ítrekað gert það í sinni forsetatíð.

Þetta eru einnig mínar hugsjónir.  Hugsjónir um frjálst lýðræðis- og menningarþjóðfélag, þar sem við leysum sameiginleg verkefni eftir leiðum samtaka, samvinnu og félagshyggju. Samfélag þar sem manngildi er metið ofar auðgildi.

(Pistilinn birtist í DV 25. febrúar 2011)


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Jafnrétti í reynd?

Alþingi vinnur núna að tillögu velferðarráðherra um jafnréttisáætlun til fjögurra ára.   Jafnrétti er því búið að vera töluvert ofarlega í umræðunni innan nefnda þingsins síðustu daga. 

Þar er talað um að draga úr kynbundnum launamun, hvað jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna eiga að gera, rannsóknir á kynbundnum launamun á landsbyggðinni sem og í sjávarútvegi og landbúnaði, styrkveitingum til karla og kvenna, áhrif fæðingarorlofs o.s.frv.

Allt voða fín verkefni. En í áætluninni skortir einhverja heildarsýn á það hvert við erum að stefna með jafnréttisáætluninni. 

Það, þótt greinilega sé þörf fyrir skýr markmið og framkvæmdaáætlun um jafnréttismál. 

Til að nefna dæmi þá má benda á tvær ráðstefnur sem haldnar voru í vikunni. Á ráðstefnu Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um Lifandi auðlindir er ekki að finna eina konu sem fyrirlesara, - bara fundarstjóra  (sem var væntanlega skellt þarna inn þegar menn renndu yfir listann og hugsuðu úps).  Ég velti einnig fyrir mér hvar konurnar eru þegar ég sá ráðstefnu Félags viðskipta- og hagfræðinga í tilefni Þekkingardagsins, þótt þeir stóðu sig ívíð betur en Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.

Forsenda þess að ná árangri er að setja sér skýr markmið.  Svo mótum við leiðirnar að því markmiði.  Ef ætlunin er að draga úr launamun kynjanna þá tel ég að stjórnvöld eigi að setja sér skýr töluleg markmið þess efnis.  Ef ætlunin er að jafna hlut kynjanna í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum hins opinbera þá eigi að setja sér skýr markmið þess efnis, að í lok áætlunarinnar verði hlutföllin 60:40 hjá bæði aðal- og varamönnum og að sjálfsögðu á það einnig að gilda um ráðstefnur á vegum ráðuneyta. 

Við getum gert betur!

PS. Svo verður einhver að fara kynna stefnuskrá Vinstri Grænna fyrir bæði ráðherranum og ráðuneytinu. 


Þingræði og meirihlutaræði

Á blaðamannafundinum á Bessastöðum fékk forsetinn spurningu um hvort að hann væri ekki að vega að þingræðinu með því að vísa Icesave samningnum í annað sinn til þjóðarinnar.  Undir það tók svo Oddný G. Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar, í utandagskrárumræðu um Icesave í gær í þinginu.

Ég get tekið undir það að forsetinn hefur markað ný spor í sögu forsetaembættisins og íslensku þjóðarinnar með því að vera fyrsti forsetinn sem nýtir sér ákvæði 26.gr. stjórnarskrárinnar. 

En ég er ekki sammála því að hann sé með því að vega að þingræðinu.

Í máli hans hefur hann ítrekað lagt áherslu á að líf ríkisstjórnarinnar eigi ekki að vera undir í hvert sinn sem hann ákveður að synja lögum staðfestingu og vísa þeim til þjóðarinnar.   Þingræði hefur nefnilega verið þýtt þannig að ríkisstjórn situr með stuðningi meirihluta Alþingis ,og svo lengi sem meirihluti þingmanna styður við ríkisstjórnina situr hún áfram. 

Hins vegar getur þessi ákvörðun forsetans breytt því hvernig Alþingi starfar.  Stjórnarliðar verða núna að taka virkari þátt í umræðum, í stað þess að láta stjórnarandstöðuna eina um að ræða flókin og erfið mál.  Stjórnarliðar þurfa að standa fyrir máli sínu og reyna að sannfæra bæði stjórnarandstæðinga og þjóðina um að það sem þau eru að gera sé það rétta.

Þannig gæti beiting forsetans á 26. greininni styrkt umræðuhefðina á Alþingi, og leitt til þess að alþingismenn þurfi að færa fram betri rök fyrir sinni afstöðu, hlusta á gagnrök í stað þess að treysta á meirihlutaræðið.

Niðurstaðan gæti þannig orðið sterkara og betra Alþingi, -raunverulegt þingræði í stað meirihlutaræðis til stuðnings ríkisstjórnar.


Dómstólaleiðin?

Flestir virðast telja að val kjósenda muni standa á milli núverandi samnings og hinnar svokölluðu dómstólaleiðar í Icesave málinu. Litlar upplýsingar hafa komið fram um hina svokölluðu dómstólaleið og er því athyglisvert að sjá að stuðningur við núverandi samning skuli ekki vera meiri en 57,7% skv. nýjustu MMR könnuninni.

Gísli Tryggvason velti nýlega fyrir sér hver helstu deilumálin yrðu fyrir dómstólum. Nefndi hann m.a.  hugsanlega skaðabótaábyrgð íslenska ríkisins vegna slælegs eftirlits með bönkunum, jafnræðisreglu EES-réttar um hugsanlegrar mismununar á innstæðueigendum og hvort yfirlýsingar ráðherra á haustdögum 2008 hafa verið skuldbindandi. 

Samskonar vangaveltur koma fram í álitsgerðum fjögurra lögfræðinga fyrir fjárlaganefnd. Var þar m.a. bent á að ESA virtist fyrst og fremst vera að horfa á að ríkið ætti að tryggja að innstæðutryggingakerfið gæti staðið við lágmarkstrygginguna, upp á rúmar 20 þús. evrur, en ekki heildarupphæðina.

Skiptar skoðanir voru meðal lögfræðinganna, eins og góðum lögfræðingum sæmir.

Peter Örebeck, norskur lagaprófessor, sendi inn álit til fjárlaganefndar um ESA og innstæðutilskipunina og taldi að mótrök Íslendinga verði að íslenska ríkið er fullvalda ríki og sé í sjálfsvald sett í hvaða viðskiptum það stendur.  "According to the business-strategies of the Icelandic state the Icesave bank was not among its priorities. The takeover of Landsbanki does not necessitate the takeover of Icesave. It is an option, but not a must. This is my [PÖ] primary position. An alternative position is to say that Iceland takover bid for Landsbanki that leaves out Icesave is in itself not discriminatory in a national sense, as all foreign depositiors in the old Landsbanki were offered identical solutions to domestic depositors. This includes all depositors, whether they are domiciled in Iceland or not. Icelandic citizens abroad who deposited money in Icesave, did not receive special treatment, but is totally under identical regime as UK and Dutch depositors."

Hvaða dómstólum?
Lárus Blöndal færir rök fyrir því í Morgunblaðinu að dómsmál verði fyrst og fremst höfðað fyrir EFTA dómstólnum, en telur ólíklegt að Bretar og Hollendingar muni reyna að sækja beint á íslenska ríkið fyrir íslenskum dómstólum.  Niðurstaðan frá EFTA dómstólnum, ef hún reynist vera jákvæð fyrir þá, verði svo nýtt til að þvinga Íslendinga til að greiða. Aðrir hafa haldið því fram að Bretar og Hollendingar verði að sækja rétt sinn fyrir íslenskum dómstólum. Allir virðast þó sammála að þeir virðast lítið spenntir fyrir þeirri leið...

Svo er spurning hvar málaferli TIF um forgang lágmarkstryggingarinnar í þrotabúið passa inn í þetta allt saman.

En af hverju er stuðningurinn ekki meiri en 57,7% þrátt fyrir að njóta stuðnings meirihluta þingflokka Samfylkingar, Vinstri Grænna og Sjálfstæðisflokks?  Ég held að það sé einfaldlega vegna þess að við upplifum samninginn sem nauðung, ósanngjarnan og óréttlátan.

Þvi má færa rök fyrir því að dómstólaleiðin myndi allavega skýra hvað sé hið rétta í Icesave málinu.


Kjósum!

Forsetinn hefur vísað Icesave samningnum til þjóðarinnar, til staðfestingar eður ei.  Nú skiptir öllu að þjóðin fái að kynna sér málið niður í kjölinn, kosti þess og galla að staðfesta ríkisábyrgðina og taki svo upplýsta ákvörðun í framhaldinu.

Lýðræði virkar ekki án upplýsinga.  Því leggur samvinnuhugsjónin mikla áherslu á menntun og þekkingu samhliða einn maður eitt atkvæði auk þess að gætt sé að jafnrétti.

Ábyrgð fjölmiðla og annarra lýðræðisafla er því mikil í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þá ábyrgð verður að axla af virðingu.

Ég tel jafnframt að samhliða kosningum um Icesave ættum við að kjósa aftur til stjórnlagaþings.

 


Hvenær þjóðaratkvæði?

Í Kastljósi kvöldsins lét Oddný G. Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar þau orð falla að hún teldi ekki að fjárlög, lánasamningar og milliríkjasamningar ættu að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hváði, spólaði og hlustaði aftur, - og fékk staðfest að ég hafði heyrt rétt.  Milliríkjasamningar ættu ekki að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þýðir þetta þá að það á ekki að greiða atkvæði um ESB samninginn þegar hann liggur loksins fyrir?

ESB samningurinn er samningur á milli Íslands og þeirra fjölmörgu ríkja sem standa að ESB.  Öll hin aðildarríkin þurfa að samþykkja samninginn áður en hann verður fullgiltur.  Hann þýðir heilmikil fjárútlát fyrir íslenska ríkið, - ég hef ekki enn þá rekist á neinn sem segir að við þurfum ekki að greiða með okkur inn í Evrópusambandið og engin fullvissa er um hversu mikið það verður til framtíðar. 

En samt má kjósa um ESB samninginn.

Breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu geta haft bein áhrif á fjárlög íslenska ríkisins.  Ef þjóðin kýs að fara þá fyrningarleið sem Samfylkingin hefur talað fyrir mun það hafa í för með sér ófyrirséð fjárútlát fyrir íslenska ríkið í gegnum m.a. meirihluta eignarhald þess á Landsbankanum. 

En samt má kjósa um fiskveiðistjórnunarkerfið.

Af hverju segja því fulltrúar Samfylkingarinnar ekki einfaldlega að þeir vilja ekki fara með Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að þeir telja að þjóðin muni hafna samningnum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband