17.5.2007 | 10:23
Strengjabrúður auðmanns II
Í gær skrifaði ég stuttan pistil um yfirlýsingu Björns Bjarnasonar um útstrikanir sem hann hlaut í kosningunum. Í athugasemdum sem ég fékk við pistlinum var m.a. bent á áhrifamátt auglýsinga.
Við það vaknaði eftirfarandi spurning: Geta auglýsingar, þ.e.a.s. allar auglýsingar, haft áhrif eða stjórnað gerðum fólks?
Ég held að svarið við þessari spurningu sé einfaldlega nei. Dag hvern verðum við fyrir óendanlegu áreiti af hendi auglýsinga. Í flestum tilvikum er þetta eins og einhver hávaði sem okkur gengur ágætlega að blokkera. Í sumum tilvikum stöldrum við við, hugsum ef til vill áhugavert, og í öðrum tilvikum gerum við eitthvað s.s. að kaupa viðkomandi vöru eða þjónustu.
Mér er einstaklega minnisstætt þegar Thule bjórauglýsingarnar fengu verðlaun hjá Ímark (að mér minnir) og framleiðandinn taldi sérstaka ástæðu til að minnast á hversu mikið salan hefði aukist við þær. Greinilega eitthvað sem þeir voru ekki vanir, að geta séð svona mikil bein tengsl á milli auglýsingaherferðar og söluaukningar.
Við Framsóknarmenn getum bent á kosingabaráttuna núna og þá síðustu. Árið 2003 gekk mjög vel að kynna flokkinn í gegnum auglýsingar, og árangurinn var tiltölulega góður. Við héldum okkar þingmannafjölda. Í ár eyddum við einnig umtalsverðum fjármunum í auglýsingar, flennistór skilti, dreifibréf og ég veit ekki hvað. Uppskeran var ekkert til að hrópa húrra fyrir, - fimm þingmenn töpuðust.
Af hverju?
Ég tel að ástæðan er að árið 2003 var samhljómur með verkum okkar, fulltrúum okkar á listum og herferðinni sjálfri. Slagorðið var geysilega gott, vinna-vöxtur-velferð sem að mínu mati er kjarni þess sem Framsókn stendur fyrir. Fólkið okkar var reynslumikið og traust, skipting á milli karla og kvenna var einstök og auglýsingarnar náðu að endurspegla þetta.
Í ár var slagorðið Árangur áfram - ekkert stopp. Ég átti sjálf í erfiðleikum með þetta slagorð, enda hefur mér fundist ástæða til að staldra við ýmislegt s.s. eins og áframhaldandi uppbyggingu stóriðju á suðvesturhorninu. Árangur já, en stundum má staldra aðeins við. Og hvar var velferðin? Reynslan var ekki alveg jafnmikil í brúnni og auglýsingarnar endurspegluðu það, þar sem miklu skipti að kynna formanninn okkar fyrir þjóðinni.
Ég get því engan veginn tekið undir að Íslendingar séu viljalaust verkfæri eins eða neins, né strengjabrúður hvorki auðmanna eða stjórnmálamanna. Heldur einmitt fullkomlega færir um að taka sínar eigin ákvarðanir á eigin forsendum, vega og meta og í sumum tilvikum hreinlega hafna.
Hreinn: Dómur kjósenda um verk Björns liggur fyrir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er nú ekki alveg sammála þessu Eygló það er alveg á hreinu að auglýsingar hafa mikil áhrif á fólk sem ekki er vel inní hlutunum nennir ekki að kynna sér málin eða hafa lítin áhuga. Þetta má heimfæra á kvótakerfið þar er búið að heilaþvo fólk kerfið sé það eina rétta ekki hægt að breyta búið sé að gefa kvótann of seint að taka í taumana ef það verði lagt niður fari allt í rúst. Svona er hægt tala endalaust samt hitti ég sjaldan fólk sem mælir þessu kerfi bót. Eitt enn Eygló meðan þetta kerfi lifir mun framsókn alrei ná fyrri hæðum það er líka staðreynd.
ragnar bergsson, 17.5.2007 kl. 14:01
Amen Eygló!
Það er ekki oft sem að ég rekst á blogg þar sem að talað er af skynsemi og yfirvegun en þú virðist búa yfir báðum þessum kostum. Ég get reyndar ekki alveg tekið undir fullyrðingar um Baugsstjórn eins og þú varpar fram í annari færslu. Það viðhorf mitt endurspeglast af þeirri reglu minni að byggja skoðanir mínar ekki á orðum eða orðahnýtingum einstaklinga heldur á gjörðum þess.
Framsóknarflokkurinn hlaut mikinn skell í nýafstöðnum kosningum. Það er ekki áhrifamætti auglýsinga að kenna eða orðum annara stjórnmálamanna. Ég einmitt er einnig þeirrar skoðunar að einstaklingar séu fullfærir um að mynda sér sjálfstæða skoðun, hvernig svo sem sú skoðun verður til. Ég hef ekki ennþá hitt neinn sem að hefur myndað sér skoðun á mönnum og málefnum út frá auglýsingum. Slíkur málatilbúnaður finnst mér ótrúverðugur og ómálaefnalegur.
Því miður virðist það samt ansi auðveld leið til þess að reyna að forðast að takast á við vandamálin og leysa úr þeim á farsæla á hátt. Þetta er vissulega ódýr og ómerkileg lausn og skilar engu þegar að til lengri tíma er litið.
Ég vona innilega að Framsókn geti byggt upp á næstu árum og að einstaklingar eins og þú og Bjarni Harðar komist til áhrifa innan flokksins. Framsókn virðist vera búinn að tapa einhverju af þeim hugsjónum og þeim eldmóði sem að þarna voru til staðar áður.
Ég vona að þið hafið kraft til þess að endurvekja hvoru tveggja.
Jón Hnefill Jakobsson (IP-tala skráð) 18.5.2007 kl. 20:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.