Nei við kosningum um skoðanakannanir!

Í dag eru þrjár vikur til kosninga og því ágætt að staldra við og íhuga um hvað kosningabaráttan hefur snúist um hingað til. 

Helsta umræðuefnið í fjölmiðlum við stjórnmálamenn virðast vera skoðanakannanir.  Guðni Ágústsson var í viðtali á www.mbl.is og hvað ræddi hann? Jú, stöðu Framsóknarflokksins.  Í gær var ég í Morgunhananum með Kolbrúnu Halldórsdóttur og við þurftum báðar að svara fyrir síðustu skoðanakönnun.  Ég vegna þess að Framsóknarflokkurinn mælist lágt, og Kolbrún vegna þess að hennar flokkur er að tapa fylgi??

Stór hluti af umræðuþáttunum hjá RÚV og Stöð 2 hafa snúist um þetta sama, síðustu skoðanakannanir. Ég man alls ekki eftir þessum gífurlega fjölda skoðanakannanna fyrir síðustu alþingiskosningar og hvað þá að fjölmiðlar hefðu meiri áhuga á niðurstöðum kannanna en stefnumálum viðkomandi framboða.

Í Frakklandi er fylgst nákvæmlega með könnunum fyrir forsetakosningarnar, líkt og hér.  En þar hefur fólk til áminningar hvað þær klikkuðu stórkostlega árið 2002, þegar Jean-Marie Le Pen ýtti út Lionel Jospin í fyrstu umferð.  Þá voru alls 193 kannanir birtar, og engin af þeim sá fyrir hið mikla hægri fylgi sem Le Pen hlaut. Nú fjórum árum síðar hafa verið birtar 250 kannanir, en líkt og bent er á í góðri grein á CNN.com þarf það ekki að þýða betri niðurstöður.

CSA Institute, sem er víst sambærileg á við Gallup hér eða Félagsvísindastofnun, gerði fyrir stuttu greinileg mistök í að meta fylgi Francois Bayrou nánast á jafns við Segolene Royal.  Áhrifin voru heljarins fjölmiðlaumfjöllun og breytingar í málflutningi Sarkozy og Royal.  CSA Institute notar nefnilega aðferðir sem er víst frekar algengt að nota, en það er að spyrja kjósendur hvað þeir ætla að kjósa og hvað þeir kusu síðast, og leiðrétta svo niðurstöður í samræmi við það.  Hér hefur verið algengt að bæta við aukaspurningunni um hversu líklegur viðkomandi er til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, en aðra flokka ef fólk segist vera óákveðið.  Fjöldi þeirra sem vill ekki svara eða eru líklegri til að skipta skoðun hefur líka fjölgað í Frakklandi, líkt og hér sem eykur enn á óvissuna.  

Hefur einhver tekið saman hversu margar kannanir hafa verið gerðar hingað til, og svo fram til kosninga? Og hér hef ég eytt heilli blogg grein í að fjalla um skoðananakannanir, enn á ný. 

Því lýsi ég eftirfarandi yfir:  Frá og með þessum degi og fram til kl. 20.00 þann 12. maí mun ég ekki fjalla frekar um skoðanakannanir á þessum vef.


Eygló Harðardóttir 


mbl.is Guðni: Sjálfstæðisflokkurinn virðist stikkfrí í umræðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband