Skírlífi virkar bara ekki

Í stjórnartíð George Bush, forseta Bandaríkjanna, hefur stefnan í kynfræðslu barna og unglinga verið “Skírlífi” eða á einfaldri íslensku: Að gera það ekki.  Árlega leggur alríkisstjórnin fylkjunum til 176 milljónir dollara til verkefna sem eiga að hvetja til skírlífis þar til viðkomandi er kominn í hið heilaga, þ.e.a.s. hjónaband.  

Gagnrýnendur stefnunnar hafa sagt að skírlífisstefnan virki ekki, og ný rannsókn á vegum Mathematica Policy Research Inc.  virðist staðfesta það.  Þeir könnuðu nemendur í fjórum skírlífisverkefnum víðs vegar um Bandaríkin og báru saman við nemendur sem tóku ekki þátt en bjuggu í sömu samfélögum.

Niðurstaðan er að ungmenni sem lofa að vera skírlíf þar til þau giftast eru alveg jafn líkleg til að stunda kynlíf og þeir sem taka ekki þátt.  Þau hafa líka sofið hjá jafn mörgum og byrja að stunda kynlíf á sama aldri, eða 14,9 ára.  Góðu fréttirnar eru að skírlífu ungmennin eru líka jafn líkleg (eða ólíkleg)  til að nota getnaðarvarnir eins og hin, ólíkt því sem gagnrýnendur hafa haldið fram.

Á þessu sviði tel ég að Norðurlöndin séu langt á undan Bandaríkjunum þar sem lögð er áhersla á heildstæða fræðslu um kynlíf og notkun getnaðarvarna.  Að auki myndi ég líka hafa áhyggjur af andlegu hliðinni.  Þegar ung manneskja setur sér það markmið að stunda ekki kynlíf fyrir hjónaband, en fellur svo frá þessu markmiði, - þá er ekki ólíklegt að viðkomandi finnir til sektar og vanlíðan.   

Sem getur varla verið sérstaklega hollt vegarnesti inn í framtíðina.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Skírlífi virkar 100%. Skólafræðsla um skírlífi virkar ekki endilega!

Jón Valur Jensson, 16.4.2007 kl. 17:00

2 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Bush og co eru alveg magnaðir.  Dæla peningum í prógramm eins og þetta og svo kemur í ljós að þeir predika eitt og gera sjálfir annað eins og nokkur spillingarmál hafa sýnt fram á.  Hræsnin gerist varla meiri......

Sigfús Þ. Sigmundsson, 16.4.2007 kl. 17:08

3 Smámynd: Þórir Kjartansson

Kynfræðslan  hér á Íslandi hefur í hnotskurn verið eitthvað á þessa leið:   Notið bara smokk og þá getið þið hagað ykkur eins og ykkur sýnist.

Þórir Kjartansson, 16.4.2007 kl. 17:55

4 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Tel skílífsfræðslu að hinu góða, en tek undir með Þóri Kjartanssyni.

Sigfús Sigurþórsson., 16.4.2007 kl. 19:56

5 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Ég er nú ekki alveg sammála ykkur herramönnum, Sigfúsi Sigurþórssyni og Þóri Kjartanssyni.  Dóttir mín sem er sex ára kom nú einmitt heim í hádeginu þegar ég var skrifa þessa grein (útprentunin frá CNN.com hafði legið á borðinu hjá mér í nokkra daga) og tilkynnti mér að hún hefði verið að læra um hvernig börn verða til í samfélagsfræði.  Svo útskýrði hún þetta allt skilmerkilega fyrir mér og við ræddum aðeins líka um köttinn okkar, sem hefur verið geltur og getur ekki eignast nein kisubörn. 

Þetta er upphafið á kynfræðslu barna í íslenska skólakerfinu.  

Það er að sjálfsögðu líka hlutverk okkar foreldranna að ræða um mikilvægi þess að virða sinn líkama og ræða um hversu mikilvægur andlegi þátturinn er.  En á fólk ekki að hafa frelsi til að haga sér eins og það sýnist, svo lengi sem það skaðar ekki aðra og sjálfa sig?

Allavega hefur mér fundist viðhorf okkar Norðurlandabúa (sérstaklega kvenna) gagnvart kynlífi vera mun heilbrigðara en viðhorf Bandaríkjamanna (sérstaklega kvenna eins og kom einna skýrasta fram í ótrúlega hallærislegum þætti hjá Oprah Winfrey.)

Eygló Þóra Harðardóttir, 17.4.2007 kl. 11:17

6 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Góðan daginn. 

Eygló segir: Það er að sjálfsögðu líka hlutverk okkar foreldranna að ræða um mikilvægi þess að virða sinn líkama og ræða um hversu mikilvægur andlegi þátturinn er. Mér finnst þetta vera kjarni málsins. 

Í starfi mínu rekst ég á töluverða lausung í viðhorfi ungs fólks til kynlífs. Oft er um mjög unga einstaklinga að ræða. Maður verður steinhissa. Um leið og krakkar fara að hafa kynlíf breytist líf þeirra með róttækum hætti eins og allir vita. Allt breytist sem getur á annað borð breytst, og sumir missa gersamlega tökin á viljalífi sínu.  Andlegi þátturinn er sérstaklega mikilvægur og má síst vanmeta.  

Það er einnig mjög mikilvægt að rugla ekki saman "kynfrelsisumræðu" svokallaðri  (sem er sérfeminist fyrirbæri) og svo fræðslu um heilbrigt kynlíf og skuldbindinu við aðra manneskju. Þetta er alveg sitt hvor hluturinn.

Ungt fólk hefur oft ekki þroska til að meta þessa hluti alffarið upp á eigin spítur og anar út í eitthvað undir þrýstingi.  Mér finns því að íhaldsemi geti fyllilega átt rétt á sér, sérstaklega í þjóðfélagi sem er svona sexfixerað. Mér finnst einfaldlega að brýna eigi fyrir ungu fólki að það vandi sig - og ekkert liggi á.

Guðmundur Pálsson, 21.4.2007 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband