1.3.2007 | 13:05
1 atkvæði - 1 maður?
Í drögum að ályktunum sem lagðar verða fyrir á flokksþing Framsóknarflokksins núna um helgina er lagt til að breyta kosningalöggjöfinni. Markmið breytinganna á að vera að tryggja við kosningar til Alþingis persónukjör og vægi kjósenda við röðun á lista og fjölga kjördæmum til að skapa meiri nálægð milli kjörinna fulltrúa og kjósenda.
Þessu vilja menn ná með eftirfarandi leiðum:
- Hluti þingmanna verði kjörinn af landslista og hluti þeirra í kjördæmum.
- Kjósendur raða fulltrúum á landslista og kjósa síðan flokk í því kjördæmi þar sem þeir hafa búsetu.
- Landslisti verði notaður til að velja uppbótarþingmenn til að tryggja að samræmi sé milli kjörfylgis og fulltrúa á þingi.
- Sami einstaklingur getur setið á kjördæmalista og landslista og kemur þannig til álykta sem uppbótarmaður nái hann ekki kjöri í viðkomandi kjördæmi.
- Kjördæmunum verður fjölgað í til að mynda 11 kjördæmi þar sem 3 eru í kjöri í hverju kjördæmi (mín athugasemd: mættu vera fleiri). Kjördæmamörk breytist í samræmi við breytingar á búsetu og tryggt verði að 1 maður þýðir 1 atkvæði. (Set persónulega spurningamerki við þetta).
- Sett verði krafa um lágmarksfylgi á landsvísu til að flokkur sem ekki kemur að kjördæmakjörnum þingmanni, komi til álykta við úthlutun uppbótarþingsæta.
Ég hef verið meðal þeirra sem hef haft miklar áhyggjur af fjarlægð á milli kjörinna fulltrúa og kjósenda í þessum risakjördæmum sem landsbyggðarþingmenn hafa verið að vinna í. Það er líka sannfæring mín að m.a. þessi fjarlægð er að orsaka æ meiri hrepparíg og þúfupólitík um efstu sætin. Þannig að það markmið er ég alveg sátt við.
En um leið er talað um að tryggja að 1 maður þýði 1 atkvæði.
Þetta er eitthvað sem ég er beggja blands með. Ég hef almennt verið á móti þessu en spyr mig nú hverju hefur þetta breytt fyrir landsbyggðina? Hefur einhverju skipt að vægi atkvæða á landsbyggðinni hefur verið meira? Ekki hefur það komið í veg fyrir hina svokölluðu höfuðborgarstefnu sem ég hef kallað núverandi byggðaþróun- og stefnu stjórnvalda. Ekki hefur það aukið jafnvægið á milli opinberra verkefna á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðisins?
Kannski myndu landskjörnir fulltrúar huga að meira að heildarmyndinni og hagsmunum íbúa í öllu landinu, í stað þess að sætta sig endalaust við hagræðingarrökin miklu.
Það verður allavega áhugavert að hlusta á rökin með og á móti...
Framsóknarmenn vilja stjórnarskrárákvæði um auðlindir landsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það þarf að útrýma þessari hundaþúfupólitík með þúfnabana frá Hvanneyri. Landið ætti að vera eitt kjördæmi og þessi smáþjóð á að hafa þetta eins einfalt og hægt er. Þingmennirnir búa flestallir á suðvesturhorninu en ég hef ekki orðið var við að einhverjir þeirra séu á móti landsbyggðinni. Það væri líka skynsamlegt að mínu mati að lengja þingtímann og fækka þingmönnum niður í fimmtíu. Örþjóð þarf ekki að vera með 63 þingmenn. En þá myndi þingmönnum Framsóknar fækka niður í hálfan. Hver skyldi það nú verða? Þegar stórt er spurt...
Steini Briem (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 13:24
Hvernig færðu það út? Koma allir þingmennirnir þá frá höfuðborgarsvæðinu? Hélt að skv. könnunum þá værum við ekki einu sinni með 1 þar inni. En miðað við 10% á landsvísu, uppbótarþingmann ef farið er yfir 5% fylgi þá hlytum við að fá allavega 1-2 miðað við þessar tillögur fyrir flokksþingið :)
Ég hef líka enga trú á að við munum ekki fá mun meira fylgi en þetta í kosningunum sjálfum. Við erum með flott fólk í Reykjavík og Kraganum. Enginn hafði t.d. trú á að Siv kæmist inn síðast í kraganum og hún tók næstum því Pál með sér síðast. Núna er hún með Samúel Örn í 2. sæti og hann er mjög kröftugur.
Þannig að hafðu engar áhyggjur að við þurfum að fara kljúfa Guðna eða Jón í tvo búta :)
Eygló Þóra Harðardóttir, 1.3.2007 kl. 15:24
Úfff, flashback, flashback!!!
Man einhver eftir því sem gerðist fyrir ca fjórum árum síðar. Framsókn var búin að liggja flöt undir Sjálfstæðisflokknum og útlit fyrir slæmt gengi í kosningum. Þá var sest niður og búnar til kjósendavænar hugmyndir og þeim kastað fram á síðustu stundu. Og það virkaði nægilega vel til að halda flokkum á floti en heimili í landinu sukku (eftir 90% lán sem settu hagkerfið á annan endann og vexti í hámark).
Og nú á að reyna þessa leið aftur.
Af hverju er flokkurinn þinn ekki búinn að koma með þessa tillögu, eftir allan þennan tíma í stjórn?
Ibba Sig., 1.3.2007 kl. 15:31
Ég er nú ekki viss um að þetta séu beinlínis kosningavænar hugmyndir fyrir Framsóknarflokkinn. 1 atkvæði fyrir 1 mann er nú ekki hugsað fyrir trygga kjósendur flokksins.
Svo höfum við verið með sjávarauðlindirnar í stjórnarskrá, og það að setja allar auðlindirnar í stjórnarskránna ætti að tryggja t.d. að vatnið og jarðvarminn verði aldrei seld.
Ég skil ekki hvernig þú getur tengt hitnunina í hagkerfinu við 90% lánin. Það voru bankarnir og við einstaklingarnar sem endurfjármögnuðu. Heimilin í landinu verða að taka sína ábyrgð á endurfjármögnun íbúðalána, og neyslufylleríinu sem þessi endurfjármögnun hefur m.a. fjármagnað. Áætlanir Framsóknarmanna gerðu ráð fyrir fjárfestingunni í Kárahnjúkum og Reyðaráli, en ekki þeim tugum milljörðum sem var dælt inn í hagkerfið af bönkunum, sem leiddu m.a. til aukinnar verðbólgu og hækkana Seðlabankans á stýrivöxtum.
Eygló Þóra Harðardóttir, 1.3.2007 kl. 16:46
Æi, þetta er allt eitthvað svo vonlaust hjá ykkur, Eygló mín. Ég græt mig í svefn á hverri nóttu yfir þessu öllu saman.
Steini Briem (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 19:00
Vó Eygló, eftir þetta svar þitt sé ég að það er ekkert skrítið að ástandið í landinu sé eins og það er.
Þetta er bara allt einstaklingunum að kenna! Smart hjá þér! Viltu ekki láta fólkið í landinu vita af því að það geti bara sjálfu sér um kennt?
Ibba Sig., 2.3.2007 kl. 10:25
Nei, - en ég geri þá kröfu til míns sjálfs og annarra að þeir taki ábyrgð á sínum gjörðum. Það neyðir mig enginn til að taka lán. Þá ákvörðun tek ég sjálf. Það neyðir mig enginn til að endurfjármagna íbúðina mína og taka aukapening að láni til að greiða niður yfirdráttinn. Það neyðir mig enginn til að byrja strax aftur að nota yfirdráttinn til að greiða fyrir sumarfríið, allar jólagjafirnar sem ég verð að kaupa og jafnvel nýja bílinn.
Eygló Þóra Harðardóttir, 2.3.2007 kl. 13:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.