Er nóg að segjast vera umhverfisverndarsinni?

Á forsíðu Morgunblaðsins um síðustu helgi mátti sjá merki Sjálfstæðisflokksins, hinn bláa fálka, málaðan grænan. Þessa tilraun með nýjan lit má rekja til þeirra Illuga Gunnarssonar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar en þeir hafa verið að máta sig við nýja hugmyndafræði sem þeir hafa nefnt hægri grænn. Sú hugmyndafræði virðist fyrst og fremst byggjast á því að segjast vera náttúrverndarsinni, segjast vilja hugsa vel um náttúruna og jörðina í heildina, - en lítið annað.

Í Hægri grænt - náttúruvernd og náttúrunýting, grein sem birtist í lesbók Morgunblaðsins í fyrra segir Illugi Gunnarsson:  "Eins og sjá má af stefnu Sjálfstæðisflokksins og verkum hans í umhverfisráðuneytinu stendur hann traustum fótum í umræðu um náttúruvernd. Sú ályktun að sjálfstæðismenn séu ekki umhverfisverndarsinnar er fjarstæðukennd og stenst enga skoðun." 

Hmmm...

Hver er þessi stefna og af hverju höfum við ekki orðið vör við hana áður? Þegar lesið er yfir ályktun Landsfundar 2005 um umhverfis-og skipulagsmál er hvergi að finna nein mælanleg markmið heldur einstaklega mikið af orðum. Skautað er létt í gegnum áhrif hækkandi hitastigs og þess sem við Íslendingar eigum að gera: "Íslensk stjórnvöld beiti sér áfram gegn mengun lofts, láðs og lagar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, úrgangs, þrávirkra lífrænna efna og geislavirkra efna...Við endurnýjun skipa og annarra atvinnutækja skal leggja áherslu á endurvinnslumöguleika."  Leggja skal áherslu á endurvinnslumöguleika? Nákvæmlega ekkert er talað um hvernig eigi að ná þessum merku markmiðum, nema kannski benda á hið mikla landgræðslustarf sem hefur verið unnið á vegum Landbúnaðarráðuneytisins.

Áðurnefnd verk Sjálfstæðisflokksins í Umhverfisráðuneytinu helguðust einna helst af þeirri vinnu sem Framsóknarmenn höfðu þegar lagt mikinn tíma og undirbúning í, - en það er ný náttúruverndaráætlun og Vatnajökulsþjóðgarður. 

Kjarninn í stefnu Sjálfstæðisflokksins í umhverfismálum endurspeglast kannski best í þessari setningu Illuga úr áðurnefndri grein: "Samfélagið okkar getur ekki fest sig í þeirri skoðun að náttúruvernd verði slitin úr samhengi við náttúrunýtingu."  Hún endurspeglast líka í því að nánast allir frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi lögðu mikla áherslu á uppbyggingu stóriðju í Helguvík og Þorlákshöfn. Þetta endurspeglast líka í skoðanakönnun Fréttablaðsins um viðhorf gagnvart stækkun álversins í Straumsvík, en þar er Sjálfstæðisflokkurinn eini flokkurinn þar sem stuðningsmenn stækkunarinnar eru í meirihluta. 

Þannig virðist það vera með hægri græna, - að það er nóg að segjast vera grænn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gísli gamli á Uppsölum sagðist vera umhverfisverndarsinni og hægri grænn. Ég held að hann hafi verið að ljúga því. Eða þá að Ómar hefur eitthvað verið að bauka við textavélina. Það er fallegt að Mogginn og einhverjir Sjallar hafi fengið náttúruna á gamals aldri með tilkomu Viagra en við skulum vona að þeir hafi ekki tekið of mikið af því. Nógu fyrirferðarmiklir eru þeir nú samt.

Steini Briem (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 14:28

2 Smámynd: Saumakonan

hmm... ætli sjálfstæðismenn hafi fengið álpakkaðan Bjögga líka?

Saumakonan, 28.2.2007 kl. 14:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband