Axlar enginn ábyrgð?

Gylfi Magnússon segir að ríkið eigi á hættu að tapa hundrað milljörðum króna ef niðurstaðan verður sú að vextir af lánunum séu í samræmi við það sem fram kemur í lánasamningum gengistryggðra lána.

Ég spyr hvar hefur Gylfi Magnússon verið undanfarna mánuði?  Ítrekað hefur verið spurt um hvort ráðuneytið hefði gert sér grein fyrir því að vafi væri um lögmæti gengistryggðra lána.  Ráðuneytið valdi að afla sér ekki utanaðkomandi lögfræðiálits um lögmæti þess sbr. svari við fyrirspurn minni til efnahags- og viðskiptaráðherra.

Það sama gerði Fjármálaráðuneytið, þ.e.a.s. ekki neitt lögfræðiálit. Hvar var Steingrímur J. Sigfússon?

Enginn gerði neitt, allra síst Gylfi eða Steingrímur.

Ég hef einnig reynt að koma með tillögu um lagabreytingar sem gætu flýtt fyrir að skýra lagalega stöðu þessa lánasamninga.  Það mál hefur legið í dvala í allsherjarnefnd síðan dómurinn í Héraðsdómi Reykjavíkur féll.

Enginn gerði neitt, allra síst Gylfi og Steingrímur.

Þá hefði maður haldið að þeir ráðherrar sem fara með efnahags- og ríkisfjármálin hefðu verið búnir að undirbúa sig undir niðurstöðu Hæstaréttar, bæði með og á móti.  En nei, - það virðist algjörlega hafa komið þeim í opna skjöldu að Hæstiréttur skyldi dæma í samræmi við þann texta sem kom fram í lögum um vexti og verðtryggingu.

Engin viðbragðsáætlun var til staðar, ekkert plan frekar en fyrir hrun. Ráðherrar, FME og Seðlabankinn úti að aka.  Enn á ný ætlar enginn að axla ábyrgð á hugsanlega hundrað milljarða króna tapi íslenska ríkisins sem hefði verið hægt að lágmarka ef tillit hefði verið tekið til þessa við uppgjör nýju og gömlu bankanna.

DEJA VU 2008 eða hvað? 

 


mbl.is Gæti kostað kröfuhafa hundruð milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég vona að þú fylgir þessu eftir Eygló, því þetta er stórmál.Rangar ákvarðanir og aðgerðaleysi Ríkisstjórnarinnar verður að skýra fyrir þjóðinni. Ef AGS stjórnar hér á bakvið tjöldin eins og marg oft hefur verið bent á, þá á stjórnin að koma heiðarlega fram gagnvart þjóð og þingi og segja það!!  Þjóðin ætti að fá að segja sitt álit á því valdaframsali

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.6.2010 kl. 13:57

2 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Jamm - og, ef Gylfi og Már, eru ekki með hræðsluáróður eru þeir beinlínis að segja, að viðreisn bankakerfisins, hafi mistekist þannig að bankarnir séu að hruni komnir í annað sinn.

En, Framsóknarflokkurinn varaði ríkisstjórnina við því á sínum tíma, að endurreisa bankakerfið svona stórt og svona dýrt.

Ég er hræddur um, að vegna þess að val stjv. virðist hafa verið, að í stað þess að byggja upp fjárhagslega sterka banka að fórna því markmiði á altari þess að halda sem flestum bankamönnum á launum; þá sé nú þegar að mestu búið að sólunda hagnaðinum af yfirfærslu lánapakkanna frá gömlu bönkunum yfir í hina nýju á margra tuga prósenda afslætti.

Nýtt bankahrun, er að öllu leiti á reikning ríkisstjórnarinnar.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 24.6.2010 kl. 15:30

3 identicon

Hmmm góð spurning? Ertu ekki til í að spyrja Framsóknarþingmennina sem samþykktu lögin á sínum tíma en gerður svo ekkert í óheftum framgangi bankanna í gengisbindingu lána?

 Vertu málefnaleg í gagnrýni þinni kæra þingkona. Framsókn á þetta með húð og á hári.

Agga (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 18:01

4 identicon

"Engin viðbragðsáætlun var til staðar, ekkert plan frekar en fyrir hrun. " Hvaðan hefur þú þessa vitneskju? Mér sýnist þú fara með fleipur og staðlausa stafi. Lögfræðiálit er ekki sama og viðbragðsáætlun. Stundum eru bestu viðbrögðin að gera ekki neitt.

Þess fyrir utan á framkvæmdavaldið á ekki alltaf að vera kássast upp á dómsvaldið. Meðan dómsvaldið er með mál til meðferðar þarf framkvæmdavaldið ekki að ná í lögfræðiálit nema það sé aðili máls. Dómsorðið sjálft er endanlegt "lögfræðiálit".

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 18:04

5 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Agga - engin á klúðrið sem fólst í því, að endurreisa of stórt bankakerfi, nema ríkisstjórnin.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 24.6.2010 kl. 18:50

6 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Takk fyrir athugasemdirnar og ég mun reyna að benda á þetta áfram.

Ég get ekki séð hvernig stjórnmálamenn sem eru hættir, farnir, jafnvel fyrir löngu síðan eigi að geta svarað því hvað Gylfi og Steingrímur hafa verið að gera síðustu mánuðina.

Þeir geta varla svarað því af hverju þeir hlustuðu ekki á athugasemdir Björns Þorra, Gunnars Tómassonar, Hagsmunasamtakanna, talsmanns neytenda og fjölda annarra. Né af hverju ekki var búið að samþykkja flýtimeðferð á þessum málum?   Eða af hverju ekki var búið að reikna út hvað það þýddi ef þessir lánasamningar væru ólöglegir? Eða hverju var engin viðbragðsáætlun?

Stjórnmálamenn sem komu að samþykkt þessara laga bera ábyrgð á því, og þeir ráðherrar sem sátu þá að framkvæmd þeirra.  En þeir geta varla borið ábyrgð á uppgjörinu á milli gömlu og nýju bankanna, áhugaleysinu á að afla sér upplýsinga og aðgerðaleysi núverandi ríkisstjórnar.

Eygló Þóra Harðardóttir, 24.6.2010 kl. 18:58

7 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

:) - Viðbrögð síðustu daga og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og viðbrögðin á þinginu þegar dómurinn kom sýna náttúrulega mjög vel hversu vel menn voru undirbúnir fyrir niðurstöðu Hæstaréttar.

Eygló Þóra Harðardóttir, 24.6.2010 kl. 19:01

8 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Í mínum huga er sorg sú sorg er vegna þess að stjórnvöld eru og voru vanhæf með öllu í að reyna koma okkur uppúr kreppunni og það er sem þeim sé það  fyrirmunað með öllu! Hverja er verið að vernda aðra en fjármagnseigendur og hrunakónga á kostnað almennings en nú þegar sést ljósskíma í fjarska verður allt vitlaust, það sem er verið að vinna á þingi er ekki okkur til heilla því að vinnubrögðin þar eru af gamla skólanum ekki neitt nýtt á nálini hróp og köll öllum öðrum kennt um þegar illa gengur engin vill taka ábyrgð gjörða sinna, nú er svo komið að almenningur í landinu er búin að fá nóg fjórflokkurinn hefur ekki tekið við skilaboðunum og því ættu allir sem á þingi eru að koma sér út og stokka verður upp á nýtt með aðkomu almennings án aðkomu fjórflokksins gjörspillta og eikavinavædda takk fyrir!

Tvennt sem ég vil koma að er það að ekki hefur verið hagrætt né tekið á málum í bankakerfinu því má það fara þá leið sem það er á!

Einnig er ekki búið að ná einum aðila sem tók þátt í að ræna okkur síðustu ár heldur eru þeir hinir sömu látnir valsa um kerfið sem aldrei fyrr með aðkomu stjórnvalda og bankakerfisins!

Sigurður Haraldsson, 24.6.2010 kl. 20:57

9 identicon

Eygló, ábyrgðin hefur öll legið hjá lántakendum hingað til þökk sé Davíð og Halldóri.

Varðandi fullyrðingar Gylfa má hins vegar spyrja sig hvort tap upp á 100 milljarða þýði ekki að lánveitendur hafi fengið greidda 100 milljarða frá lántakendum.

Væri ekki nær að spyrja að því en hvort Gylfi hafi pantað lögfræðilegt álit sem er eins og þú veist ef þú ferð í fundargerðir Framsóknarflokksins ávallt pantað með fyrirframgefinni niðurstöðu.

Hafþór Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 22:27

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Eygló,

ábyrgð: það að vera ábyrgur, þurfa að svara fyrir e-ð

Þetta er skýring íslenskrar orðabókar á hugtaki sem virðist fyrir löngu vera týnt í íslenskum stjórnmálum og stjórnsýslu eða eingöngu notað til að vísa ábyrgðinni af sér til einhvers annars. Krafan sem þú gerir er þess vegna þeim óskiljanleg sem henni er beint gegn.

Eina sem kemst að hjá Gylfa er að refsa eigi lántökum eins og þeir hljóti að hafa haft rangt við.  Gylfi, ráðherra samkeppnismála, brýtur lög með því að hvetja fjármálafyrirtækin til samráðs og hýsir samráðsfund áður en Samkeppnisstofnun hefur veitt undanþágu.  Nei, það mun enginn axla ábyrgð og allt verður gert til að koma í veg fyrir að heimilin fá þá leiðréttingu sem Hæstiréttur dæmdi.  Fyrirtækin munu fá sitt, en allt verður reynt til að gæta þess að "óreiðufólkið" sem "fór illa með fjármuni" muni fá að halda þeim rétti sem Hæstiréttur dæmdi.  Frekar mun frjósa í Helvíti en að almenningur fái að njóta.  Sannaðu til.

Og aftur að þessu óskiljanlega hugtaki "ábyrgð", þá legg ég til að best sé að gleyma þeirri umræðu.  Það mun ekki gerast að fólk á stjórnarheimilinu telji sig þurfa að svara fyrir mistök sín. 

Marinó G. Njálsson, 25.6.2010 kl. 01:02

11 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Ég hefði viljað sjá ríkisstjórnina taka strax vel í tillögur okkar framsóknarfólks um 20% leiðréttingu lána (með ákveðnu þaki) sem allir flokkar hefðu getað mótað áfram í sameiningu. Nú tala margir um þetta, jafnvel þingmenn þeirra flokka sem gagnrýndu þetta sem harðast á sínum tíma. Þannig hefði mátt hafa mikil áhrif á efnahag hinnar almennu fjölskyldu og fyrirtækja í landinu í febrúar 2009 og lágmarka mikinn skaða.

Í stað þess var rækilegri 200 milljarða skjaldborg slegið um fjármagnseigendur og núna virðast einmitt þeir sem lang glæfralegast fóru vera að fá stórar afskriftir en hinn almenni borgari og flestir þeir sem fóru varlega eru þeir sem borga brúsann.

Mér er alveg fyrirmunað að skilja þessu öfugsnúnu hugmyndafræði hjá velferðarstjórninni og í engum takti við það sem Jóhanna og Steingrímur hafa talað fyrir hér áður fyrr. Það er eins og einhver púsl vanti í þetta furðulega efnahagspúsluspil. AGS?

Varðandi umræðuna um Framsóknarflokkinn í þessum athugasemdum þá er það að verða frekar þreytt þegar sífellt er vísað í fortíðina í stað þess að rætt sé um nútíðina og framtíðina. Það er þar sem við getum raunverulega haft áhrif núna. Það er hins vegar mikilvægt að horfast í augu við fortíðina og læra af henni, held að allir séu sammála um það. Held það sé gagnlegra að koma með uppbyggilega gagnrýni á þá sem núna starfa á vegum flokksins og ekki síður hrós þegar það á við :)

Kristbjörg Þórisdóttir, 25.6.2010 kl. 01:03

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það vantar "ekki" inn í setninguna:

Fyrirtækin munu fá sitt, en allt verður reynt til að gæta þess að "óreiðufólkið" sem "fór illa með fjármuni" muni ekki fá að halda þeim rétti sem Hæstiréttur dæmdi. 

Marinó G. Njálsson, 25.6.2010 kl. 01:04

13 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Í bankakerfum veraldar eru lántakendur þeir sem taka áhættuna - þeirra er ábyrgðin - að kenna Halldóri og Davíð um það kerfi er vægast sagt fásinna - einu skiptin sem forsvarsmenn banka bera "ábyrgð" er rétt á meðan þeir semja um launin sín.

Tal Gylfa - ef einhver tæki mark á honum - hefði getað orðið til þess að fólk færi og tæki út sitt fé og setti bankakerfið aftur á hausinn.

Sammála Kristbjörgu um sífelldar tilvísanir í fortíðina ( bara það slæma að sjálfsögðu ) í stað þess að taka þátt í uppbyggingu og jákvæðni.

Stjórnin er reyndar sekust í niðurrifi og neikvæðni og þí - ágæta Eygló færð Bröste fyrir þá þolgæði sem þú sýnir í biðlund eftir jákvæðu framtaki stjórnarinnar.

Annars - þótt ég sé ekki XB - þú er að gera góða hluti á þingi. Takk fyrir það.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 25.6.2010 kl. 10:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband