Þið eruð í ríkisstjórn.

Þetta er orðið stórundarlegt þegar stjórnarliðar eru farnir að senda frá sér fréttatilkynningu þegar þeir vilja koma einhverju á framfæri við sína eigin rikisstjórn.

Ríkisstjórn sem situr í skjóli meirihluta Alþingis, og þar með þingflokks Vinstri Grænna.

Það er ekki eins og það sé mjög erfitt að nálgast og spjalla við þessa ráðherra.  Þeir sitja yfirleitt þingflokksfundi stjórnarflokkanna, og ég hef líka oft séð þeim bregða fyrir á þinginu þar sem meira að segja aumir stjórnarandstæðingar geta spjallað við þá. 

Ástæðan fyrir fréttatilkynningunni er sala á hlut í HS Orku til Magma Energy. Sala sem er búin að vera í farvatninu síðustu misseri. Á þeim tíma hefur ríkisstjórnin og þingflokkur Vinstri Grænna sem styður hana haft mýmörg tækifæri til að bregðast við og gera eitthvað.

Enda búin að vera við völd í 18 mánuði,- í ríkisstjórn.

Áramótin 2008/2009 úrskurða Samkeppnisyfirvöld að Orkuveitu Reykjavíkur bæri að selja hlut sinn vegna samkeppnissjónarmiða.  Söluferlið hófst í kjölfarið og það tók marga mánuði þar sem samningar náðust ekki um söluna fyrr en í ágúst. Þá þegar lág fyrir að kaupandinn gæti verið erlendur þar sem lög heimila erlendum aðilum að fjárfesta í orkugeiranum. Núverandi ríkisstjórn var boðið að ganga inn í samninginn en hafnaði því.

Enda búin að vera við völd í 18 mánuði,- í ríkisstjórn.

Ríkisstjórnin hefur haft næg tækifæri til að endurskoða lög um fjárfestingu útlendinga í orkufyrirtækjum.  Fyrrv. viðskiptaráðherra hafði hafið vinnu við endurskoðun laganna en þeirri vinnu var ekki framhaldið í tíð núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra Gylfa Magnússonar. Nefnd um erlenda fjárfestingu beindi því sérstaklega til ráðherra að endurskoða lögin, en ekki er vitað hvort því hafi verið sinnt. Þingflokkur Vinstri Grænna hefði meira að segja líka geta lagt fram frumvarp þess efnis. 

Enda búin að vera við völd í 18 mánuði, -  í ríkisstjórn.

Ríkisstjórnin hefur einnig haft öll tök á að móta stefnu um auðlindagjald og tryggja að þeir sem nýti þær greiði þjóðinni fyrir afnotin. Ríkisstjórnin hafði einnig næg tækifæri til að tryggja að eigendur fyrirtækja sem veita grunnþjónustu geti ekki hagnast óeðlilega á viðskiptavinum sínum.

Það er ansi seint í rassinn gripið að senda fjölmiðlum fréttatilkynningu og reyna að kenna öllum öðrum um þegar þingflokkur Vinstri Grænna hafa setið með hendur í skauti þar til tryggt er að öll ráð eru úr þeirra höndum.

Svo ég endurtaki mig aðeins hérna í ljósi þess að flokkurinn er í ríkisstjórn (ef einhver skyldi gleyma því), þá væri nær að einhenda sér í að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum, eðlilega rentu af notkun þeirra, og vinna að fjárfestingum og atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum.

Nema það sé orðin nýja stefna Vinstri Grænna að selja útlendingum allt sem hönd á festir og vísa svo í gerðir fyrri stjórna því til afsökunar?

 

 

 


mbl.is Óviðunandi að erlent fyrirtæki eignist HS Orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Sæl Eygló, ég er í megin dráttum sammála því sem kemur fram í færslunni þinni.  Það sætir furðu að þingflokkur sem á aðild að ríkisstjórn tali við hana í gegnum fjölmiðla. 

Eins og þú veist klofnaði nefnd um erlendar fjárfestignar í tvennt í afstöðu sinni um málið þar sem fulltrúar Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar mynduðu meirihluta gegn fulltrúrum VG og Hreyfingar.  Hver er þín afstaða í málinu?  Ertu fylgjandi sölunni eða andsnúin henni?

Þórður Björn Sigurðsson, 18.5.2010 kl. 12:27

2 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Góð grein hjá þér eins og vanalega - tek heilshugar undir hvert einasta orð hjá þér!

kv. Heilbrigð skynsemi (www.fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson, 18.5.2010 kl. 13:30

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Góð grein hjá þér Eygló, segir í raun það sem segja þarf. Þingmenn VG eru duglegir við að slá sig til riddara í fjölmiðlum, nær væri fyrir þá að fá flokkforistu sína til að standa við þau loforð sem gefin voru fyrir kosningar. Ég er ekki sammála stefnu VG, en það hlýtur að vera hlutverk þingmanna hvers flokks að hafa hemil á forustu sinni og fá hana til að fara eftir þeirri stefnu sem gefin er út.

Þessa vinnu eiga þingmenn að vinna innan síns flokks, ekki í fjölmiðlum. Það er ekki til annars en að veikja viðkomandi flokk.

Gunnar Heiðarsson, 18.5.2010 kl. 19:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband