12.6.2010 | 09:20
Prófkjör 2009 og 2007
Fréttablaðið fjallar um að nokkrir þingmenn hafi ekki skilað inn yfirlýsingu til Ríkisendurskoðunar vegna prófkjara fyrir Alþingiskosningarnar 2007, og þar á meðal hafi verið ég.
Ríkisendurskoðun óskaði eftir þessum upplýsingum við alla þátttakendur, og ég skilaði þeim ekki inn fyrir 2007. Ég hef skilað inn lögbundinni yfirlýsingu um kostnað vegna prófkjörs 2009.
Áður hafði ég svarað Stöð 2, Fréttablaðinu og að mig minnir Ríkisútvarpinu um kostnað og styrki vegna prófkjara 2007.
Prófkjörsbarátta mín kostaði á milli 700-800 þús. kr. Ég greiddi sjálf stærstan hluta kostnaðarins, og innan við 100 þús. komu frá einstaklingum og fyrirtækjum mér ótengdum.
Ég lenti í 4. sæti í prófkjörinu og við fengum tvo þingmenn kjörna. Ég tók svo sæti á Alþingi í nóvember 2008, eftir að Guðni Ágústsson og Bjarni Harðarson hættu þingmennsku.
Fyrir kosningarnar 2009 þá tók ég þátt í prófkjöri í Suðurkjördæmi og lenti í 2. sæti. Við fengum tvo þingmenn kjörna og ég tók sæti aftur á Alþingi.
Kostnaður við prófkjörið var:
Burðargjöld 203.300 kr.
Umslög, pappír o.fl. 59.650 kr.
Prentun 35.980 kr.
Samtals 297.930 kr.
Við hjónin greiddum sjálf þennan kostnað, auk þess sem ég fékk að nýta prentarann hjá bróður mínum. Vinir og ættingjar lögðu einnig á sig mikið óeigingjarnt starf við að setja í umslög og frímerkja.
Ég birti upplýsingar um þetta á vefnum hjá mér 19.3.2009 og sendi inn lögbundna yfirlýsingu til Ríkisendurskoðunar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2010 | 14:47
Vissi ekkert um gengislán!
Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um lögmæti gengistryggðra lána. Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað bent á að þessi lán kunni að vera ólögleg og talsmaður neytenda skrifaði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra bréf þann 23. október þar sem hann spurði m.a. út í það hvort ráðuneytið hefði aflað lögfræðiálits um lögmæti gengistryggðra lána og hvort fyrirvari hafi verið gerður um það við endurreisn bankanna.
Ég sendi því inn fyrirspurn til efnahags- og viðskiptaráðherra um hvort aflað hefði verið lögfræðiálits um lögmæti gengistryggðra lána. Fyrirspurnin var svohljóðandi:
- Hefur ráðuneytið aflað lögfræðiálits (eins eða fleiri) um lögmæti gengistryggðra lána?
Svör ráðherrans: Nei, ráðuneytið hefur ekki aflað utanaðkomandi lögfræðiálits um lögmæti gengistryggðra lána. - Ef svo er ekki, af hverju hefur ráðuneytið ekki aflað slíks álits?
Svör ráðherrans: Þar sem þessi málefni eru nú til meðferðar fyrir dómstólum telur ráðuneytið ekki ástæðu til að afla álits af þessu tagi. - Ef svo er:
a. Hver er niðurstaða álitsins um lögmæti gengistryggðra lána og rökstuðningur fyrir þeirri niðurstöðu?
b. Var tekið tillit til álitsins við uppgjör ríkisins og kröfuhafa föllnu bankanna um verðmæti lánasafna bankanna?
Svör ráðherrans: Eins og áður segir hefur ekki verið aflað utanaðkomandi lögfræðiálits um lögmæti gengistryggðra lána.
Það er ótrúlegt að ráðherrann sem fer með efnahags- og viðskiptamál skuli ekki hafa fengið utanaðkomandi lögfræðiálit. Ráðherra hefur áður afsakað sig með því að það sé ekki hlutverk ráðherra að leita lögfræðiálita eða fá skýringar á því hvort það sé verið að gera hlutina á þann máta sem löggjafinn ætlast til þegar hann setti lögin.
Ég veit ekki betur en að það hafi komið fyrir í þó nokkuð mörgum málum að ríkisstjórnin hafi leitað til lögfræðinga og fengið lögfræðileg álit á þeim málum og lögfræðingar komið og talað með eða á móti málum sem ríkisstjórnin hefur verið að leggja til. Þetta virðist einnig gefa sterklega til kynna að erlendum kröfuhöfum hafi ekki verið kynnt sú lagalega óvíssa sem er uppi um gengistryggð lán þegar verið var að semja um uppgjörið á milli nýju og gömlu bankanna.
Hyggst ég næst leita svara hjá fjármálaráðherra sem fór með samningana við kröfuhafa um uppgjörið á milli nýju og gömlu bankanna.
Vonandi verður kofinn ekki jafn tómur þar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.5.2010 | 08:15
Kjördæmi og á landsvísu
Marinó Njálsson heldur áfram að rýna í niðurstöður kosninganna, og nú með því að taka atkvæðamagn greitt flokkum í kjördæmum og á landsvísu.
Ég tek heilshugar undir lokaorðin hans, - við verðum að koma okkur að verki til að tryggja velferð Íslendinga.
30.5.2010 | 19:00
Engar hugsjónir?
Niðurstöðurnar í sveitastjórnarkosningunum er sláandi. Skilaboðin eru skýr: Kjósendur eru reiðir og ósáttir við starfandi stjórnmálaflokka. Stór hluti kjósenda er að safna saman stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum undir einn hatt sem heitir Fjórflokkurinn.
Þetta má m.a. sjá í pistli sem Hrannar Baldursson skirfar á vef sínum. Ég hef almennt mjög gaman af því að lesa sem Don Hrannar skrifar og finnst hann hafa oft skemmtilega innsýn inn í íslensk stjórnmál. En ég er ekki fullkomlega sátt við lokaorðin í síðasta pistli hans þar sem hann skrifar um að allir flokksmenn og þar með ég séum ekki í stjórnmálum af hugsjónum.
Ég er í stjórnmálum af hugsjónum, sem ég hef tjáð bæði í ræðu og riti, og byggja á samvinnuhugsjóninni. Að fólk geti náð meiri árangri með því að vinna saman en sem einstaklingar. Að eina leiðin til að tryggja sanngirni í samfélaginu er að dreifa valdi, án tillits til auðs, stéttar, kyns eða hörundslitar. Að vinna að því að hvetja til reksturs samvinnufélaga og annara sameignarfélaga sem hafa hagsmuni félaga að leiðarljósi fremur en það eitt að hámarka hagnað. Menn segja svo við mig að þessar hugsjónir geti ekki átt við Framsóknarflokkinn, enda hafa þær brenglast á margan máta í gegnum tíðina - en þetta er hugsjónirnar sem flokkurinn byggði á í upphafi og hugsjónir sem ég trúi á.
Ég er að verða æ sannfærðari að það ekki nóg að skipta um fólk, líkt og búið er að gera bæði innan Framsóknarflokksins og í síðustu tveimur kosningum. Við verðum að breyta vinnubrögðunum, viðhorfunum, skerpa á stefnunni og byggja þannig aftur upp traust. Leiðin til að byggja upp traust er að gera það sem maður segir, og segja það sem maður gerir.
Ekki einfalt, - en það hlýtur að vera þess virði ef við viljum byggja upp réttlátt og sanngjarnt samfélag.
30.5.2010 | 12:59
Merkilegar kosningar
Við Framsóknarmenn erum sátt í Suðurkjördæmi. Á Suðunesjum eru Framsóknarmenn stærstir í Grindavík, ná inn sínum manni í Reykjanesbæ og vantar örfá atkvæði til að ná öðrum manni inn í Sandgerði. Óska ég Bryndísi, Páli, Þórunni, Kristni og Guðmundi innilega til hamingju með kosninguna.
Í Árnessýslunni var það naumt í Árborg, við misstum því miður mann en ég veit að Helgi og Íris munu nota næstu 4 ár til að byggja sig vel upp. Sjálfstæðismenn munu örugglega gefa þeim mörg tækifæri til þess. Í Ölfusi er mikil endurnýjun og þeir bæta vel við sig, ná næstum þriðja manni inn. Jóhanna Ýr náði kjöri í Hveragerði og óska ég Helga, Sveini, Önnu Björg og Jóhönnu Ýr öllum innilega til hamingju með kjörið.
Í Rangárvallasýslunni gerðust mikil tíðindi. B-listinn í Rangárþingi eystra náði hreinum meirihluta sem og Á-listinn í Rangárþingi ytra. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið mjög sterkur þarna þannig að þetta er frábær árangur. Ég óska Ísólfi Gylfa, Guðlaugu, Lilju, Hauki, Guðfinnu, Margréti Ýrr, Magnúsi Hrafni og Steindóri innilega til hamingju.
Í Vestmannaeyjum buðu Framsóknarmenn og óháðir fram í fyrsta skipti í 8 ár, fengu 8,5% og náðu því miður ekki inn manni. Þakka ég öllum listamönnum fyrir frábært starf í kosningabaráttunni og svo er að nota næstu 4 ár til að byggja okkur upp.
Í Mýrdalnum rúllaði B-listinn upp kosningunni, fékk næstum 60% og hreinan meirihluta. Á Hornafirði náðist sögulegur árangur, bættu við sig 10% og fá hreinan meirihluta (Gísli, - þetta átti ekki að vera hægt :)). Hreinlega frábær árangur. Ég óska Inga, Elíasi, Elínu, Þorgerði, Reyni, Ásgerði, Kristjáni og Ásgrími innilega til hamingju.
Ég hlakka til að eiga gott samstarf við þennan frábæra hóp og alla þá sem tóku virkan þátt í kosningabaráttunni og lögðu sig alla fram til að tryggja gott gengi Framsóknarmanna og annarra framfarasinna í kjördæminu. Jafnframt óska ég Framsóknarmönnum víðs vegar um land til hamingju með árangurinn og þakka kærlega öllum þeim sem lögðu hönd á plóg í kosningabaráttunni.
Við þurfum síðan að nota næstu daga og vikur til að fara yfir niðurstöðurnar og þessi alvarlegu skilaboð frá almenningi til okkar stjórnmálamannanna.
PS. Smá komment á Rvk, - nú er það Jóns Gnarrs að stíga næstu skref. Það er fáránlegt að helsta umræðuefnið við sigurvegara kosninganna skuli vera um hvort hann ætli að taka borgarastjórastólinn eða ekki. Það hlýtur að vera að menn ætli sér að ná saman um ákveðnar áherslur og ég efast ekki um að Jón og hans liðsmenn hafa ákveðnar hugmyndir um hvernig þeir vilja stjórna borginni.
Menn eru að biðja um annars konar vinnubrögð og við eigum að hlusta.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2010 | 10:12
Gleðilegur dagur!
Það eru margar ástæður til að gleðjast í dag. Gengið verður til kosninga, Hera nær vonandi 2. sætinu í kvöld ;) og eiginmaðurinn á afmæli.
Áfram X-B!
26.5.2010 | 07:34
Hera áfram
Renndi yfir norrænu síðurnar í morgun. SvD minnist ekki einu orði á okkur, fagnar bara að Portúgal skuli hafa komist áfram, - sem ég skil að vísu ekki alveg. DN er með mynd af Heru á forsíðunni og tekur sérstaklega framm að Hvítarússland og við komust áfram. Aftenposten nefnir að aðeins eitt Norðurland fór áfram, en það eru að vísu 50% heimtur þar sem þau voru bara tvö í gærkvöldi. Fann ekkert inn á Jyllandsposten og Berlingske (nema frétt um að ekki þyrfti að óttast Kötlu).
Ég var mjög sátt, - þar sem Grikkland, Serbía, Ísland og Belgía komust áfram.
En hvað er þetta með að halda okkur á nálum fram að síðasta umslagi??
Svo er bara að taka 2. sætið á laugardaginn :)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2010 | 07:56
Hanna Birna alein í heiminum?
Ég var að fletta Fréttablaðinu í morgun, og rakst á þessa fínu heilsíðuauglýsingu frá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík.
Stundarhátt sagði ég:"Er Hanna Birna ein í framboði?"
Svarið sem ég fékk var:"Þú ert fjórða manneskjan sem spyr að þessu, og enginn af þeim býr einu sinni í Reykjavík."
PS. Ég veit ekki hvort það hafi verið tilviljun að á hinni síðunni var að finna efst frétt um að Gísli Marteinn (sem er víst líka í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík) er ekki enn þá búin að upplýsa um styrkjamál sín...eflaust bara ritstjórnin að sinna sínu starfi að upplýsa almenning ;)
18.5.2010 | 08:39
Þið eruð í ríkisstjórn.
Þetta er orðið stórundarlegt þegar stjórnarliðar eru farnir að senda frá sér fréttatilkynningu þegar þeir vilja koma einhverju á framfæri við sína eigin rikisstjórn.
Ríkisstjórn sem situr í skjóli meirihluta Alþingis, og þar með þingflokks Vinstri Grænna.
Það er ekki eins og það sé mjög erfitt að nálgast og spjalla við þessa ráðherra. Þeir sitja yfirleitt þingflokksfundi stjórnarflokkanna, og ég hef líka oft séð þeim bregða fyrir á þinginu þar sem meira að segja aumir stjórnarandstæðingar geta spjallað við þá.
Ástæðan fyrir fréttatilkynningunni er sala á hlut í HS Orku til Magma Energy. Sala sem er búin að vera í farvatninu síðustu misseri. Á þeim tíma hefur ríkisstjórnin og þingflokkur Vinstri Grænna sem styður hana haft mýmörg tækifæri til að bregðast við og gera eitthvað.
Enda búin að vera við völd í 18 mánuði,- í ríkisstjórn.
Áramótin 2008/2009 úrskurða Samkeppnisyfirvöld að Orkuveitu Reykjavíkur bæri að selja hlut sinn vegna samkeppnissjónarmiða. Söluferlið hófst í kjölfarið og það tók marga mánuði þar sem samningar náðust ekki um söluna fyrr en í ágúst. Þá þegar lág fyrir að kaupandinn gæti verið erlendur þar sem lög heimila erlendum aðilum að fjárfesta í orkugeiranum. Núverandi ríkisstjórn var boðið að ganga inn í samninginn en hafnaði því.
Enda búin að vera við völd í 18 mánuði,- í ríkisstjórn.
Ríkisstjórnin hefur haft næg tækifæri til að endurskoða lög um fjárfestingu útlendinga í orkufyrirtækjum. Fyrrv. viðskiptaráðherra hafði hafið vinnu við endurskoðun laganna en þeirri vinnu var ekki framhaldið í tíð núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra Gylfa Magnússonar. Nefnd um erlenda fjárfestingu beindi því sérstaklega til ráðherra að endurskoða lögin, en ekki er vitað hvort því hafi verið sinnt. Þingflokkur Vinstri Grænna hefði meira að segja líka geta lagt fram frumvarp þess efnis.
Enda búin að vera við völd í 18 mánuði, - í ríkisstjórn.
Ríkisstjórnin hefur einnig haft öll tök á að móta stefnu um auðlindagjald og tryggja að þeir sem nýti þær greiði þjóðinni fyrir afnotin. Ríkisstjórnin hafði einnig næg tækifæri til að tryggja að eigendur fyrirtækja sem veita grunnþjónustu geti ekki hagnast óeðlilega á viðskiptavinum sínum.
Það er ansi seint í rassinn gripið að senda fjölmiðlum fréttatilkynningu og reyna að kenna öllum öðrum um þegar þingflokkur Vinstri Grænna hafa setið með hendur í skauti þar til tryggt er að öll ráð eru úr þeirra höndum.
Svo ég endurtaki mig aðeins hérna í ljósi þess að flokkurinn er í ríkisstjórn (ef einhver skyldi gleyma því), þá væri nær að einhenda sér í að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum, eðlilega rentu af notkun þeirra, og vinna að fjárfestingum og atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum.
Nema það sé orðin nýja stefna Vinstri Grænna að selja útlendingum allt sem hönd á festir og vísa svo í gerðir fyrri stjórna því til afsökunar?
![]() |
Óviðunandi að erlent fyrirtæki eignist HS Orku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.5.2010 | 09:45
Hvað með Landsbankann?
Fátt annað hefur verið í fjölmiðlum síðustu sólarhringa en umfjöllun um stefnur, handtökur og málaferli gegn forsvarsmönnum Kaupþings og Glitnis. Enda ekki skrítið, þar sem upphæðirnar eru stjarnfræðilegar og ásakanirnar miklar.
En voru bankarnir ekki þrír?
Hvernig stendur á því að ekkert er að frétta úr Landsbankanum?
PS. Ég hef nú óskað eftir fundi í viðskiptanefnd með fulltrúum skilanefndanna til að fá upplýsingar um stöðu mála og þá sérstaklega hvað sé að gerast í Landsbankanum. Vonandi verður hægt að koma þeim fundi við í næstu viku.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)