Bleiku spurningarnar

Ég er einkar góð í bleiku spurningunum í Trivial Pursuit.  Svo góð að ég og maðurinn minn höfum verið ósigruð í töluverðan tíma í þess ágæta spili í fjölskyldupartýum nánast frá því að við hófum sambúð.  Verkaskiptingin er mjög einföld og góð.  Ég svara bleikum spurningunum og hann öllum hinum litunum. 

Hann veit allt um hluti sem skipta litlu máli Cools.s. bókmenntir, vísindi, íþróttir, landafræði o.s.frv og ég með hverjum Angelina Jolie var gift áður en hún hóf sambúð sína með Brad Pitt og hvaðan Alexandra prinsessa (fyrrum) í Danmörku er.

Áhugi minn á fræga fólki nær ekki bara til núlifandi frægra einstaklinga, heldur hef ég óskaplega gaman af því að liggja í Wikipedia og öðrum "fræði"-ritum og lesa um fræga einstaklinga frá fyrri tíð.  Og þá sérstaklega konur. 

Nú síðast var ég að lesa um Yelizaveta Petrovna (Elísabetu) keisaraynju Rússlands, forvera Katrínar miklu. Hún var dóttir Péturs mikla og Martha Skavranskaya, og var aldrei ætlað að vera leiðtogi landsins og sagan hefur gert hana að aukapersónu í myndum um Katrínu miklu. En ætti að mínu mati að vera mun þekktari. Elisabet tók völdin með hljóðlátri byltingu, um miðja nótt með því að sannfæra hersveit að fylgja sér til Vetrarhallarinnar, handtaka alla ráðherrana og þáverandi valdhafa Anna Leopoldovna og lýsa sjálfa sem keisaraynju.  Í stjórnartíð hennar var hún geysilega vinsæl, samdi frið við Svía og leyfði Rússum að stjórna rússneska ríkinu.

Það er einkar athyglisvert hvernig hegðun þeirra er oft dæmd á allt annan máta en karla. 

Dæmi um þetta er viðhorfið gagnvart einu konunni í 2100 ára sögu Kína til að sitja sem keisari. Hún var Wu Zhao og ríkti yfir Kína frá 690-705 sem keisari.  Þar áður hafði hún stjórnað sem hjákona keisaranna og feðganna Taizong og Gaozong, og síðan eftir dauða þeirra í gegnum tvo syni sína þar til hún loks varð sjálf keisari 690.  Kínverska ríkið hafði aldrei verið stærra en í valdatíð hennar, hún opnaði landið gagnvart viðskiptum við erlend ríki, stóð að útbreiðslu búddisma og skipti út aðalsmönnum fyrir menntamenn í stjórnkerfinu.

Þeir sem aðhylltust kenningar Konfúsiusar notuðu hana svo sem dæmi um hvernig kona ætti ekki að hegða sér og gerðu hana að nánast fulltrúa hins illa.

Enda dirfðist hún að verða keisari og stjórna líkt og karlmaður.

Meira af bleikum spurningum síðar... 



Jónína frábær!

Jónína Bjartmarz mætti í Kastljósið í gærkvöldið og hreinlega rúllaði Helga Seljan upp.  Ég held að hver einasti Framsóknarmaður í landinu hafi verið einkar stoltur af frammistöðu hennar.

Ég hef áður talað um fréttamennskuna hjá 365 miðlunum, þar sem aðaláherslan virðist vera á að vera með nógu krassandi frétt frekar en að gæta hlutleysis í fréttaflutningi.  Helgi virðist hafa tekið þessa arfleið með sér yfir á RÚV, sem er nú stjórnað af Þórhalli Gunnarssyni og Páli Magnússyni. 

Bravó, Jónína!  

Þú ert búin að svara spurningum hans.  Nú er kominn tími til þess að hann og Kastljósið svari því af hverju þeir fari á stað með svona ótrúlegan fréttaflutning og dylgjur tveimur vikum fyrir kosningar. 

Hvað liggur að baki? 


Kosningaskrifstofan opnuð

Framsóknarmenn opnuðu kosningaskrifstofuna sína á fimmtudagskvöldið, grilluðu heilt lamb fyrir gesti og gangandi og skemmtu sér alveg feiknarvel. Um leið vorum við að opna höfuðstöðvar Framsóknarflokksins í Eyjum  (útibúin má svo finna á víð og dreif um bæinn)Smile þar sem við verðum með framtíðaraðstöðu.

Stjórnin hafði unnið baki brotnu í tvær vikur við að endurnýja húsnæðið og fólk átti bara ekki til orð yfir hvað þetta væri skemmtilegt og flott húsnæði Smile

Að sjálfsögðu féll allt blogg niður þar sem kjötheimur tók alveg yfir og skrokkurinn varð aðeins að fá ráðrúm til að jafna sig, en nú er bara að taka sig á.

 


Ágætis borgarafundur

Ég horfði á borgarafundinn í sjónvarpinu í gær um félag- og menntamál.  Greinilegt er að stjórnendurnir og gestirnir eru að slípast í þessu fundarformi.  

Mér fannst sérstaklega gaman að fylgjast með seinni hlutanum um menntamál.  Þorgerður Katrín var einstaklega afslöppuð og eiginlega hálfhlóg af viðleitni stjórnarandstæðinga til að gera lítið úr hinum geysilega árangri síðustu ára. Jón formaður stóð sig alveg sérstaklega vel.  Hann var mjög skýr og það kom einkar vel fram hversu vel hann er inni í þessum málaflokki.   Björgvin blaðraði bara, Katrín Jakobsdóttir fór í hringi og var á tímabili farin að hljóma eins og talsmaður menntamálaráðherra á meðan Magnús Þór og Margrét sátu stillt og prúð hlið við hlið.

Ég hefði nefnilega einmitt haldið að fulltrúar flokkanna sem tala um mikilvægi þess að virkja mannauðinn og byggja atvinnulif 21. aldarinnar á hugviti hefðu mun skýrari stefnu um hvað þeir ætla að gera öðruvísi en núverandi stjórnarflokkar.  Þessi stjórnarflokkar, sem stjórnarandstæðingar, telja bara hafa sinnt "álinu og orkunni".

Nei, - engar hugmyndir um breytingar.  Bara halda áfram á sömu braut og núverandi ríkisstjórn Smile

Ekki skrítið að Þorgerður Katrín skyldi bara brosa.

 

 


Léttust um 25%

Fólk er að þyngjast, og það sem er einna alvarlegast er að börnin okkar eru að þyngjast mjög mikið.  Gildir þetta hér á Íslandi og í öllum hinum vestrænum ríkjum. Ástæðan er einföld, - við erum að hreyfa okkur minna og borða meira og þá sérstaklega af unnum afurðum og sykri.

En er ekki hægt að snúa þessari þróun við?

Í Svíþjóð hafa fimm skólar tekið þátt í verkefninu Stopp (Stockholm Obesity Prevention Project)til að draga úr þyngd skólabarna. Það hefur verið gert með því að hætta að bjóða upp á sætindi, bjóða upp á hollara snarl og auka hreyfingu barnanna. Árangurinn hefur verið ótvíræður, en nemendur sem eru of þung fækkaði um heil 25% þau fjögur ár sem verkefnið hefur staðið.

Á Dagens Nyheter segir frá hvernig skólarnir bjóða nú upp á hádegismat skv. tillögum næringarfræðinga og aðeins er boðið upp á ávexti sem snarl, nýmjólkinni skipt út fyrir léttmjólk og hvítt brauð fyrir gróft. Síðast en ekki síst fá börnin mun meiri hreyfingu.  Farið er tvisvar í viku í leikfimi og oft í sund, auk þess sem boðið er upp sérstakan tíma þar sem nemendur fá að prófa ýmsar tegundir af íþróttum s.s. handbolta, karate, körfubolta og blak.  Árangurinn í Stopp skólunum var borinn saman við fimm aðra skóla þar sem ekkert var gert í að draga úr þyngd barnanna. Í þeim skólum hafði hlutfall of þungra barna aukist á sama tímabili.

Eftir að hafa lesið þessa grein fór ég að velta fyrir mér hvernig staðan væri í mínu sveitarfélagi.  Grunnskóli Vestmannaeyja stendur sig á margan hátt vel. Boðið er upp á ávexti á morgnana, áhersla er á að börn komi með hollt nesti að heiman og það er bannað að koma með sæta drykki í skólann. Dóttir mín sem er í fyrsta bekk fer einu sinni í viku í leikfimi og einu sinni í viku í sund.

En væri ekki hægt að gera meira?  

Ég tel að það væri vel hægt að leggja aukna áherslu á hreyfingu frá byrjun skólagöngunnar, fara jafnvel í sund og leikfimi tvisvar í viku, sem myndi tryggja að börnin fengju líkamlega hreyfingu fjóra daga af sjö.

Af hverju ekki fá Lýðheilsustofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga til að setja á stað svona verkefni innan grunnskólanna og helst leikskólanna líka.  Þannig væri hægt að auka heilbrigði barnanna okkar og vonandi þjóðarinnar til framtíðar.


"Niðurskurður" á Landspítalanum??

Tómas Zoëga, yfirlæknir á geðdeildinni á Landspítalanum, sagði í kvöldfréttunum að baðherbergið sem sjúklingur var lagður inn á væri fyrir neðan allar hellur.  Af hverju var hann þá að leggja sjúklingana þarna inn í heila tvo daga? Jú, vegna þess að hann taldi betra að bjóða honum þessa bráðabirgðavistun en að senda hann heim.

Síðan bætti hann við að þetta væri að sjálfsögðu ekki honum sjálfum að kenna, þrátt fyrir að hann væri stjórnandi þarna, heldur niðurskurði.  Væntanlega ætti heilbrigðisráðherra eða formaður heilbrigðisnefndar að vera á staðnum til að stjórna innlögnum, að mati hans og Fréttastofu Stöðvar 2?

Að vísu bætti hann við að menn hefðu séð að sér.

Ég fór að gamni mínu inn á fjárlagavef Fjármálaráðuneytisins og skoðaði hinn mikla "niðurskurð" sem hefur verið í heilbrigðis-og tryggingakerfinu:

Ár     Landspítali                 Heildarútgjöld

2003 Reikningar 25.614     Reikningar 105.817,7

2004 Reikningar 25.905     Reikningar 112.643,6

2005 Reikningar 26.956     Reikningar 118.462,1

2006 Fjárlög 27.902           Fjárlög 126.181,4

2007 Fjárlög 30.190           Fjárlög 143.441,7

Jamm,  - það er gott að geta hnussað yfir 30 milljörðum kr. 

 


Æsifréttin um BUGL

Fyrirsögn Fréttablaðsins í morgun var Metbiðlistar á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans . Í greininni var talað við móður geðfatlaðs barns og yfirlækni á BUGL.  Fréttin var á margan hátt dæmigerð fyrir þann æsifréttastíl sem virðist einkenna fréttaflutning 365 miðlanna.  Aðeins er sýnd ein hlið á málinu, og ekkert er talað við fulltrúa ráðuneytisins eða vondu stjórnmálamennina sem sitja eins og drekar á gullinu að mati viðmælenda.

Hvergi er minnst á það í greininni að ótrúlega stutt er síðan við fórum að gera okkur  grein fyrir að börn og unglingar eiga við geðraskanir að stríða líkt og fullorðnir. Um leið hefur tilfellunum fjölgað gífurlega, líkt og má sjá á tug prósenta fjölgun komu sjúklinga árlega.

Ekki bara hérlendis heldur í öllum hinum vestræna heimi!

Stofnun BUGL var stórt skref í rétta átt, og í febrúar tók heilbrigðisráðherra fyrstu skóflustunguna að byggingu nýs húsnæðis fyrir göngudeild BUGL við Dalbraut 12. Áætlaður kostnaður er 650 milljónir kr. Nýtt húsnæði BUGL verður í samræmi við stefnu heilbrigðisráðherra um að efla fyrst og fremst dag- og göngudeildarþjónustu, og leggja meiri áherslu á meðferðarrými fyrir einstaklinga og hópa en hefðbundin legurými.

Að sjálfsögðu var hvergi minnst á það í greininni!

Samhliða þessu hefur verið lögð áhersla á að efla miðstöð heilsuverndar barna og ráða sálfræðinga eða geðhjúkrunarfræðinga fyrir börn með geðraskanir á heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni þar sem þörfin hefur verið mest.  

Allt þetta mun hafa þau áhrif að biðlistar minnki, en ekki síst að börn og unglingar geti sótt sér lækningu í sínu umhverfi.  Ekki inn á stofnun, heldur í sinni heimabyggð í meðferð á heilsugæslustöðvar eða dag- og göngudeild, og búið hjá sínum nánustu.

Fann þetta ekki heldur í greininni!

Auk þess var ekki eitt stakt orð um skort á geðlæknum, sem hefur hrjáð BUGL þrátt fyrir að vel hafi gengið að manna stöður hjúkrunarfræðinga (ólíkt mörgum öðrum deildum).

Neibb, - enda hefði það bara dregið úr "fréttagildinu"...


Nei við kosningum um skoðanakannanir!

Í dag eru þrjár vikur til kosninga og því ágætt að staldra við og íhuga um hvað kosningabaráttan hefur snúist um hingað til. 

Helsta umræðuefnið í fjölmiðlum við stjórnmálamenn virðast vera skoðanakannanir.  Guðni Ágústsson var í viðtali á www.mbl.is og hvað ræddi hann? Jú, stöðu Framsóknarflokksins.  Í gær var ég í Morgunhananum með Kolbrúnu Halldórsdóttur og við þurftum báðar að svara fyrir síðustu skoðanakönnun.  Ég vegna þess að Framsóknarflokkurinn mælist lágt, og Kolbrún vegna þess að hennar flokkur er að tapa fylgi??

Stór hluti af umræðuþáttunum hjá RÚV og Stöð 2 hafa snúist um þetta sama, síðustu skoðanakannanir. Ég man alls ekki eftir þessum gífurlega fjölda skoðanakannanna fyrir síðustu alþingiskosningar og hvað þá að fjölmiðlar hefðu meiri áhuga á niðurstöðum kannanna en stefnumálum viðkomandi framboða.

Í Frakklandi er fylgst nákvæmlega með könnunum fyrir forsetakosningarnar, líkt og hér.  En þar hefur fólk til áminningar hvað þær klikkuðu stórkostlega árið 2002, þegar Jean-Marie Le Pen ýtti út Lionel Jospin í fyrstu umferð.  Þá voru alls 193 kannanir birtar, og engin af þeim sá fyrir hið mikla hægri fylgi sem Le Pen hlaut. Nú fjórum árum síðar hafa verið birtar 250 kannanir, en líkt og bent er á í góðri grein á CNN.com þarf það ekki að þýða betri niðurstöður.

CSA Institute, sem er víst sambærileg á við Gallup hér eða Félagsvísindastofnun, gerði fyrir stuttu greinileg mistök í að meta fylgi Francois Bayrou nánast á jafns við Segolene Royal.  Áhrifin voru heljarins fjölmiðlaumfjöllun og breytingar í málflutningi Sarkozy og Royal.  CSA Institute notar nefnilega aðferðir sem er víst frekar algengt að nota, en það er að spyrja kjósendur hvað þeir ætla að kjósa og hvað þeir kusu síðast, og leiðrétta svo niðurstöður í samræmi við það.  Hér hefur verið algengt að bæta við aukaspurningunni um hversu líklegur viðkomandi er til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, en aðra flokka ef fólk segist vera óákveðið.  Fjöldi þeirra sem vill ekki svara eða eru líklegri til að skipta skoðun hefur líka fjölgað í Frakklandi, líkt og hér sem eykur enn á óvissuna.  

Hefur einhver tekið saman hversu margar kannanir hafa verið gerðar hingað til, og svo fram til kosninga? Og hér hef ég eytt heilli blogg grein í að fjalla um skoðananakannanir, enn á ný. 

Því lýsi ég eftirfarandi yfir:  Frá og með þessum degi og fram til kl. 20.00 þann 12. maí mun ég ekki fjalla frekar um skoðanakannanir á þessum vef.


Eygló Harðardóttir 


mbl.is Guðni: Sjálfstæðisflokkurinn virðist stikkfrí í umræðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sarko leiðir, Sego næst

Frakkar kjósa nýjan forseta á sunnudaginn og formlegri kosningabaráttu er lokið. BBC er með heljarins úttekt á viðhorfum Frakka til frambjóðendanna og ég hef að sjálfsögðu ekkert annað að gera en að velta mér upp úr kosningum í öðrum löndum :)

Nicolas Sarkozy eða Sarko eins og stuðningsmenn hans kalla hann leiðir með um 29% fylgi í síðustu skoðanakönnunum. Segolene Royal eða Sego, er í öðru sæti með 25%.  Næstur kemur Francois Bayrou með um 15% og þar á eftir ógnvaldurinn mikli Jean-Marie Le Pen sem mælist með um 13%.  

Það sem hefur einkennt kosningarnar eru fyrst og fremst óöryggi kjósenda. Óvanalega stór hluti kjósenda hefur átt erfitt með að gera upp hug sinn, eða telur sig ekki geta kosið eins og þeir myndu helst vilja. Ástæðan er ekki síst Le Pen.  Hann komst öllum á óvörum áfram í aðra umferð forsetakosninganna síðast, felldi út frambjóðenda vinstri manna Lionel Jospin og tryggði Jacques Chirac yfirburða kosningu.

Því er mikið talað um mikilvægi þess að nýta atkvæði sitt þannig að það geri gagn, en ekki til að láta í ljós raunverulega skoðun sína á frambjóðendunum.  

Segolene Royal vonar að þessi ótti muni ná að sameina vinstri menn í Frakklandi og tryggja henni forsetastólinn.  En vinstri menn í Frakklandi hafa ekki beint verið þekktir fyrir mikinn stöðugleika í hvernig þeir kjósa.

Góðu fréttirnar eru að aldrei hafa fleiri nýir kjósendur skráð sig til að kjósa, eða um 1 milljón nýrra kjósenda.

Líklegast hafa síðustu forsetakosningar og jafnvel forsetakosningarnar í Bandaríkjunum kennt okkur kjósendum hversu mikilvægt er að taka þátt.

Hvert atkvæði getur skipt máli!

Sumardagurinn fyrsti í Eyjum

Sólin skín í Vestmannaeyjum, fjölskyldan er búin að fara í skrúðgöngu, kíkja á ljósmyndasýninguna hans Sigurgeirs og ég bakaði svo vöfflur.  Á meðan flakaði maðurinn nokkra þorska auk þess sem við erum að velta fyrir okkur hvað væri best að gera við þessar tindabikkjur sem fylgdu með.  

Ég var að hugsa um leið og ég settist niður til að skrifa nokkrar línur hversu miklu auðveldara það er að vera neikvæður en jákvæður.  Efnisvalið í dag hefði t.d. getað verið kvenfyrirlitning og ómálefnalegur málflutningur Ögmundar Jónassonar í kosningasjónvarpi Stöðvar 2, eða óskiljanleg grein í Mannlífi þar sem var verið að lasta ráðherra fyrir fjárútlát fyrir kosningar með mynd af Valgerði Sverrisdóttur.  Hafði Valgerður ekki einmitt sagst ekki ætla í pólitískar ráðningar og hagrætt í rekstri sendiráðanna?   Hefði ekki verið mun nær að hafa þar mynd af Sturlu Böðvarssyni fyrir samgönguáætlunina eða Þorgerði Katrínu fyrir 12 milljarðana í menningarhúsið, spurði ég sjálfa mig?

Já, - það er svo auðvelt að vera neikvæður.  

En sólin skín, grísarifin fara bráðum á fyrsta sumargrill ársins, málningarpenslarnir bíða niðri á kosningaskrifstofu og það er gott að búa í Eyjum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband