16.8.2007 | 21:20
Framboð til formanns LFK
Næstkomandi laugardag, 18. ágúst verður haldið í Reykjavík landsþing Landssambands Framsóknarkvenna. Ljóst er að Bryndís Bjarnason, núverandi formaður LFK, hyggst hætta formennsku.
Ég hef því ákveðið að gefa kost á mér til formennsku í LFK.
Undanfarin ár hef ég tekið mjög virkan þátt í starfi Framsóknarflokksins. Ég var í 4. sæti á lista Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi fyrir síðustu tvennar alþingiskosningar og sat um tíma á Alþingi sem varaþingmaður. Ég hef verið mjög virk í starfi á vegum flokksins og er m.a. ritari Kjördæmissambands Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi, fulltrúi í miðstjórn Framsóknarflokksins og gjaldkeri Framsóknarfélags Vestmannaeyja. Að auki hef ég gegnt fjölda trúnaðarstarfa á vegum Vestmannaeyjabæjar, m.a. verið aðalmaður í skólamálaráði, setið í stjórn Nýsköpunarstofu Vestmannaeyja, Visku,- fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar og sem stjórnarformaður Náttúrustofu Suðurlands.
Ég hef haft mikla ánægju af störfum mínum fyrir Framsóknarflokkinn og lagt mig fram um að halda málefnum kvenna á lofti. Innan Framsóknarflokksins hefur LFK gegnt lykilhlutverki við að tryggja framgang kvenna og málefni er varða konur. Árangurinn hefur verið ótvíræður. Hlutfall kynja á listum flokksins og í nefndum á vegum flokksins hefur verið mjög jafnt. Þannig sátu jafnmargar konur og karlar í fyrstu sætum framboðslista í síðustu tvennum alþingiskosningum og enginn flokkur hefur haft jafnmarga kvenráðherra og Framsóknarflokkurinn.
Á þessum góða árangri vil ég byggja í samstarfi við stjórn LFK, landsstjórn og Framsóknarkonur um allt land því ég tel að sterk staða kvenna innan Framsóknarflokksins sé lykillinn að framtíð hans.
16.8.2007 | 11:00
Vill Mogginn hengja Sturlu?
Grímseyjarferjan hefur verið fyrsta frétt fjölmiðla að undanförnu eftir að svört skýrsla Ríkisendurskoðunar birtist um kaupin og endurbæturnar á ferjunni. Pólitíkusar og embættismenn hafa spunnið hver um annan þveran, bendandi á hina og þessa sökudólga.
Kristján Möller, núverandi samgönguráðherra og einn helsti gagnrýnandi kaupanna á ferjunni áður en hann settist í stólinn, vill núna kenna Einari Hermannssyni um. Hann er fullkominn blóraböggull, starfar ekki hjá ráðuneytinu né Vegagerðinni og mælti með kaupunum. Að vísu með nokkrum fyrirvörum en enginn í ráðuneytinu eða Vegagerðinni virðist hafa lesið ráðgjöfina í heild sinni. Fyrir kosningar virtist ljóst á málflutningi Kristjáns að þáverandi samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, bæri alla ábyrgð. Hvað hefur breyst?
Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri Samgönguráðuneytisins, kemur næst fram með yfirlýsingu þess efnis að þetta sé ekki ráðuneytinu að kenna þar sem verklagsreglur þess hafi verið þverbrotnar. Heldur verkefnisstjóranum og Vegagerðinni. Eða hvað?
Enginn veit hverjum Sturla Böðvarsson, fyrrverandi ráðherra samgöngumála vill kenna um þar sem ekki hefur verið hægt að ná í hann. (...fundið góðan blett við þjóðveginn þar sem ekki næst gsm-samband )
Mogginn virðist hafa mikið við þessar útskýringar að athuga. Í Staksteinum segir: ...Það er merkilegt að Vegagerðin, sem nánast aldrei hefur komizt í fréttir á undanförnum áratugum vegna óstjórnar, skuli allt í einu hafa tekið upp á því í þessu máli að brjóta verklagsreglur samgönguráðuneytis. Það er rannsóknarefni hvað hafi valdið því.
En það er líka rannsóknarefni, hvort samgönguráðuneytið vissi ekki af því, að það hafði verið keypt gömul ferja til landsins í þessu skyni, að hún hefði verið sett í viðgerð í Hafnarfirði og að þar hefðu komið upp margvísleg vandamál. Hvers vegna var ekki kallað eftir verkefnisáætlun úr því að hún var ekki lögð fyrir ráðuneytisstjórann? Skýringar ráðuneytisstjórans duga ekki.
Það er augljóst að bæði vegamálastjóri og ráðuneytisstjórinn eru að reyna að útskýra eitthvað sem er óútskýranlegt. Í báðum tilvikum er um samvizkusama starfsmenn ríkisins að ræða.
Hvar liggur hundurinn grafinn í þessu máli?...
Á moggamáli þýðir þetta að málið lyktar langar leiðir af pólitískum afskiptum. Er hér kannski komin skýringin á því af hverju Sturla fékk ekki ráðherrastól?
Allavega virðist ætla Mogginn vera búinn að finna sinn blóraböggull...
PS: Mikið er gaman að vera komin úr sumarfríinu, alveg endurnærð
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.7.2007 | 14:26
Týnd í Disneylandi?
Á hverju ári hverfa börn um allan heim. Fá barnsrán fá jafn mikla athygli og hvarf Madeleine. Foreldrar hennar voru í öllum heimsfjölmiðlunum, breska pressan sendi heilu flugvélarnar til Portúgal til að fylgjast með rannsókn lögreglunnar og ekki leið á löngu áður en portúgalska lögreglan var úthúðuð á heimsvísu fyrir slæleg vinnubrögð.
Enn hefur Madeleine ekki fundist og aðrar æsifréttir hafa tekið við sem forsíðufréttir.
Ég velti fyrir mér þegar sem mest gekk á hvort allur þessi fréttaflutningur myndi breyta einhverju. Væru ekki meiri líkur á að Madeleine myndi aldrei finnast? Og hvað með okkur hin sem lásu fréttirnar og horfðu á myndskeiðin í sjónvarpinu. Myndum við, sem foreldrar fylgjast betur með börnunum okkar?
Fyrir stuttu fór ég til Frakklands ásamt eiginmanninum og dætrunum. Fyrsta stoppið var í Disneylandi. Við vorum margbúin að ítreka við þá eldri að það væri harðbannað að fara frá okkur. Að sjálfsögðu endist það stutt í hvert sinn, og var því verkum skipt. Ég var með kerruna og eiginmaðurinn hélt í við þá eldri. Flestir í kringum okkur virtust líka vera að fylgjast með sínum afkvæmum sem voru svo aftur aðallega að fylgjast með Mikka, Guffa og öllum prinsessunum.
En þarna voru einnig góð dæmi um börn sem einkar auðvelt hefði verið að ræna. Faðir sem gekk um með þrjár dætur sínar, einkar sætar með sítt ljóst hár og hvítum alveg eins kjólum. Stutt stopp til að taka myndir, þær tvær eldri hlupu í sitthvora áttina og hann hélt áfram göngu sinni með þá þriðju. Stuttu seinna uppgötvar nr. 2 að hann er farinn og hleypur á eftir. Fimm mínútum seinna sá ég þá þriðju hlaupa um með tárin í augunum, horfandi í allar áttir. Hvar er pabbi?
Svo maður tali ekki um konuna sem hljóp um allt við lokun, kallandi á barnið sitt, skelfingu lostin. Ég, líkt og hinir gestirnir sem vorum á leiðinni á bílastæðin horfðum á og héldum svo áfram.
Alveg eins og við flest höfum væntanlega gert eftir að hafa horft á myndskeiðin á niðurbrotnum foreldrum Madeleine litlu.
Enda koma víst slæmir hlutir bara fyrir hina, ekki satt?
3.7.2007 | 07:33
Kvíðahnútur í maganum
Ætli það sé ekki ansi margir íbúar sjávarbyggðanna sem séu með kvíðahnút í maganum. Skv. frétt á Vísisvefnum mun Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra gera grein fyrir ákvörðun sinni um veiðiheimildir á næsta fiskveiðiári á ríkisstjórnarfundi fyrir hádegi.
Að honum loknum verða þær væntanlega kynntar almenningi.
Verður Össur tilbúinn með tillögur um mótvægisaðgerðir? Eða munum við sjá enn eina nefndina stofnaða s.s. eins og Vestfjarðanefndina og nefndina um viðbrögð við stuðningi ríkisins við fiskvinnsluna í Grimsby og Hull?
2.7.2007 | 20:24
Er landsbyggðin Darfur Íslands?
Öðru hverju berast fréttir af miklum hörmungum í Darfur, héraði í Súdan. Ástæðan fyrir ógnarástandinu er að íbúar Darfur dirfðust að gera kröfu um eðlilega hlutdeild m.a. í olíugróða landsins. Stjórnvöldum og íbúum í öðrum héruðum blöskraði algjörlega frekjan í Darfur-búum og gripu til ansi harkalegra aðgerða til að koma vitinu fyrir íbúana.
Nú er ég ekki að ætla að íslensk stjórnvöld eða íbúar höfuðborgarsvæðisins munu senda á íbúa landsbyggðarinnar vígamenn til að brenna, myrða og nauðga... en tóninn hefur nú ekki verið ósvipaður. Stöðugt heyrir maður talað um vælið í landsbyggðinni, eilífðarkröfur um ölmusu og lítinn skilning á aðstæðum íbúa sem búa utan stór-Reykjavíkursvæðisins. Þetta skilningsleysi birtist t.d. í skýrslu Hagfræðistofnunar um veiðar á þorski og niðurstöðu starfsmanna hennar að það gæti verið ágætt að hætta alveg að veiða þorsk í svona 2-3 ár. Staðan í þjóðfélaginu væri svo góð að auðvelt yrði að standa undir svona áfalli. Myndi jafnvel kæla efnahaginn aðeins, sagði einhver. Engu skiptir að landsbyggðin hefur meira og minna misst af þenslunni og góðærinu sem hefur verið á höfuðborgarsvæðinu.
Gestur í Vikulokunum á laugardaginn gaf til kynna að íbúarnir gætu bara sjálfum sér um kennt að byggja bara á sjávarútveginum. En hver eru viðbrögðin þegar reynt er að fjölga stoðunum í atvinnulífinu og nýta hina auðlind landsbyggðarinnar, jarðvarmann og fallvötnin? Sjaldan hefur meira verið tekist á í samfélaginu og um Kárahnjúka og álverið á Reyðarfirði.
Og nú um væntanlegt álver á Bakka. Það er staðreynd að álver mengar og til þess að mæta menguninni hafa stjórnendur Norðurþings samið um að álverið verði kolefnisjafnað með mikilli skógrækt. Fá sveitarfélög eru eins vel til uppgræðslu fallin og Norðurþing þar sem það nær yfir geysilegt gróðurvana landflæmi.
Nei, - þetta er bara syndaaflausn. Engu skiptir að þar væri komin ein stoð í viðbót í atvinnulífinu og jafnvel tvær með skóglendinu sem myndi nýtast bæði í ferðaþjónustu og hugsanlega skógarhöggi innan 10-20 ára.
Nei, við skulum frekar kolefnisjafna Volkswagen bíla og flugmiða til London.
PS. Og er ekki bara hægt að flytja þetta landsbyggðarlið í Kópavoginn, eins og allt eðlilegt fólk?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.7.2007 | 19:28
Reykjanesbær á í GGE
Það virðist vera sem fréttamenn sem talað hafa við Árna Sigfússon, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, viti ekki að Reykjanesbær er hluthafi í Geysir Green Energy (GGE). Hann er ítrekað spurður um hvernig honum lítist á fyrirtækið og aldrei kemur fram í einu einasta viðtali að bærinn á í fyrirtækinu.
Því er ekki undarlegt að Árni skuli ætíð lýsa yfir hrifningu sinni á GGE.
29.6.2007 | 22:55
Forspá um Geysir Green Energy
Stundum er óþægilegt að sjá pistla sína verða að raunveruleika. Fyrir nokkrum dögum skrifaði ég pistil um einkavæðingu raforkumarkaðsins í Svíþjóð og spáði því að Geysir Green Energy væri að hugsa sér til hreyfings.
Ekki myndi 15% hlutur ríkisins duga þeim lengi.
Og viti menn, sveitarfélögin Vestmannaeyjar, Grindavík, Sandgerði, Garður, Árborg og Kópavogur hafa nú hlaupið til og selt 28% hlut sinn í HS.
Ég skil svo sem forsendur bæjarfulltrúa þessara sveitarfélaga fyrir að selja, enda fjárhagsleg staða margra þeirra mjög erfið. Ég get hins vegar álasað þeim fyrir algjöran skort á umræðu um hvort það sé réttlætanlegt að selja. Hér í Eyjum réttu allir sjö bæjarfulltrúarnir upp hendi, eftir að boðaður hafði verið aukafundur í bæjarstjórn.
Eftir stendur að bæjarfélagið á nánast engar eignir lengur og við íbúarnir sem eigum eftir að þurfa að borga brúsann fyrir 22,5 milljarða króna fjárfestingu Hannesar Smárasonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar fáum ekki einu sinni tækifæri til að tjá skoðanir okkar.
Lengi lifi lýðræðið!
![]() |
Óska eftir aukafundi í bæjarstjórn vegna málefna Hitaveitu Suðurnesja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.6.2007 | 18:58
Flestir velja að fara í fóstureyðingu
Ha, sagði ég og sagðist nú bara hafa verið send í þessa skoðun. Það sendir þig enginn í þennan sónar, heldur verður þú sjálf að vilja þetta, sagði ljósmóðirin ákveðin. Og hvað gerir fólk almennt ef eitthvað er að, spurði ég. Flestir velja að fara í fóstureyðingu, var mér sagt. Sem betur fer var niðurstaðan að litlar líkur voru á að eitthvað væri að, - og reyndist dóttir mín mun hraustari en ég þegar leið á meðgönguna.
En ég var ansi hugsi þegar ég gekk út. Hefði ekki mátt undirbúa mig mun betur undir skoðunina? Hefði ekki mátt svara spurningu minni á annan máta? Og hefði ég ekki getað verið mun virkari þátttakandi í öllu þessu ferli? Ég held nefnilega að alltof oft verðum við óvirk innan heilbrigðiskerfisins. Við verðum hlutir á færibandi og treystum á að starfsmenn heilbrigðiskerfisins viti allt best.
Að þeir hugsi fyrir mann.
Þeir ljósmæður og læknar sem ég kynntist á meðgöngunni eru yndislegt fólk sem vildu mér allt það besta, og án þeirra væri ég og dóttir mín eflaust ekki á lífi. En ef það er eitthvað sem ég lærði af þessari reynslu er hlusta á mína innri rödd og að vera virkur þátttakandi í ákvörðunum er varða mig og mín börn.
Og ekki dæma þá sem hafa þurft að taka ákvarðanir sem enginn okkar vill þurfa að taka.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.6.2007 | 09:23
Ófremdarástand hjá ríkisstjórninni
Fréttir berast af ýmsum vígstöðvum um ófremdarástand í þjóðfélaginu og það virðist bara ekki vera hægt að ná í einn einasta ráðherra skv. fréttatímanum í gærkvöldi hjá RÚV.
Pólskir verkamenn fá aðeins 400 kr. á tímann, og dulbúast sem rafvirkjar og RÚV sér enga ástæðu til að reka hljóðnemann framan í Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra. Ber hún ekki ábyrgð sem félagsmálaráðherra á öllu sem gerist á vinnumarkaðnum?
Sjúkraliðar eru að örmagnast á spítulum landsins eftir að hafa unnið tvöfaldar vaktir í lengri tíma og engin frí á milli, og Guðlaugur Þór virðist ekki vera til viðtals. Væntanlega í fríi sjálfur, eða ber hann ekki ábyrgð á öllu sem gerist í heilbrigðiskerfinu. Hvar var hljóðneminn og myndavélin á eftir honum, þar sem hann strunsaði fram hjá eða neitaði að tala við fréttamenn?
Fréttir berast af því að sjávarútvegsráðherra hyggist grípa til aðgerða vegna slæms ástands í sjávarútvegi á Íslandi, með því að aflétta 10% álagi af gámafiski og auka þar með verkefni fiskvinnslu í Hull og Grimsby. Á Bretlandseyjum! Og hann sá sér bara ekki fært að tala við fréttamenn...
Er bara enginn að stjórna landinu?
Eða bera kannski Framsóknarmenn enn alla ábyrgðina, líkt og síðustu 12 árin?
![]() |
Rafiðnaðarsambandið vill láta rífa verk pólskra starfsmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.6.2007 | 10:51
Hryllingssaga af raforkumarkaðinum
Undanfarið hafa ýmsir talað fyrir því að einkavæða orkufyrirtækin. Bent hefur verið á einkavæðingu ríkisbankanna sem fordæmi og þeim rökum haldið fram að með einkavæðingu orkufyrirtækjanna yrði mikill kraftur leystur úr læðingi.
Í Svíþjóð hefur hluti af orkufyrirtækjunum verið einkavæddur á meðan hluti er enn í eigu hins opinbera (sveitarfélaganna). Hver er árangurinn? Skv. nýrri skýrslu bjóða opinber raforkufyrirtæki að jafnaði 24% lægra verð en einkarekin, og 16% lægra en þau þrjú stærstu. Gildir það hvort sem litið er til einstaklinga eða fyrirtækja. Hagnaður hinna opinberu er eitthvað lægri en þeirra einkareknu, en svo sem ekkert til að fúlsa við (20-30%).
Reynslan af breyttu lagaumhverfi sem átti að hvetja til aukinnar samkeppni með raforku hefur ekki verið góð í Svíþjóð. Tveir vísindamenn við KTH lýsa breytingunni sem skräckexempel. Sveitarfélög seldu orkufyrirtækin sín í þeirri trú að það myndi lækka verð til íbúanna. Fortum, Eon og Vattenfall keyptu, og stækkuðu og stækkuðu. Verð á rafmagni hækkaði í stað þess að lækka, - eins maður hefði búist við ef virk samkeppni væri til staðar. Verð á rafmagni hefur aldrei verið hærra, og markaðnum er meira og minna stjórnað af risunum þremur.
Hljómar þetta kunnuglega? Árið 2003 voru sett ný raforkulög sem skapa áttu forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku. Afleiðingin er að verð hefur hækkað og voru það sérstaklega fyrirtæki á landsbyggðinni sem fundu fyrir hækkuninni s.s. í fiskeldi, ferðaþjónustu og landbúnaði.
Ég er sannfærð um að ýmsir viðskiptajöfrar hafa verið að fylgjast með þróuninni í Svíþjóð, yfirlýsingum leiðtoga Sjálfstæðisflokksins og hlakka mikið til næstu einkavæðingar. Hannes Smárason, Jón Ásgeir Jóhannesson og félagar í FL Group og Glitnir hafa t.d. þegar hafið undirbúninginn með stofnun Geysir Green Energy og hafa fengið Reykjanesbæ (stærsta einstaka sveitarfélagið í Hitaveitu Suðurnesja) með sér.
Er kannski bara tímaspursmál þangað til við fáum almennt hærri rafmagnsreikninga svona í samræmi við hærri bankavexti?