Hvernig svíkur maður þjóð?

Í kjölfar umræðunnar á þinginu í dag um væntanlegan samning um IceSave og orða Ólínu Þorvarðardóttur á bloggsíðu hennar og á Alþingi tel ég ágætt að rifja upp fyrir henni og öðrum lesendum sögu hruns bankanna og söguna í kringum Icesave.

Öll saga Icesave málsins sýnir að Samfylkingin hefur ekki borið hag íslenska ríksins eða íslensk almennings fyrir brjósti í þeim erindrekstri. Verði skrifað undir saminga á þeim nótum sem kynnt hefur verið í dag, eiga þingmenn engan kost annan en hafna þeim í atkvæðagreiðslu á þingi eða ráða ella íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð með því að setja þjóðina í algjört skuldafangelsi.

Mun því mikil ábyrgð hvíla á herðum þingmanna Vinstri Grænna því ásetningur þingmanna Samfylkingarinnar virðist einbeittur.

Til upprifjunar eru hér helstu vendipunktar Icesave málsins:

 

  • Ingibjörg og Geir markaðssetja Icesave

 

Þrátt fyrir að þeim mætti vera ljóst hversu erfið staða bankanna var orðin halda Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde í markaðsherferð um Evrópu og N-Ameríku þar sem þau hamra á því að sparifjáreigendur geti treyst bönkunum. Aukast erlend innlán bankanna gríðarlega.

 

  • Björgvin G. Sigurðsson tekur einhliða ákvörðun um að skuldbinda tryggingasjóð innistæðueigenda langt umfram eignir (og umfram ESB reglur)

 

Þegar bresk yfirvöld lýsa áhyggjum sínum af stöðu bankanna lýsir Björgvin G. Sigurðsson því yfir í bréfi til breskra stjórnvalda að hans túlkun á lögum um innstæðutryggingar sé mun víðtækari en lesa má íslenskum texta laganna. Björgvin fullyrðir í bréfinu að tryggingasjóðurinn muni undir öllum kringumstæðum taka lán til að tryggja innistæður upp að 20.887 evrur. Í lögunum segir aðeins að „hrökkvi eignir sjóðsins ekki til og stjórn hans telur til þess brýna ástæðu er henni heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum.“

 

  • Ingibjörg og Geir ríkisvæða tap bankanna

 

Þegar bankarnir stefna í þrot ákveður ríkisstjórn Ingibjargar og Geirs að taka yfir bankana og þar með skuldbindingar þeirra.

 

  • Samfylkingin hafnar því að láta reyna á ábyrgðir fyrir dómstólum

 

Samkvæmt heimildum úr herbúðum Samfylkingarinnar var alltaf mjög takmarkaður vilji hjá þingflokki hennar að láta reyna á lagalegan ágreining um Icesave ábyrgðirnar. Hræðslan við að skemma fyrir hugsanlegri ESB umsókn virðist hafa ráðið meira og minna öllum aðgerðum Samfylkingarinnar.

 

  • VG kúvendir. Var þeim hótað af Samfylkingunni?

 

Hér talar formaður VG, áður en umskiptingurinn settist í stól fjármálaráðherra í hans stað: „...Veigamikil rök hnigu því strax frá upphafi að því að íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð á skuldum vegna Icesave-reikninganna umfram þá upphæð sem var til staðar í Tryggingarsjóði innstæðueigenda...Enn er hægt að afstýra stórslysi fyrir íslenska þjóð. Taki Tryggingarsjóðurinn hins vegar við skuldunum er ljóst að þá verður ekki aftur snúið: Þá hefur þjóðin endanlega verið skuldsett á grundvelli pólitískra þvingunarskilmála sem ríkisstjórnin hafði ekki dug í sér til að standa gegn.“

 

  • Forseti lagadeildar HÍ ósammála Samfylkingunni

 

Björg Thorarensen, forseti lagadeildar HÍ, sagði á ráðstefnu í Háskóla Íslands að tilskipunin um innistæðurnar gæti ekki gert aðildarríki, ríkisstjórnir ábyrgar fyrir innistæðum. Orðrétt sagði hún: „ESB-ríkin eru ófáanleg til að fallast á að úr þessum ágreiningi yrði skorið eftir löglegum leiðum. Augljóslega hefði málið valdið óróa innan Evrópusambandsríkjanna og vakið athygli allra á því að engar Evrópureglur eru til sem mæla fyrir ríkisábyrgð á bankainnstæðum.“ Síðar heldur hún því fram að það hafi engin lagaleg skylda borið til að taka þessa ábyrgð: „Hvorki eftir Evróputilskipun né öðrum þjóðréttarlegum reglum... Samningar af þessum toga eru á lögfræðimáli kallaðir nauðungarsamningar. Ekki aðeins í okkar lögum heldur einnig í þjóðaréttinum. Og slíkir samningar eru raunar ógildanlegir.“

Allt gengur út á að bjarga aðildarumsókn að Evrópusambandinu og bönkunum. Frekar á að eyða allt að 400 milljörðum króna í vaxtagreiðslur til Breta og það sem útaf mun standa eftir eignasölu Landsbankans en að leiðrétta skuldir heimilanna. Nei, Samfylkingin, fyrst með stuðningi Sjálfstæðisflokks og nú VG ætlar að skuldbinda íslensku þjóðina langt umfram alþjóðlegar skuldbindingar, til þess eins að styggja ekki Evrópusambandið.

Er skrítið að manni blöskri? Er skrítið að maður fari að velta fyrir sér lagaákvæðum í almennum hegningarlögum og hvort þau geti hugsanlega átt við í þessu tilviki?

Skaðinn sem fyrrum viðskiptaráðherra, forsætisráðherra og aðrir fulltrúar Samfylkingarinnar hafa valdið íslensku þjóðinni með aðgerðum sínum er óbætanlegur og þyngri en tárum tekur.

PS. Í tíunda kafla almennra hegningarlaga er fjallað um landráð. Samkvæmt honum telst hver sá landráðamaður „sem falið hefur verið á hendur af íslenska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri.“Þá telst sá landráðamaður sem „sekur gerist um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með ofbeldi, hótun um ofbeldi, annarri nauðung eða svikum að ráða íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð, eða að ráða annars einhvern hluta ríkisins undan forræði þess.“

Dæmi nú hver fyrir sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dante

Góður pistill hjá þér.

Ég er vægast sagt mjög "pisst" út af þessu Ice-Save máli og ég ætla að ræða við lögfróða vinkonu mína eftir helgi og mögulega kæra þessa apaketti fyrir landráð.

Þetta er ekkert annað en landráð að bjóða þjóðinni upp á þetta og enn meiri landráð eru það að reyna ljúga því að þjóðinni að þessi óskapnaður sé eitthvað meiri háttar góður "díll" fyrir þjóðina.

Nei, takk. Við borgum ekki skuldir óreiðumanna.

Dante, 6.6.2009 kl. 00:36

2 identicon

ef þú ert ekki viss um hvernig maður svíkur þjóð er eðlilegt að þú sért enn í framfóknarflokknum fáir ef nokkrir komast með tærnar þar sem frammarar hafa hælana í föðurlandssvikum.

Tryggvi (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 00:38

3 identicon

Sæl Eygló

Ég vil bara aðeins leggja út af titlinum á pistlinum "Hvernig svíkur maður þjóð?"

Mér dettur t.d. eitt í hug og það er að gefa "vinum sínum" banka þjóðarinnar og afleiðingarnar eru....

Ásta B (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 00:38

4 identicon

Hér byrjaði grunn-vandamálið: "Samfylkingin hafnar því að láta reyna á ábyrgðir fyrir dómstólum".

Var einhver að tala um dómgreindarleysi ráðamanna ?

Það átti að láta á þetta reyna á dómstólaleiðina - en eins og mig rekur minni í mátti ekki að sögn Ingibjargar Sólrúnar "rugga bátnum".

Kveðja.

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 00:48

5 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Ég er skráður í Framsóknarflokkinn.

En ég sýp hveljur yfir þessu bloggi þínu!  Hvað ertu að fara?

Þegar maður hefur gengið of langt, er spurning hvernig snúa má af villu síns vegar. Maður þarf að finna það hjá sjálfum sér.  Vera auðmjúkur og kunna sér hóf.

Landráð.  Ætlar þú að halda þessu áfram?

"Dæmi nú hver fyrir sig."  Hvers konar boð er þetta?

Gæta verður orða sinna því orð skipta máli.

Mér hefur á stundum ekki þótt mikið til orðháksins Ólínu koma en í þessu tilfelli þakka ég fyrir það að hafa mann á þingi sem hefur bein í nefinu.  Nú var það viðeigandi!

Eiríkur Sjóberg, 6.6.2009 kl. 00:50

6 identicon

Sæl Eygló,

Gott hjá þér að láta þennan Samfylkingarvaðal heyra það.

Í fyrsta lagi ríkir sterk réttaróvissa um þetta mál, raunar er það mín skoðun að skýrsla Franska Seðlabankans frá 2001 vegi sterkar heldur en jafnræðisreglan.

Því ætti að láta reyna á málið fyrir dómstólum og láta samninga bíða á meðan.

Samkomulag sem menn hafa gert við AGS-ESB um Icesave verður bara að ganga til baka.

Ég er óhræddur við að taka sénsinn á því þar sem að menn fara hér gegn okkur í órétti og með kúgunaraðferðum í þessum samningum.

Það er vel hægt að stöðva það.

Mestu skiptir að hér sé á ferðinni gagnsætt og lýðræðislegt ferli, enda var það kosið í síðustu kosningum. Fólk fór fram á gagnsæi og réttlæti og eðlilega stjórnsýslu.

Nú ætlar stjórnin að skýla sér á bak við samþykkt úr þinginu síðan í desember sem aldrei hefði átt að taka í mál, til þess að komast hjá því að upplýsa landsmenn um þennan feigðar og flyðruhátt lélegra búmanna í ríkisstjórninni.

Þetta má ekki eiga sér stað.

Hér má ráða í atkvæðagreiðsluna um þingsályktunartillögu þáverandi hæstvirts Utanríkisráðherra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í desember 2008. Þarna var ríkisstjórninni gefið umboð til að drekkja þjóðinni í stórkostlegu skuldafeni um ókomin ár, án þess að einstakir þættir þessara samninga yrðu lagðir fyrir þingið.

Lýðræði, gagnsæi og réttlæti Samfylkingarinnar lætur en á sér standa.

Ég verð reyndar að segja að það olli mér vonbrigðum á sínum tíma að þú skyldir sitja hjá við afgreiðslu málsins, en nú tekur þú á þessu. Flott.

Hver mótmælti þessum þverpólitíska feigðar-gerningi? Jú - einn maður - Pétur Blöndal með breytingatillögu sem hefði átt að þykja mjög eðlilegt mál að samþykkja, en allt kom fyrir ekki.

Nei; Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Jón Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Pétur H. Blöndal, Steingrímur J. Sigfússon (hvað hefur breyst Steingrímur?).  

Hér er Þingsályktunartillaga Utanríkisráðherra

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.
1.    Lagaleg afstaða.
    
Í kjölfar bankahrunsins í byrjun október 2008 kom í ljós að umtalsverðar fjárhæðir voru á innlánsreikningum í útibúum íslenskra banka í Evrópu. Þessar fjárhæðir voru að stærstum hluta til á innlánsreikningum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi, svokölluðum Icesave- reikningum. Þar sem starfsemi bankans í viðkomandi löndum var rekin í formi útibúa en ekki dótturfélaga gilda lög nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, um þessa starfsemi en þau lög eru byggð á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EBE um innlánatryggingakerfi.
    Í samræmi við ákvæði 3. gr. laga nr. 98/1999 nær greiðsluskylda sjóðsins, og þar með talin ábyrgð hans á greiðslufalli, til útibúa íslenskra banka á Evrópska efnahagssvæðinu. Í þessu efni er vísað til reglugerðar nr. 120/2000 um sama efni. Á þessari forsendu sneru stjórnvöld í viðkomandi ríkjum Evrópusambandsins sér að íslenskum stjórnvöldum í því skyni að kanna með hvaða hætti þau hygðust tryggja að sjóðurinn stæði við þær skuldbindingar sem í tilskipuninni felast.
    Íslensk stjórnvöld voru ekki tilbúin til að fallast á að íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslur til innlánseigenda ef þær færu fram úr því sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta gæti staðið undir af inngreiðslum í sjóðinn. Hafa þau haldið því skýrt til haga í öllum sínum viðræðum við stjórnvöld viðkomandi ríkja að þau telji að vafi leiki á um
ábyrgð ríkja á tryggingarsjóðnum, ekki síst undir kringumstæðum þar sem fjármálakerfi aðildarríkis hrynur nánast að fullu eins og reyndin er hér á landi. Þessari lagatúlkun hefur verið hafnað af þeim ríkjum sem hlut eiga að máli svo og af Evrópusambandinu.
    Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur verið lögð áhersla á að fá úr málinu skorið fyrir viðeigandi úrskurðaraðila eða dómstól. Þessu hafa aðildarríki Evrópusambandsins alfarið hafnað. Afstaða þeirra byggist ekki síst á því að þau telja það mjög varhugavert að gefa með einhverjum hætti til kynna að vafi kunni að leika á um gildissvið þess innlánstryggingakerfis sem liggur til grundvallar innlánastarfsemi í Evrópu, þar sem ótvírætt gildi tilskipunarinnar sé forsenda þess að innstæðueigendur treysti bönkum fyrir sparifé sínu. Réttaróvissa kynni að valda ófyrirséðum afleiðingum í
evrópsku bankakerfi.

2.    Pólitísk staða.
    Við upphaf þeirrar deilu sem hér um ræðir sneri hún einvörðungu að Bretum og Hollendingum og voru því viðræður teknar upp við þau ríki sérstaklega. Á þeim tíma stóðu líkur þegar til þess að Ísland mundi þurfa að reiða sig á lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem og tvíhliða aðstoð erlendra ríkja til þess að koma efnahagslífinu á réttan kjöl á nýjan leik. Eftir að gengið hafði verið frá viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í samvinnu við sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var skipulega unnið að því í gegnum tengslanet utanríkisþjónustunnar að kynna málstað og málaleitan Íslands fyrir aðildarríkjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Varð framan af ekki vart neins annars en stuðnings. Það snerist hins vegar og verulegar tafir urðu á fyrirtöku viljayfirlýsingar Íslands í framkvæmdastjórn sjóðsins.
    Þessi staða kom enn skýrar í ljós þegar Frakkland, sem formennskuríki í Evrópusambandinu, ákvað að beita sér fyrir viðræðum milli deiluaðila með pólitíska lausn að markmiði. Þá varð ljóst að ríki Evrópusambandsins töluðu einum rómi í málinu og lögðu kapp á að ábyrgð Íslands skýrðist sem allra fyrst. Sama átti við um starfshóp norrænu ríkjanna um lánafyrirgreiðslu við Ísland sem starfaði í framhaldi af fundi forsætisráðherra Norðurlandanna á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki. Þannig varð ljóst að lausn þessa máls væri forsenda þess að hægt væri að fjármagna að fullu þá efnahagsáætlun sem íslensk stjórnvöld höfðu sent Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til afgreiðslu og að Ísland stæði einangrað ef pólitískri samningaleið væri hafnað.

3.    Niðurstaða íslenskra stjórnvalda.
    Með allt framangreint í huga er það mat ríkisstjórnarinnar að hagsmunum Íslands til lengri tíma litið sé best borgið með því að stjórnvöld styðji við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta þannig að hann geti staðið straum af þeim kostnaði sem hlýst af því að ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um að því marki sem eignir viðkomandi banka standa ekki undir henni. Gert er ráð fyrir því að þau ríki
sem hlut eiga að máli muni aðstoða sjóðinn við að standa undir þessu verkefni og það verði í formi lánveitinga viðkomandi ríkja til sjóðsins með ábyrgð íslenska ríkisins. Þær viðræður sem fram undan eru munu skera úr um nánari útfærslu þessara lánveitinga, auk þess sem hin endanlega niðurstaða mun ráðast af því að hve miklu leyti andvirði eigna viðkomandi banka mun renna til sjóðsins við uppgjör á búum þeirra.
    Endanlegar niðurstöður framangreindra samninga munu verða lagðar fyrir Alþingi og aflað viðeigandi fjárheimilda eftir því sem aðstæður krefjast.

Fylgiskjal.

UMSAMIN VIÐMIÐ

    1.      Ríkisstjórn Íslands hefur átt viðræðufundi með stofnunum Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkjum þess um skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að því er tekur til tilskipunar um innstæðutryggingar 94/19/ EBE. Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.
    2.      Viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu greiðir fyrir skjótri niðurstöðu samningaviðræðna þeirra sem nú standa yfir um fjárhagsaðstoð við Ísland, þ.m.t. við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum og samræmdum hætti og skal þar tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.
    3.      Stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær.
---------------------------------------------------  
Pétur Blöndal setti fram breitingartillögu sem var felld þótt ótrúlegt megi virðast:
Breytingartillaga


við till. til þál. um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu.

Frá Pétri H. Blöndal.



    Við tillögugreinina bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Bera skal samningana undir Alþingi.

Þessi tillaga var felld en upphafleg tillaga utanríkisráðherra var samþykkt eins og hér segir:

já:
Arnbjörg Sveinsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ármann Kr. Ólafsson, Árni Páll Árnason, Árni M. Mathiesen, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ásta Möller, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Björk Guðjónsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Ellert B. Schram, Geir H. Haarde, Guðbjartur Hannesson, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Gunnar Svavarsson, Helgi Hjörvar, Herdís Þórðardóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Gunnarsson, Karl V. Matthíasson, Katrín Júlíusdóttir, Kjartan Ólafsson, Lúðvík Bergvinsson, Ólöf Nordal, Rósa Guðbjartsdóttir, Sturla Böðvarsson, Össur Skarphéðinsson

nei:
Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Jón Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Pétur H. Blöndal, Steingrímur J. Sigfússon

sat hjá:
Eygló Harðardóttir, Grétar Mar Jónsson, Guðjón A. Kristjánsson, Helga Sigrún Harðardóttir, Höskuldur Þórhallsson, Jón Magnússon, Magnús Stefánsson, Valgerður Sverrisdóttir

leyfi:
Kristján Þór Júlíusson, Siv Friðleifsdóttir

fjarst.:

Árni Johnsen, Árni Þór Sigurðsson, Birkir J. Jónsson, Björgvin G. Sigurðsson, Björn Bjarnason, Einar Már Sigurðarson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Illugi Gunnarsson, Kristinn H. Gunnarsson, Kristján L. Möller, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson

------------------------

bkv

sandkassi (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 01:23

7 identicon

Maður svíkur þjóð sína með því að vera eða gerast Framsóknarmaður.

Það er verið að hreins upp skítinn eftir tvær alræmdar fyllibyttur og óreiðumenn:  Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson.

Eygló, þú ættir að skammast þín því þú veist betur

Ragnhildur (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 01:42

8 identicon

plís ætum að væla og fórum og gerum eihvað í þessum málum!!!

Mótmælum!!!

Biggi Hans (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 02:51

9 identicon

Það er ótrúleg óskammfeilni að þingmaður flokksins sem er lykilhönnuður hruns íslensk efnahagskerfis skuli hafa þann hroka að bera að setja hlutina upp á þennan hátt. Þetta er viðbjóðslegur málflutningur.

Dude (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 03:44

10 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Það var í stjórnartíð Framsóknarflokksins haustið 2006 og með Jón Sigurðsson formann Framsóknarflokksins að ICESAVE var hrundið af stokkunum. Um það má lesa í Morgunblaðinu hér og taktu eftir dagsetningum fréttarinnar.
Jón Sigurðsson þáverandi viðskiptaráðherra og fornmaður Framsóknar leyfði ICESAVE:

„Viðskipti | mbl.is | 10.10.2006 | 07:04

Landsbankinn kynnir nýja sparnaðarleið í Bretlandi

Landsbankinn kynnti í dag nýja sparnaðarleið í Bretlandi sem er markaðssett undir heitinu „Icesave". Um er að ræða sérsniðna sparnaðarleið fyrir breskan markað sem eingöngu er boðið upp á netinu, samkvæmt tilkynningu frá bankanum. Á næstu misserum verður vöruframboð Landsbankans undir heitinu Icesave aukið enn frekar.“

 Sjá hér

Og hér að neðan er svo það sem Landsbankinn fékk leyfi Framsóknar fyrir og lofaði Bretum; 6,30% innlánasvextir „guarnatee until 2013“.

icesave_6_30_trongt_832174.jpg

Helgi Jóhann Hauksson, 6.6.2009 kl. 04:43

11 identicon

Ég hélt nú alltaf að bankinn væri einkarekinn og ekki undir stjórn eins flokks.

Annars hafa allir rétt á því að vera fúlir hérna, ekki fæ ég séð af hverju ég þarf að borga þetta bull með restinni af þjóðinni bara af því að við eruÍslendingar.

Er þetta ekki mannréttindabrot á okkur?

Það má annars svo sem rífast yfir því hvernig klandrið byrjaði og hver á meiri sök þar en annar, en það er nú lélegt að vera með uppgjöf og kyngja öllu klabbinu meðokurvöxtum bara til að vera næs við ESB.

Jón Logi (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 08:04

12 identicon

Maður svíkur þjóð með því að gefa eignir þjóðarinnar til útvalinna pólitískra vina sinna og gera þá að miljaraðmæringum. Maður svíkur þjóð með því að brjóta niður regluverk þjóðarinnar svo mikið að allt fer á hausinn. Þannig svíkur maður þjóð. Mundu að þetta er flokknum þínum að kenna að við erum í þessari stöðu, gleymdu því ekki. Landráðamaður!

Valsól (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 08:04

13 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Landráð eru þetta og landráð skal það heita, hver sem á í hlut. Skil ekki þennan vaðal um hverjum sé um að kenna nú. Það réttlætir ekki þennan gjörning. Ef fólk hefur lágmarks skynbragð á tölur, þá ætti það að sja´að þetta er ekki vinnandi vegur fyrir þjóðina að borga þetta. 500 milljarðar í vexti ofan á höfuðstólinn. Og svo greiða þá 1100 milljarða með vöxtum á 8árum. Niðurstaða: um 2000 milljarða náðarhögg fyrir Íslenska þjóð. Svo er að borga af öðru eins hjá AGS.

Heimilin í landinu þurfa þá líklegast að bæta á sig hundrað og eitthvað þúsund krónum á mánuði næstu 15 ár.  Eignasöfnin eru svo restin af fjöregginu. Kvóti, fyrirtæki, land, laxveiðiár, vatnsréttur, orkulindir, fasteignir og allt hvað það nú er af veðum, sem bankarnir hafa sogað til sín í þessa hringiðu. Allt.  Það er ekkert eftir.

Ég finn ekki betra orð en landráð. Lögin skilgreina það ágætlega, sýnist mér.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.6.2009 kl. 09:37

14 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Við gætum flutt í tjald, hætt að éta og klæða okkur. Það er möguleiki, ef við höfum vinnu og vísitölutryggð laun. Þá gætum við haft þetta af á næstu 40 árum, því þaðer ljóst að það þarf að taka önnur lán til að greiða rest af höfuðstólnum, þegar til kemur. Frábær díll. Bless Ísland.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.6.2009 kl. 09:40

15 identicon

Kemur ekki Samfylkingarmeinvarp eins og Valsól og heldur áfram sömu tuggunni og á öðrum stöðum.  Í fyrsta lagi voru aðrir sem byrjuðu segir hún, samfó stökk bara út í og tók þátt í djamminu en það var ekki þeim að kenna því samfó var svo vitlaust að þau vissu ekki hvað þau voru að gera, og hvað þá hvað vondu kallarnir, bæði þeir sem unnu með þeim í ríkisstjórn og hinir sem dældu í þá peningum fyrir greiða höfðu fyrir stafni.   Samfó fórnarlamb frjálshyggju og auðmanna.  

 es.  tökum samt enn á móti styrkjum, þurfa bara að vera margir litlir og á mismunandi kennitölum.

Kristinn (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 10:07

16 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Allt í kringum þetta mál er skelfilegt og þessi ágæta upprifjun þín Eygló Þóra var upplýsandi en ekki er hún upplífgandi. Það er ekki nema von að gremja almennings vaxi með hverjum degi.

Jón Baldur Lorange, 6.6.2009 kl. 11:12

17 identicon

Kaera Eyglo! 

Thetta er agaet lysing hja ther af AFLEIDINGUM bankahrunsins en minna fer fyrir skyringum thinum a ORSÖKUM thess.  

Er thad vidkvaemara mal thar sem tha kemur nefnilega ad abyrgd Framsoknarflokksins? Er Flokkurinn tilbuinn ad taka sina abyrgd, vidurkenna hana og bidja thjodina afsökunar a mistökum sinum, en ekki sifellt lita framhja eigin sök eins og stefnan er.

Tha fyrst ma fara ad raeda framtidarsyn og stefnumal framsoknarflokksins af alvöru.

Med kvedju

Sigurjon G

Sigurjon G (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 11:25

18 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Já, Egló þetta er alvarlegt mál. Þó trúi ég ekki að Svavar Gestsson hafi farið með fullt umboð til London og  komi heim með skjal / samning þar sem á stendur neðst. F.h íslensku þjóðarinnar S G. Þetta hlýtur að fara fyrir Alþingi. Síðan má spyrja okkar visvitru stjórnmálamenn síðustu ára og áratuga; Hvernig gat það gerst að þegar Evran var tekin upp af aðildarlöndum ESB löngu eftir að Ísland hafði gerst aðili að EES og samþykkt 3/4 hluta reglugerðanna. Hvers vegna kröfðumst við ekki þess að fá aðild að myntbandalaginu og að taka upp Evruna? Þetta fer augljóslega  ekki saman að vera með allar þessar skuldbindingar án hennar. Með öðrum orðum og til einföldunar; Er hægt að finna þjóð í verri stöðu en við Íslendingar erum í , samt erum við í EES ?? !!  Ég spyr.

Sigurður Ingólfsson, 6.6.2009 kl. 12:10

19 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Eygló:

Þakka þér góðan pistil, þótt mér þyki þú taka of sterkt til orða að kalla Steingrím J. og Jóhönnu og þeirra fólk landráðafólk og lygara.

Ég treysti engum betur en Steingrími J. í þessu máli. Hafi hann komist að þessari niðurstöðu er þetta líklega rétt.

Þetta segi ég ekki af því að ég sé hrifinn af honum og VG, heldur af því að hann er gjörsamlega fastur á sínu, hvort sem hann hefur á réttu að standa - sem er sjaldan - eða þegar hann gerir mistök - sem er oftar! Staðreynd er að Steingrímur og hans félagar vilja ekki inn í ESB og hafa því enga ástæðu til að vilja kaupa sig þar inn og að auki er þeim mjög illa við AGS. Síðan bætist við að afstaða þeirra til Breta í þessu máli hefur verið knallhörð. Ég þekki VG illa ef að þeir láta kúga sig til hlýðni í þessu máli, því það er of stórt til að fórna stundarhagsmunum fyrir, þ.e.a.s. að hanga í vinstri stjórn með krötunum.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 6.6.2009 kl. 12:28

20 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Guðbjörn, mæltu heill.

P.S.: Ég verð sífellt hrifnari af skrifum þínum.  Við myndum örugglega mætast vel í nýjum (Sjálfstæðis)flokki, flokki sem stæði raunverulega fyrir jöfnum möguleikum einstaklingsframtaksins (burt með sérhagsmunagæsluna!). ; )

Eiríkur Sjóberg, 6.6.2009 kl. 13:05

21 identicon

Það er endalaust hægt að tala um fortíðina en það sem skiptir máli er sú staða sem er uppi núna og hvernig tekið er á henni.

Nú kemur til kasta þingsins eftir helgi og er ég ekki viss um að meirihluti verði fyrir þessu.

sandkassi (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 13:10

22 identicon

Það eru margar spurningar sem vakna við þetta Icesave mál allt. Sumar spurningarnar snúa að þeim tima þegar og áður en þessir reikningar urðu til.

1 Hvernig stendur á því að stjórnvöld leyfðu á þeim tima að þessir reikningar voru frá íslenskum bönkum (ég geri bara ráð fyrir að bankinn hafi þurft einhverskonar leyfi til að skuldsetja þjóðina fyrir þessum innistæðum).  

2. Hvernig stendur á því að það var engin takmörkun á þessum reikningum heldur virðist eins og þeir hafi bara mátt skuldsetja þjóðina eins langt og þeim hentaði.

3. Hvers vegna var engin sjóður (eða bindisskilda eða hvað þetta nú heitir) sem bankin var látin borga í til að mæta mögulegum áföllum.

4. Var ekki einhver sjóður eða bindisskilda í upphafi sem Seðlabankin var svo góður að breyta regglum til vina sinna svo þeir þurftu ekki að setja neitt til hliðar.

Síðan að nútímanum. Þar er eitt atriði sem mig langar aðeins að varpa fram. Það er þannig að sumir segja þessir samningar séu æðislegir samningir og muni bjarga öllu og síðan aðrir sem hrópa "ranglæti" (og þá auðvitað réttilega). 

Það er eitt að reyna að standa við okkar (eða þeirra "óreiðumannanna") og hella okkur í ómældar skuldir sem sumir segja að við ráðum ekki við. 

Hitt er að neita að borga! Hvað gerist þá?? Hvernig munum við eiga heima í hinum alþjólega heimi. Hvernig komum við okkar vörum á markað og hvaða "viðskiptavild" munum við hafa þar. Munum við verða útilokuð að einhverju leiti?? Munum við lenda í einhverskonar Kubverskri aðstöðu með fátækt og útilokuð frá öllu?? (auðvitað munum við líka uppskera fátækt ef við borgum. Spurningin er bara hvor fátæktin er betri). 

Ég tek það fram að ég er ekki með þessu að skipa mér á bekk með annarri fylkinguni. Mér fynst hins vegar rétt að spurja um þetta atriði áður en ég átta mig á hvort þessi samningur sé skárri kosturin af tveim íllum eða ekki.  Þó verð ég að telja að ráðamenn hafi skoðað báðar hliðar málsins og telji sig vera gera rétt. Einhvernvegin  held ég að Steingrímur væri ekki til í þessa samninga nema að hann telji hinn kostin vera jafnvel verri þegar upp er staðið.

Kveðja Kjarri.

Kjarri (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 13:12

23 identicon

Bretar geta bara fengið Bankann í Bretlandi og hans rómaða eignasafn.

Eygló, þið fellið þetta.

sandkassi (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 13:51

24 Smámynd: Halla Rut

Framsókn í dag er ekki sú Framsókn sem hún var. Þannig er það nú bara. Ekkert er eins hættulegt Íslandi og Íslenskri þjóð sem Samfylkingin er. Þau hristu mínar taugar hér áður en nú er ég bara hreinlega hrædd.

Góður og vandaður pistill hjá þér. 

Halla Rut , 6.6.2009 kl. 14:38

25 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Bara svona til að setja þennan díl í samhengi, þá er þetta með vöxtum og vaxtavöxtum um 1200 milljarðar. Það þýðir...og taktu nú eftir og berðu þeim þessar fréttir í þinghúsinu...218 milljónir á dag! Í 15 ár. Þið byrjið bara að borga. Ég kíki kannski á það síðar.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.6.2009 kl. 16:23

26 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Þótt íslenska ríkið sé lagalega, pólitískt og viðskiptalega skuldbundið til að ábyrgjast greiðslur til viðskiptavina ICESAVE þá er EKKI verið að leggja í þá vegferð að íslenska ríkið borgi þetta beint út!  Tilraun verður gerð til að hámarka virði eigna bankanna ytra og láta þær ganga þannig upp í skuldirnar.  Þessi samningur er fyrsta skrefið í að koma hjólunum hér af stað.  Nú má eygja von um að á næstu misserum fari krónan að styrkjast - og það myndi þýða hlutfallslega lægri skuldir við Bretana!!!

Bið fólk um að skoða hlutina í samhengi og vera alls ekki með innihaldslausa sleggjudóma.  Það ærir óstöðuga í þessu samfélagi og hjálpar ekki til.

Núverandi stjórnvöld þurfa á trausti að halda í afar erfiðu verkefni.

Eiríkur Sjóberg, 6.6.2009 kl. 17:34

27 Smámynd: Halla Rut

Kjarri, það var jú Samfylkingin sem leyfði það í boði Björgvins.

Halla Rut , 6.6.2009 kl. 18:46

28 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Eygló - ríkisstjórnin, tilkynnti nýlega um 20 milljarða niðurskurð.

Um svipað leiti, voru álögur á bensín og tóbak, hækkaðar.

Ríkið þarf að borga 35 milljarða, í vexti á hverju ári. Mér sýnist, að niðurskurður ríkisstjórnarinnar, og skattahækkun, sé horfin - og gott betur - - Sammála?

Það sem mér finnst blóðugast, að þetta mál gat beðið fram á haust. Í staðinn, kaus ríkisstjórnin að láta uppgjör gömlu bankanna bíða - þrátt fyrir, að þjóðfélaginu sé að blæða smám sman út, einmitt vegna þess að viðskiptabankarnir eru lamaðir.

Ef ríkisstjórnin, hefði verið að tilkynna, um loka-uppgjör gömlu bakanna,,,hefði ég tekið máli þeirra fagnandi.

 Kv.

Einar Björn Bjarnason, 6.6.2009 kl. 22:31

29 identicon

Þú og Salvör eruð vissulega miklir sóðakjaftar.

Þessi kjaftháttur ykkar á vissulege eftir að hitta ykkur sjálfar.

Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 23:25

30 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Mætti halda að margir væru ennþá að leika sér í sandkassanum: "Pabbi minn er betri en pabbi þinn" og á þroskastigi sama aldurs: "Aðstæður eru svona af því að þessi eða hinn gerði þetta eða hitt einhverntímann". Er ekki hægt að meta stöðuna eins og hún er í dag og takast þannig á við hana burtséð frá því hvað olli henni? Það er rétt hjá Höllu Rut  að Framsóknarflokkurinn, Sjálstæðisflokkurinn og fl. eru ekki þeir sömu í dag og þeir voru. Það er fólkið í flokkunum sem gerir þá að þeim sem þeir eru. Ríkisstjórnin  í dag ætlar að láta Íslendinga borga skuldir óreiðumanna og á það að vera farmiði okkar inn í ESB og það tel ég vera landráð.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 7.6.2009 kl. 02:16

31 identicon

Halla Rut, eins og kemur fram hér ofar voru það Framsóknarmenn sem buðu uppá ICESAVE, og áður vorum það Framsókn og Sjallar sem seldu bankana með kröfu um útrás þeirra.

„Það var í stjórnartíð Framsóknarflokksins haustið 2006 og með Jón Sigurðsson formann Framsóknarflokksins að ICESAVE var hrundið af stokkunum. Um það má lesa í Morgunblaðinu hér og taktu eftir dagsetningum fréttarinnar.
Jón Sigurðsson þáverandi viðskiptaráðherra og fornmaður Framsóknar leyfði ICESAVE.“

Gunnar (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 04:17

32 identicon

Halla Rut, lestu þetta hér ofar:

„Það var í stjórnartíð Framsóknarflokksins haustið 2006 og með Jón Sigurðsson formann Framsóknarflokksins að ICESAVE var hrundið af stokkunum. Um það má lesa í Morgunblaðinu hér og taktu eftir dagsetningum fréttarinnar.
Jón Sigurðsson þáverandi viðskiptaráðherra og fornmaður Framsóknar leyfði ICESAVE:

„Viðskipti | mbl.is | 10.10.2006 | 07:04

Landsbankinn kynnir nýja sparnaðarleið í Bretlandi

Landsbankinn kynnti í dag nýja sparnaðarleið í Bretlandi sem er markaðssett undir heitinu „Icesave". Um er að ræða sérsniðna sparnaðarleið fyrir breskan markað sem eingöngu er boðið upp á netinu, samkvæmt tilkynningu frá bankanum. Á næstu misserum verður vöruframboð Landsbankans undir heitinu Icesave aukið enn frekar.“

Sjá hér“

Gunnar (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 04:21

33 Smámynd: Halla Rut

Vitanlega bera fyrri ríkisstjórnir hér mikla ábyrgð og leyfi ég mér að sega meiri ábyrgð en hinir svokölluðu útrásavíkingar. Það var jú þetta fólk sem við treystum og borguðum góð laun til að vernda okkur og gæta okkar hagsmuna. Hin gífurlega spilling ráðamanna er helsta orsök alls þess er við stöndum í núna.

Nú þurfum við hinsvegar að finna besta fólkið til að koma okkur út úr þessu. Hver er það? Hver gæti það verið? Og ég segi "hver" því að í þessari stöðu þá tal ég að við þurfum einn sterkan leiðtoga sem skuldar engum neitt. Ég hef fylgst vel með eintaka mönnum undanfarið og ef við eigum einhverja slíka manneskju þá væri það Sigmundur.  Hann er ekki fæddur embættismaður heldur skörungur og maður aðgerða og vitsmuna. Ég treysti á hann og vona innilega að hann komist að. Ef sú sama ríkisstjórn heldur nú áfram þá getum við gleymt Íslandi í þeirri mynd er við þekkjum og viljum hafa það. Þegar að skuldardögum kemur þá eigum við ekki fyrir þeim og þá fara auðlyndir okkar upp í skuldir. Við verðum Indíánar í eigin landi.

Halla Rut , 7.6.2009 kl. 17:56

34 Smámynd: Halla Rut

Gunnar. Vil ég bæta við að flestir höfðu mikla trú á IceSave enda var þetta "brilliant" hugmynd og fyrirtæki. Hvernig áttu þá verandi stjórnarmenn að vita að eigendurnir mundi stela öllum peningunum og lána til annarra vonlausra fyrirtækja sem voru jafnt í þeirra eigin eigu og svo vina þeirra. Ef IceSave hefði verið vel rekið og án annarra hagsmunatengsla og skattaundanskota þá hefði þetta farið á allt annan veg.

Halla Rut , 7.6.2009 kl. 17:59

35 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Og hvernig skyldi svo Framsókn hafa leyst þetta mál??

Að baki þessara innistæðna er fólk, þótt það séu ekki Íslendingar.

Eins og það séu margir valmöguleikur í þessari ömurlegri stöðu.

Það er svo voðalega gott að geta verið í hlutverki röflaranna og þurfa ekki að taka neina ábyrgð á einu eða neinu.

Kolbrún Baldursdóttir, 7.6.2009 kl. 19:04

36 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Finnst eiginlega að Framsókn ætti bara ekki að segja eitt aukatekið orð einmitt nú.

Kolbrún Baldursdóttir, 7.6.2009 kl. 19:04

37 Smámynd: Halla Rut

Vitanlega er "fólk" á bakvið þessar innistæður. Fólk eins og við. En hví eigum við að borga eitthvað sem fólk leggur inn hjá fyrirtækjum í útlöndum? Að skattgreiðendur hér á landi þurfi að greiða þetta er algjörlega með ólíkindum og algjörlega ótækt að ábyrgð skattgreiðanda skuli liggja á bakvið fyrirtækjum sem starfa á alþjóðavetfangi.

Lögin innan ESB og ESB eru meingölluð. Fyrir það erum við að gjalda. 

Halla Rut , 7.6.2009 kl. 22:42

38 identicon

Að því umræðan hér er eiginlega komin út í það að rífast um hverjum það er að kenna að svona er komið (en ekki um það hvernig á að leisa málið). Þá vil ég bæta við.

Fólk í útlöndum sem var að leggja aurana sína í banka, var í þessu tilfelli að leggja inn á ÍSLENSKAN banka. Banka sem var Íslenskur í húð og hár. Og það eru mestu mistökin. Hvernig í ósköpunum var það leyft að banki af litlu skeri í norðri gat fengið leyfi til að taka við innlánum út í hinum gríðarlega stóra heimi allt á ábyrgð okkar. "Hinn" bankin fór þá leið að stofna útlenska banka (sem voru í eigu Kaupþings en útlenskir samt). Þannig færðist ábyrgðin úr höndum okkar fámenna hóps sem búum á þessu skeri, út til þeirra landa þar sem þessir útlensku bankar áttu heima. Þetta atriði get ég bara enganvegin skilið hvernig nokkur sem gat stoppað þetta í upphafi (þegar Icesavið var stofnað) gerði það ekki þá. Hverjum gat dottið í hug að leyfa Landsbankanum (á Íslandi) að bjóða útlensku fólki upp á innlán "á Íslandi". Nú átti þessi sami banki einhverja útlenska banka. Af hverju voru þeir ekki notaðir í þetta. Þetta er það sem ég skil ekki og skil ekki þá ráðamenn sem þá voru við völd og ÁTTU AÐ VERA HAGSMUNAAÐILAR OKKAR ÞJÓÐARINNAR gátu leyft sér að samþykkja þetta.

Kveðja Kjarri.

Kjarri (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 02:24

39 Smámynd: Halla Rut

Algjörlega sammála þér Kjarri.

Halla Rut , 8.6.2009 kl. 13:09

40 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Ég er félagi í Framsóknarflikknum svo að það sé uppi á borðinu...

Mikil er ábyrgð Framsóknar í hruninu, það er staðreynd og lítið þýðir að horfa eitthvað framhjá því, en þá verður líka að gæta sannmælis og horfa á það hvaða flokkur hefur tekið mest til í sínum ranni af öllum flokkum.

Við sem í þessum flokki erum höfðum fengið nóg af því sem þar var í gangi og skiptum því alveg um forystu og nú á að hengja nýtt fólk með nýjar hugmyndir og nálgun á hlutina vegna synda þeirra sem fyrir voru..  Hvaða rugl er það??

Er þá bara ekki alveg eins hægt að taka forsvarsmenn "nýju" ríkisbankana út úr sýnum skrifstofum og grýta þá með fúlum eggjum og ónýtu grænmeti, því að þeir vinna jú hjá Landsbanka, Kaupþing og Glitni (eða Íslandsbanka) eða er það ekki??

Ég vil EKKI að við gleymum mistökum þeirra sem við stýrið sátu þegar allt þetta fór af stað, ég vil að við höldum því til haga og lærum af því og oft hefur verið talað um að reynslan sé besti kennarin þó oft sé það dýr lærdómur eins og dæmin sýna nú..

Það má einnig halda því til haga að margir innan míns flokks voru alfarið á móti einkavæðingunni eins og staðið var að henni og létu það óspart í ljós, en þvi miður vorum við ekki nógu hávær fyrr en það var orðið of seint.

Ég er ekki sannfærður um ágæti þessa samnings núverandi ríkisstjórnar og ég óttast að tímin muni sýna að fyrst gerðu menn mistök í einkavæðingunni, því næst í lagaumhverfi þessara fyrirtækja sem urðu til við einkavæðinguna og nú stefnir í það að við séum að gera mistök í kjölfar hrunsins sem varð vegna fyrri mistaka..

Ég velti því fyrir mér hvort að við séum að upplifa 2 áratugi mistaka sem leiða til annara tveggja áratuga stöðnunar, kreppu og skuldaaukningar hér á fróni....

Ég vona að ég haf kolrangt fyrir mér....

Eiður Ragnarsson, 10.6.2009 kl. 16:06

41 identicon

Ég vill taka það fram í byrjun að ég er ekki fylgismaður neins flokks á Íslandi en þó það að Samfokk hefur tekið yfir sem ömurlegasta stjórnmálaafl dagsins. Mig langar þó að benda á það að fólk telur sig talnagleggra en það almennt er og sennilega hafa betri yfirsýn yfir málin en á stér stoð í raunveruleikanum.

 Það er t.d. ekki vitað hversu hratt greiðist úr lánasafni Landsbankans þannig að ekki er fræðilegur möguleiki að geta sér til um endanlega vexti. Þessar tölur sem eru nefndar á þessu bloggi virðast úr kortinu. Það sem kemur úr lánasafninu núna fyrstu sjö árin fer beint inn á höfuðstól og lækkar því augljóslega vaxtastofn.

 Annar punktur sem skiptir máli er þessi: hver hefðum við viljað að bæri ábyrgð ef málunum væri umsnúið? Ímyndið ykkur í smástund að allur sparnaður ykkar væri í enskum banka og eftir hrunið myndu Bretar kjósa að endurgreiða ALLAN sparnað í englandi en EKKERT af þeim innlánum sem komið hefðu frá Íslandi.

Þriðji punkturinn sem mig langar að nefna er þessi: hvað er til ráða? Jafnvel þó við fengjum málinu hnekkt þá væru líklega helstu markaðir okkar ónýtir og utanríkismálin í molum. Hvaða aðferð eigum við að beita? Sigmundur Davíð fór í gegnum heilt kastljós þráspurður en hafði engin svör um hvernig ætti að beita sér í þessu máli að öðru leiti en því að við ættum að afneita þessum skuldbindingum. Hvernig á að snúa sér gagnvart AGS? Helsti markaður sjávarafurða er evrópska efnahagssvæðið, eigum við að draga málsvara þess í málaferli? Með aðstoð hverra? Norðmanna? Ég er til í slaginn ef það er einhver slagur, en Framsókn, með Sigmund Davíð í fararbroddi, verður að svara þessum spurningum SKRIFLEGA áður en viðkomandi svo mikið sem vinna sér inn rétt til að mæla meira. Ef ekki, nú þá segi ég, nóg komið frá framsóknarflokknum í bili takk fyrir.

Albert Steinn

Albert Steinn Guðjónsson (IP-tala skráð) 11.6.2009 kl. 16:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband