Nei, ráðherra

Það getur verið erfitt að vera nýr ráðherra, sérstaklega þegar stutt er til kosninga.  

Einar K. Guðfinnsson er nýr ráðherra sem ég tel að hafi ekki staðið sig nógu vel. Hann byrjaði af krafti, staðráðinn í að moka sem mestum fjármunum í NV-kjördæmið, meðal annars með handstýringum úr AVS-sjóðnum. 

En nú skyldi gert enn betur við væntanlega kjósendur.  

Ákvað hann með engum fyrirvara að hefja hvalveiðar Íslendinga.  Engin markaðsrannsókn var gerð um áhuga á hvalkjöti, engir sölusamningar lágu fyrir og enginn var undirbúningur gagnvart fjölmiðlum heimsins.  Kristján Loftsson skyldi fá að fara í allra dýrustu sportveiðiferðir landsins, ef ekki heimsins hvað sem tautaði og raulaði.  

Þarna voru Íslendingar búnir að koma sér á radarinn hjá helstu fjölmiðlum heims sem þjóð sem virti ekki alþjóðalög.  En það var ekki nóg.   

Tryggja þurfti þennan sess okkar með því að koma í veg fyrir bann við botnvörpuveiðum á úthöfum á vegum Sameinuðu þjóðanna.  Árangurinn var ótvíræður, við fengum heilan leiðara í Washington Post (einu virtasta og stærsta dagblaði Bandaríkjanna) um íslenska fiskveiðistjórnun.  Leiðaranum var síðan dreift um öll Bandaríkin þar sem okkar var lýst sem leiðandi á okkar sviði; Iceland leads maulers of the seas, eða Ísland í fararbroddi níðinga hafsins.

Forsvarsmenn ferðaþjónustu segja að leggja þurfi hundruðir milljóna króna í markaðssetningu til að vega upp á móti því tjóni sem aðgerðir ráðherrans hafa valdið.  Er þá ótalinn sá skaði sem hann hefur valdið sjávarútvegnum.  Markaðir sem tekið hefur mörg ár og ótaldar milljónir að vinna í N-Ameríku eru hrundir og sömu sögu má segja í Evrópu.  Ef ekki verður gripið strax í taumana getur þetta brölt sjávarútvegsráðherra því kostað okkur milljarða króna á næstu árum.

Á meðan öllu havaríinu stóð sagði ráðherrann í aðfangadagsmogganum að hann hefði íhugað að segja upp Plexus Consulting Group, PR-fyrirtækinu sem á að gæta íslenskra hagsmuna í Washington til að spara.

Það sem ég myndi vilja vita er: Var það fyrir eða eftir ákvörðunina með hvalveiðarnar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki er ég sammála þér um hvalveiðar. Engin áhrif  hafa verið á fjölda ferðamanna við Ísland, ef eytthvað er má búast við mikilli fjölgun á þessu ári. Enda er óhætt að stunda hvalveiðar og skoða hvali (þó að ofstækismaður frá Húsavik haldi öðru fram). Verð ég að hrósa sjávarútvegsráðherra fyrir að hafa þorað eftir að gungur virðast hafa verið við völd síðan árið 1989 þegar síðustu vísundaveiðar klárust. Það vita þeir sem vita vilja að allt kindakjöt sem selt hefur veriið í USA hefur verið selt með tapi (sjá frétt í Bændablaðinnu). En allt kemur þetta í ljós það er allavega sjálfhætt ef ekki selt ket, eins og Valgerður ráðherra sagði í fréttatíma RÚV.

Gangi þér vel þínu stjórnmálabrölti en vertu ekki tilbúin svona auðveldlega að gefa eftir sjáfstæði okkar Íslendinga að ráða okkar málum.

Kveðja

Sigurður Einar

Sigurður Einar (IP-tala skráð) 9.1.2007 kl. 12:45

2 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Sæll nafni eiginmanns míns :)

Við viljum að litið sé á okkur sem siðmenntaða þjóð.  Við viljum eiga viðskipti með okkar afurðir, þar á meðal sjávarafurðir við aðrar þjóðir og því þurfum við að taka tillit til þeirra skoðana og viðhorfa.  

Í samskiptum við aðrar þjóðir þurfum við að velja hvaða málefni skipta okkur virkilega máli, og hvaða málefni skipta okkur litlu sem engu máli.  Að mínu mati skipta veiðar á hvölum okkur litlu máli og eru ekki spurning um sjálfstæði okkar.  Heldur varðar þetta trúverðugleika okkar í framtíðinni, því hvernig eigum við að geta sannfært okkar helstu viðskiptaþjóðir um að t.d. veiðar okkar eru sjálfbærar ef þeir eru með okkur á lista yfir  mestu umhverfisskussana á hafinu? 

Með bestu kveðju, Eygló  

Eygló Þóra Harðardóttir, 10.1.2007 kl. 13:47

3 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Sæll nafni eiginmanns míns :)

Við viljum að litið sé á okkur sem siðmenntaða þjóð.  Við viljum eiga viðskipti með okkar afurðir, þar á meðal sjávarafurðir við aðrar þjóðir og því þurfum við að taka tillit til þeirra skoðana og viðhorfa.  

Í samskiptum við aðrar þjóðir þurfum við að velja hvaða málefni skipta okkur virkilega máli, og hvaða málefni skipta okkur litlu sem engu máli.  Að mínu mati skipta veiðar á hvölum okkur litlu máli og eru ekki spurning um sjálfstæði okkar.  Heldur varðar þetta trúverðugleika okkar í framtíðinni, því hvernig eigum við að geta sannfært okkar helstu viðskiptaþjóðir um að t.d. veiðar okkar eru sjálfbærar ef þeir eru með okkur á lista yfir  mestu umhverfisskussana á hafinu? 

Með bestu kveðju, Eygló  

Eygló Þóra Harðardóttir, 10.1.2007 kl. 13:47

4 identicon

Heil og sæl, Eygló !

Heldur þykja mér naprar kveðjur þær, sem þú sendir Einari Kr. sjávarútvegsráðherra, hér að ofan, og ekki nóg með það; heldur skopast þú að Kristjáni Loftssyni, og þar með hans ágæta fyrirtæki og starfsmönnum þess og kallar sportveiðar, þá sjálfsögðu starfsemi, sem tíðkast hafði í Hvalfirði um áratuga skeið; og allvíðar um land hér áður fyrri. Líttu nú til......... ég starfaði hér áður fyrri við fiskverkun, hjá Hraðfrystihúsi Stokkseyrar hf (1979/80, 1983 - 1991). Skyldir þú, ásamt flestum meðframbjóðenda þinna ekki líta á okkur, sem vinnum með höndunum sem ófínna fólk, en pappíra fræðingarnir sem háskólarnir útskrifa hvert ár ? Hefir þú, Eygló, hugleitt hversu miklu tjóni flokkur þinn hefir valdið íslenzkri þjóð síðustu ár og áratugi; með framkvæmd svonefndrar ''byggðastefnu'' ykkar ? Gæti rakið, í all löngu máli, hversu grátt Framsóknarflokkurinn, flokkur sérhagsmuna og sérgæzku hefir leikið þetta þjóðfélag, læt nú staðar numið, enda er ég mjög reiður þeim flottræfilshætti og sýndarmennsku sem tröllríður samfélagi okkar, þessi dægrin. Spyr þó eins;..,. er það, að þínu áliti sjálfgefið; að bújarðir í Rangárvallasýslu og Árnessýslu fari undir vatn og aur, til fulltingis stækkunar Straumsvíkur álversins, og þar með;; hvort framtíðar hagsmunir sunnlenzkra byggða séu léttvægir fundnir, hvað orkunýtingu hér í heima héraði varðar ?

Hversu langt eruð þið, Framsóknarmenn; nú til dags komnir, í ykkar hugmyndafræði frá hugsjóna mönnunum Jónasi heitnum frá Hriflu og Sveini í Firði og þeim eldhugum öðrum, sem voru frumkvöðlar flokks ykkar ?

Með kveðju, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum     

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 11.1.2007 kl. 21:28

5 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Sæll Óskar Helgi,
Ég vil benda á að það var Borgar Þór Einarsson, samflokksmaður Einars K. og formaður SUS, sem fyrst kallaði veiðar Kristjáns sportveiði ef ekki tækist að selja kjötið.  Enn er kjötið óselt, svo ég viti til og vitna ég bara í þessi orð hans úr Silfri Egils.

Í athugasemdinni talarðu líka um að ég og mínir meðframbjóðendur líti niður á fólk sem vinnur með höndunum.  Ég vil benda þér á að kynna þér aðeins betur minn bakgrunn og starfsvettvang sem og meðframbjóðanda minna.  Allavega tveir eru fyrrum bændur og ég ólst upp í sveit frá unga aldri og þurfti þar að vinna með höndunum líkt og aðrir þar sem móðir mín og maður hennar ráku kúa- og sauðfjárbú í Rangárþinginu.  Einnig hef ég unnið í fiskvinnslu og við fiskeldi.

Ég er einfaldlega að benda á að þarna væri verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.  Við hefðum einfaldlega getað haldið áfram að veiða hrefnur (sem eru mun betra kjöt, og mæli ég eindregið með grillpinnunum hjá Sægreifanum) og enginn gert athugasemdir við það.  Trúverðugleiki okkar í mikilvægum málum er varða fiskveiðistjórnun er orðinn enginn.

Og ég tek undir orð þín um mikilvægi þess að nýta orkuna þar sem hún er virkjuð.

Með kveðju, Eygló

Eygló Þóra Harðardóttir, 12.1.2007 kl. 17:38

6 identicon

Heil og sæl Eygló !

Það verður að segjast, eins og er, að þú sýnir óvenjulegt drenglyndi (sé miðað við hina óforskömmuðu og ókurteisu Valgerði Sverrisdóttur), af Framsóknarkonu að vera, að svara pistli mínum svo skilmerkilega. Jú, jú....... ég efa ekki, að þú hafir komið víða, og af röskleika miklum; við, á hinum almenna vinnumarkaði með höndunum en það verður að segjast, skýrt og skorinort, að hið kvella dekur við bóknámið, hérlendis, hefir komið all ískyggilega niður á verkmenningu Íslendinga, s.s. skipasmíðaiðnaðinn m.a. Þá enn og aftur Eygló, varðandi hvalveiðarnar, væri á annað borð ekki hægt að losna við hvalkjötið, þá veit ég, að hinn stórhuga forstjóri Hvals hf, Kristján Loftsson sæi ekki eftir slöttungi kjötmetis ofan í hungrað fólk, t.d. niður í Afríku, Darfur t.d. hvar arabísk illmenni eru að murka lífið úr snauðum og illa fyrir komnum hirðingjum, sem ekkert hafa til saka unnið. Eygló; Ekki, ekki sýna Valgerði og hinum spjátrungunum í flokknum þennan pistil, það gæti verið, að ég væri að móðga Súdan stjórn, sem hlýtur að styðja aðild Íslands að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, þau Valgerður og hinn landsbyggðarfjandsamlegi vinur hennar Geir H. Haarde hljóta að vera komin í vinfengi við óþokkana í Khartoum, enda sameiginlegur félagsskapur, í andanum með þeim Bashir, Bush og Blair, eða hvað? Nei Eygló,...... ég þykist vita, að Kristján Loftsson hafi það góða reynslu af sínum viðskiptavinum ytra, að ekki ætti að vera vandasamt að losna við afurðir.  En að öðru.......... hvernig stendur á því, að þú, með þínar góðu meiningar skulir ganga til liðs við flokk, sem menn eins og Halldór Ásgrímsson hafa, með alls lags sóðaskap, og svívirðu á kostnað íslenzkrar þjóðar atað auri, og niðurlægt hugsjónir frumherjanna ? Sjáðu þau Halldór og, svo ég tali nú ekki um; Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, hvernig þau kveina, í kór eftir upptöku Evrunnar á Íslandi. ! Er ekki vott neins þjóðarstolts lengur að finna meðal sumra samlanda okkar ? Það verður náttúrulega að viðurkennast, að mér kemur ekki á óvart kvein útrásarmannanna og ný-kapitalíska gróðahyggjuliðsins, sem er, að virðist slétt sama um örlög og kjör íslenzkrar alþýðu hér heimafyrir, þetta er mannskapurinn, Eygló; sem þeir Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson hleyptu af stokkunum, sjálfum sér til misskilinnar upphefðar, en landi og þjóð til bölvunar mikillar um ókomna tíð. Stórum myndi létta á íslenzku samfélagi, losnuðum við undan þessum aumkunarverða alþjóðavæðingar- og fjölmenningarkór, sem tröllríður öllu hérlendis, til Brussel; aðra leiðina, þeir Jón Baldvin og Össur gætu verið leiðsögumenn. Vona, að þér gangi allt í haginn, hvort heldur er innan eða utan Framsóknarflokksins, í framtíðinni. Þykir mér jafnframt vænt um, að þér er ekki sama um örlög Þjórsárinnar.

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 12.1.2007 kl. 19:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband