Hroki og hleypidómar Gylfa

Gylfi Arnbjörnsson fer fram af sínum alkunna hroka í viðtali við Fréttablaðið í morgunn.  Í stað þess að svara gagnrýni minni á aðgerðaleysi ASÍ um afnám verðtrygggingar, eitt helsta hagsmunamál íslenskra heimila, þá fullyrðir hann að ég þekki greinilega ekki nokkurn skapaðan hlut til.

Ég sagði aldrei í grein minni að ASÍ skipaði fulltrúa í stjórn lífeyrissjóðanna.  Hins vegar ætti Gylfi, sem formaður ASÍ, að kannast við að samtökin sem hann starfar fyrir eru regnhlífasamtök fyrir verkalýðsfélögin í landinu.  Þeir sem kusu hann til formennsku skipa sjálfir eða sitja í stjórnum lifeyrissjóða og hafa geysilegra hagsmuna að gæta þar.  Þessu til viðbótar semur ASÍ um tekjur lífeyrissjóðanna. 

Einnig er einkar athyglisvert að googla Gylfa Arnbjörnsson og lífeyrissjóðir.  

Lífeyrissjóðirnir hafa ekki viljað hreyfa við verðtryggingunni, enda hefur verðtryggingin verndað þá gegn alltof áhættusamri fjárfestingarstefnu.

Gylfi heldur því svo fram að eina leiðin til að endurskoða verðtrygginguna sé að taka upp evru.  Einkennilegt hvað málflutningur Samfylkingarinnar og ASÍ er samhljóða í þessu máli.  Nánast jafn sláandi og þegar Gylfi þurfti að halda aukaþing ASÍ fyrir síðustu kosningar undir slagorðinu hagur, vinna og velferð á meðan yfirskrift landsfundar Samfylkingarinnar og kosningaslagorð var vinna og velferð.

Í stað þess að fullyrða að Gylfi hafi ekkert vit á því sem hann er að tala um vil ég benda honum á að kynna sér aðstæður í Eystrasaltslöndunum þar á meðal í greininni The Fall and Rise and Fall Again of the Baltic States og grein Michael Hudson um Ísland, Eystrasaltslöndin og ESB.

Þar hafa menn verið með tengingu við evruna í um áratug.  Það breytti litlu eða engu um þá miklu erfiðleika sem  þessi lönd eru að berjast við, - í staðinn fyrir að lán fólks hafi margfaldast hafa launin verið lækkuð með handafli, skólum og sjúkrahúsum lokað, veitingastaðir og verslanir standa auðar og fólk flýr land.

Í stað þess að bíða eftir evrunni á hvíta hestinum líkt og Gylfi og skoðanabræður hans í Samfylkingunni  geri ég þá kröfu að við hysjum upp um okkur buxurnar og förum að haga okkur þannig að við getum sjálf afnumið verðtrygginguna. Tel ég ríkisvaldið geti þar gengið fram með góðum fordæmi sbr. frumvarp okkar Framsóknarmanna um leiðir til að afnema verðtrygginguna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Varðandi grein eftir Michael Hudson: Eystrasaltsþjóðirnar endurheimtu sjálfstæði sitt árið 1991. Þær gengu ekki í Evrópusambandið fyrr en 13 árum síðar, árið 2004. Hvernig geta öll þeirra vandamál verið Evrópusambandinu að kenna?

Gudny (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 09:02

2 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Sæl Guðný, ég er ekki að segja að þetta sé ESB að kenna heldur að ESB aðild leysir ekkert vandamálin. 

Vandamálin verðum við sjálf að leysa, óstöðugleiki hverfur ekkert við að ganga inn í ESB og taka upp evru eða tengingu við evruna.  

bkv. Eygló

Eygló Þóra Harðardóttir, 28.8.2009 kl. 09:10

3 Smámynd: Einar Solheim

Sæl Eygló,

ég  hef ekkert á móti þér og þínum.  Hef reyndar alltaf haft smá fordóma gegn framsóknarflokknum og tek flestu því sem þaðan kemur með miklum fyrirvörum.  Undanfarin misseri hef ég sveiflast eins og pendúll frá því að telja ykkur í núverandi þingflokki ferskan andblæ og gamaldags þursatröll.  Því miður hefur sveiflan verið að lengjast verra megin þó svo að ferski andblærinn sé nú ekki enn orðinn að skítafýlu.

Eitt mál eruð þið þó á algjörum villigötum með, en það er verðtryggingin.  Það er mjög skiljanlegt að lítið beri milli Gylfa og Samfylkingar, enda er það einfaldlega rétt að með krónuna losnum við ekki við verðtrygginguna.  Taktu nokkra kúrsa í hagfræði og þá sérðu þetta.  Það er rétt að Gylfi var hrokafullur, en það er mjög erfitt að vera ekki hrokafullur þegar menn horfa upp á hóp manna ítrekað bulla um þessi mál og halda fram sama ruglinu sem á sér enga stoð í raunveruleikanum.  Við verðum að sjá þessi ummæli Gylfa í því ljósi, en ætla ég ekki að öðru leyti að verja Gylfa né hanns skoðanir.  

Þú snýrð svo rökstuðningi þínum algjörlega á haus hér að ofan. Gylfi heldur því ekki fram að Evran komi í veg fyrir erfiðleika við peningastjórn.  Það að Eystrasaltsríkin séu í vandræðum er ekki sönnun þess að Ísland geti haft krónuna án verðtryggingar. 

Óska ykkur svo alls hinns besta í  baráttunni - sama í hvaða flokki þið eruð þá þarf Ísland á ykkur öllum að halda.  Munið bara að vinna fyrir þjóðina en ekki flokkinn.  ...og haldið áfram að fjalla um skuldaniðurfellingu.  Ég hef enn ekki heyrt sannfærandi rök fyrir því að skuldaniðurfellingin sé ómöguleg, en hef heldur ekki séð nægilega vel rökstutt að hún sé nauðsynleg og framkvæmanleg.  Endilega vinnið í því, því að mínu mati er það mikið réttlætismál að hægt verði að leiðrétta stöðu skuldara.

Einar Solheim, 28.8.2009 kl. 10:26

4 identicon

Sögulega séð þá er tvennt staðreynd: 1. Skoðanir ASÍ og jafnaðarmanna hafa frá upphafi fallið saman og engin ástæða að hrokast vegna þessa. 2. Skoðanir ASÍ og FRamsóknar hafa sjaldnast farið saman og gæti ég komið með all mörg dæmi um það. Reyndar hefur Framsóknarflokkurinn verið andsnúinn kjarabaráttu. Hver man ekki fyrsta embættisverk Halldórs Ásgrímssonar, sem forsætisráðherra 2004 ? Jú, mikið rétt, setti kennarastéttina upp við vegg. Hann sagði svo í Kryddsíld sama ár: "Hver man nú eftir kennaraverkfallinu?" og hló.

Að lokum get ég fullvissað þingmanninn um að Gylfi lætur oftlega forystu Samfylkingarinnar fyrir málefnasvipunni.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 12:33

5 identicon

Í öðrum löndum er verðbólgunni bætt ofaná lánsfé en fólk verður ekki vart við það sökum að í flestu nágrannalöndum er enginn verðbólga.

Raunsær (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 16:28

6 identicon

Gylfi sá sig nú um hönd í skeggmálinu og rakaði það af sér.  Hann taldi að eftir yrði hann nýr maður.  En nei, hrokinn er enn til staðar og "uppávið" snobbið.  Það var skúbb aldarinnar þegar fréttist að hann hefði verið kosinn formaður ASÍ, ekkert var í raun ótrúlegra.  En,,, svona er nú lífið.

Þórhallur V Einarsson (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 18:39

7 identicon

Það eru klárir hagsmunaárekstar í gangi þegar kemur að ASÍ og almenningi í landinu!  Af hverju hefur Gylfi ekki barist gegn því að verðtryggingin verði aftengd í því hruni sem átti sér stað?  Jú, hann gat ekki barist gegn því að lífeyrissjóðir yrðu af blóðpeningum sem voru skapaðir í hruninu og pindir út úr venjulegu fólki! Þessir peningar urður til í óðaverðbólgu og hruni sem almenningur er saklaus af!  Stjórnmálamenn og opinberar stofnanir voru sofandi á meðan frjálshyggjan keypti allt með peningum almennings!   

Staðreyndin er að lífeyrissjóðirnir margir hverjir fóru óvarlega ... tap þeirra er meira en láitð hefur verið uppi! 

Gylfi hefur staðið sig afspyrnu illa!  Það er vonandi að félagasamtök fari að segja sig úr ASÍ í ríkum mæli!  ASÍ er ekki að vinna fyrir fólkið í landinu!  Ef Samfylkingin vill spyrða sig við ASÍ þá verði henni bara að góðu!  Hvað mættu margir á fundi sem ASÍ boðaði til seint og illa þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst?  Voru það ekki um 20 manns? 

Nú  þegar fólk er farið að flýja land, greiðslugeta- og vilji að hverfa er karlinn að vakna!  Hvar hefur hann verið ... hann sem mærði þessa ómögulegu og ómannlegu greiðsluaðlögun sem Samfylkingin montaði sig hvað mest af?

Þetta er sorglegt lið sem á að koma að uppbyggingu landsins! 

Hér sannast hið fornkveðna að maður kemur í manns stað og klárlega þarf einhver að taka sæti Gylfa!

ÞE (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 22:02

8 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Gylfi & ASÍ er rekið eins og skúfu fyrirtæki hjá Samspillingunni.  Þjóðar ógæfa fyrir íslenskan verkalýð að sitja uppi með "ASÍ sem gerir lítið gagn fyrir verkalýðsfólkið í landinu en mikið ógagn!"  Flest allir vilja "verðtryggingu burt", 95% af þjóðinni, aðeins bankarnir og lífeyrissjóðirnir sem vilja viðhalda þessu brenglaða kerfi sem arðrænir okkur blint...!  Ég vil taka upp dollar sem fyrst svo hægt sé að komast út úr þessu kerfi, en XS sér bara Evrópusambandið og hefur skipað ASÍ að keyra þá línu eingöngu...!  Þið hjá Framsókn eruð að standa vaktina og eigið mikið hrós skilið fyrir ykkar framlag síðast ár, ég óska ykkur velfarnaðar, en ASÍ hefur ekki staðið vaktina síðustu 20 árin eða svo.  Það er vitlaust gefið á Íslandi og hefur verið það í 20 ár undir stjórn Ránfuglsins og ASÍ.

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 29.8.2009 kl. 10:35

9 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Mér finnst þið vera dómhörð um ASÍ. Hvers vegna? Kom Gylfi inn á viðkvæman blett hjá ykkur framsóknarfólki?

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 3.9.2009 kl. 20:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband