Er afneitunin á enda?

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra hefur talað hvað mest gegn leiðréttingu skulda heimilanna og hugmyndum framsóknarmanna þess efnis. Það er þó alltaf ánægjulegt þegar menn snúa af villu síns vegar líkt og ráðherrann gerði í viðtali við Fréttablaðið um helgina. Þar sagði hann m.a.:

„Það er að sjálfsögðu rétt að afskrifa skuldir sem eru umfram greiðslugetu og veðrými eigna. Það varð mikið hrun á eignavirði og veruleg hækkun skulda á sama tíma. Skuldir í samfélaginu eru langt umfram eignir og það er engum til góðs að viðhalda þeirri stöðu. Það dregur úr getu efnahagslífsins til að skapa verðmæti á ný."

Strax í febrúar lögðu Framsóknarmenn fram hugmyndir sínar um efnahagslegar aðgerðir til aðstoðar heimilum og fyrirtækjum. Var það trú okkar og von að vel yrði tekið í hugmyndirnar og þær yrðu okkar framlag í þá vinnu sem fram undan væri við að leysa þann efnahagsvanda sem íslenska þjóðarbúið tekst á við. Því miður varð það ekki reyndin og kom okkur í raun á óvart hversu hart stjórnarflokkarnir og sérstaklega þingmenn Samfylkingarinnar brugðust við þessum hugmyndum. Þar fór núverandi félagsmálaráðherra fremstur í flokki.

Tillögurnar voru of kostnaðarsamar, að mati Samfylkingarinnar, þótt stórfelld afföll af innheimtu væru fyrirséð og í kjölfarið gjaldþrot tugþúsunda ef ekki væri gripið inn í. Í staðinni veifuðu menn óskýrum hugtökum líkt og greiðsluaðlögun, tilsjónarmanni, velferðarbrú og skjaldborg um heimilin sem enginn skildi fyllilega. Því átti reyndar að redda með sérstöku kynningarátaki ríkisstjórnarinnar ef marka má stjórnarsáttmálann. Þá mátti ekki hreyfa við verðtryggingunni, enda andstætt vilja eins helsta bakhjarls Samfylkingarinnar, ASÍ, sem vildi verja sitt helsta valdatæki, lífeyrissjóðina.

Seðlabankinn þjónaði húsbændum sínum og birti skýrslur um að greiðslubyrði langflestra væri viðráðanleg, en gleymdi að taka tillit til frystingar lána. Þá var starfshópur skipaður til að fylgjast með og meta stöðuna. Á meðan jukust vanskil hratt og íslensk heimili settu nánast heimsmet í skuldasöfnun. Creditinfo birti nýlega upplýsingar um að ef fram heldur sem horfir verði um 30 þúsund einstaklingar, 10% þjóðarinnar, á vanskilaskrá innan árs og 5.000 einstaklingar eru þegar komnir í greiðsluþrot það sem af er árinu. Félagsmálayfirvöld tilkynna um aukið álag og fleiri barnaverndarmál og innanbúðarmenn í bankakerfinu verða vitni að sífellt minni greiðsluvilja hjá viðskiptavinum, jafnvel þeim sem þó geta borgað.

Og ríkisstjórnin fylgist með og metur stöðuna. Þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar hafa staðfastlega neitað að ræða afskriftir skulda eða leiðréttingu af neinu tagi. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, varaformaður félags- og tryggingamálanefndar, sagði fyrir nokkrum dögum að afskriftir lána væru einfaldlega ekki á dagskrá. „Það eru engir fjármunir til í þetta og ég sé ekki hvaðan þeir ættu að koma."

En hvað veldur þessum skyndilega viðsnúningi ráðherrans? Er AGS búinn að skipta um skoðun og leyfa ríkisstjórninni að leiðrétta skuldir almennings? Eða er einfaldlega að koma í ljós að framsóknarmenn höfðu rétt fyrir sér fyrir 6 mánuðum síðan? Er svigrúm að myndast til að leiðrétta skuldir við millifærslu lánasafna milli nýju og gömlu bankanna?

Grunnforsendan fyrir því að hægt væri að framkvæma hugmynd Framsóknar um leiðréttingu skulda var einmitt þetta uppgjör á milli nýju og gömlu bankanna. Í uppgjörinu væri tekið tillit til gæða lánasafnanna og væntanlegra afskrifta. Við það væri hægt að færa niður hluta af höfuðstól lánanna og auka líkur á að lántakendur geti almennt staðið í skilum.

Bankarnir hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir að þetta eru tapaðar kröfur og mikilvægt er að sem flestir geti og vilji halda áfram að borga. Hálft ár er liðið síðan framsóknarmenn lögðu fram tillögur um hvernig bregðast ætti við. Félagsmálaráðherra virðist vera að ná þessu, því þegar hann var spurður hver borgi fyrir þessa leiðréttingu sagði Árni:

„Við verðum að horfast í augu við það að þetta eru að miklu leyti tapaðar kröfur. Það á að vera svigrúm í bankakerfinu til að takast á við tapið. Þegar lánin voru færð milli gömlu og nýju bankanna var gert ráð fyrir afskriftum."

Við skulum bara vona að 20% dugi enn til og að rúmur umhugsunartími ráðherrans og samverkamanna hafi ekki valdið íslenskum heimilum óbætanlegum skaða.

(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. águst 2009)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Þú ert klárlega að misskilja bæði Árna Pál og málflutning Samfylkingarinnar. Hvokri Árni Páll né Safmylkingin hafa nokkurn tíman talað gegn því að skuldir, sem fólk getur ekki greitt séu felldar niður og þaðan að síður haldið því fram að slíkt kosti eitthvað. Það, sem bæði Samfylkingin og Árni Páll hafa talað gegn og eru enn að tala gegn er að fella yfir línuna niður hluta skulda hvort, sem menn geta greitt þær eða ekki. Það að fella niður hluta skulda aðila, sem eru borgunarmenn fyrir sínum skuldum fækkar ekki þeim, sem eru á vanskilaskrá og dregur ekki úr vandæðum þeirra, sem ekki geta greitt sínar skuldir.

Það er þess vegna, sem hugmynd ykkar í Framsóknarflokknum um flata niðurfellingu skulda var afleit í febrúar og er enn afleit hugmynd. Það er rangt, sem þið hafið haldið fram og eru enn að halda fram að þetta kosti skattgreiðendure ekki neitt vegna þess að það sé hvort eð er verið að afskrifa lánasöfn gömlu bankanna þegar þau eru keypt yfir í þá nýju. Staðreyndin er nefnilega sú að þær afskriftir eru aðeins miðaðar við óhjákvæmileg útlánatöp vegna þeirra, sem ekki eru borgunarmenn fyrir sínum skuldum að fullu og því eru allar afskrftir lána til þeirra, sem eru borgunarmen fyrir sínum skuldum hreinn viðbótakostnaður við það.

Ég sýndi þetta með einföldu dæmi á bloggsíðu minni í apríl. Það má sjá hér:

http://siggimaggi.blog.is/blog/siggimaggi/entry/862310/#comments

Þið framsóknarmenn komuð fram með ýmsar blekkingar og rangfærslur hvað þetta varðar fyrir kosningar, meðal annars á heimasíðu ykkar. Ég fór yfir þetta lið fyrir lið á bloggsíðu minni og má sjá það hér:

http://siggimaggi.blog.is/blog/siggimaggi/entry/863214/#comments

Fyrir utan það að vera með eindæmum dýr og óskilvirk leið til að taka á skuldavanda heimila þá getur þessi 20% flata niðurfærsluhugmynd ykkar ekki með nokkrum hætti talist sanngjörn aðgerð. Blog mitt um það má sjá hér:

http://siggimaggi.blog.is/blog/siggimaggi/entry/862545/#comments

Staðreyndin er sú að það stendur ekki steinn yfir steini varðandi máfluting ykkar framsóknarmanna um þessa flötu niðurfellingu og hefur aldrei gert.

Sigurður M Grétarsson, 26.8.2009 kl. 22:39

2 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Já, Eygló. Hver veit, kannski að Samfylkingin umpólist í málinu, einn daginn. 

Síðan, komi hún með eigin útfærslu, sem að sjálfsögðu verði kölluð e-h annað en 20% leiðin.

<Lífið er fullt af kaldhæðni, stundum>

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 27.8.2009 kl. 00:24

3 identicon

Þessi grein fellur vel í ljóskugreinar framsóknarþingkvenna. ÞÞ

þþ (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 09:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband