31.7.2009 | 12:22
Gylfi í pólitík!
Í grein í Morgunblaðinu skrifar Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherrann um Icesave skuldbindingarnar: "Jafnvel þótt gert sé ráð fyrir sáralitlum raunvexti útflutningstekna landsmanna á næstu 15 árum, sem er líftími Icesave-samkomulagsins, þá verða þær ríflega 100 milljarðar evra samanlagt á tímabilinu. Greiðslur vegna Icesave verða hins vegar varlega áætlað um það bil 2 milljarðar evra, einn milljarður í höfuðstólsgreiðslur og annað eins í vaxtagreiðslur. "
Útflutningur skapast vegna þess að fyrirtæki framleiða ákveðin verðmæti og flytja þau út. Það kostar að framleiða vörur og flytja út og útflutningstekjur fyrirtækja eru ekki eignir íslenska ríkisins!
Er ráðherrann að lýsa því yfir að ríkið eigi að taka gjaldeyristekjur eignarnámi? Hvert er hans umboð til að lýsa því yfir?
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, hefur ítrekað stórlega misskilið hlutverk sitt og umboð í ríkisstjórninni. Hann er ekki kjörinn af þjóðinni og hefur ekkert pólitískt umboð til sinna verka. Það sækir hann til ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna.
Þrátt fyrir það hefur hann verið í pólitík nánast frá upphafi.
Má þar minna á yfirlýsingar hans um að Norræni fjárfestingarbankinn hefði hætt að veita lán til Íslands vegna Icesave. Hið rétta er að Norræni fjárfestingarbankinn hætti að veita lán til Íslands þar sem hann var búinn að lána alltof mikið til landsins miðað við núverandi lánshæfismat og er erfitt að sjá það breytast við að landið taki á sig enn meiri skuldbindingar. En það sér Gylfi...
Væri ekki nær að hann myndi einbeita sér að því að móta nýtt lagaumhverfi fyrir fjármálamarkaðinn líkt og ESB hefur bent á eða að tryggja að Fjármálaeftirlitið vinni sína vinnu?
Vinnuna sem Gylfi var ráðinn í, í staðinn fyrir vinnuna sem enginn kaus hann í.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:26 | Facebook
Athugasemdir
Við erum sum á þeirri skoðun að skipting löggjafarvalds og framkvæmdavalds sé af hinu góða - og ef eitthvað er sé ástæða til að gera meira af því að sækja hæfileikafólk til starfa í framkvæmdavaldinu.
Við kjósum fólk til að sitja á Alþingi, ekki í tilteknar ráðherrastöður.
Tóti (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 13:37
Áður en þingmenn tjá sig um efnahagsmál er ágætt ef þeir kynna sér málin. Íslenskir útflytjendur eiga þá peninga sem þeir fá fyrir útflutninginn. Þeir koma með útlensku peningana heim og kaupa íslenskar krónur fyrir þá. Bankarnir hafa þannig komist yfir gjaldeyri. Íslenska ríkið getur síðan farið með sínar skattkrónur í bankana og skipt þeim í erlendan gjaldeyri og borgað skuldir sínar erlendis.
Að halda því fram að ríkið taki gjaldeyristekjur útflutningsfyrirtækja eignarnámi í slíkum viðskiptum er náttúrlega fáránlegt og alvarlegt að þingmaður á Alþingi Íslendinga sé svo vankunnandi að átta sig ekki á því.
Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 13:37
Sammála Tóta hér fyrir ofan. Það væri ákjósanlegt að ef einhver þingmaður settist í ráðherrastól þá viki hann á meðan úr sæti sínu á alþingi. Það þarf að tryggja miklu betur aðskilnað löggjafa og framkvæmdarvalds en það hefur ekki verið vel gert hingað til eins og lesa má úr færslunni hér fyrir ofan þar sem verið er að spekúlera með pólitískt umboð ráðherra. Mér sýnist þessi þingmaður hafa lélegan skiling á eðli framkvæmdarvaldsins.
Ólafur Þórðarson (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 14:03
Því miður er það frekar regla fremur en undantekning að þessir nýju þingmenn virðast hafa litla þekkingu á því sem þeir eiga að fjalla um. Var svo einhver að tala um virðingu alþingis.........
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 31.7.2009 kl. 14:16
Sæl Eygló,
Það er flott mál að þú gagnrýnir Gylfa, sem og Jóhönnu eða Steingrím eða hvaða annan ráðherra sem er, ef þú ert ekki sammála því sem þeir segja eða gera. Þetta er hins vegar orðin asni þreytandi vitleysa hjá stjórnarandstöðunni að þessir tveir ráðherrar, Gylfi og Ragna Árnadóttir, séu umboðslausir og megi ekki tjá sig um pólitísk málefni.
Staðreyndin er sú að enginn ráðherranna hefur verið kosinn af þjóðinni. Hins vegar hafa allir hinir ráðherrarnir verið kosnir á Alþingi. Ríkisstjórn er síðan mynduð, sem nýtur stuðnings eða hlutleysis Alþingis. Það er frekar hæpið að halda því fram að þegar aðrir ráðherrar tjái sig séu þeir að gera það sem þingmenn en ekki sem ráðherrar. Þó að heitið "fagráðherra" sé notað þá þýðir það ekki að hann hafi aðra stöðu en samráðherrar hans í ríkisstjórn. Gylfi getur vitaskuld tjáð sig um þessi málefni.
Eða viltu þá meina að Ragna Árnadóttir megi ekki tjá sig um málefni lögreglunnar og þá endurskipulagningu sem þar er í vinnslu, vegna þess að hún hefur ekki umboð til þess? Nei, þá værirðu ekki lengi að gagnrýna hana fyrir að sinna ekki skyldu sinni sem ráðherra (og hefðir rétt fyrir þér í því tilviki).
Baldur (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 14:38
"Útflutningur skapast vegna þess að fyrirtæki framleiða ákveðin verðmæti og flytja þau út. Það kostar að framleiða vörur og flytja út og útflutningstekjur fyrirtækja eru ekki eignir íslenska ríkisins!
Er ráðherrann að lýsa því yfir að ríkið eigi að taka gjaldeyristekjur eignarnámi? Hvert er hans umboð til að lýsa því yfir?"
Elsku Eygló. Hvaða vitleysa er þetta? Ég hvet þig til að hringja nú í hann Halldór Ásgrímsson og spyrja hann hvernig ríkisstjórn hans hafi farið að því að greiða erlend lán. Hann mun vafalaust útskýra þetta fyrir þér á sama hátt og Gylfi.
Það hlýtur að vera rosalega erfitt að ganga í gegnum lífið og geta bara trúað því sem framsóknarmenn segja þér.
Álfdís Eir, 31.7.2009 kl. 15:29
Mjög sannfærandi, vel fram sett og skynsamlega hjá Gylfa.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 31.7.2009 kl. 15:52
Ekki eykur þessi bloggfærsla trú manns á þingflokki framsóknar -- og var hún ekki mikil fyrir! Ég hélt að það væri öllum ljóst að ráðherrar eru eðli málsins samkvæmt í pólitík, enda eru allar gerðir þeirra í starfi pólitískar. Og hvað merkir þessi fullyrðing: "Hann er ekki kjörinn af þjóðinni og hefur ekkert pólitískt umboð til sinna verka"!! Það virðist hafa farið framhjá þingmanninum að ráðherrar eru ekki kjörnir af þjóðinni, heldur styðjast þeir við meirihluta Alþingis. Umboð Gylfa Magnússonar sem ráðherra er því nákvæmlega sama og annarra ráðherra, þótt hann sé ekki þingmaður. Á meðan hann nýtur trausts meirihluta þings þá hefur hann fullt umboð til sinna starfa -- hvað sem Eygló Harðardóttur finnst um hann og hans framgöngu.
Gunnar (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 16:08
Þessi gjaldeyrisumræða er reyndar áhugaverð. Fyrirtæki framleiða ákveðin verðmæti og flytja þau út, jú sú, mikil ósköp. Svo selja þeir vöruna og fá greitt td. í Evrum.
Síðan flytja þeir Evrurnar heim og skipta í krónur til að borga kostnað við framleisluna, laun o.þ.h.
Spurningin er: Hvað verður um Evrurnar ?
Ómar Bjarki Kristjánsson, 31.7.2009 kl. 17:09
Úff. Ég veit ekki hvernig í ósköpunum þú varst þingmaður. Ættir þú ekki að vera farin að læra eitthvað um hvernig stjórnsýslan virkar ?
ES
Eyjólfur Sturlaugsson, 31.7.2009 kl. 17:10
Stóra spurningin er hvernig í ósköpunum Gylfi fær út að við munum hafa 100 miljarða Evra gjaldeyristekjur á komandi 15 árum, eða að meðaltali 6,7 miljarða Evra að meðaltali þegar að gjaldeyristekjur fyrsta ársfjórðungs þessa árs eru ekki nema 0,8 miljarðar Evra (http://hagstofa.is/pages/2271). Miða við 75% spánna sem þau gefa sér í stjórnarráðinu verður afborgunin um 350 miljónir Evra á ári þessi átta ár en geti farið upp í 5-600 miljónir Evra ef illa gengur. Þannig yrði afborgunin milli 10 og 20% af núverandi gjaldeyristekjum á ári. Þegar að maður horfir til að stór hluti af gjaldeyristekjum sjávarútvegs og álveranna fara beint í afborganir á erlendum lánum þeirra er erfitt að sjá hvernig sá hluti gjaldeyristeknanna á að geta hjálpað til að borga Icesave skuldbindingarnar.
Héðinn Björnsson, 31.7.2009 kl. 17:12
Afskaplega er nú fyndið að sjá þennan fríða flokk sem ryðst fram í kommentakerfinu og telur sig þess umkominn að útskýra stjórnskipan Íslands fyrir aumum þingmanninum.
Það sem fólk hér að ofan gerir sér ekki grein fyrir og Eygló er að reyna að benda á, er að samkvæmt stjórnarskránni er Alþingi kosið til að móta stefnuna og ráðherrarnir eiga að framfylgja henni.
Þeir ráðherrar sem jafnframt eru þingmenn, geta tjáð sig um stefnumótun Alþingis, en þeir ráðherrar sem ekki eru að hafa einfaldlega ekki umboð til þess. Þeirra hlutverk, samkvæmt stjórnarskrá, er að framfylgja ákvörðunum Alþingis, hvorki meira né minna en það.
Það sem þingmaðurinn bendir á í pistli sínum er að Gylfi er farinn að tala eins og sá sem mótar stefnuna, þ.e. þingmaður, en það er hann ekki.
Svo má náttúrulega benda á að Framsóknarflokkurinn hefur um árabil barist fyrir aðskilnaði löggjafar- og framkvæmdavalds með því að leggja til að gerist þingmenn ráðherrar, víki þeir af þingi.
Sigurður E. Vilhelmsson (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 17:25
Fyrir hina, sem kjósa að misskilja hvernig gjaldeyristekjur myndast, er röksemdafærsla Gylfa álíka gáfuleg og benda á að skattskyldar tekjur Íslendinga í fyrra hafi verið þúsund milljarðar og því hægur leikur fyrir ríkið að borga allar sínar skuldir á nokkrum árum.
Ætli ríkið sér að komast yfir gjaldeyristekjur fyrirtækja og einstaklinga verður það annað hvort að gera þær upptækar, eða kaupa gjaldeyrinn. Fyrirtækin sem afla gjaldeyrisins þurfa að nota hann til að kaupa aðföng til að halda útflutningi áfram (súrál, olíu, stál, annað hráefni og vinnu) og aðalútflutningsgreinar okkar þurfa mikinn gjaldeyri til þess.
Ríkið getur því aðeins keypt það sem eftir stendur, svo framarlega sem eigendur gjaldeyrisins vilji selja.
Svo má spyrja hvaða áhrif sú gríðarlega umframeftirspurn sem verður eftir gjaldeyri muni hafa á gengið.
Sigurður E. Vilhelmsson (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 17:44
Sigurður, auðvitað þarf að nota gjaldeyri í ýmislegt annað. Nema hvað.
Það sem Gylfi gerir, mjög skarplega, er að sýna fram á að eigi verður nú skorturinn á gjaldeyrinum.
"Jafnvel þótt gert sé ráð fyrir sáralitlum raunvexti útflutningstekna landsmanna á næstu 15 árum, sem er líftími Icesave-samkomulagsins, þá verða þær ríflega 100 milljarðar evra samanlagt á tímabilinu. Greiðslur vegna Icesave verða hins vegar varlega áætlað um það bil 2 milljarðar evra, einn milljarður í höfuðstólsgreiðslur og annað eins í vaxtagreiðslur."
Það sem siptir máli hinsvegar er, að hefja þegar uppbyggingarstarf og halda ótrauð áfram hinum afar skynsamlegu plönum núverandi ríkisstjórnar. Hluti þess er að afgreiða icesavemálið. Þangað til er allt mir og minna stopp.
Það vita sjallar og það sem þeir eru að gera er að reyna að eyðileggja og skemma fyrir. Nýbúnir að leggja landið í rúst - og nú ætla þeir sér að sökkva því !
Ómar Bjarki Kristjánsson, 31.7.2009 kl. 17:58
Ekki nema von að illa sé komið fyrir lýðveldinu Íslandi, með svona stórbrotna þingmenn sitjandi á hinu "háa" Alþingi!!! Þetta er ekki einu sinni fyndið! Skömm er af!
Að tala er silfur, að þegja er gull!
Jónas Rafnar Ingason, 31.7.2009 kl. 18:24
Ég þakka fyrir ábendingar um hvernig gjaldeyrisviðskipti fara fram í bönkum og áhyggjur af vankunnáttu minni varðandi starfsemi bankanna. Hins vegar svara þessar vinsamlegu ábendingar ekki ýmsum spurningum sem ég og fleiri hafa haft varðandi þessa framtíðarsýn ráðherrans.
Forsendur þess að allur þessi gjaldeyrir verði til ráðstöfunar er jákvæður viðskiptajöfnuður. Spá Seðlabankans gerir ráð fyrir a.m.k. 130 milljarða króna afgangi á ári. Til samanburðar er mesti afgangur á viðskiptajöfnuði í Íslandssögunni 23 milljarðar kr. árið 1994 og telja því margir, þar á meðal ég að þarna sé um mikla bjartsýni að ræða hjá Seðlabankanum. Þrátt fyrir þennan mikla viðsnúing gerir Seðlabankinn líka ráð fyrir að hagvöxtur taki við sér á næstunni, farið verði í stóriðjuframkvæmdir og að fólki fækki ekkert heldur fjölgi.
Þetta þýðir einfaldlega að lífskjör Íslendinga verða langt frá því sem við eigum að venjast í dag, kaupmáttur heldur áfram að skerðast, skattar halda áfram að hækka (til að dekka rekstrarhallann og redda krónum til að borga fyrir síhækkandi gjaldeyri), þjónusta dregst verulega saman og lán almennings halda áfram að hækka.
Mikil eftirspurn eftir gjaldeyri þýðir einnig hærra verð á honum og skv. Icesave samningnum mun ríkið ekki eiga neitt val. Það verður að kaupa hann, og ekki bara ríkið heldur einnig Landsvirkjun, Íbúðalánasjóður, Byggðastofnun og aðrar ríkisstofnanir. Annars geta Bretar og Hollendingar gengið að öllum eigum ríkisins (fyrir utan einstaka sendiráð erlendis).
Kannski getur Gylfi sætt sig við að leggjast flatur fyrir ESB og AGS en það er ég ekki tilbúin að gera.
Eygló Þóra Harðardóttir, 31.7.2009 kl. 18:27
Ómar Bjarki, það er ekki nóg að Gylfi reikni fullt af gjaldeyri inn í landið. Ríkið þarf einhvern veginn að komast yfir hann, komi hann á annað borð hingað. Þar liggur hundurinn grafinn.
Sigurður E. Vilhelmsson (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 18:30
Sæl Eygló.
Samkvæmt stjórnarskrá Íslands skipar forseti lýðveldisins þá í sína ríkisstjórn sem hann vill, en vanalega skipar hann þá sem flokkarnir koma sér saman um.
Gylfi var skipaður af forseta Íslands sem var kosninn til að skipa í sína ríkisstjórn.
Auk þess vill Framsóknarflokkurinn, ef ég man rétt, að ráðherrar sitji ekki á þingi.
Gylfi hefur alveg jafn mikið umboð og þú, bara frá mismunandi aðilum.
Bjarki (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 18:43
Það sem þjóðir þurfa á erfiðum tímum eru stjórnmálamenn sem leiða þau í gegnum erfiðleikana og taka erfiðar ákvarðanir sem ekki er hægt að komast hjá. Því miður hefur stjórnarandstaðan kosið að spila á reiði fólks og reyna að afla sér fylgis meðal almennings með gylliboðum sem hljóma vel. Það er enn verra þegar þessir sömu stjórnmálamenn eru annars vegar fulltrúar flokkanna sem leiddu þjóðina út í fenið og hins vegar virðast ekki hafa hugmynd um hvað snýr upp eða niður á íslenskri stjórnskipun. Eygló Harðardóttir virðist sameina þetta tvennt. Hún reynir að telja fólki trú um að ef hún fái að ráða þá verði allt eins og fyrr og Íslendingar haldi sínum lífskjörum -- sem voru að hluta til fjármögnuð með fjármálaævintýrum íslenskra glæpamanna erlendis -- eins og ekkert hafi í skorist. Þetta væri algerlega nóg í sjálfu sér til að rýja konuna trausti, en síðan ber hún á borð alþjóðar hvílíka vanþekkingu á gangi efnahagslífs og íslenskri stjórnskipan að lesendur standa á gati. Eru það fólk eins og hún sem víð eigum að treysta okkar framtíð fyrir? Því miður virðast bloggarar liggja flatir fyrir einföldum lausnum -- þetta er allt öðrum að kenna og við látum ekki kúga okkur -- en það hryggir mann óendanlega þegar fólkið sem velst til forystu virðist ekki einu sinni þekkja grundvallaratriðin í því eftir hvaða reglum þær stofnanir vinna sem það fær launin sín frá (greidd af íslenskum skattgreiðendum). Þetta er hinn stóri vandi, þ.e. ekki það að lífskjör okkar koma til með að skerðast um stund vegna heimsku þeirra sem stjórnuðu okkur hér áður heldur það að þeir sem veljast til forystu í helmingaskiptaflokkunum tveimur -- og munu verða komnir í brúna áður en langt um líður -- eru það einfaldir að þeir hafa ekki aðeins ekki lært nokkurn skapaðan hlut heldur skilja ekki einu sinni sínar eigin einfaldanir. Þetta er víst Ísland í dag.
Pétur (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 21:55
Svo innilega sammála Pétri sem síðast skrifaði..Hlustaðu Eygló!
Silla (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 00:07
Héðinn Björnsson átti hér mjög gott innlegg í dag kl. 17:12 um gjaldeyrismálin, ennfremur Sigurður E. Vilhelmsson kl. 17:44.
Í stuttu máli bendir Héðinn í 1. lagi á, að Gylfi reiknar með rúmlega tvöfalt meiri gjaldeyristekjum á næstu 15 árum en við höfum nú um stundir. Hér má bæta því við, að á fyrstu sex mánuðum ársins var útflutningur okkar 211,8 milljarðar króna, en innflutningur aðeins 178,8 milljarðar. Þannig var viðskiptajöfnuðurinn hagstæður um tæpa 33 milljarða króna (sjá HÉRhelmingurinn (3,35 milljarðar evra) af því, sem Gylfi reiknar með að við höfum í árlegar gjaldeyristekjur á komandi 15 árum, þá er sú upphæð þó 607 milljarðar króna, a.m.k. 150 milljörðum meira en það, sem við í bezta falli getum reiknað með að verði heildarútflutningstekjur þessa árs (2 x 211,8 milljarðar + 33,4 milljarða viðbót til að gera ráð fyrir enn meiri vexti vegna seinni hluta þessa árs! – Vera má, að hér vanti eitthvað upp á í reikning minn, þ.e. að gjaldeyristekjur okkar séu meiri en aðeins af útflutningi, einkum ef gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu teljast bætast við sem sjálfstæður gjaldeyrisöflunar-liður; ég er alltaf opinn fyrir leiðréttingum.)
Í 2. lagi bendir Héðinn á, að "þegar maður horfir til, að stór hluti af gjaldeyristekjum sjávarútvegs og álveranna fara beint í afborganir á erlendum lánum þeirra, er erfitt að sjá hvernig sá hluti gjaldeyristeknanna á að geta hjálpað til að borga Icesave-skuldbindingarnar."
Og Sigurður tekur undir það og segir: "Fyrirtækin sem afla gjaldeyrisins þurfa að nota hann til að kaupa aðföng til að halda útflutningi áfram (súrál, olíu, stál, annað hráefni og vinnu) og aðalútflutningsgreinar okkar þurfa mikinn gjaldeyri til þess," og hann bætir um betur með þessu: "Ríkið getur því aðeins keypt það sem eftir stendur, svo framarlega sem eigendur gjaldeyrisins vilji selja" (en vitaskuld verða þeir að skipta drjúgum hluta gjaldeyrisins í krónur og gera það vonandi fremur hér heima en erlendis!). Þessi athugsemd Sigurðar er einnig afar mikilvæg: "Svo má spyrja hvaða áhrif sú gríðarlega umframeftirspurn sem verður eftir gjaldeyri muni hafa á gengið." Lækki þetta gengi krónunnar umtalsvert, gerir það vitaskuld afborganir erlendra lána enn þyngri fyrir atvinnuvegi okkar og ríkið sjálft. Tók Gylfi Magnússon það inn í útreikninga sína?!
En það er ekki nóg með, að útflutningsfyrirtækin í landinu verði að leggja út í gjaldeyri fyrir efniskaupum og greiðslum af erlendum lánum sínum, heldur er alveg eftir að gera hér ráð fyrir öllum (öðrum) innflutningi okkar Íslendinga, af matvælum sem öðrum vörum, tækjum, eldsneyti og öðru hráefni! Sá innflutningur var 178,8 milljarðar kr. á fyrri hluta þessa árs og hafði þó dregizt mikið saman. Ekki borgum við fyrir hann án þess að taka af gjaldeyristekjunum!
Og þá er ekki allt upptalið, því að eftir er að reikna hér með afborgunum af erlendum lánum ríkissjóðs og Seðlabankans, bankanna, fyrirtækjanna og almennings! Gylfi Magnússon sleppir því bara að tala um greiðslur ríkissjóðs af öðrum lánum sínum, gefur sér einfaldlega hagstæðar, tilbúnar tölur (eins og sjá má hér ofar) og lætur í grein sinni eins og einungis þurfi að finna út greiðslubyrðina af Icesave-svikaláninu* og hvort við þolum það eitt, án tilllits til þess að það mundi bætast við margar aðrar lánaafborganir ríkisins! Hann minnist ekki einu aukateknu orði á AÐRAR ríkisskuldir og byrðina af þeim í þessari áðurnefndu Morgunblaðsgrein sinni! – Er maðurinn svona gleyminn, er hann kannski vanhæfur, eða er hann í pólitískum skollaleik? Ég fæ alltjent ekki séð mjög skothelda hagfræði í þessu
Og nú fáum við aftur enn meiri ástæðu til að hnykkja á orðum Sigurðar E. Vilhelmssonar hér ofar, um þau áhrif sem öll þessi gríðarlega eftirspurn eftir gjaldeyri muni hafa á gengið. Óhjákvæmilegur innflutningur almennings og fyrirtækja, afborganir útflutningsfyrirtækjanna af erlendum lánum (áður en reikna megi með því að ríkið geti skipt öllum erlendum gjaldeyri þeirra út með krónum), allar aðrar afborganir fyrirtækja, banka og almennings af erlendum lánum, SEM OG afborganir RÍKISINS af öllum sínum lánum – allt mun þetta í 1. lagi skapa "gríðarlega eftirspurn eftir gjaldeyri", í 2. lagi hefur það þess vegna lækkunaráhrif á gengi krónunnar, sem gerir þessar greiðslur enn þyngri, og í 3. lagi mun þetta setja möguleikum ríkisins til að notfæra sér gjaldeyrisöflun landsmanna afar þröngar skorður. Þannig eru allar forsendur Gylfa Magnússonar upp í loft, ómarktækar og einskis nýtar. Háskólamaðurinn verður að fara að reikna upp á nýtt!
En reginfeill og raunar meginhneykslið við þessa Morgunblaðsgrein Gylfa Magnússonar er það, að hann gefur sér ranglega og gegn lögum, að Íslendingar eigi að greiða "Icesave-skuldbindingarnar", þ.e.a.s. Icesave-skuldir Landsbankans, sem Trygingasjóður innistæðueigenda á einn, án ríkisframlags, að sjá um greiðslu á eftir sinni getu, samkvæmt "dírektívi" Evrópubandalagsins sjálfs frá 1994 um slíka sjóði, í grein 3,1.** Um þessa reginskyssu og raunar rangsleitni ráðherrans gagnvart þjóð sinni mun ég blogga nú í nótt ... og ekki láta annan hagfræðing, sem orðinn er pólitískur eins og Gylfi, þ.e. Þórólf Matthíasson, fá að sleppa við verðskuldaða gagnrýni fyrir viðlíka ósvífin Morgunblaðsskrif eins og þessi frá Gylfa Magnússyni ráðherra. Báðir eiga það sameiginlegt að vilja leggja þungbærar byrðar á þjóð sína, þótt hún EIGI EKKI AÐ BORGA ÞESSA ICESAVE-SVIKASAMNINGA!
Þökk sé þér, Eygló, fyrir þín skrif – sem og Héðni og Sigurði.
* Gylfi reiknar líka Icesave-upphæðina langt niður fyrir það, sem ætla má að hún verði að óbreyttum svikasamningi Svavars & Co. "Greiðslur vegna Icesave verða hins vegar varlega áætlað um það bil 2 milljarðar evra, einn milljarður í höfuðstólsgreiðslur og annað eins í vaxtagreiðslur," segir hann, en 1 milljarður evra er ekki nema 181,3 milljarðar króna, langtum minna en menn hafa almennt reiknað með að fari í vextina og eins hitt í greiðslu höfuðstólsins, sem sjálfur var nú kominn í um 700 milljarða vegna gengisbreytinga, þegar síðast fréttist, og þá að vísu auðvitað eftir að draga frá það sem fæst inn af eignasafni Landsbankans.
** Í þessu dírektífi Evrópubandalagsins frá 1994 stendur í 3. grein, 1. málslið: "The system [tryggingainnistæðukerfið] must NOT consist of a guarantee granted to a credit institution by a member state itself or by any of its local or regional authorities." Í íslenzkri þýðingu: "Kerfið má EKKI fela í sér tryggingu til handa fjármálafyrirtæki af hálfu þátttökuríkisins sjálfs eða sveitarstjórna eða svæðisstjórnvöldum þáttökuríkisins."
PS. Það eina jákvæða, sem ég sé við grein Gylfa, er að hann hefur yngst grunsamlega vel á myndinni, sem fylgir!
Jón Valur Jensson, 1.8.2009 kl. 02:41
Þarna einna efst í innlegginu hafa fallið út um 13 orð, og ekki átti að vera öll þessi undirstrikun, heldur er þetta rétt svona:
"Þannig var viðskiptajöfnuðurinn hagstæður um tæpa 33 milljarða króna (sjá HÉR [tengill]) eða um 180–182 milljónir evra. Þótt við gæfum okkur, að útflutningurinn yrði aðeins helmingurinn (3,35 milljarðar evra) af því, sem Gylfi reiknar með ..." (o.s.frv.)
Jón Valur Jensson, 1.8.2009 kl. 02:47
Héðinn ég er alls ekki að skilja hvað þú ert að fara. Jú útflutningur okkar hefur minnkað ´tímabundið en allir eru sammála um að verð á áli og fiski á eftir að hækka. En ég las þessa frétt inn á hagstofa.is í gær. Þar sem stendur m.a.
Og allir segja að útflutningur okkar eigi að ná því fljótlega aftur að verð sem nemur 5 milljörðum evra á ári. Þetta er það sem AGS, Norðulöndin, Seðlabankin og ríkisstjórnin hafa farið yfir og við hefðum aldrei fengið lán og lánsloforð ef þetta væri ekki raunhæft.
Magnús Helgi Björgvinsson, 1.8.2009 kl. 03:04
Sigurður Vilhelmsson, þér finnst afskaplega fyndið að menn útskýri stjórnskipun Íslands en kemur síðan sjálfur með einhverja hlægilegustu útlistun á hlutverki ráðherra sem hægt er að ímynda sér.
Hvar í stjórnarskrá stendur að Alþingi eigi að móta stefnuna og ráðherrarnir eigi að framfylgja henni. Er það einhver ósýnilegur texti á eftir 2. gr. þar sem kveðið er á um þrískiptingu ríkisvaldsins? Ef að ráðherrar sem eru utan þings, eins og Gylfi Arnbjörnsson, eru bara þarna til að fylgja stefnu Alþingis, hvers vegna í ósköpunum er honum þá gert kleift að leggja fram frumvörp fyrir Alþingi?
Ráðherrar (framkvæmdavaldið) stýra rekstri ríkisins og fylgja sinni eigin pólitískri stefnu. Sú stefna er reyndar í langflestum tilvikum í samræmi við stefnu meirihluta Alþingis, enda styður þingið ríkisstjórnina.
Baldur (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 17:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.