Út úr öngstrætinu

Óveður ríkir í íslensku efnahagslífi. Neyðarástand er að skapast á þúsundum heimila í landinu og gjaldþrot blasir við mörgum þeirra. Atvinnulausir eru orðnir yfir 10 þúsund og enn fleiri ráða ekki við greiðslubyrði sína. Fjöldi fyrirtækja á í miklum greiðsluerfiðleikum og spáir Creditinfo Ísland að á fjórða þúsund fyrirtækja verði gjaldþrota á næstunni.

Viðbrögð ríkisins við þessu ástandi hafa verið að hækka skatta, auka álögur í formi þjónustugjalda, kjaraskerðing og nú síðast uppsagnir opinberra starfsmanna. Til þess að koma í veg fyrir þá flóðbylgju gjaldþrota sem blasir við og leggja mun líf þúsunda fjölskyldna í rúst verður að grípa til aðgerða strax og aðstoða fólk út úr öngstrætinu.

Margt þarf að koma til, svo sem greiðsluaðlögun, félagsleg aðstoð og víðtækur stuðningur við fyrirtæki í landinu.

Greiðsluaðlögun

Frá því að núverandi ríkisstjórn tók við völdum hefur lögum um greiðsluaðlögun ítrekað verið lofað. Greiðsluaðlögun þýðir að skuldurum er hjálpað að komast út úr mesta svartnættinu og lánskjörum breytt til að létta greiðslubyrðina. Það getur falið í sér að vöxtum og/eða lánstíma sé breytt eða skuld lækkuð eða fryst um tíma á meðan fólk leitar lausna á tímabundnum erfiðleikum. Mikilvægt er að greiðsluaðlögun nái jafnt til skulda við ríki, innlánsstofnanir, lífeyrissjóði, verkalýðsfélög sem og húsnæðisskulda.

Þá er nauðsynlegt að bjóða einstaklingum, sem hafa tekið á sig miklar persónulegar skuldbindingar vegna reksturs fyrirtækja, upp á greiðsluaðlögun, að því gefnu að viðkomandi hafi ekki orðið uppvís að neinu ólöglegu í sínum rekstri.

Það síðasta sem heyrðist frá ríkisstjórninni um þetta mál var viðtal við Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra á Stöð 2 þar sem hún lýsti hversu gríðarlegum vandkvæðum væri bundið að afskrifa skuldir einstaklinga og engrar niðurstöðu væri að vænta á næstunni. Það er af sem áður var, því Jóhanna taldi þetta litlum vandkvæðum bundið þegar hún lagði fram frumvarp um greiðsluaðlögun ár eftir ár á meðan hún var í stjórnarandstöðu.

Þá hafa Vinstri grænir og framsóknarmenn einnig lagt fram frumvarp um greiðsluaðlögun og því má spyrja hvort Sjálfstæðisflokknum, varðhundi auðvaldsins, hafi tekist að sannfæra félagsmálaráðherra um hversu flókið og erfitt það væri að styðja við fólk sem er ófært um að greiða skuldir sínar.

Henni verður hins vegar velkomið að styðja við frumvarp framsóknarmanna sem lagt verður fram þegar þing kemur saman.

Félagsleg aðstoð

Páll Pétursson, fyrrum félagsmálaráðherra, setti á stofn ráðgjafarstofu heimilanna til að aðstoða fólk í greiðsluerfiðleikum. Frá því stofan var stofnuð hefur hún aðstoðað mörg þúsund einstaklinga. Helstu ástæður greiðsluerfiðleika í gegnum tíðina hafa verið veikindi og vankunnátta í fjármálum, en nú bætist atvinnuleysi við.

Stórauka þarf framlög til ráðgjafarstofunnar svo hún geti staðið undir auknum verkefnum og auka samstarf hennar við félagsþjónustu sveitarfélaganna. Einstaklingar sem eru í fyrirtækjarekstri hafa átt í fá hús að venda þegar þeir hafa lent í greiðsluerfiðleikum, auk þess sem ríkið hefur innheimt opinber gjöld af hörku.

Setja þarf á stofn ráðgjafarstofu fyrirtækja sem gæti starfað með ráðgjafarstofu heimilanna, Nýsköpunarmiðstöð eða sem sjálfstæð stjórnsýslueining. Hlutverk hennar yrði að aðstoða eigendur og stjórnendur fyrirtækja við að yfirfara reksturinn, semja við lánardrottna og ráðleggja um hvort halda skuli rekstri áfram eður ei.

Stuðningur við fyrirtæki

Sambærilegur stuðningur við starfandi fyrirtæki í landinu hefur verið enginn. Ekkert hefur heyrst af neinum tillögum þeim til handa á meðan útbúnir eru milljarða ívilnanapakkar fyrir stórfyrirtæki og fjárfestingarsjóði.

Ýmislegt er hægt að gera auk laga um greiðsluaðlögun og ráðgjafarstofu fyrirtækja. Aðgangur að lánsfé og ábyrgðum er mjög takmarkaður. Ríkið getur sett á stofn endurreisnarsjóð til að kaupa hlutafé og lána til fyrirtækja, ekki bara sprota heldur einnig starfandi fyrirtækja. Önnur leið til að auðvelda sjóðstreymi fyrirtækja er að leyfa þeim að skila virðisaukaskatti þriðja hvern mánuð í stað annars hvers og einfalda regluverk og eftirlit hins opinbera.

Ef ekkert verður að gert mun fjöldi gjaldþrota einstaklinga og fyrirtækja margfaldast. Afleiðingarnar verða aukinn kostnaður í velferðar- og dómskerfinu, en ekki síst örvænting einstaklinga og fjölskyldna og sár í þjóðfélaginu sem seint munu gróa.

Það munu framsóknarmenn aldrei sætta sig við.

(Greinin birtist í Fréttablaðinu í gær)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Eygló Þóra.

Hugguleg grein hjá þér, ekki laust við að hún beri merki ungs/nýs þingmanns með eld í æðum.

En betur má ef duga skal.

Verð að segja sem kjósandi og samfélagsþegn á Íslandi, þá mun þinn ágæti flokkur hljóta neinn trúverðugleika fyrr en þið hafði losað ykkur við alla þá sem tengjast ykkkar dökku fortíð.

Þá er ég að tala um konur eins og Valgerði, Helgu Sigrúnu, menn eins og Magnús Stefánsson og alla þá sem tengdust síðustu "ógnar"ríkistjórn sem þinn flokkur átti aðild að.

Með fullri virðingu fyrir ofangreindu fólki, þá verða allir sem tóku þátt í þessu bulli að víkja.

Á meðan líða nýjir þingmenn/konur með eld í æðum fyrir fortíðina.

Á meðan verða greinar sem þessi  sem hjómið eitt.

Sigfús (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 13:47

2 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Greinar sem þessi eru góðar útaf fyrir sig... en meðan þær skrifar Framsókarmaður sem stutt hefur það sem sá flokkur undirbyggði og stóð af... hverfur trúverðugleikinn að mestu.

Jón Ingi Cæsarsson, 12.1.2009 kl. 09:36

3 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Sælir, - ég mun gera mitt besta til að tillögur okkar til að aðstoða fólk í greiðsluerfiðleikum verða ekki hjómið eitt. 

Eldmóður er vonandi af hinu góða, - og það er nú ein af ástæðunum fyrir að ég hef talað fyrir því að takmarka þingsetu þingmanna.  Við eigum að hafa fólk með eldmóð og hugsjónir á þingi, fólk sem vill koma að ákveðnum verkum en hverfa svo til annarra starfa þegar það er búið að koma þeim í framkvæmd.

En þá verðum við líka að breyta hvernig er unnið á þinginu, tryggja þrískiptinguna og auka beint lýðræði.

Eygló Þóra Harðardóttir, 12.1.2009 kl. 10:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband