Að sparsla í réttar holur

Í vinnu við fjárlögin fyrir jól varð stjórnarmeirihlutinn ítrekað uppvís að slælegum og hroðvirknislegum vinnubrögðum. Frumvarpið var endurskrifað trekk í trekk milli fyrstu og annarrar umræðu og stjórnarliðar kepptust við að sparsla og kítta í holur og göt allt fram í þriðju umræðu. Þannig voru nefndarmenn fjárlaganefndar á handahlaupum við að leiðrétta nefndarálitið rétt áður en þeir ruku upp í ræðustól til að mæla fyrir frumvarpinu.

Nú þegar er hroðvirknin farin að segja til sín.  Umhverfisráðuneytið var með tillögur um fjárframlög til tveggja verkefna sem það hafði skuldbundið sig til að fjármagna með samningum.  Þar er annars vegar um að ræða verkefnið Hekluskóga, sem er í höndum heimamanna og hins vegar Landgræðsluskóga, sem eru í höndum Skógræktarfélags Íslands. Samkvæmt samningum áttu Hekluskógar að fá 50 milljónir króna, en Skógræktarfélagið 35 milljónir.  Fyrir aðra umræðu lagði ríkisstjórnin til 5 milljóna niðurskurð á framlögum til Hekluskóga og 15 milljóna niðurskurð hjá Skógræktarfélagsinu á þeim forsendum að verkefni Skógræktarfélagsins væri nýtt og því auðveldara að fresta því. 

Við þriðju umræðu gerist það svo skyndilega að framlög til Hekluskóga eru skorin niður um 25 milljónir á meðan Skógræktin var ekki aðeins komin með 15 milljónirnar sínar aftur, heldur tæpar 13 til viðbótar. Hekluskógar höfðu því misst helming þeirrar upphæðar sem kveðið var á um í samningum, en Skógræktin komin með tæpar 13 milljónir umfram samninga.

Umhverfisráðuneytið, sem ber ábyrgð á fyrrgreindum samningum við Hekluskóga og Skógræktina sver af sér alla ábyrgð og bendir á fjárlaganefnd. Hvort formaður Skógræktarfélagsins, Magnús Gunnarsson, fyrrum bæjarfulltrúi í Hafnarfirði hefur náð að sannfæra Gunnar Svavarsson, formann fjárlaganefndar og núverandi bæjarfulltrúa í Hafnarfirði, svona rækilega um ágæti Skógræktarfélagsins umfram Hekluskóga, nú þegar flokkarnir þeirra eru samherjar í ríkisstjórn, skal ósagt látið. Hinsvegar er ljóst að Hekluskógar eru í uppnámi og með þeim fjölmörg störf á Suðurlandi.

Starfsmenn sem fara á atvinnuleysisbætur hljóta að geta huggað sig við fjárlaganefnd telur fjármununum betur varið í báknið í Borgartúni en við atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir Eygló að upplýsa okkur um þetta.  En er þetta ekki verklag sem hefur alltaf verið við lýði við fjárlagagerðin? Og í raun almennt í íslenskri pólitík.  Menn beiti sér í þágu eiginhagsmuna.  Þar hefur Framsóknarflokkurinn ekki endilega verið barnanna bestur.  Ef Framsóknarflokkurinn kemst til valda, munt þú berjast fyrir því að útrýma vinnubrögðum af þessu tagi?  Gengur þú ekki líka með formanninn "í maganum" eins og ýmsir hafa verið að hvetja þig til að gera?  Mér þætti gaman að sjá til blanda þér þar inn.

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 00:10

2 identicon

Í þessu litla, fámenna, skuldsetta og skóglausa landi er að finna "margar Skógræktir" sem njóta fjárstuðnings úr ríkissjóði. Meðal þeirra eru þrjár ríkisstofnanir í kjördæmi Eyglóar (Landgræðsla ríkisins, Suðurlandsskógar og Hekluskógar). Í pistli Eyglóar kýs hún hins vegar að gera starfsemi Skógræktarfélags Íslands tortryggilega, en þau eru fjölmennustu frjálsu félagasamtökin á sviði umhverfismála í landinu með beinni félagsaðild 8 þúsund manna um allt land (sjá http://www.skog.is/felagid/default.htm). Hún ýjar jafnframt að því að félag þetta sé "bákn við Borgartún" sem hafi lítil sem engin tengsl við landsbyggðina.

Hið rétta er að flest hinna 61 aðildarfélaga Skógræktarfélags Íslands er að finna á landsbyggðinni (http://www.skog.is/felog/default.asp). Átta þeirra er að finna í kjördæmi Eyglóar (Suðurkjördæmi), þar af eitt (og eitt hið elsta) í Vestmannaeyjum (http://www.skog.is/felog/sk-felag.asp?ID=65).  Öll þessi félög á landsbyggðinni njóta stuðnings frá Landgræðslusjóði (http://www.skog.is/skograekt/SagaLandgraedslusjods.htm), en þann sjóð stóð til að skera við trog í fjárlögum, allt fram að þriðju umræðu um fjárlagafrumvarpið. 

Hekluskógar hafa frá upphafi notið fjárhagslegs og siðferðilegs stuðnings Skógræktafélags Íslands og  Landgræðslusjóðs. Nægir að nefna í þessu sambandi að við undirbúning Hekluskógaverkefnisins var fyrsti styrkur sem fékkst til verkefnisins (3 m kr.) veittur úr Landgræðslusjóði, löngu áður en verkefnið komst á ríkisspenann (fjárlög).

Aðalsteinn Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 03:10

3 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Sælir,

Ég er ekkert að gera athugasemdir við starfsemi Skógræktarfélagsins, heldur að það eru brotnir skuldbindandi samningar sem gerðir voru við Hekluskóga. Hekluskógar áttu að fá 50 milljónir, og til að uppfylla samninginn við Skógræktarfélagið virðist það verkefni hafa verið skorið niður og fjármunirnir færðir yfir til Skógræktarfélagsins. Vinnubrögð sem eru í hæsta máta óeðlileg, sérstaklega í ljósi þess að Skógræktarfélagið fær síðan aukalega 13 milljónir umfram gerða samninga. Ef ætlunin er að láta þessar auka 13 milljónir ganga til Hekluskóga þar sem það hefur notið "...fjárhagslegs og siðferðilegs stuðnings Skógræktarfélagsins..." þá fagna ég því, en það breytir því ekki að vinnubrögðin við fjárlagagerðina voru í hæsta máta hroðvirknisleg og vekja upp margar spurningar.

Eygló Þóra Harðardóttir, 3.1.2009 kl. 09:45

4 identicon

Ekki fæ ég séð af lestri nefndarálits meirihluta fjárlaganefndar að þessir fjármunir hafi verið færðir beint úr vasa Hekluskóga í vasa Skógræktarfélags Íslands: http://www.althingi.is/altext/136/s/pdf/0440.pdf

Með sömu rökum Eyglóar mætti alveg halda því fram að það 15,1 m kr. viðbótarframlag sem veitt var til Landgræðslu ríkisins fyrir þriðju umræðu hafi verið færðir úr vasa Hekluskóga.

Aðalsteinn Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 12:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband