Samvinna í verki

Samvinnustefnan byggir á þremur lykilstoðum. Að fólk geti náð meiri árangri með því að vinna saman en sem einstaklingar. Að eina leiðin til tryggja sanngirni í samfélaginu sé að dreifa valdi, án tillits til auðs, stéttar, kyns eða hörundslitar. Að unnið sé að því að hvetja til reksturs samvinnu félaga og annarra sameignar félaga sem hafi hagsmuni meðlima að leiðarljósi fremur en það eitt að hámarka hagnað.

Fram undan er mikil vinna við uppbyggingu íslensks atvinnulífs. Hér tel ég að höfuðborgarsvæðið geti lært af reynslu landsbyggðarinnar. Landsbyggðin hefur barist árum saman við samdrátt og fólksfækkun og er að mínu mati aðeins tvennt sem hefur borið verulegan árangur. Annað er uppbygging menntakerfisins, þ.e. framhaldsskóla, fræðslu- og símenntunarmiðstöðva og háskóla á landsbyggðinni.

Hitt eru vaxtarsamningarnir, sem byggja á hugmyndum Michael Porters um samvinnu í samkeppni, eða uppbyggingu klasa. Fyrirtæki, stofnanir, hið opinbera og einstaklingar skilgreina saman hver sé styrkleiki atvinnulífsins á svæðinu og vinna síðan markvisst að því að styrkja þá þætti enn frekar í samstarfi. Í raun ætti að endurnefna samningana og kalla þá samvinnusamninga, því þeir byggja á samvinnuhugsuninni og endurspegla skýrt hversu miklu sterkari við erum þegar við vinnum saman, en ekki sem einstaklingar.

Samþjöppun valds hefur einkennt íslenskt samfélag. Eignarhald fyrirtækja hefur safnast á æ færri hendur og það sama hefur gerst hjá hinu opinbera. Í stjórnarskránni kemur skýrt fram að við stofnun íslenska lýðveldisins var ætlunin að tryggja þrískiptingu valds í framkvæmdavald, dómsvald og löggjafarvald. Forsetinn hefur framkvæmdavaldið en framselur það til ráðherranna, Alþingi á að setja lög og dómstólar að úrskurða samkvæmt þeim. Af þessum eru bara forsetinn og Alþingi kosin beinni kosningu af almenningi. Hefð hefur síðan skapast fyrir þingræði, og forsetinn hefur orðið nánast valdalaus innan íslenskrar stjórnskipan.

Til að ná fram sanngirni í samfélaginu verðum við að dreifa valdi, og það gerum við ekki nema með róttækum breytingum á íslenskri stjórnskipan. Á síðustu tveimur mánuðum hefur kristallast hversu veikt löggjafarvaldið er orðið gagnvart framkvæmdavaldinu, og samráð er nánast haft til málamynda við þingmenn og þingnefndir um skuldbindingar, samninga og stefnumörkun ríkisstjórnarinnar.

Þær breytingar sem þarf að gera til að treysta þrískiptingu valdsins eru meðal annars að banna að ráðherrar sætu jafnframt sem þingmenn. Ef þingmenn tækju að sér ráðherraembætti yrðu þeir að segja af sér þingmennsku, en sú leið er einmitt farin í Svíþjóð. Ganga mætti lengra og sameina hlutverk forseta og forsætisráðherra.

Forsætisráðherra yrði þá kosinn beinni kosningu og hann svo velur ráðherra sem yrðu að hljóta samþykki þingsins, líkt og gert er í Bandaríkjunum. Ráðherrar veldu sér síðan ráðuneytisstjóra og helstu trúnaðarmenn inn í viðkomandi ráðuneyti. Þannig væru völd embættismanna í ráðuneytum, sem enginn hefur kosið, einnig takmörkuð. Annar varnagli gegn samþjöppun valds væri að kjörnir fulltrúar gætu aðeins setið samfellt tvö kjörtímabil, enda eiga 8 ár að duga ágætlega til að koma hugmyndum sínum og hugsjónum á framfæri.

Endurskoða þarf löggjöfina um samvinnurekstur og aðlaga hana að nútímasamfélagi. Opna þarf fyrir rekstur samvinnulánastofnana, styrkja stöðu sparisjóðanna og nýta skattakerfið til að umbuna fyrirtækjum sem sýna samfélagslega ábyrgð og vitund í rekstri.

Græðgisvæðing íslensks samfélags reið því nærri að fullu. Ofuráhersla á hagnað, hagræðingu, vöxt og samþjöppun valds gerði það að verkum að auðgildið var sett ofar manngildinu. Til að rata út úr þessum ógöngum þurfum við að endurskoða stjórnskipan landsins, tryggja valddreifingu, jafnt stjórnvalds sem viðskiptalífs og byggja upp nýtt samfélag á grunni samvinnu, sanngirni og jafnréttis. Þar mun samvinnustefnan gegna lykilhlutverki.

(Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mig langar að byðja þig að lesa og skoða sögu Samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi hér áður fyrr, þar sem hún og þeir sem henni stjórnuðu mergsugu bændur þessa lands í gegnum Kaupfélögin og sambandið græddi meir á því að geyma lambakjöt í frosti en selja það.  Svo ættirðu að skoða og byrta nöfn þeirra framsóknarmanna sem misnotuðu samvinnusjóðinn til eigin nota, sem var í eign um 30 til 50 þúsund Íslendinga.

Afhverju var sjóðurinn ekki frystur þegar skilanefndin var  sett yfir hann.??

Afhverju fengu þeir sem töldu sig yfir hann asettan að ráðstafa honum eftir að í ljós kom hann var eign þeirra sem greiddu í hann.??

 Kynntu þér sögu þeirra manna sem mergsaug alþýðu manna í gegnum samvinnuhreyfinguna á þeirri forsemdu að samvinnuhreyfingin væri hreyfing fólksins.

Kveðja

Lárus Ingibergsson

Lárus Ingibergsson (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 10:35

2 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Sæll Lárus,

Ég hef verið að lesa sögu samvinnuhreyfingarinnar hér á landi. Í fyrstu grein minni um samvinnustefnuna bendi ég á að ýmsir innan hreyfingarinnar hafa líka tapað sér í græðgisvæðingunni.  Það er ekki af ástæðulausu sem talað er um græðgi sem eina af höfuðsyndunum.

Menn eru breyskir, en það breytir því ekki að hugsjónin um sjálfsábyrgð, sanngirni og samvinnu á aldrei meiri rétt á sér en nú. Ég vil líka benda á að samvinnufélögin gerðu aldrei Ísland gjaldþrota eins og frjálshyggjunni hefur tekist svo snilldarlega með gengdarlausri græðgi og hroka. 

Eygló Þóra Harðardóttir, 19.12.2008 kl. 13:34

3 identicon

Sæll Lárus:    Færðu rök fyrir því að Kaupfélögin hafi mergsogið bændur. Ef þú gerir það ekki,þá ertu aðeins ómerkilegur ómerkingur sem enginn tekur mark á.

Ertu ef til vill í Samfylkingar sullum bullinu? Sé svo þarf ekki lengur vitnanna við.

                                        Gtssur á Herjólfsstöðum.  

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 15:29

4 identicon

Sæl Eygló,

Hrós fyrir þessar greinar, eru vel skrifaðar og eiga fullt erindi í dag.  Þú átt líka hrós skilið að halda þessari umræðu á lofti þar sem þú mátt (eins og sést) búast við sterku andmæli eins og sagan hefur sýnt okkur.  Samvinnustefnan er falleg hugsjón og hugmyndafræði alveg eins og boðorðin 10.  Hún gengur ekki upp og verður aldrei sterkari stefna en veikasti hlekkurinn.  Gengur ekki heldur upp ef allir sífellt að hafa áhyggjur af því að næsti maður sé með 10 kall hærri laun eða gróða.  Eða með aðeins meiri völd.  Þessum gildum hefur Framsóknarflokkurinn EKKI haldið á lofti lengi, lengi.  Forystumönnum flokksins s.l. 20 ár að kenna.  Kvótafrumvarp Halldórs Ásgrímssonar og flýtiafgreiðsla þess fyrir jólahlé Alþingis 1983, er ágætt dæmi um mótsögn við samvinnustefnuna.  Söguna af kvótamálum og áhrif á byggðaröskun síðan þá, þekkjum við vel.  Fleiri svona dæmi til sem m.a. lærlingur Halldórs, Finnur Ingólfsson, hefur staðið fyrir.  Að mínu mati er Framsóknarflokkurinn í algjörri tilvistarkreppu og illa laskaður.  Gildi samvinnustefnunnar og þín umræða Eygló, gætu verið ný tækifæri.  Hugsanlega hægt að ala nýjar kynslóðir með henni? 

Gaman að þú skyldir nefna M.Porter og hans aðferðafræði sem ég þekki vel.  Ég leyfi mér þó að efast að árangur vaxtasamninganna sé svo mikill.  Of mikið af lobbyisma en minna um raunverulegar aðgerðir.  Vann í stefnumótunarverkefnum fyrir t.a.m. Eyjafjarðarsvæðið fyrir áratug síðan þar sem reynt var að beita aðferðafræði M.Porter um samkeppnishæfi þjóða.  Því miður var hreppapólitíkin svo sterk að erfitt reyndist að fá menn upp úr sérhagsmunum.  Held að þurfi að sameina sveitarfélög svo þetta virki.  Vonandi er þetta að breytast.  Vonandi sér ríkið mikilvægi þess að styrkja nýsköpunarstarf af þessu tagi til að byggja upp nýtt atvinnulíf.

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 15:30

5 Smámynd: Dofri Hermannsson

Sæl Eygló.

Það er sannarlega gaman að sjá unga framsóknarkonu sem skilur samvinnuhugsjónina, virðist kunna skil á hugmyndafræði klasasamvinnu og vitnar í Michel Porter (jafnvel Schumpeter?).

Ég hef sagt félögum mínum í Framsóknarflokknum að þarna sé komið formannsefni þeirra - ef þeir vilja á annað borð flokki sínum vel en ekki bara koma ár sinni vel fyrir borð.

Framsókn þarf ferskt blóð. Einhvern sem þekkir og skilur grunngildi flokksins, er ekki aurugur upp fyrir haus af spillingu undanfarinna ára, er ekki virkjanabrjálæðingur og hvorki með rýtinginn á lofti eða í bakinu.

Ég skora hér með á þig í formanninn!

Dofri Hermannsson, 19.12.2008 kl. 16:25

6 identicon

  ÁRNINN:  Ert þú í Samfylkingunni?    Ja ég bara spyr svona.

                                    Gissur á Herjólfsstöðum.

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 17:11

7 identicon

Góð áskorun Dofri.  En mér sýnist þú vera sjálfur að sniglast í röngum flokki. 

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 17:13

8 Smámynd: Magnús Guðjónsson

Þakka þér Eygló fyrir þessa pistla þína um samvinnuhugsjónina og gildi hennar.  Það þarf kjark til að halda henni á lofti og vertu viss að þú átt þér miklu fleiri fylgjendur en þig grunar.  Það er sorglegt þegar menn eins og þeir sem hafa skrifað hér á undan bæði Lárus og Einar Á.  blanda saman hugsjón og einhverjum einstaklingum sem hefur misfarist við framkvæmd.  Samvinnuhugsjónin og Samvinnuhreyfingin áttu stærstan þátt í því að við gátum brotist undan áþján auðvaldsins fyrir ca. öld síðan.  Þá voru nokkrir einstaklingar sem skömmtuðu Íslensku þjóðinni kjörin og því miður þá erum við í nákvæmlega sömu stöðunni núna,  þeir sem ráða (eða réðu) kjörum þjóðarinnar  komust fyrir í einni smárútu og eftir sitjum við sem eitt af verst settu ríkjum hins vestræna heims.  Ég  er alveg sammála Eygló um að Samvinnuhugsjónin og Ný Samvinnuhreyfing er okkar allra besti kostur í stöðunni,  enda  tala allir, sama hvort það eru örgustu kommar í VG eða Ultra hægrimenn í Sjálfstæðisflokkunum, um að við verðum að standa saman og vinna okkur saman útúr þeim ósköpum sem við erum í .  Þú hefur minn stuðning Eygló og ég hvet þig til að halda áfram að tala fyrir samvinnuhugsjóninni..

Magnús G.

Magnús Guðjónsson, 19.12.2008 kl. 17:21

9 identicon

Ættir að lesa aftur það sem ég skrifaði Magnús G.  Var að hæla því sama og þú ert að gera.  Benti bara á dæmi um hvernig Framsókn hefur á undanförnum árum hörfað frá samvinnuhugsjóninni.  Ráðlagði síðan Eygló það sama og þú. 

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 17:41

10 Smámynd: Haukur Gunnarsson

É er á því að Framsókn sé flokkur sem ætti að leggja niður: Hefur ekkert fram að færa sem ekki er til staðar í öðrum flokkum. Þei gætu farið í Sjálstæðisf, Samf. eða VG og findu ekkert fyrir því. Samvinnuhreyfingin var ekkert orðin annað síðustu áratugina en argasta einokrunarfyrirtæki, þó upphafið hafi verið göfugt og gott. Og þú unga og skelega kona gaktu í Samfylkinguna.

Haukur Gunnarsson, 19.12.2008 kl. 18:06

11 identicon

Komdu sæl Eygló Harðardóttir

 

Ég samfagnaði þegar tvær konur bættust á þing þó í Framsókn væru og taldi að þingheimur mundi skána við það, en ég bjóst ekki við að önnur þeirra mundi á sínu eigin bloggi afhjúpa sig sem rasisma eins og þú gerir með því að segja að allt samfylkingar fólk sé bara sullum bull hvað sem það þýðir, ( óska skýringa á því ) en reikna með að það eigi að vera niðurtal og dómur yfir þriðjungi þjóðarinnar sé einhverskonar drullusokkar.  Þeir eiga semsagt ekki heima í samvinnuhreyfingunni sem þú mundir vilja koma á fót miðað við viðhorf þitt til þess.  Ljótt er að þjóðkjörinn fulltrúi fólksins skuli tala svona og í raun gefa í skyn að ef samfylkingarmaður sem er ekki í einu og öllu sammála þér geti ekki vænst þess að leita ásjár hjá þér um sín mál.  Það hlýtur að vera umhugsunar efni vinnufélaga þinn á þingi ( Samfylkingar þingmanna ) hvort þér sé treystandi í samstarf með þetta álit á þeim.

 

Ég get sagt þér margar sögur um hvernig kaupfélögin og samvinnuhreyfingin fóru með bændur hér áður fyrr og reyndar alla þjóðina.   Hreyfingin verður aldrei betri en þeir menn sem henni stjórnuðu og því miður snérist samvinnuhreyfingin meira um völd en þarfir þeirra sem neyddir voru til að vera undir hennar forsjá.

 

Það er sitthvað að lesa sögu samvinnuhreyfingarinnar eftir því hvort hún er eftir þá sem stjórnuðu hreyfingunni eða þeirra sem þurftu að lúta ægi valdi hennar.

 

Samvinnuhugsunin er falleg hugsun en því miður fór framkvæmd hennar hér á landi eins og fyrir byltingunni hún át börnin sín.

 

Það vildi ég óska að til væru einstaklingar hér á landi sem geta stofnað Samvinnuhreyfingu sem yrði til fyrir fólkið en ekki fyrir fjármagn og völd.

 

Þú mættir benda þjóðinni á þá sem geta stofnað og rekið Samvinnuhreyfingu þjóðinni til heilla án þess að hún snúist um peninga og völd, skal ég þá leggja henni lið.

 

Væntanlega verða ekki margir Samfylkingarmenn í þeim hópi og hvað viltu þá gera við þá,  eða eiga þeir að þjóna Samvinnuhreyfingunni sem þú sér fyrir þér ?

 

Mundu að lifa í sátt við sjálfan þig og þjóðina svo þjóðin verði sátt við þig.

 

Það er von mín að allir eigi eftir að verða jafnir fyrir þínum augum því við þurfum á því að halda að allir standi saman og vinni þjóðinni heilla, rasisminn er ekki leið til þess.

 

Læt þessu lokið að sinni.

 

Óska þér og þínum innilegra gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Lárus Ingibergsson

Lárus Ingibergsson (IP-tala skráð) 21.12.2008 kl. 15:07

12 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Samvinnuhreyfingin er enn til.Og Kaupfélag Suðurnesja er enn til og rekur verslanir um allt land undir merki Samkaupa.Samvinnuhreyfingin var andsvar við stefnu þeirra sem vildu þjóðnýtingu eða óheft auðvald.Samvinnuhreyfingin hefur lifað af á Suðurnesjum.En það er fyrst og fremst vegna góðra stjórnenda, sem hafna kratisma í anda Dofra Hermannssonar.Þakka góða grein Eygló.

Sigurgeir Jónsson, 22.12.2008 kl. 23:40

13 identicon

Því miður hefur Samkaup aldrei komist með tærnar þar sem Bónus og Krónan hafa verið með hælana í verðlagningu, hvað sem veldur og verður að segjast að er ekki góð auglýsing eða framtíðarsýn í fyrirtæki sem er búið að vera mun lengur á markaðnum en Bónus og Krónan að geti ekki verði með vöruverð svipað og þeir.

Kannski mundi það gerast ef þeir fengju einokun aftur á markaðnum eins og var hér áður fyrr á öldinn hver veit en ég efast um það.

Samvinnuhreyfingin er álíka gáfuleg til árangus eins og gömlu samyrkjubúin í Rússlandi á síðustu öld. Allir vita hvernig það fór.  Ættum kannski að taka það upp hér, sama hugsjón á bakvið bæði fyrirbærin.  Það er búið að reyna samvinnuhugsjónina hér á landi með afar sorglegum endir fyrir þjóðina, reyndar verður að viðurkennast að þeir sem voru innstu koppar í henni komu vel út úr henni.  Ég skora á ykkur að skila samvinnusjóðnum sem þið notuðuð ykkur til framdrátta en var í eigu 50.000 þúsund Íslendinga, hann er eitt besta dæmið um hvernig stjórnendur Samvinnuhreyfingarinnar fór með eignir annara. Þeir sólunduðu 30 milljörðum af eignum þessa fólks, án heimildar annara en sjálfs síns  í að gera sjálfan sig ríka og auka við völd sín.

 Hvernig væri að þú byrtir sögu og nöfn þessara manna hér á síðunni ef þú vilt vera sjálfri þér samkvæm og koma hreynt fram.

 Kveðja

Lárus Ingibergsson

Lárus Ingibergsson (IP-tala skráð) 25.12.2008 kl. 00:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband