Aftur til samvinnu

Íslenskur almenningur situr nú í brunarústum óhefts kapítalisma. Hin ósýnilega hönd hins frjálsa markaðar var eftir allt saman ekkert ósýnileg, hún var hreinlega ekki til. Sýnin um að sífellt væri hægt að stækka kökuna með því að ýta undir græðgi einstaklinganna reyndist vera draumsýn, fals eitt þar sem engin raunveruleg verðmæti voru sköpuð. Óheftur kapítalismi er hruninn líkt og kommúnisminn í lok síðustu aldar.

Tími er til kominn að skoða aðra hugmyndafræði, sem byggir á raunverulegri verðmætasköpun þar sem fólk leggur saman þekkingu sína, reynslu og hagsmuni til að ná ákveðnum sameiginlegum markmiðum. Það er kominn tími til að endurreisa samvinnuhugsjónina á Íslandi.

Í allt of langan tíma hefur samvinna verið ljótt orð í íslensku. Hugmyndafræðin á bak við samvinnustefnuna hefur týnst og meira að segja menn innan samvinnuhreyfingarinnar sjálfrar hafa týnt sér í frjálshyggjunni og græðgisvæðingu hins íslenska samfélags, eins og sorgardæmið um Samvinnutryggingar sýnir svo átakanlega.

En fyrir hvað stendur samvinnustefnan? Að fólk geti náð meiri árangri með því að vinna saman en sem einstaklingar. Að eina leiðin til tryggja sanngirni í samfélaginu sé að dreifa valdi, án tillits til auðs, stéttar, kyns eða hörundslitar. Að vinna að því að hvetja til reksturs samvinnufélaga og annarra sameignarfélaga sem hafa hagsmuni meðlima að leiðarljósi fremur en það eitt að hámarka hagnað. Þar sem manngildi er sett ofar auðgildi. En hún er dáin, er það ekki?

Samvinnumenn vilja vissulega ná árangri, en á grunni siðferðislegra gilda og sterkrar samfélagslegrar vitundar. Þetta endurspeglast í viðhorfum þeirra gagnvart samfélaginu og umhverfinu. Gildin eru: sjálfshjálp, sjálfsábyrgð, lýðræði, jafnrétti, sanngirni og samstaða. Þessi gildi endurspeglast síðan í áherslum þeirra á sjálfsábyrgð hvers og eins, lýðræðislegum vinnubrögðum, jafnrétti þar sem hver einstaklingur hefur eitt atkvæði, sjálfstæði, mikilvægi menntunar og upplýsinga til allra hagsmunaaðila, samvinnuanda og umhyggju fyrir samfélaginu sem þeir starfa í.

En er samvinnuhreyfingin ekki dauð? Er hún ekki jafn útbrunnin og kapítalismi og kommúnismi? Á vefsíðu ICA (ica.coop), regnhlífarsamtaka samvinnumanna um heim allan kemur fram að alls standa að þeim 221 félagssamtök frá 87 löndum með meira en 800 milljónir meðlima. Félög sem starfa í anda samvinnustefnunnar má finna í landbúnaði, lánastarfsemi, sjávarútvegi, heilsugæslu, fasteignum, iðnaði, tryggingum, ferðaþjónustu, verslun, þróunaraðstoð og stjórnmálum. Meira að segja í hinu svokallaða höfuðvígi kapítalismans, Bandaríkjunum, sjá samvinnufélög í raforkuframleiðslu 25 milljónum manna fyrir rafmagni, eiga helming raforkulínanna og reka heilsugæslu, sem grundvallast á samvinnuhugsjóninni, fyrir 1,4 milljónir fjölskyldna.

Framsóknarflokkurinn á rætur sínar í samvinnuhreyfingunni. Í stefnuskrá hans segir m.a.: "Við viljum byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls." Í stefnuskránni segir líka "við setjum manngildi ofar auðgildi …" En hvar hafa áherslur flokksins verið? Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar voru meðal annars tveir bankar einkavæddir, eitt símafyrirtæki selt og hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja seldur. Markmiðið var að framselja eignir almennings til auðvaldsins í þeirri von að nokkrir brauðmolar dyttu af borðum hinna útvöldu til almúgans.

Man einhver eftir hugmyndum um samvinnurekstur í heilbrigðisþjónustu, skólakerfinu eða bönkunum? Leik-, grunn-, og framhaldsskólum sem reknir væru af kennurum og foreldrum? Heilsugæslu þar sem læknar og sjúklingar sameinuðust um reksturinn? Húsnæðisfélögum þar sem íbúar taka höndum saman til að tryggja sér húsnæði á sanngjörnu verði? Skattalegri umbun til fyrirtækja sem sinna samfélagslegum verkefnum? Eða samvinnusparisjóðum þar sem markmiðið væri að lána peninga á sanngjörnum kjörum til meðlima?

Framsóknarflokkurinn þarf, eins og aðrir, að gera upp við kapítalismann sem ráðið hefur ríkjum síðustu tvo áratugi. Það gerir hann best með því að leita aftur til upprunans og hefja samvinnustefnuna, sem hann var grundvallaður á, til fyrri metorða. Samvinna, samstarf og samvinnurekstur mega ekki lengur vera bannorð í íslensku samfélagi.

(Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hagbarður

Þakka þér fyrir ágætis grein. Mér finnst þú samt einfalda hlutina fullmikið þegar þú telur að ákveðin hugmyndafræði hafi beðið skipsbrot í því fári sem gengið hefur yfir að undanförnu. Það má ekki blanda saman glæpsamlegum aðferðum einstakra aðila líkt og stunduð voru í Gift og mörgum stórum fyrirtækjum og engu eftirliti eftirlitsstofnana og hruni á einhverri stefnu. Það er einfaldlega rangt að halda slíku fram. Þetta eru aðilar sem brutu leikreglur og ef einhver dugur er í okkur eiga þeir að svara til saka. Kapítalisminn byggir á því að leikreglur séu skýrar og öllum reglurnar kunnugar.

Ég held að samvinnufélagsformið sé gott form og möguleikarnir til að nota það miklir. Nefni t.d. húsnæðisfélög eins og Búseta. Sjálfur er ég samvinnufélagi í erlendur verslunarfélagi. Það félag starfar þannig að hluti af hagnaði hvers árs fer til stuðnings á matargjöfum fyrir útigangsmenn í Bandaríkjunum.

Hagbarður, 13.12.2008 kl. 13:03

2 Smámynd: þorvaldur Hermannsson

Ertu mætt af því að þú komst á þíng

þorvaldur Hermannsson, 13.12.2008 kl. 21:27

3 Smámynd: Jón Finnbogason

Góð og þörf samantekt.

Jón Finnbogason, 14.12.2008 kl. 12:51

4 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Sæll Hagbarður,

Fyrir um tuttugu árum fögnuðu ýmsir því hástöfum að kommúnisminn væri liðinn undir lok og nú myndi kapítalisminn ráða ríkjum. Frjálsræði á peningamarkaði væri af hinu góða og helst mátti stundum heyra af t.d. Andríkis- og Deiglupennum að ríkið ætti að flækjast sem minnst fyrir með leikreglur og "íþyngjandi" löggjöf.  Markaðurinn myndi bara rétta sig af sjálfur.

Það hefur ekki gerst!  Græðgi okkar mannanna virðist engum takmörkum sett og við þurfum eins og þú segir mjög skýrar leikreglur sem byggja á siðferði og kröfu um að skoðaðir séu fleiri þættir en bara hagnaður í krónum talið.

Þorsteinn:  Mætt hvert?

Jón: Takk

Bkv. Eygló

Eygló Þóra Harðardóttir, 14.12.2008 kl. 18:41

5 identicon


Sæl Eygló.

Ég var ánægð með þig í Silfrinu. Kom mér alls ekki á óvart hvað þú varst flott þar!

Hlakka til að sjá meira.

Kveðja

Fanný Guðbjörg

Fanný Guðbjörg (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 01:01

6 identicon

Líklega er þarft að dusta rikið af grunngildum samvinnuhreyfingarinnar. Af hverju er Ísland ekki lista http://www.ica.coop/members/index.html ?

Ólafur (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 01:40

7 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Þörf grein hjá þér, Eygló. Og mikið kjöt á beinunum - langt frá því að vera yfirborðskennd.

Það sem við framsóknarmenn þurfum að gera þegar við tölum um samvinnu er að sýna viðmælendum okkar hvernig við viljum hreinsa þá hugsjón. Eins og þú segir þá kemur mörgum fyrst í hug eitthvað sem virkaði ekki. SÍS og kaupfélögin höfðu á sér vissan stimpil í mínum uppvexti, þó margt gott væri í þeirra rekstri þá fannst mörgum að kaupfélögin hefðu víða einokunarvald í krafti fákeppni. Sem var auðvitað ekki þeim að kenna en það sem verra var: Ímyndin var sú að stjórnendur margra kaupfélaga nýttu sér einokunina til að svínbeygja viðskiptavini sína.

Hvort sem þessi ímynd er rétt eða röng - þá þurfum við að gera upp við hana þegar við hömpum samvinnuhugsjóninni.

Einar Sigurbergur Arason, 15.12.2008 kl. 01:48

8 identicon

Ég vil þakka þér Eygló kærlega fyrir gott innlegg og ákaflega góða frammistöðu í Silfri-Egils síðastliðinn sunnudag. Þau gildi sem þú fjallar um eru þau gildi sem fólk í þrengingum sínum er að leita að. Margt fólk hefur komið að orði við mig og lýst ánægju sinni með þína frammistöðu og var ég ákaflega stoltur að eiga slíkan fulltrúa á Alþingi Íslendinga. Hvet þig til dáða.

Hjálmar Bogi

Formaður Framsóknarfélags Þingeyinga

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband