26.11.2008 | 15:43
Af Testamenti Iðnaðarráðherra...
Hluti eftirlýstrar atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar er komin fram í netheimum. Á bloggsíðu, undir fyrirsögninni Testamenti iðnaðarráðherra, upplýstir iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, hvernig hann sér fyrir sér að íslenska þjóðin muni ná sér upp úr kreppunni. Testamentið lyktar langar leiðir af testosteróni og stórkarlalegum hugsunarhætti.
Gott dæmi um það eru draumarnir um olíu á Drekasvæðinu. Í stað fjármálaævintýrisins á nú að leysa öll vandamál Íslands með því að leita að olíu, sem mun, skv. Iðnaðarráðherra, gera Ísland að ríkustu þjóð í heimi. Á vefsíðu hans segir: "Ég hef látið nægja að segja olíuvinnsla gæti í besta fallið verið farin af stað eftir tíu ár... Í öllu falli er ljóst að sterkar vísbendingar eru um að Íslendingar eigi á næstu áratugum eftir að draga verulegt magn af olíu og gasi upp úr hafsbotninum."
Í skýrslu Iðnaðarráðuneytisins frá því í mars 2007 kemur ítrekað fram að starfsfólk við leit, rannsóknir, framkvæmdir og framleiðslu verði erlent þar sem engin þekking sé til staðar innanlands á olíuvinnslu.
En örvæntið ekki, því ráðherra gerir ráð fyrir að einhver störf verði til tímabundið á Norðurlandi við að fara yfir umsóknir um rannsóknarleyfi. Þá á ráðherrann von á því að eftir 15-20 ár, þegar erlend olíufyrirtæki hafa hugsanlega hafið vinnslu á svæðinu, muni ein þyrla Landhelgisgæslunnar verða staðsett á svæðinu auk þess sem einhver störf kunni að skapast fyrir heilbrigðisstarfsmenn vegna þjónustu við starfsmenn borpallanna.
Iðnaðarráðherra sér semsagt fram á að það neyðarástand sem nú ríkir í samfélaginu, þar sem þúsundir eru ýmist búnir, eða við það að missa vinnuna, þar á meðal hundruð sérhæfðra starfsmanna í byggingariðnaði, verði leyst með nokkrum störfum við yfirferð umsókna og svo einni þyrlu og nokkrum heilbrigðisstarfsmönnum eftir 15-20 ár.
Er skrítið að maður spyrji hvað ætlar ráðuneytið að gera núna til að leysa úr þeim bráða vanda sem blasir við í íslensku atvinnulífi, og þá sérstaklega í byggingariðnaði? Hvað ætlar að ráðuneytið að gera til að tryggja þeim hundruðum, ef ekki þúsundum sem eru búnir, eða eru að missa vinnuna, atvinnu? Hvað ætlar ráðuneytið að gera núna til að hvetja þá fjölmörgu íslensku iðnaðarmenn sem þegar hafa flutt af landi brott vegna ástandsins í byggingariðnaðinum til að koma heim aftur?
Er ekki nær að vinna í að tryggja íslenskum orkufyrirtækjum, á borð við Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur, fjármögnun til raunverulegra framkvæmda, svo sem í Þjórsá og við Búðarhálsvirkjun? Væri ekki nær að vinna að því að treysta atvinnuuppbyggingu í Norðurþingi með nýtingu jarðvarma á svæðinu? Það væru þá minni líkur á að iðnaðarráðherra þyrfti að loka blogginu sínu þegar olíubólan springi, líkt og viðskiptaráðherra neyddist til að gera þegar bankabólan sprakk. Því þar væri um raunverulegar framkvæmdir að ræða, byggðar á íslensku hugviti og þekkingu, sem nýta myndi íslenskt vinnuafl og nýta það strax.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.11.2008 kl. 11:24 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.