Ég og genin mín

"Eygló, er ekki kominn tími til að þú fáir greiningu á þessari fótaóeirð?" sagði maðurinn minn glottandi yfir Mogganum í gær. 

Ástæða þessa morgunglens hjá mínum heittelskaða var frétt þess efnis að DeCode hefði formlega hafið að selja einstaklingum greiningu á genunum þeirra.  Fyrir aðeins 60.000 kr. ($985) býður DeCode "...annars vegar vinnslu á erfðaefni viðskiptavina og hins vegar aðgang að vefsíðunni [www.decodeme.com] þar sem erfðaupplýsingarnar eru settar í samhengi við þá þekkingu sem er til staðar í heiminum í dag.", líkt og Morgunblaðið orðaði það í morgunn.

Markaðinum líkaði greinilega framtakið vel, og hluturinn í DeCode tók töluverðan kipp upp á við. DeCode er ekki eina fyrirtækið sem hefur hafið að bjóða þessa þjónustu.  Fyrirtækið 23andMe kynnti sína þjónustu í síðasta mánuði í San Diego og mun þeirra þjónusta kosta svipað og DeCodes.  Annað fyrirtæki, sem heitir Navigenics ætlar að bjóða upp á ráðgjöf og greining, og mun það kosta um $2.500.

En hvað ætti maður að fá út úr þessu?  Blaðamaður á nytimes.com fékk tækifæri til að vera ein sú fyrsta til að prófa þjónustu 23andMe.  Niðurstöður hennar útskýrðu t.d. af hverju hún neitaði að drekka mjólk sem barn (vantar stökkbreytingu sem auðveldar meltingu mjólkurensíma), af hverju henni líkar ekki við rósakál (bragðast biturt vegna smá breytileika á litningi 7), líkur hennar á að fá brjóstakrabbamein og Alzheimer (ekki hærri en meðaltalið), sem og að hún væri 23% ólíklegri en meðaltalið til að fá sykursýki 2 og 23% líklegri en meðaltalið til að fá hjartaslag.

Öll fyrirtækin ætla síðan að bæta jafnt og þétt við upplýsingarnar á vefsíðunum, eftir því sem þekkingu fleytir fram.

En hverju mun þetta breyta? Munu konur sem eru með brjóstakrabbameinsgenin fara í auknu mæli að fjarlægja á sér brjóstin, og þeir sem eru með sykursýkisgenin hætta að borða sykur?  Munu tryggingarfélög fara að neita fólki sem eru með auknar líkur á hjartaslögum um líftryggingar? Má þar minna á að þeir eru þegar að neita fólki með forsögu um þunglyndi, áfengissýki eða foreldra sem hafa fengið heilablóðfall.  Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað þeir myndu segja við einhvern sem hefði hjartaslagsgenin?

Stórar spurningar og fátt um svör. 

Hins vegar segir þetta okkur að tæknin er komin og löggjafinn verður að fylgja henni eftir til að tryggja að ekki sé hægt að mismuna fólki á grundvelli erfðamengis þeirra.

Og þar sem engin lækning er komin á fótaóeirðinni (sem pirrar mig ekki neitt, en manninn óskaplega) held ég að óskalistinn í ár muni innihalda Arnald og náttfötin svona venju samkvæmt...

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skil ekki hvaða markaður er fyrir þetta, varla hér og alls ekki úti í heimi þar sem fólk metur sitt prívasí oftast hærra en við. 

Þeir hefðu bara átt að gera þetta í samvinnu við tryggingafélögin; "VÍS og Íslensk Erfðagreining færa ykkur nýja þjóðargjöf",  það er erfitt að standast eitthvað sem er ókeypis og fólk myndi e.t.v. flykkjast í þetta, og þeir hefðu sinn GAGNAGRUNN á ný, og VÍS og félagar hefðu nottúrlega aðgang þar að og gætu sneytt framhjá þessum pirrandi einstaklingum sem eru að gera tilkall til sjúkdómatrygginga sinna.  Nú eða þá þeir gætu sett saman nýja tryggingu sem tekur á allskyns sjúkdómum sem við erum alveg laus við, og undanskilur það sem er að plaga okkur. 

Gullvagninn (IP-tala skráð) 17.11.2007 kl. 18:24

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þar sem ég sit uppi með minn genapoll, svona óumbreytanlegan, þá sé ég litla þorf á að vita hvað í honum felst, nema til að auka mér almenna óeirð og kvíða. Ef svo ólíklega vildi til að þessi samsetning mín bæri af öðrum mönnum, yrði ég heldur ekki betur settari.

Góð remedía við fótaóeirð er að skrá sig í gönguhóp eða á dansnámskeið. Sé hún að ergja fólk svona fyrir svefninn, þá er það vegna þess að einhver hefur álpast til að minnast á þessa nýjustu uppfinningu lyfjaiðnaðarins og að þú ert með hugann við lappirnar á þér í stað þess að tæma hugann og sofna.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.11.2007 kl. 11:23

3 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Tæknin er löngu komin og allt snýst þetta eingöngu um peninga - þrýstingur á Kára & có. hefur verið orinn all mikill af hálfu stórra hluthafa. Hvað um það - legg til að Gullvagn og Fullur skifti út myndum af sér, þeir eru fullmikið „erfðabreyttir“ á myndunum hér fyrir ofan!

Ásgeir Kristinn Lárusson, 18.11.2007 kl. 11:30

4 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Bættist þá sá þriðji við!

Ásgeir Kristinn Lárusson, 18.11.2007 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband