18.10.2007 | 20:22
Í staðfestri samvist
Ég var nýlega að gera mér grein fyrir því að ég er í staðfestri samvist (19.10.07 kl. 9.22 leiðrétt í samræmi við athugasemd). Þetta var stórmerkileg uppgötvun, enda höfum við maðurinn minn almennt talað um okkur sem hjón og að við værum í hjónabandi, en hefðum verið gefin saman borgaralega. Ástæðan fyrir því að ég gerði þessa merkilegu uppgötvun voru m.a. athugasemdir biskups um að aðeins ákveðin athöfn í kirkju kallast hjónaband sem og umræðan um málþing Samtakanna 78 um hjúskap og staðfesta samvist.
Það er nefnilega enginn munur á borgaralegri vígslu og staðfestri samvist, allavega miðað við nýlega lagabreytingu. Bæði borgaralega vígslan og staðfesta samvistin gera raunar það sama, veita pörum ákveðin lagaleg réttindi og skyldur.
Ég er í Þjóðkirkjunni en maðurinn minn ekki. Maðurinn minn tók ákvörðun fyrir átta árum að ganga úr Þjóðkirkjunni þar sem hann trúði ekki á að það sem hún boðaði. Því var það sameiginleg ákvörðun okkar að gifta okkur borgaralega og var athöfnin mjög hátíðleg og falleg í veislusal Bláa Lónsins.
Því hef ég átt soldið erfitt með að skilja af hverju það skiptir svo miklu að fá að gifta sig í kirkju. Snýst þetta bara um að snúa niður 2000 ára gömul trúarbrögð og fá viðurkenningu þeirra á að þeir hafi rangt fyrir sér? Þó nokkrir hafa sagt að þetta sé spurning um mannréttindi. En eru það mannréttindi að vera í Þjóðkirkjunni?
Sr. Hjörtur Magni Jóhannesson snýr umræðu um hjónavígslu samkynhneigðra í kirkjum upp í umræðu um stöðu þjóðkirkjunnar og skyldu hvers Íslendings að greiða til kirkjunnar og bendir á að þetta fyrirkomulag er réttlæt með því að Þjóðkirkjan sé kirkja allra landsmanna, s.s. eins og RÚV er útvarp allra landsmanna.
En svo í raun er hún það ekki.
Kenningar hennar hreinlega leyfa það ekki.
Því tel ég að við ættum að íhuga alvarlega að taka fyrsta skrefið í aðskilnaði ríkisins og Þjóðkirkjunnar og leyfa aðeins lögboðnum fulltrúum ríkisins s.s. sýslumönnum, sýslumannsfulltrúum og dómurum að gefa fólk saman. Allir munu þannig fyrst ganga í staðfesta sambúð og geta síðan leitað til sinna trúfélaga um blessun þeirra yfir sambandinu. Þetta er fyrirkomulagið t.d. í Frakklandi. Fyrst er lögformlega athöfnin og svo getur parið ákveðið hvort leitað sé blessunar trúfélagsins.
Greinilegt er að margir prestar eru tilbúnir til að veita þá blessun.
Spurning er bara af hverju ætti samkynhneigt fólk að vera tilbúið til að þiggja hana?
Rætt um aðkomu kirkjunnar að staðfestri samvist á kirkjuþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.10.2007 kl. 09:23 | Facebook
Athugasemdir
Mjög góð grein hjá þér Eygló.
Hittir þarna naglann á höfuðið, segir það sem ég held að flestir íslendingar hugsi.
Eina lausnin á þessari krísu sem komin er upp varðandi blessun eða vígslu hjónabands einstaklinga er að aðskilja hinn lögformlega gjörning frá athöfninni. Þá fyrst og einungis er hægt að tala um jafnræði borgaranna til samfélagslegra réttinda. Hvaða trú, sambýlisform eða blessun menn svo velja í framhaldinu er ákvörðun hvers og eins. Og já, það táknar líklega aðskilnað ríkis og kirkju því innan þjóðkirkjunnar tala kenningasmiðir alls ekki einu máli. Sumir virðast enn fylgja lúterskum viðmiðum en aðrir (og þeim virðist vera vaxa ásmegin) eru klárlega á leið til kaþólsks siðar. Þegar svo er komið þá er vart hægt að verjast þeirri hugsun að þjóðkirkja sú sem við eigum í dag sé fyrst og fremst orðin stofnun um laun og réttindi starfsmanna sinna.
Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 22:48
Smávægileg athugasemd varðandi orðalag: Samkynhneigðir geta gengist í "staðfesta samvist" en karl og kona geta hins vegar annað hvort verið í "óvígðri / skráðri sambúð" eða í "hjúskap". Hugtakið "staðfest sambúð" er hins vegar ekki til.
Hvað efni greinarinnar varðar ætti auðvitað að vera sjálfsagt að samkynhneigðir sem jafnframt eru trúaðir fái að ganga í hjúskap með blessun kirkjunnar. Hvort og hvers vegna samkynhneigðir sækjast eftir þeirri blessun skiptir nákvæmlega engu máli.
Eva Hrönn Jónsdóttir (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 22:56
Þjóðkirkjan má gera það sem henni sýnist mín vegna en ég vill persónulega fá heimild til þess að gifta mig í því trúfélagi sem vill gifta mig!
Það má ég ekki í dag eins og lögin eru...
...Og ef eitthvað trúfélag (t.d. önnur kirkja en þjóðkirkjan) vill kalla vígða staðfesta samvist karls og karls eða konu og konu hjónaband, afhverju á þá að banna trúfélaginu að gera það? Á slíkt að viðgangast í landi sem á að heita frjálst og þar sem á að ríkja trúfrelsi?
Heiðar Reyr Ágústsson, 18.10.2007 kl. 23:56
Og flott hjá þér Guðmundur Þorvaldsson að alhæfa yfir heilan hóp fólks, mjög málefnalegt eða þannig.
Heiðar Reyr Ágústsson, 19.10.2007 kl. 00:00
Haha! Góður!
Þorvaldur Guðmundsson, rétt skal það vera, maður á ekki að vera að skrifa svona seint á kvöldin
Heiðar Reyr Ágústsson, 19.10.2007 kl. 01:22
Frábær grein og ég tek ofan fyrir þér vegna hennar. Það væri óskandi að fleiri ráðamenn hefðu svipaðar skoðanir. Þetta er það eina rétta í stöðunni.
Þorsteinn Ásgrímsson (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 09:06
Takk fyrir athugasemdirnar.
Eva Hrönn: Ég passa mig á þessu næst varðandi hugtökin, takk. En það svarar ekki þessum pælingum hjá mér. Af hverju ætti samkynhneigt fólk að vilja blessun trúfélags sem boðar að það sé að syndga? Það stendur skýrum stöfum í biblíunni, en ég vil taka fram að ég er algjörlega ósammála þessu (sem sýnir kannski mína eigin hræsni að vera í Þjóðkirkjunni).
Heiðar Reyr: Viltu að trúfélögum sé þetta frjálst eða þau séu skyldug til þess? En hvernig líst þér á mína tillögu um að allir gangi í staðfesta samvist? Að athöfnin á vegum trúfélaga hafi ekkert lagalegt gildi? Allir verði fyrst að fara til borgaralegra vígslumanna og geti síðan óskað eftir blessun síns söfnuðar. Það væri örugglega hægt að leggja fram eitt frumvarp með þessum breytingum. Kippum bara út lögum um staðfesta samvist og breytum hjúskaparlögunum. 1. gr. yrði: Lög þessi erum staðfesta samvist karls og konu, karls og karls og konu og konu. 16 og 17. gr yrði kippt út, þannig að aðeins borgaralegir vígslumenn mættu stofna til staðfestrar samvistar. Síðan kæmi inn ákvæði í staðinn þess efnis að prestum og forráðamönnum trúfélaga yrði frjálst að blessa samvistina skv. hefðum viðkomandi trúfélags.
Mér skildist að biskupinn hafi ekki viljað opna fyrir að trúfélögin mættu gefa saman samkynhneigð pör þar sem hann vildi ekki þurfa að segja beint nei og viðurkenna hversu forneskjulegar kenningar kirkjunnar eru, - en meira að segja hann hlýtur að hafa tekið eftir að sú strategía virkar ekki.
Eygló Þóra Harðardóttir, 19.10.2007 kl. 09:20
Ég er fylgjandi því að hafa hið lögformlega og trúarlega aðskilið. Ég er ekki sáttur við boðun sumra trúfélaga og kýs þá að skipta mér ekki af þeim. Aðrir kjósa að leita til þeirra. Ég er mjög ánægður með hve langt málefni samkynhneigðra eru komin en vil alls ekki þvinga Þjóðkirkjuna, Krossinn eð önnur trúfélög til eins né neins - hvað er það!! Sjálfur stend ég alfarið utan allra trúfélaga.
kær kveðja
Sveinn
Sveinn Valdimar Ólafsson, 19.10.2007 kl. 11:52
Eygló...
Þrátt fyrir að Samtökin 78 séu ágæt að mörgu leiti að þá eru lykilmenn þar stundum á öðrum nótum heldur en meirihluti samkynhneigðra. Ég er samkynhneigður og er sammála þér að það sé eðlilegast að aðskilja ríki og kirkju að fullu og leyfa trúfélögum að ráða því sjálf hverskonar sambönd þau blessa, flestir samkynhneigðir vinir mínir eru með svipuð viðhorf. Ekki vil ég blessun frá einhverjum sem er þvingaður til þess.
Sjálfur ætla ég að skrá mig úr Þjóðkirkjunni en hef ekkert ákveðið hvort ég vilji gifta mig í framtíðinni eða "bara" vera í sambúð.
Geiri (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 16:50
Sæl Eygló,
Ég vil sem sagt að trúfélögum verði gefið þetta frjálst en ekki þvinguð til þess enda fráleitt að ég myndi vilja gifta mig hjá einhverjum presti sem væri þvingaður til þess.
Varðandi þessa hugmynd um að trúarleg athöfn verði ekki löggerningur heldur athöfn og löggerningurinn sjálfur fari þá fram hjá opinberum aðila þá er ég líka hlynntur því.
Þannig er það í flestum löndum í kringum okkur enda ekki eðlilegt að óopinberir aðilar hafi vald til þess að framkvæma löggerning.
Þessi hugmynd hefur verið uppi um þó nokkurn tíma og ég heyrði hana fyrst hjá Þorvaldi Kristinssyni, fyrrum formanni Samtakanna 78 en því ber að fagna að öðrum detti það sama í hug og haldi þessum málum í umræðunni!
Varðandi aðskilnað ríkis og kirkju þá tel ég að Þjóðkirkja geti vel átt rétt á sér á Íslandi, m.a. með tilliti til sögu þjóðarinnar og menningar en það er hinsvegar alveg á hreinu af minni hálfu að ef að við ætlum að hafa hér Þjóðkirkju þá verður það að vera á valdi hvers prests hvort hann/hún vill gefa saman samkynhneigða eða ekki.
Með öðrum orðum, ég vill að trúfélög hafi val í þessum efnum en þegar kemur að kirkju allra landsmanna þá myndi ég ekki sætta mig við að einhliða ákvörðun einhverra yfirstjórnenda, biskup & co. myndu banna þeim prestum sem vilja gefa saman samkynhneigð pör að framkvæma slíka athöfn/löggerning.
Heiðar Reyr Ágústsson, 19.10.2007 kl. 22:24
Lúthersk evangelíska kirkjan var upphaflega kirkja kónga og fursta í Þýskalandi og á Norðurlöndum.Íslenska þjóðkirkjan er í dag kirkja forseta Íslands og ríkisstjórnarinnar og eru prestar skyldugir að biðja fyrir þessum aðilum við messuhald samkvæmt lögum, hvað sem þeir gera af sér.En prestar mega ekki biðja fyrir Framsóknarflokknum í kirkjum frammi fyrir Guði, þá geta þeir misst hempuna.Þetta hefur mér alltaf fundist ósanngjarnt og sagði mig því úr þjóðkirkjunni fyrir 26 árum. Franska fyrirkomulagið er fyllilega vert að skoða.
Sigurgeir Jónsson, 21.10.2007 kl. 10:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.