Sósíalismi Sjálfstæðismanna

Bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar kynnti í síðustu viku ýmsar mótvægisaðgerðir fyrir atvinnulífið vegna niðurskurðar á þorskkvótanum.  Heilmikið af tillögunum byggðu á þátttöku ríkissins en bærinn ætlar greinilega að leggja fram sitt.  

Enda allir vasar fullir af Hitaveitu-peningum.

En er sú staðreynd að bærinn og ríkið eigi að draga vagninn í atvinnulífinu ekki soldið sósíalistískt hugsun?  Ég hefði vel skilið það ef þessar tillögur hefðu komið frá Framsóknarmönnum eða Samfylkingunni sem telja sig vera félagshyggjuflokka en ekki frá Sjálfstæðismönnum.  Er ekki kjarninn í hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins trúin á að draga eigi sem mest úr ríkisrekstri og treysta á einstaklingsframtakið og markaðinn?

Ástæðan fyrir því að ég fór að velta þessu fyrir mér var leiðari staðarblaðsins í Grindavík.  Grindavíkurbær er annað sveitarfélag þar sem bæjarstjórnin situr á vænum haug af Hitaveitu-peningum og þar sem Sjálfstæðismenn sitja við stjórnvölinn.  Ritstjórinn færði í leiðara sínum ágætis rök fyrir því af hverju bærinn ætti bara að dreifa peningunum á þá sem hefðu aflað þeirra.  Þ.e.a.s. íbúarnir í sveitarfélaginu.  

Gróflega reiknað þá myndi þetta þýða um milljón á hvert mannsbarn hér í Eyjum.  

Mín fjölskylda myndi fá um fjórar milljónir kr. og við gætum síðan tekið ákvörðun um hvort við myndum nota peningana til að greiða skuldir eða kaupa nýtt hús.  Einhverjir myndu vilja nota sína Hitaveitupeninga til að starta nýjum fyrirtækjum á meðan aðrir sæju tækifæri til að pakka sama og fara.

En svona áður en einhver heldur að ég sé að breytast í meira íhald en Elliði Vignisson og Árni Johnsen til samans þá læt ég fylgja með mínar tillögur sem birtust á eyjar.net.

----------------------------------------------------------- 

Byggjum barnvænar Eyjar, - segir Eygló Harðardóttir um söluhagnaðinn í Hitaveitu Suðurnesja.

Spurningin er: “Ef þú værir bæjarstjórnin hvað myndirðu leggja til að gert yrði við þessa 3.6 milljarða?”

Svar: Að sjálfsögðu skiptir mestu máli að fara vel yfir skuldastöðu bæjarins, greiða upp þau lán sem eru óhagstæð og koma skikki á lífeyrissjóðsmál bæjarstarfsmanna.

Að því loknu verða bæjarfulltrúarnir okkar að skoða hvaða verkefni eru skylduverkefni bæjarins og hvaða verkefni er valkvæm.  Það hefur alltof oft verið þannig að peningar bæjarins hafa farið í verkefni sem eru raunar valkvæm líkt og íþróttahúsið í stað verkefna sem eru skylduverkefni sveitarfélaga skv. lögum. 

Í viðtali við eyjar.net talaði Elliði Vignisson, bæjarstjóri um ýmis verkefni sem liggja fyrir í þriggja ára áætlun bæjarins s.s. menningarhús, nýtt knattspyrnuhús og nýja skipalyftu.  Síðast þegar ég athugaði hver væru skylduverkefni sveitarfélaga þá stóð ekki orð um að sem flestir yrðu að geta iðkað knattspyrnu á veturna.  Skylduverkefni sveitarfélags eru einna helst rekstur grunn- og leikskóla.

Undanfarin ár hefur stefnan verið að draga úr þjónustu á þessu sviði.  Grunnskólinn var sameinaður, leikskólinn að Rauðagerði lagður niður og gjaldskrá á mat staðið í stað þrátt fyrir lækkun virðisaukaskatts á mat. Þetta hefur gerst á sama tíma og önnur sveitarfélög hafa verið að auka þjónustana. Fjöldi sveitarfélaga býður upp á gjaldfrjálsan leikskóla fyrir 5 ára börn, og stefna að því að allur leikskólinn verði gjaldfrjáls. Aðrir hafa aukið þjónustan með því að taka börn inn yngri í leikskóla eða boðið upp á heilsdagsvistun að lokinni kennslu. 

Í Fréttum í vikunni var grein eftir Önnu Rós Hallgrímsdóttur sem var að flytja til Vestmannaeyja ásamt syni á leikskólaaldri.  Í samantekt um kostnað vegna leikskólapláss á milli Vestmannaeyja, Reykjavíkur, Kópavogs, Akureyrar, Egilsstaða og Árborgar kom í ljós að barnafjölskyldur í Eyjum eru að borga langhæsta gjaldið fyrir leikskólaplássið.  Þar var sýnt svart á hvítu hversu mjög Vestmannaeyjabær hefur dregist aftur úr í þjónustu við barnafjölskyldur.  

Sama tel ég að gildi um þjónustu við bæði eldri borgara og hinn almenna íbúa  Ég myndi því vilja sjá bæjarfulltrúana með bæjarstjórann í broddi fylkingar rétta úr kútnum hvað þetta varðar og spyrja sig hvað muni nýtast almennum bæjarbúum best: Lækkun matar sem seldur er á vegum bæjarins eða smíði á nýrri skipalyftu? Gjaldfrjáls leikskóli eða tómt knattspyrnuhús til minningar um að börnunum fækkar í sveitarfélaginu?

Ég vil sjá að við nýtum söluhagnaðinn til að búa vel að komandi kynslóðum og að við getum staðið áfram á því fastari en á fótunum að hvergi sé betra að ala upp börn en einmitt í Vestmannaeyjum. 
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta með Sjálfstæðisflokkinn og sósíalismann er nákvæmlega það sem ég er alltaf að benda fólki á. Flokkurinn sem grundvallar hugmyndafræði sína á frelsi einstaklingsins sér aldrei aðrar lausnir í atvinnumálum en ríkisafskipti. Þetta hefur reynst honum ágætlega í atkvæðaveiðum fyrir kosningar.

Bendi þér á að Framsóknarflokkurinn hélt lengi sínu fylgi með sömu aðferð. Þá voru atkvæði fólksins á landsbyggðinni keypt með fjármunum ríkisins.

Þegar sægreifarnir undir verndarvæng Íhalds og Framsóknar voru sigldir á brott með lífsviðurværi fólksins í sjávarbyggðunum lofuðu þessir flokkar bara nýjum atvinnutækifærum með stóriðju.

Árni Gunnarsson, 31.8.2007 kl. 10:41

2 identicon

Stelpan mín, hvar stendur þú? Hættu að þykjast. Framsókn er dauð meðan þið hangið í flokknum.

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 31.8.2007 kl. 16:40

3 Smámynd: Haukur Kristinsson

meinaru að vestmannaeygingar séu svo gott fólk að þeir eigi að fá sérþjónustu, þeir búa á eyju og vilja það svo hvað eigum við hér á fastalandinu að púkka upp á þau og kosta miklum peningum fyrir þau. Þetta er þeirra val að búa þarna svo látum þau sjá um sig sjálf

Haukur Kristinsson, 1.9.2007 kl. 03:03

4 Smámynd: Haukur Kristinsson

án þess að láta þá fá gjafakvóta

Haukur Kristinsson, 1.9.2007 kl. 03:06

5 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Hefurðu fengið styrki til  þíns rekstrar. Birtu það.

Sigurgeir Jónsson, 1.9.2007 kl. 04:46

6 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Framsóknnarflokkurin á sér framtíð

Sigurgeir Jónsson, 1.9.2007 kl. 05:08

7 identicon

Ekki skil ég alveg hvað Haukur er að fara hér að ofan. Í pistlinum er rætt um hvað gera skuli við þá peninga sem Vestmannaeyjabær fékk fyrir sölu á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja. Hvaðan Haukur fær það út að hann eigi að fara að púkka upp á Eyjamenn skil ég ekki. Hann er kannski til í að útskýra það.

Sigurður E. Vilhelmsson (IP-tala skráð) 1.9.2007 kl. 10:02

8 identicon

ég er ekki viss um að þessi haukur skilji hvað hann var að skrifa, allavega er ekkert vit í þessu og það endurspeglar hann kanski bara, hvur veit?

steini (IP-tala skráð) 4.9.2007 kl. 15:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband