22.8.2007 | 21:49
Bera bankar enga ábyrgð
Fyrir nokkru ruddust bankarnir inn á fasteignamarkaðinn með miklum látum og buðu allt að því 100% íbúðalán og endurfjármögnun á eldri lánum. Samhliða sífellt hækkandi húsnæðisverði í Reykjavík má ætla að ýmsir hafi spennt bogann ansi hátt.
Margir leita til ráðgjafastofu
Í fréttum RÚV nýlega kom fram að sífellt fleiri leita nú til ráðgjafastofu um fjármál heimilanna vegna erfiðleika við að greiða af húsnæðislánum. Samkvæmt viðtali við starfsmann stofunnar hafa margir jafnvel aldrei getað greitt af húsnæðislánum og eru einnig í miklum erfiðleikum með að greiða af yfirdráttarlánum. Og hvað með þá sem ná að halda í horfinu, en verða svo fyrir því að missa vinnuna eða veikjast? Hvað gera bankarnir þá?
Íbúðalánasjóður býður fólki sem lendir í greiðsluerfiðleikum vegna veikinda eða atvinnumissis upp á samninga, skuldbreytingu vanskila, frestun á greiðslum og lengingu lána. Ekkert svona er til staðar formlega hjá bönkunum, allavega ekki þeim íslensku. Í Frakklandi bjóða nánast allir bankar viðskiptavinum sínum upp á aðstoð ef þeir lenda í greiðsluerfiðleikum. Ef viðkomandi verður fyrir áfalli á borð við að missa vinnuna eða maki deyr þá eru bankar skyldugir skv. lögum að aðstoða.
Belti og axlabönd fyrir bankana
Ef staðan er mjög slæm og hætta er á gjaldþroti þá er hægt að leita aðstoðar hjá Commission départementale de surendettement hjá Seðlabanka Frakklands og þeir semja við kröfuhafa fyrir þína hönd. Ef ekki nást samningar, sjá þeir um málshöfðun til að frysta greiðslur eða stoppa kröfuhafa frá því að eignast íbúðarhúsnæði skuldarans. Á móti geta þeir gert þá kröfu að húsnæðið sé selt til að greiða skuldir, en aðeins ef tryggt er að skuldarinn geti fundið annað hentugra íbúðarhúsnæði.
En hér er ekkert svona til staðar. Það er ekkert til staðar til að vernda skuldara fyrir bönkum. Löggjafinn virðist hafa haft fyrst og fremst áhyggjur af hinum stórhættulegu skuldurum og hefur m.a. tryggt að bankar fá hverja einustu krónu til baka á núvirði með verðtryggingunni auk hæstu mögulegu bankavaxta.
Stefnan hefur því verið belti og axlabönd fyrir bankana, á meðan almenningur er skilinn eftir með buxurnar á hælunum. Svo segjumst við ekki skilja neitt í því hvernig bankarnir fara að því að hagnast um milljarð á viku eða meira.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Elskan mín, Framsókn stóð fyrir því að "bankarnir ruddust inn á fasteignamarkaðinn með miklum látum" fyrir þremur árum, þannig að hún verður bara að borga þennan brúsa, 80% verðhækkun.
Steini Briem (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 00:01
Viðurkenni að ég velti fyrir mér hlut Framsóknar í þessu dæmi eins og fyrri ræðumaður. En burtséð frá því þá finnst mér grein þín áhugaverð og einkum það sem þú segir um frönsku bankana. Samfélagsábyrgð einkaaðila virðist ábótavant en það á alls ekki að firra þá slíkri ábyrgð, góð ábending.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.8.2007 kl. 00:50
Hvernig í ósköpunum finnið þið það út að Framsókn beri ábyrgð á innrás bankanna á fasteignamarkaðinn? Það sem Framsókn gerði á síðasta kjörtímabili var að efla Íbúðalánasjóð og reyna að halda í við íbúðaverð á Höfuðborgarsvæðinu. Bankarnir voru farnir að undirbúa innkomu sína löngu áður en 90% lánin urðu almenn svo ekki er hægt að kenna þeim um. Þarna held ég að menn láti ljósrauðu gleraugun byrgja sér sýn.
Sigurður E. Vilhelmsson (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 07:25
Ég minnist þessa dags greinilega!
Þegar að bankarnir "ruddust" inn á húsnæðislánamarkaðinn, og smöluðu saman öllum sínum viðskiptavinum í útibúin, þar sem að allir voru látnir endurfjármagna húsnaæði sitt meðan að bankastarfsmenn héldu byssu að haus þeirra!
Þessir "greyið" viðskiptavinir voru svo "þvingaðir" til að taka út enn meiri lán fyrir nýjum jeppa, fellihýsi og utanlandsferð!
Og svo loks þegar að það fjármagn þraut, voru hinir sömu "neyddir" til að útvega sér yfirdrátt til að redda neyslunni!
Miklir glæpamenn í bönkunum að "neyða" fólk svona út í þetta...Eða fólk einfaldlega svona hrikalega óábyrgt í fjármálum ???
Pleh!
Ég held að þú ættir að nýta tímann í að skrifa smá um óabyrga meðferð almenningsfjármuna í hinu opinbera og ábyrgðarleysi stjórnmálamanna í að sólunda skattpeningunum okkar!
Áddni, 23.8.2007 kl. 12:38
Ég er ekki sammála ykkur, Dharma og Áddni. Ég er ekki að segja að einhver hafi neytt fólk til að fara yfir til bankanna, - en margir hafa væntanlega ekki gert sér grein fyrir að þeir væru að fara úr mjög vernduðu umhverfi Íbúðalánasjóðs yfir til bankanna sem ber engin skylda til að taka tillit til félagslegra þátta.
Við verðum líka að skilja á milli þeirra sem eru hreinlega að eyða um efni fram og þeirra sem verða fyrir áföllum s.s. eins og að missa vinnuna, slasast eða maki deyr. Þá geta aðstæður breyst mjög snögglega og fólk hefur mjög lítinn tíma til að trappa útgjöld sín niður. Flest er komið í Intrum innan 2-3 mánaða og svo í lögfræðing í framhaldinu.
Þetta geta allir lent í, meira segja þið sem farið greinilega mjög vel með ykkar fjármuni. En prófið kannski að reikna dæmið fyrir fjölskyldur ykkar ef þið mynduð lenda í bílslysi, vera meðvitundarlausir í fleiri vikur, vakna svo upp með mænuskaða ef ekki heilaskaða.
Við hljótum að geta sem samfélag gert einhverjar kröfur á fjármálastofnanir að þeir hafi úrlausnir fyrir þessa viðskiptavini. Að fólk fái ráðrúm til að draga saman útgjöldin í samræmi við tekjurnar, selja húsnæðið og flytja í nýtt, losa sig við bílinn o.s.frv. Oft þarf fólk ekki meira en 1-2 ár og getur síðan byrjað að greiða aftur af skuldum sínum, án þess að vera komin á svartan lista hjá öllum.
Eygló Þóra Harðardóttir, 23.8.2007 kl. 12:56
Ég held að það sé einstaklega mikil skammsýni að kalla Íbúðalánasjóð "verndað umhverfi".
Eina verndin sem að þeir buðu uppá var að vernda venjulegt fólk frá því að geta eignast eigin húsnæði með vægast sagt óraunhæfum kröfum og skilyrðum.
Skemmst er frá því að segja að hið fræga Greiðslumat sem að fylgdi Húsbréfakerfinu, var ekki í takt við þá ákvörðunartöku sem að síðan beið í ÍLS. Þ.e.a.s. greiðslumat sagði ekkert til um hvort að fólk fengi lánað eður ei.
Kaldhæðnin var jú sú að einungis var hægt að fá þessi Greiðslumöt í bönkunum!
Bæði bankar, sparisjóðir og tryggingarfélög bjóða upp á mjög góða samsetningu af sparnaði/tryggingum sem að brúa bilið ef um tekjumissi er að ræða, þannig að ekki er skortur á lausnum af þeirra hálfu.
Fjármálaástand einstaklinga í þjóðfélaginu er að mestu leyti komið af þeirri bláköldu staðreynd að Íslendingar eyða mest allra "vestrænna" þjóða og spara minnst.
Það má ekki gleymast í umræðunni að bankar eru fyrirtæki og selja vöru. Það er enginn að neyða fólk til að kaupa þessa vöru.
Það er heldur engin lausn að "ríkisvæða" þessa banka aftur, né heldur púkka upp á ÍLS, því við skulum ekki gleyma því að örfáum árum áður en að bankarnir voru einkavæddir, voru þeir ósjaldan reknir með tapi!
Sem í bankarekstri á Íslandi er nær óskiljanlegt, þar sem að ríkisstjórnin heldur úti "tekjutryggingu" til handa bönkunum í formi verðtryggingar!
Áddni, 23.8.2007 kl. 16:02
Það er í sjálfu sér ekki hægt að kenna bönkunum sem slíkum um slæmt árferði í bankabókunum okkar. Frekar væri hægt að kalla til ábyrgðar þá sem gáfu þessa sömu banka fyrir nokkrum árum, mönnum sem einsettu sér að græða á þeim. Til að græða á bankarekstri þurfa þeir væntanlega að sýna hagnað. Ekki er hægt að ætlast til að banki sem lánar fé erlendis án kröfu um arðsemi, sýni hagnað. Hagnaði verður hann að ná með öðrum ráðum og hver eru þau. Jú það erum við sem ekki getum skroppið yfir álinn og slegið lán þar hjá Kaupþingi banka, Glitni eða öðrum íslenskum fjármálastofnunum. Ef við viljum slá um okkur, verðum við bara að notast við okurlánastarfsemina sem býðst hérlendis. Flóknara er það nú ekki. Mikil lukka var yfir þér Eygló að verða ekki toppur hjá framsókn í þetta sinn. Til hamingju með það.
Þórbergur Torfason, 23.8.2007 kl. 16:24
Ekki má gleyma gjaldtöku hins opinbera á öllu sem lýtur að lánastarfsemi. Það kostar sitt fyrir ríkissjóð að hafa á jötunni sjálftökulið launa og eftirlauna.
Þórbergur Torfason, 23.8.2007 kl. 16:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.