Skyldi Vigdís einhvern tímann hafa tapað?

Það er gaman að taka þátt í stjórnmálastarfi og keppa að ákveðnum markmiðum og ná þeim. Jafn fúlt getur síðan verið að ná þeim ekki og tapa. Sérstaklega fyrir fólk eins og mig sem gjarnan keppir og hef mikið keppnisskap :)

En niðurstaðan er komin og Ólöf Pálína Úlfarsdóttir er formaður LFK.  Ég óska henni alls hins besta í starfi sínu fyrir LFK.  Eftir mikla hvatningu á þinginu tók ég ákvörðun um að setjast í framkvæmdastjórn LFK og mun vonandi geta stutt hana og aðrar LFK konur í þeirra starfi fyrir flokkinn okkar.

Ég er einnig jafn sannfærð og áður um mikilvægi þess að tekist sé á innan stjórnmálahreyfinga, það sér gert drengilega og að loknum átökunum séu sverðin slíðruð.  Enda er fátt betri undirbúningur og skóli fyrir alvöru átökin, kosningar til sveitastjórna og Alþingis.

Læt fylgja með ræðuna á þinginu.  Fannst hún bara ansi flott og bakka ekki með hugmyndina um karlafrídaginn, sem er vel gjörlegt að mínu mati.

-------------------------------------

Kæru Framsóknarkonur

Framsóknarflokkurinn hefur í gegnum árin verið leiðandi afl í kvenréttindabaráttu á Íslandi og Landssamband Framsóknarkvenna hefur leikið þar lykilhlutverk.  Þannig hefur vægi kvenna á framboðslistum okkar verið mikið og konur áberandi í ráðherraliði flokksins. Þá lék LFK lykilhlutverk í að innleiða hina svokölluðu 60:40 reglu, sem kveður á um að hlutur hvors kyns skuli ekki vera lægri en 40% þegar skipað er í trúnaðar- og ábyrgðarstöður innan flokksins.  Aðrir flokkar hafa verið seinni til að tryggja þannig rétt kvenna og þótti til dæmis tíðindum sæta að helmingur ráðherraliðs Samfylkingarinnar í núverandi ríkisstjórn skyldi vera konur og fréttaefni að kona settist
á stól utanríkisráðherra.

Maður veltir bara fyrir sér hvar fjölmiðlarnir voru síðustu kjörtímabil, því þetta höfum við Framsóknarkonur allt séð áður og teljum varla fréttnæmt.

Það er skoðun mín að einmitt þessi áhersla Framsóknarflokksins á að nýta krafta kvenna geti leitt hann úr þeim táradal sem hann gengur nú í gegnum.  Þegar á móti blæs þurfum við öfluga liðsheild sem horfir samstillt fram á við og vinnur flokknum okkar heilt.  Við höfum ekki efni á að horfa fram hjá þeim fríða flokki Framsóknarkvenna sem er reiðubúinn að leggja á sig mikla vinnu og erfiði til að vinna flokknum okkar þann sess sem hann á skilinn í íslenskum stjórnmálum.  Til þess þurfum við breiðan og öflugan hóp kvenna og því er mikilvægt að til forystu í LFK veljist fólk sem er reiðubúið að leggja á sig þá vinnu og það erfiði sem til þarf.

Ég er reiðubúin til þess.

Ég hef ávalt haft mikinn áhuga á pólitík og einkum kvennapólitík. Bernskuminningar mínar eru af fundum Kvennalistans í Hlaðvarpanum, sem ég sat ásamt móður minni og frænku.  Ég var harður stuðningsmaður Vigdísar Finnbogadóttur og var óhrædd að rökræða kosti hennar við hvern sem var í aðdraganda kosninganna 1980 þó ég ætti enn hálft ár í sjö ára afmælið.

Það eru þó ekki nema um það bil 5 ár síðan ég hóf bein afskipti af stjórnmálum.  Ástæða þess að Framsóknarflokkurinn varð fyrir valinu var einkum sterk staða kvenna innan flokksins.  Ég hef tekið virkan þátt í starfi flokksins síðan, verið varaþingmaður síðan 2003, setið í stjórn Kjördæmissambandsins í Suðurkjördæmi og miðstjórn auk þess að vinna fyrir flokkinn í  sveitarstjórnarmálum í Vestmannaeyjum.

Nái ég kjöri mun ég vinna að því að Framsóknarflokkurinn verði sýnilegur sem það leiðandi afl sem  hann er í íslenskri kvennapólitík. Þannig þurfum við meðal annars að beita okkur af krafti við að efla stöðu kvenna í sveitarstjórnum og á Alþingi og liður í því er að gera LFK og starf þess enn sýnilegra en nú er og styðja af krafti við þær konur sem vilja starfa fyrir flokkinn.

Ein af þeim hugmyndum sem ég vil hrinda í framkvæmd er að snúa við kvennafrídeginum og gera hann að karlafrídegi.  Við höfum sýnt landsmönnum fram á hversu mikilvægar við erum með því að taka okkur frí frá störfum og karlarnir hafa þurft að bjarga sér án okkar.  Með því að halda karlafrídag gætum við sýnt öllum að konur geti, einar og óstuddar, rekið og stjórnað Íslandi í einn dag.

Þannig gætu karlar á þingi tekið sér frí og kallað inn varaþingkonur í sinn stað.  Þá væri hægt að halda þingfund á karlafrídaginn þar sem aðeins konur sætu í þingsal.  Slíkt myndi vekja heimsathygli og hefði þannig áhrif á baráttu kvenna víða um heim.

Ég trúi því að með öflugu starfi LFK getum við lagt grunninn að endurreisn Framsóknar og ég vil leggja mitt lóð á vogarskálarnar.  Ég trúi því að með samstilltu átaki getum við Framsóknarkonur lyft
grettistaki og ég mun ekki skorast undan.

Því sækist ég eftir kjöri sem formaður LFK.


mbl.is Ólöf Pálína Úlfarsdóttir kjörin formaður LFK
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Ekki undrar mig að pínu-litlu framsóknarmaddömurnar séu með harðsperrur eftir gærdaginn.

Jóhannes Ragnarsson, 19.8.2007 kl. 21:12

2 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Vonandi líður þér betur við að skilja eftir svona athugasemdir. kv. Eygló

Eygló Þóra Harðardóttir, 19.8.2007 kl. 21:30

3 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Fyrirgefðu Eygló, en ég ætlaði að láta þetta fylgja með þér til glöggvunar: http://www.joiragnars.blog.is/blog/joiragnars/entry/288715/

Jóhannes Ragnarsson, 19.8.2007 kl. 21:40

4 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Ætli sé ekki bara best að vitna í Mark Twain (með smá aðlögun):
The reports of our death are greatly exaggerated ;)Meira síðar... 

Eygló Þóra Harðardóttir, 19.8.2007 kl. 21:47

5 identicon

til hamingju, flott ræða, verst að hafa ekki geta komið á þingið.

en merkileg ályktun með launaleyndina, annars bara góð málefni.

mér finnst svo merkilegt með þessa launaleynd, því það er engin leynd á bakvið laun okkar, við getum bara farið og skoðað álagningaskrána á hverju hausti og séð hvaða laun samstarfsaðilinn er með, þegar ég hef ráðið mig í vinnu og hef verið beðin um launaleynd, þá hef ég svarað, því miður ég get það ekki, þar sem allir geta séð hvaða laun ég er með, með því að skella sér á skattstofuna.

ekki satt??????? hvað er þá launaleynd?????

kv. agnes lára

Agnes lára (IP-tala skráð) 19.8.2007 kl. 23:22

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Leitt að þú vannst ekki Eygló. Gangi þér vel í þínum verkum!

mbk. frá Akureyri

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.8.2007 kl. 00:51

7 identicon

Eygló mín..

Þú hefðir verið lagnbesti kosturinn í formann LFK án nokkurs vafa....

Gaman að sjá þig á laugardaginn

kv.

Ásta Björk (IP-tala skráð) 21.8.2007 kl. 09:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband