16.8.2007 | 21:20
Framboð til formanns LFK
Næstkomandi laugardag, 18. ágúst verður haldið í Reykjavík landsþing Landssambands Framsóknarkvenna. Ljóst er að Bryndís Bjarnason, núverandi formaður LFK, hyggst hætta formennsku.
Ég hef því ákveðið að gefa kost á mér til formennsku í LFK.
Undanfarin ár hef ég tekið mjög virkan þátt í starfi Framsóknarflokksins. Ég var í 4. sæti á lista Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi fyrir síðustu tvennar alþingiskosningar og sat um tíma á Alþingi sem varaþingmaður. Ég hef verið mjög virk í starfi á vegum flokksins og er m.a. ritari Kjördæmissambands Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi, fulltrúi í miðstjórn Framsóknarflokksins og gjaldkeri Framsóknarfélags Vestmannaeyja. Að auki hef ég gegnt fjölda trúnaðarstarfa á vegum Vestmannaeyjabæjar, m.a. verið aðalmaður í skólamálaráði, setið í stjórn Nýsköpunarstofu Vestmannaeyja, Visku,- fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar og sem stjórnarformaður Náttúrustofu Suðurlands.
Ég hef haft mikla ánægju af störfum mínum fyrir Framsóknarflokkinn og lagt mig fram um að halda málefnum kvenna á lofti. Innan Framsóknarflokksins hefur LFK gegnt lykilhlutverki við að tryggja framgang kvenna og málefni er varða konur. Árangurinn hefur verið ótvíræður. Hlutfall kynja á listum flokksins og í nefndum á vegum flokksins hefur verið mjög jafnt. Þannig sátu jafnmargar konur og karlar í fyrstu sætum framboðslista í síðustu tvennum alþingiskosningum og enginn flokkur hefur haft jafnmarga kvenráðherra og Framsóknarflokkurinn.
Á þessum góða árangri vil ég byggja í samstarfi við stjórn LFK, landsstjórn og Framsóknarkonur um allt land því ég tel að sterk staða kvenna innan Framsóknarflokksins sé lykillinn að framtíð hans.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Vona að þú verðir kosinn formaður, þú verður frábær þar! Það hefur verið gaman að fylgjast með hinum öflugu kvennasamtökum innan Framsóknarflokksins og ég hef kynnst miklum valkyrjum í starfinu í Reykjavík t.d. Sigrúnu Sturludóttur, Áslaugu og Sigrúnu Magnúsdóttur. ég hugsa að endurreisn Framsóknarflokksins byggi ekki hvað síst á starfi kvennahreyfingarinnar.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 16.8.2007 kl. 22:55
Sæl Eygló,
mikið lýst mér virkilega vel á að þú bjóðir þig fram og vona svo sannarlega að þú verðir kosin! Veit ekki enn hvort það hafist hjá mér að mæta, en gangi þér vel á morgun!
Albertína Friðbjörg, 17.8.2007 kl. 09:46
Takk kærlega! Ég vona að ég sjái ykkur báðar á laugardaginn á Hverfisgötunni :)
Bkv. Eygló
Eygló Þóra Harðardóttir, 17.8.2007 kl. 09:51
Til hamingju með ákvörðunina og gangi þér sem allra best. Vonandi nærð þú kjöri.
Jónas Yngvi Ásgrímsson, 17.8.2007 kl. 10:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.