15.5.2007 | 13:50
Einkavæðing heilbrigðiskerfisins
Sjálfstæðismenn töluðu töluvert fyrir "nýjum rekstrarformum" í heilbrigðisþjónustunni. Vildi þeir nú ekki fullyrða að um væri að ræða einkavæðingu, heldur myndi ríkið kaupa þjónustu af einkafyrirtækjum. Telja þeir þannig sé hægt að sameina kosti einkareksturs og almenningsþjónustu.
Hljómar ægilega vel, - en svo les maður frétt um að bandaríska heilbrigðiskerfið sem byggir mjög á þessari hugmyndafræði sé ekki bara það dýrasta í heimi heldur kemur líka verst út í samanburði við heilbrigðiskerfi í öðrum ríkum löndum.
Skilvirknin sé lítil, og þótt hið opinbera greiði umtalsverða fjármuni til heilbrigðiskerfisins s.s. í gegnum Medicare er ekkert almennt almannatryggingakerfi. Kannanir hafa ítrekað sýnt að á Norðurlöndunum, Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi og þeim löndum sem byggja á almannatryggingakerfi eru með bestu heilbrigðisþjónustu. Hér á landi sést þetta t.d. í miklu heilbrigði ungabarna og háum lífslíkum bæði karla og kvenna hérlendis.
Þegar ég bjó í Bandaríkjunum var það mér mjög minnisstætt hvernig fjölskyldufaðirinn í skiptinemafjölskyldunni minni þeyttist um allt hús að leita að tryggingarskírteininu sínu þegar yngsti sonur hans fékk gat á hausinn með tilheyrandi blæðingum. Ekki var hægt að fara á stað á sjúkrahúsið fyrr en skírteinið var fundið, - og þá bara á það sjúkrahús sem tryggingin dekkaði.
Einnig sá maður oft að börn þurftu að slasa sig umtalsvert meira þar en hér áður en leitað var til læknis.
Í þessu tel ég að land hinna frjálsu sé langt frá því að vera einhver fyrirmynd fyrir íslenskt samfélag.
Bandaríska heilbrigðiskerfið það versta meðal ríkra þjóða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég held að þú sért að misskilja Sjálfstæðismenn þarna ansi mikið. Í fyrsta lagi þá hefur aldrei komið fram af hálfu flokksins að breyta tryggingakerfinu. Í öðru lagi þá er um að ræða að bjóða út einstaka þjónustuþætti - sá sem býður besta verð og gæði fær verkið, þannig að skattpeningarnir okkar ættu að nýtast betur.
Þetta er reyndar gert þegar í talsverðu mæli í heilbrigðiskerfinu okkar, t.d. þá hef ég oft tekið þátt í útboðum hvað varðar upplýsingatækniþjónustu fyrir LSH ofl. Til að eiga möguleika á að fá verkið verð ég að keppa við aðra sérfræðinga á mínu sviði, bæði um verð og gæði. Hví mætti ekki alveg eins heimfæra það upp á aðra sérfræðiþjónustu? Er ekki eðlilegt að sérfræðistéttir sitji við sama borð, þannig að allir verði að standa sig, frekar en eins og það er í dag, þar sem engir hagrænir hvatar eru til staðar og sjálftökuhópar vaða uppi.
Þetta er einföld skynsemi sem þarna er á ferð, þar sem markmiðið einskorðast við að fá sem mest fyrir peninga skattgreiðenda. Jákvæðar hliðarverkanir þessa gætu líka orðið þær að hér myndaðist öflugur heilbrigðisiðnaður, sem gæti orðið blómstrandi atvinnugrein þar sem mannauður okkar á þessu sviði er nokkuð góður í alþjóðlegu samhengi. Slíkt gæti aldrei gerst meðan þessi mannauðlind okkar er bundin í klafa ríkisrekstrar.
Hvað auðkenningu tryggingaþega í Bandaríkjunum varðar, þá á það sama við hér, þú verður að sanna að þú sért tryggð. Hinsvegar dugar hér yfirleitt að nefna kennitöluna sína, þar sem upplýsingakerfi heilsustofnana og Tryggingastofnunar eru samþáttuð að þessu leyti.
Helgi Örn Viggósson, 15.5.2007 kl. 15:09
Við Íslendingar höfum oft lofað socialismann og heilbrigðiðkerfið í Svíþjóð, þar sem ég starfaði í nokkur ár. Heilbrigðiskerfi þeirra er sagt vera nær fullkomið.
Ég man vel eftir miðaldra manni, frönskumælandi, sem leitaði seint um kvöld á bráðavaktina á Karolinska sjúkrahúsinu vegna brjósverkja, þar sem ég var á vakt. Hann hafði mikið álit á þessu víðfræga sjúkrahúsi í miðborg Stokkhólms (reyndar er það í Solna) og harðneitaði að fara á annað sjúkrahús í borginni. Hjúkkurnar, sem voru allar vel uppaldar í socialdemokratisku umhverfi ætluðu beinlínis að henda aumingja manninum út ("jävla utlänning, som inte förstår något sprog!")" þar sem hann bjó ekki í réttri götu!. Hótelið, þar sem hann bjó "tilheyrði" nefnilega öðru sjúkrahúsi. Auðvitað kom Íslendingurinn manninum til hjálpar. Í ljós kom, að hann var læknir og fyrrverandi heilbrigðisráðaherra í sinu landi. Hann fékk snarlega bót meina sinna.
Ég hef sjálfur þurft að fara með sjúkling á bráðadeild í USA. Þetta var í miðborg Nashville og við einfaldlega spurðum leigubílstjórann að því hvað hann teldi vera besta sjúkrahúsið í nágrenninu og þangað fórum við. Ekki var verið að henda okkur út eða spyrja um skírteini þar á bæ. Menn bara flýttu sér að sinna sjúklingnum. Og spurðu svo eftirá hvort og hvernig hann gæti borgað!
Svona getur þetta verið misjafnt.
Júlíus Valsson, 15.5.2007 kl. 23:12
Menn geta auðvitað hent inn reynslusögum til að styðja sína pólitísku sýn á tilveruna líkt og Júlíus gerir, en það breytir því ekki að allar úttektir á bandaríska heilbrigðiskerfinu og (vöntun á) almannatryggingakerfi sýna sömu niðurstöðu, sem fram kemur í ofangreindri frétt mbl.is og Eygló rekur í sínum pistli, að þetta er kerfi sem er mjög óskilvirkt og virkar fyrst og fremst fyrir þá sem standa vel og hafa efni á að kaupa almennilegar tryggingar á frjálsum markaði.
Ég gæti sett inn reynslusögu um slæma útreið í íslenska heilbrigðiskerfinu, en veit samt sem áður að þetta er gott kerfi á heildina litið miðað við það sem gengur og gerist.
K (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 10:21
Virðulegur K. Júlíus var einungis að benda á að reynslusagan sem greinahöfundur setti fram sé ekki sönnun á að kerfið þeirra sé verri en annað og gerði það með mótdæmi. Sem er fullkomlega góð afsönnun.
blæ (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 14:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.