3.5.2007 | 12:24
Hvernig er best að bjóða í fisk?
Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra ákvað á síðustu dögum ráðherratíðar sinnar að afnema 10% álag á gámafisk. Í álaginu felst að botnfiskafli sem fluttur er út óunninn og ekki vigtaður hér á landi er reiknaður með 10% álagi til aflamarks. Auk þess skipaði ráðherrann þriggja manna nefnd til að skila tillögum um hvernig fiskkaupendum hérlendis verður best tryggður möguleiki á að bjóða í þennan fisk áður en hann er fluttur út. Ég vil gjarnan leggja fram tillögu við nefndina um hvernig ég tel að best sé að bjóða í fisk.
Af hverju ekki nota fiskmarkaðina?
Hvernig væri að nefndin skoðaði möguleikann á að nýta sér fiskmarkaðina sem starfa víða um land? Fiskmarkaðirnir hafa margsannað gagnsemi sína. Íslensku fiskmarkaðirnir eru samtengdir með einu fullkomnasta uppboðskerfi í heimi. Fiskkaupendur hérlendis eru daglega að kaupa fisk á mörkuðum og því alveg ljóst að þetta kerfi virkar.
Oft tala gagnrýnendur kvótakerfisins um skort á nýliðun í greininni. Þegar fiskmarkaðirnir voru settir á stofn jókst nýliðun í greininni, enda batnaði aðgangur að hráefni mjög. Markaðirnir hvöttu einnig til nýsköpunar og vöruþróunar, því með tilkomu þeirra varð fyrst mögulegt að sérhæfa sig í vinnslu ákveðinna tegunda. Áhrifin á nýliðunina yrðu enn meiri ef öllum fiski sem ekki er landað beint í fiskvinnslu hérlendis yrði landað í gegnum fiskmarkaðina.
Virkar frjáls markaður ekki best?
Deilur um stjórnun fiskveiða myndu stórminnka þar sem aðgangur að hráefninu yrði betri og auðveldara yrði fyrir nýja aðila að stofna fiskvinnslur. Fjöldi starfa yrði til hér í Eyjum við að aðstoða erlenda kaupendur við að bjóða í þau ca. 3000 tonn sem árlega eru flutt beint út og bankarnir yrðu væntanlega að ráða fleira fólk til að sinna erlendum viðskiptum. Svo maður nefni nú ekki störfin við fiskmarkaðinn sjálfan.
Eini gallinn á gjöf Njarðar yrði minni þörf á eftirliti...
Það hlýtur að hugnast Sjálfstæðismönnum, enda segja þeirra helstu hugmyndafræðingar að frjáls og gegnsær markaður virki ætíð best.
--------------------
Greinin birtist í Vaktinni í þessari vikur, www.eyjar.net
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já þetta er mjög undarlegt svo sem ýmsu að búast við hjá þessum ráðherra. Hvernig er eiginlega staðið að vigtarmálum í smbandi við þessa gáma? Oft hefur maðu heyrt sögur t.d um þingd íss sem dregin er frá vigt. Er ekki þarna möguleiki á vigtarfölsun þar eð kvótasvindl.
ragnar bergsson, 3.5.2007 kl. 20:34
Hvaða vigtarmálum? Stór hluti þessa afla er aldrei vigtaður áður en hann fer úr landi.
Ritstjóri, 3.5.2007 kl. 21:10
Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að vigt sé eðlileg í þessum gámum?
ragnar bergsson, 3.5.2007 kl. 21:12
Eygló mín.
Til þess að svo geti orðið sem hugur þinn stendur til þá þarf fyrst að aðskilja veiðar og vinnslu, með lögum, þannig að fyrirtækjum sé gert skylt að landa fisk á fiskmarkaði og þér til upplýsingar hefur minn flokkur Frjálslyndi flokkurinn flutt frumvarp á Alþingi Íslendinga þess efnis frá því hann var stofnaður.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 4.5.2007 kl. 02:18
Ragnar, - þegar stórt er spurt er oft fátt um svör.
Guðrún María, - það er ekki rétt að það verði að aðskilja veiðar og vinnslu með lögum. Fiskur sem útgerðir landa beint í vinnslu hér á landi þarf ekkert að fara á markað. Með fisk sem er sendur beint út úr landi og enginn hefur möguleika á að komast nálægt honum, hvorki til að bjóða í hann eða vigta ætti að fara á innlendan fiskmarkað. Þar er hann vigtaður, tegundagreindur og allir (bæði innlendir og erlendir) kaupendur hafa sama möguleika á að kaupa hann, með því að bjóða hæsta verðið.
Ég sé ekki af hverju við ættum að fara að skilja að útgerð og vinnslu hjá fyrirtækjum sem eru með starfsemi hér á landi og eru að vigta og vinna sínar afurðir hér.
Þannig að þar er ég algjörlega ósammála Frjálslynda flokknum.
Eygló Þóra Harðardóttir, 4.5.2007 kl. 09:02
Sæl Eygló. Þú þarft nú ekki að láta eins og þú þekkir alls ekkert til þessara hluta. Kannske veistu ekki að sá sem ætlar að sigla með afla á erlendan markað hefur ákveðnum tilkynningaskyldum að gegna en ég geri ráð fyrir að þú þekkir þær allar svo ég ætla að leyfa þér að útskýra þær.
Þórbergur Torfason, 4.5.2007 kl. 23:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.