Verða innflytjendur bestu vinir eldri borgara?

Í tilefni 50 ára afmælis Evrópusambandsins var tímaritið Newsweek með sérstaka umfjöllun um Evrópu.  Í greininni The Golden Moment eftir Andrew Moravcsik, forstöðumann European Union Program við Princeton háskóla er m.a. fjallað um íbúaþróun í Evrópu og hvernig innflytjendur munu koma velferðarkerfum þessara landa til bjargar.  

Þar bendir hann á að undirstaða velferðarinnar í Evrópu eru vinnandi hendur, eða það fólk sem vinnur og greiðir skatta.  Meðalfjöldi fæðinga hefur dregist mikið saman og hlutfall vinnandi fólks á móti eldri borgurum (yfir 60 ára) sem í dag er 5:1 mun verða minni en 2:1 árið 2050.  Þetta er lýst sem martröð fyrir Evrópu þar sem “...European economy increasingly hollowed out as a bloated population of pensioners living off the backs of an ever smaller pool of workers.” (Mark Leonard, Open Society Initiative of Europe).  Evrópusambandið hefur bent á þrjár leiðir til lausnar:  1) Hækka eftirlaunaaldurinn um 5 ár, 2) aukinn hagvöxt og 3) innflytjendur.  Í greininni er vitnað í Græningjann Joschka Fischer, fyrrum utanríkisráðherra Þýskalands, um að Evrópu muni ekki hafa val um annað en að opna landamæri sín.  

En hvað með hræðsluáróður hægri öfgamanna um að innflytjendur steli störfum og dragi niður velferð og kjör innfæddra? Þegar “baby boomer” kynslóðin (fólk fætt eftir seinni heimsstyrjöldina) fer af vinnumarkaðnum, mun vanta vinnuafl út um alla Evrópu, líkt og tölfræðin hér að ofan sýnir.  

Líka hér á landi.

Innflytjendur verða í raun undirstaða velferðarinnar. Þeir mun greiða með skatttekjum sínum fyrir heilbrigðis, mennta- og félagslega kerfið.  Með atvinnu munu líka félagsleg vandamál sem hafa einmitt tengst félagslegri einangrun og atvinnuleysi hverfa, og Evrópa mun halda áfram að vera sá staður þar sem best er að búa.

Skyldi Frjálslyndi flokkurinn vera búinn að hugsa þetta svona langt?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

AÐ BANNA PILLUNA ER BESTA LAUSNIN, það gerði klerkastjórnin í Persíu með góðum árangri eftir að hafa misst mikinn mannskap í stríðinu við Saddam nokkurn Hússein. En nú hefur pillubanni verið þar aflétt og Tehranstelpurnar segja siðgæðisvörðum að fara fjandans til. Múhameð og afkomendur hans þó allir spámannlega vaxnir niður og eiga mörg börn, þess vegna með mörgum konum. Annar spámaður átti hins vegar enga afkomendur og er það hinn stóri vandi kristindómsins, sem fer æ meira halloka gagnvart Múhameð spámanni í Evrópu. 

Eftirlaunasjóðir Evrópu eru ekki beysnir og ekki batnar nú ástandið þegar stórar þjóðir eins og Ítalir og Þjóðverjar vilja frekar leggjast í skemmtanir, ferðalög og aðra ómennsku um hábjargræðistímann en ala upp ungviði fyrri hluta ævinnar. Hlutfall erlendra ríkisborgara í Þýskalandi 9%. Í Andorra er árleg fólksfjölgun þó 7%, kanínur í hverju horni. Þjóðir Austur-Evrópu aftur á móti svo fátækar að þær hafa ekki efni á að eiga afkomendur.

Hinn gríski ferjumaður Phlegyas kemur sífellt seinna að sækja sína. Drollar á knæpum og kvartar yfir evrunni. Allt betra þegar drökmurnar voru og hétu. Heimur versnandi fer. 

Íslendingar duglegastir við að fjölga sér í Evrópu, enda sjá stórfjölskyldurnar hér um barnauppeldið, en þær eru horfnar hjá öðrum kristnum Evrópubúum. Hrein eign íslensku lífeyrissjóðanna um 4 milljónir króna á mann, um 50% meiri en hinn "digri" olíusjóður Norðmanna á mann, sem er svipuð upphæð og venjulegur yfirdráttur íslenskra heimila, enda munu Norðmenn ganga í Evrópusambandið um leið og olíulindir þeirra eru uppurnar.

Steini Briem (IP-tala skráð) 6.4.2007 kl. 17:57

2 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Mig minnir reyndar að fæðingartíðnin á Íslandi hafi verið það stöðug að barnasprengjuárgangurinn sé ekki umtalsvert stærri hjá okkur en aðrir árgangar þannig að áhrifin verða mun minni hér en annarsstaðar. Hitt er alveg rétt að við þurfum á amk. einhverjum innflutning að halda til að viðhalda velferðarkerfinu ásamt því að hækka eftirlaunaaldurinn. Danir hafa nú þegar hækkað eftirlaunaaldurinn til að mæta mikilli vinnuaflsþörf og ekki er ótrúlegt að við þurfum að fara sömu leið. En Frjálslyndi flokkurinn hefur alveg örugglega ekki hugsað málið svo langt, er ekki viss um að hann hafi hugsað þetta lengra en til 13. maí. 

Guðmundur Ragnar Björnsson, 6.4.2007 kl. 18:39

3 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Ég skal svara lokaspurningu þinni þegar þú hefur svarað minni. Þú svaraðir aldrei spurningunni sem ég lagði fyrir þig um daginn. Ég skal umorða hana.

Starfar þú við innflutning á erlendu vinnuafli til Íslands með því að vinna við ráðningaþjónustu, starfsmannaleigu eða annað álíka?

Þetta er nefnilega altalað meðal kjósenda þinna í Suðurkjördæmi og þeir eiga rétt á að vita af þessu í umræðunni, - þó þeir verði nú vonandi sem fæstir.

Magnús Þór Hafsteinsson, 6.4.2007 kl. 19:34

4 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Þegar framsóknarmenn vilja tala máli innflitjenda um réttindi þeirra þeim til handa. því líkt bla, bla, bla.

Guðrún Magnea Helgadóttir, 6.4.2007 kl. 20:26

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Góðan daginn elskurnar mínar! Sagði mér frá því kunningi minn að þau hjónin fóru á öldrunarstofnun hér í borginni að hitta gamla vinkonu. Þar inni í dagstofunni sat hún ásamt mörgu öðru fólki og m.a. var þarna gamall maður i hjólastól. Þegar hann vildi fara að tjá sig kom í ljós að hann var með bilaða málstöð, lílkega eftir heilablæðingu.

Gamli maðurinn var órór og reyndi að tjá sig bæði með orðum og vanmáttar bendingum. Starfsstúlkurnar, indælar, hlýjar í viðmóti og reiðubúnar til aðstoðar skildu aldrei hvað honum lá á hjarta. Þær reyndu að færa hann úr einum stað í annan en tókst ekki að ná til neins skilnings á þörfum gamla mannsins.

Loks ákvað eiginkona sögumanns míns að skerast í leikinn, gekk til mannsins og spurði hann hvað honum lægi á hjarta. Henni tókst aðveldlega að greina óskir hans sem voru þær að hann vildi komast inn í herbergið sitt.

Það þarf auðvitað ekki að taka fram að starfstúlkurnar voru allar af erlendum uppruna þetta sinnið. Ekki þarf það að vera regla að svo sé ævinlega þó í þessu tilviki væri það þannig. En um þetta hef ég heyrt mörg dæmi og veit að þetta er hvorki einsdæmi né fátítt. Jafnframt tel ég mig vita að þeir sem hæst gala nú um útlendingahatur þekkja þessi dæmi ekki síður en ég.

Ástæðan er augljós þó innflytjendavænar predikunarraddir sjái ekki ástæðu til að hefja máls á þeim. Launin í þessum störfum bjóða ekki til veislu. Innflytjendur láta sér nægja lægri laun en við sem hér höfum fæðst og búið. Þess vegna finnst hjartahlýju fólki með þroskaðar samfélagskenndir það góð lausn að bjóða þessi störf nýbúum. Okkar hreinkynja yfirstétt á svo að sitja að betur launuðum störfum. Allir rétttrúaðir skilja náttúrlega að þetta er ekki neitt til að skamma sín fyrir.

"Frjálslyndi flokkurinn er náttúrlega eini flokkurinn sem stendur í lappirnar í baráttu innflytjenda". Mér fannst vænt um að heyra þessi orð og þó mest fyrir það hver sagði þau. Það var ungur og AFAR greindur og öfgalaus nágranni minn sem var, eða er að útskrifast úr K.H.Í. Þessi ungi maður á sterkar rætur í íslenskum stjórnmálum gegn um afa sinn sem var þjóðþekktur andans maður og sat á Alþingi nokkur á fyrir einn af okkar vinstri stjórnmálaflokkum. Pilturinn er flokksmaður í Samfylkingunni. Við ræðum oft saman um landsins gagn og nauðsynjar þegar við hittumst en stjórnmál hafa ekki borið á góma hjá okkur áður. Ég held að það sé þegjandi samkomulag milli okkar að önnur umræðuefni séu hugnanlegri og gefi okkur meiri næringu fyrir nýjan dag þegar vel tekst til með umræðuefnið.

" Hugsaðu þér", sagði hann í lok samtalsins. "Það var ekki tekið eitt einasta námskeið fyrir kennara sem sinna eiga nýbúum hér á Íslandi".     

Árni Gunnarsson, 7.4.2007 kl. 08:20

6 identicon

Þetta með hræðsluáróðurinn er rétt, virðist vera það sem er "inn" í íslenskri pólitík í dag, hræða til sín fylgi. Hjá frjálslyndum er það hinn ægilegi útlendingur - sem lækkar launin og gerir okkur fátæk, smitar okkur af berklum og rústar svo heilbrigðiskerfinu.
Hjá VG og Íslandshreyfingunni eru það hinar illu virkjanir, stóriðjur og gróðafyrirtæki sem eru að skemma landið, og drepa okkur öll úr mengun..

Jana (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 22:27

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég bíð spenntur eftir svari Eyglóar við spurningu Magnúsar Þórs. Er hún hagsmunatengd í þessu máli, eins og Sæunn Stefánsdóttir reyndist vera? En Árni Gunnarsson (hér ofar) hefur lög að mæla. Þessi yfirskrift Eyglóar kann að hljóma hlý og góð, og vissulega hefur maður séð hlýjar og góðar manneskjur af erlendu þjóðerni annast gamalmenni á elli- og hjúkrunarheimilum með brosi á vör og góðvild í hjarta, -- en það er ekki nóg, þau verða líka að læra íslenzku, og það kostar miklu meira en 100 milljónir á ári í allt talið. En það verður alls ekki gott að vera með eintóma nýbúa í hlutverkum hjálparfólks og gangastúlkna á þessum heimilum á komandi áratugum, enda kann stundum að liggja mikið við, að menn skilji, yfir hverju gamla fólkið er að kvarta eða hvað það vanhagar um.

Svo þakka ég innlegg Steina Briem, skemmtilegur er hann og hittir í raun naglann á höfuðið: þetta hefur með ófrjósemi og hálfgert barneignahatur Vesturlandamanna að gera, hvernig gamla Evrópa á eftir að eldast enn meir og bjóða Islam heim sem afleiðingu þess. Vinstra-líbó fólkinu, að ógleymdri Framsóknar- og Sjallaforystunni, hlýtur samt að finnast það þess virði, því að ekki kemur þeim til hugar að stugga við fósturdeyðingalögunum, frekar skulu þau varin sem síðasta vígi efnishyggjunnar, þótt öll önnur falli.

Jón Valur Jensson, 10.4.2007 kl. 17:54

8 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Jón Valur, - ég var búin að svara þessari spurningu í athugasemdum við fyrri grein, og Magnúsi Þór persónulega.  Ég hef það nefnilega svo gott, ólíkt t.d. formanni Frjálslyndra að geta skrifað og unnið samkv. minni innri sannfæringu bæði í stjórnmálum og í atvinnulífinu. 

Síðan tel ég líka best að fólk sem þekkir vel til tjái sig um viðkomandi málaflokk.  Líkt og Magnús hefur tjáð sig óheftað um sjávarútvegsmál og þú um trúmál?

Lestu einnig endilega smá um höfund þessarar síðu, þar sem kemur mjög skýrt fram við hvað ég starfa og hef starfað í rúm tíu ár með hléum. 

Eygló Þóra Harðardóttir, 13.4.2007 kl. 12:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband