Eitthvað annað

Margrét Sverrisdóttir, varaformaður bráðabirgðarstjórnar Íslandshreyfingarinnar, segist vera með nýja hugsun, enda komin með nýjan flokk og nýja félaga.  

Þá segir hún niðurstöðuna sýna að stjórnmál 21. aldarinnar þurfi að snúast um mannauð, hugvit og nýsköpun en Íslandshreyfingin fær 5,2% atkvæða samkvæmt könnuninni. 

Vá, - hún er bara að enduruppgötva hjólið.

Hvað annað hafa árin frá því við fengum heimastjórnina snúist um annað en mannauð, hugvit og nýsköpun?  Við búum á landi sem hefur mjög takmarkaðar auðlindir: Fiskinn í sjónum, orkuna og fólkið.  Þrátt fyrir það erum við í dag ein ríkasta þjóð heims skv. mælikvörðum OECD.

En það er gott að vita að Margrét er komin með nýja hugsun.  Við fáum vonandi fljótlega að vita hvað hún og félagar ætla að gera með þessa nýja hugsun fyrir utan að stöðva álversframkvæmdir og ná markmiði Davíðs um 5% atvinnuleysi innan þriggja ára.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Það er mikið að frambjóðendur Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi rumska í endaðri kosningabaráttu.Ég var farinn að halda að Haukdælir og Oddverjar sem börðu sér á brjóst að hætti sturlunga í prófskjörsbaráttu í haust eftir að látið hafði verið að vilja þeirra með prófkjör,væru allir fallnir.Hér á Suðurnesjum hafa þeir ekki sést síðan þeir börðust við sína eigin liðsmenn í prófskjörbaráttu, sem þeir unnu með vélabrögðum og ódrengskap.En nú sést smá líf í einum þeirra af kvenkyni og það frá Vestmannaeyjum.Er það að vonum því eins og allir vita þá kunna Vestmannaeyingar að fiska og ekki þarf að bera þeim á brýn, að þeir rói ekki.Það höfum við suðurnesjamenn orðið varir við því stöðug innrás hefur verið frá Vestmannaeyingum síðustu vikur,bæði frá hægri og vinstri.Fara þeir með friði að hætti sjómanna, en geta svarað að sjómannasið ef ódrengilega er vegið að þeim, og gera sér dælt við  menn.En á meðan þetta gerist liggja Oddverjar og Haukdælir þreyttir á bökkum Ölfusár og bíða þess að endanlega verði frá þeim gengið.

Sigurgeir Jónsson, 31.3.2007 kl. 09:35

2 identicon

FIMM MILLJARÐAR KRÓNA er heildaraðgangseyrir að eldfjallagarðinum á Hawaii, eða 1.500 krónur á mann, en þangað koma 3,3 milljónir manna á ári. Aðgangseyrir í Bláa lónið er 1.400 krónur, þangað komu um 380 þúsund gestir í fyrra og þeim fjölgar ár frá ári. Langstærsti hluti þeirra voru erlendir ferðamenn og þar vinna vel á annað hundrað manns en lágmark 200 manns munu vinna þar eftir 4 ár, að sögn Önnu Sverrisdóttur, framkvæmdastjóra Bláa lónsins. Hún segir að stækkun álversins í Hafnarfirði myndi ganga þvert gegn hagsmunum Bláa lónsins og Reykjanesfólkvangs en að honum standa Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Grindavík.

Bláa lónið hefur fengið verðlaun fyrir að vera besta náttúrulega heilsulind heims, einn af tíu ótrúlegustu baðstöðum heims og ein af 25 bestu heilsulindum í heimi. Ef Reykjanesgarðurinn fengi sömu aðsókn og innheimti sama aðgangseyri og Bláa lónið yrði aðgangseyrir hans samtals um 532 milljónir króna á ári en heildartekjur Bláa lónsins eru 1,26 milljarðar króna á ári. Í Reykjanesgarðinum getur að sjálfsögðu verið til dæmis fræðslusetur, sala á minjagripum, leiðsaga, gisti- og veitingaaðstaða, svo eitthvað sé nefnt.

Tillaga um aðgang að hinum gríðarstóra Þríhnúkagíg, sem er í Reykjanesfólkvangi í lögsögu Kópavogs, birtist í grein í Morgunblaðinu 4. janúar 2004. Þar er lagt til að aðgengi að gígnum verði um 200 metra löng göng inn á svalir í gígnum. Svalirnar stæðu út í rýmið í miðjum gígnum á 64 metra dýpi og í 56 metra hæð frá gígbotninum. Útsýni niður í gígpottinn yrði æði mikilfenglegt og tvö 20 hæða hús myndu til dæmis komast fyrir neðan svalanna.

Ársverk í ferðaþjónustu hérlendis voru orðin um sjö þúsund talsins árið 2004, samkvæmt Hagfræðistofnun. Um 420 þúsund ferðamenn komu hingað í fyrra og þeir eyddu hér um 100 þúsund krónum á mann, samkvæmt Ferðamálastofu, samtals um 42 milljörðum króna. Þar að auki komu hingað tugir þúsunda ferðamanna með mörgum og stórum skemmtiferðaskipum, sem ryksuguðu hér upp rándýrar lopapeysur og fóru í lystireisur til Þingvalla, Gullfoss, Geysis og Mývatnssveitar, þar sem jarðböð hafa dregið að sér um 50 þúsund gesti. Ísland er nú fjórða samkeppnishæfasta land í heimi í ferðaþjónustu og hlutfall hennar í vergri landsframleiðslu er 6,3%. Landsframleiðslan mun hins vegar aukast um allt að 1,2% þegar álframleiðsla Alcoa Fjarðaáls verður komin í fullan gang. Ferðaþjónustan er því á við fimm slík álver og laun í ferðaþjónustu eru hér hærri en í öðrum greinum, samkvæmt Hagfræðistofnun.

Steini Briem (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 13:10

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þar sem er virkjað, þar eru ferðamenn.Bláa lónið er ein stærsta virkjun landsins, þar eru flestir ferðamennirnir.Á virkjunarsvæðunum kringum Landmannalaugar er allt morandi í ferðamönnum.Á virkjunarsvæðunum í kringum Mývatn fjölgar stöðugt ferðamönnum.Á Hengilsvæðið hópast ferðamenn þar sem varla sást hræða áður.Á Hellisheiði eru ferðamenn byrjaðir að staldra við því þar er verið að virkja, menn sem voru stöðvaðir áður fyrir að aka þar í gegn  á ólöglegum hraða.Á virkjunarsvæðið við Kárahnjúka hópast nú þegar ferðamenn.í framtíðinni verður hægt að fara þar með ferðamenn á bátum allt inn að jökli.Á veturna á snjósleðum..Þar sást ekki kjaftur áður en byrjað var að virkja.Við sunnannverðann Vatnajökul er einn fallegasti foss landsins í á sem heitirSmyrlabjargará.Virkjað var þar 1969.Áður en það var gert sást þar ekki nokkur ferðamaður.Nú streyma framhjá virkjuninni fleiri hundruð manns á dag yfir sumarið.Engu er líkara en ferðamenn sæki í virkjanir. 

Sigurgeir Jónsson, 31.3.2007 kl. 14:05

4 identicon

ÁRSVERK í ferðaþjónustunni hérlendis voru orðin um sjö þúsund talsins árið 2004, samkvæmt Hagfræðistofnun. Sumir eru í fullu starfi í ferðaþjónustunni hér en aðrir í hlutastarfi, eins og mörgum öðrum greinum, til dæmis áliðnaði, þar sem margir hafa verið í hlutastarfi yfir sumartímann, eins og í ferðaþjónustunni.

Steini Briem (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 18:12

5 identicon

Að virkja mannauðinn og hugvitið er háleitt markmið en býsna auðskilið. Hér að ofan hafa tveir bráðskýrir einstaklingar birt okkur sínar ályktanir um það. Ágætur eigandi bloggsíðunnar hefur bent á að þetta markmið hafi að sönnu ævinlega verið í heiðri haft hjá okkur hérna á skerinu. Ekki var nú ástæðulaust að minna á þetta og jafnframt hitt að þessi pólitík hefur skilað þjóðinni inn í hóp ríkustu þjóða heims. Það rifjast upp fyrir mér að hafa heyrt þetta áður.

Nú bögglast það fyrir mér að skilja hversvegna elsta kynslóð þessarar moldríku þjóðar hefur þráfaldlega orðið fyrir því ofbeldi heilbrigðisyfirvalda að vera synjað um þau sjálfsögðu mannréttindi að hjón fái að vera samvistum við ævilok. Og að jafnt einstaklingar sem sambúðarfólk verður að vera án lögbundinnar og sjálfsagðrar þjónustu hvað varðar vistun, umönnun og heilbrigðisþjónustu. Getur verið að það beri vott um skort á mannauði á efsta stigi viðkomandi stjórnsýslu að fjármunir sem innheimtir eru af gjaldendum til byggingar húsnæðis fyrir þennan aldurshóp hafa verið nýttir, ýmist til að reka öldrunarþjónustu eða í önnur og alls óskyld verkefni?

Mögnuð er hún svo ályktunin hans Sigurgeirs frá Skálafelli, að stíflugerðir og stóriðja sé vænlegur kostur til að laða hingað ferðafólk! Þetta sannar það að ekki megum við gleyma því að virkja hugvitið. 

En ekki líst mér vel á þann boðskap Framsóknar- og Sjálfstæðismanna til okkar eldri borgara að við getum bara haft hægt um okkur því við Íslendingar séum ein af ríkustu þjóðum heimsins. Það er nefnilega misskilningur hjá ráðherra heilbrigðismála að Framkvæmdasjóður aldraðra sé svo moldríkur að hann muni ekki um að borga framboðsáróður ráðherrans.

Með alúðarkveðjum 

Árni Gunnarsson (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 19:37

6 identicon

KONUR voru einungis 14% starfsmanna ISAL í nóvember 2001. Meðalaldur allra starfsmannanna var 44 ár og einungis 43% þeirra voru búsettir í Hafnarfirði. Konur vilja mun frekar vinna í þjónustu og þekkingargreinum en þar eru greidd mjög góð laun. Um 80% kvenna hér starfa í þeim greinum en einungis 54% karla. Þenslan er gríðarleg hér, verðbólgan 7% í ár og erlent vinnuafl alla vega níu þúsund manns, eða 9% af heildarvinnuaflinu. Samt sem áður sárvantar margar greinar hér vinnuafl. Það er því engin þörf á stækkuðu álveri í Hafnarfirði eða nýjum álverum, heldur þvert á móti, burtséð frá öllum umhverfisáhrifum.

Hér eru vextirnir með þeim hæstu í heimi vegna þenslunnar og launin halda síður en svo alltaf í við verðbólguna. Íbúðarlán upp á 20 milljónir króna, jafngreiðslulán til 40 ára með 5% föstum vöxtum og verðbólgunni hér í ár, 7%, kostar um 240 milljónir króna, eða 6 milljónir á ári að meðaltali. Verðbólgan á evrusvæðinu er aftur á móti 1,9% og væri sama verðbólga hér myndi slíkt lán kosta 69 milljónir króna, um 1,7 milljónir á ári að meðaltali. Há laun eru því engan veginn aðalatriðið, heldur kaupmátturinn, verðbólgan, verðlagið og vextirnir. Hér hækkar allt verðlag í hverjum mánuði og áhrifin af lækkun virðisaukaskattsins 1. mars verða fljótlega horfin með öllu.

Steini Briem (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 03:15

7 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þeir frumkvölar sem virkjuðu Bláa Lónið töluðu ekki um að virkja hugvitið.Þeir gerðu það.Þeir sem mest tala um að nýta mannauðinn og virkja hugvitið gera hvorugt.Þjónusta við ferðamenn og byggja virkjanir og framleiða hágæða ál er allt að virkja hugvit.Að segja annað er hroki.Bill Gates talaði ekki um að virkja hugvitið.Hann gerði það.Strax á barnsaldri.

Sigurgeir Jónsson, 1.4.2007 kl. 15:01

8 identicon

ÚTLENDINGUM MUN FÆKKA hér með stóriðjustoppinu, sem komið var á koppinn í Hafnarfirði í gær. Hér eru alla vega níu þúsund útlendingar á vinnumarkaðinum, 9% af heildarvinnuaflinu, sem er alltof mikill fjöldi. Það snýst engan veginn um útlendingahatur, heldur alltof mikla þenslu hér á öllum sviðum, heimsmet í háum vöxtum, gríðarlegan viðskiptahalla eða 305 milljarða króna í fyrra, hækkanir á verðlagi í hverjum mánuði, átta sinnum meiri verðbólgu hér en á evrusvæðinu í ár og gríðarmikinn skort á innlendu vinnuafli í fjölmörgum greinum, til dæmis fiskvinnslunni, almennri verkamannavinnu, leikskólum og heilbrigðisþjónustunni.

Meirihluti þessara níu þúsund útlendinga mun ekki búa hér til frambúðar og mörg þúsund manna skortur er hér á starfsfólki í mörgum greinum. En innlent starfsfólk mun ekki manna fiskvinnslurnar að nýju að einhverju marki fyrr en núverandi kvótakerfi verður afnumið og því hægt að greiða fiskvinnslufólki og sjómönnum mun hærri laun en nú er gert, í stað þess að eyða alltof stórum fjárhæðum, allt að einum milljarði króna á ári, í kaup á aflakvótum í litlum sjávarplássum. Og hærri laun fiskvinnslufólks og sjómanna í öllum sjávarplássum landsins þýðir margfeldisáhrif um allt land. Það yrðu aldrei byggð álver á Vestfjörðum og í Vestmannaeyjum og vandi landsbyggðarinnar er ekki skortur á álverum, heldur fyrst og fremst núverandi kvótakerfi, sem 70% þjóðarinnar eru alfarið á móti.

Steini Briem (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 15:17

9 identicon

Vélstjórafélag Íslands, Farmanna og Fiskimannasamband íslands, Sjómannasamband íslands,LÍÚ, Landsamband smábátaeigenda.Allir þessir aðilar hafa hafnað því að RÍKIÐ yfirtaki fiskimið við Íslandstrendur með þjóðnýtingu, og setti allar aflaheimildir á uppboð eða krefðist gjalds í skjóli eignaréttar  síns á auðlindinni.Enda vita þessir aðilar manna best að slíkt myndi ekki síst bitna á sjómönnum,og setja það kaupkerfi sem viðhaft hefur verið í íslennskum sjávarútvegi í uppnám, fyrir utan fjöldagjaldþrot, málaferli gegn íslenska Ríkinu innan lands og utan, eyðingu sjávarbyggða og enn meiri fólksflótta til útkjálkans Reykjavíkur en verið hefur. Ekkert sveitarfélag á landsbyggðinni hefur þar fyrir utan lýst yfir stuðningi við þjóðnýtingarhugmyndir öfgamanna í umhverfisvernd, sem ætla ekki að láta sér nægja að stöðva uppbyggingu atvinnurekstrar á landsbyggðinni heldur drepa líka niður aðallífsbjörg landsbyggðarinnar,sjávarútveginn og gera sjómenn kauplausa.

assi (IP-tala skráð) 2.4.2007 kl. 21:41

10 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Vélstjórafélag Íslands, Farmanna og Fiskimannasamband íslands, Sjómannasamband íslands,LÍÚ, Landsamband smábátaeigenda.Allir þessir aðilar hafa hafnað því að RÍKIÐ yfirtaki fiskimið við Íslandstrendur með þjóðnýtingu, og setti allar aflaheimildir á uppboð eða krefðist gjalds í skjóli eignaréttar  síns á auðlindinni.Enda vita þessir aðilar manna best að slíkt myndi ekki síst bitna á sjómönnum,og setja það kaupkerfi sem viðhaft hefur verið í íslennskum sjávarútvegi í uppnám, fyrir utan fjöldagjaldþrot, málaferli gegn íslenska Ríkinu innan lands og utan, eyðingu sjávarbyggða og enn meiri fólksflótta til útkjálkans Reykjavíkur en verið hefur. Ekkert sveitarfélag á landsbyggðinni hefur þar fyrir utan lýst yfir stuðningi við þjóðnýtingarhugmyndir öfgamanna í umhverfisvernd, sem ætla ekki að láta sér nægja að stöðva uppbyggingu atvinnurekstrar á landsbyggðinni heldur drepa líka niður aðallífsbjörg landsbyggðarinnar,sjávarútveginn og gera sjómenn kauplausa.

Sigurgeir Jónsson, 2.4.2007 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband