1.3.2007 | 15:13
Baráttan um svefninn
Síðustu vikurna höfum maðurinn minn og ég átt í stríði við 6 mánaða gamla dóttur okkar. Stríðið gengur út á að fá hana til að sofna sjálf. Hernaðartaktíkin nefnist Ferber-aðferðin og virðist við fyrstu sýn ganga út á að vera vond við barnið.
Svona gengur kvöldið fyrir sig:
- Barnið er lagt vakandi í rúmið og ljósið er slökkt. Henni er klappað á vangann eða magann stuttlega og svo fer ég út úr herberginu.
- Barnið grætur!
- Ég kem aftur inn eftir ákveðið millibili, klappa aftur (bannað að horfa í augun eða taka hana upp) og fara út.
- Barnið grætur
- Maður minn fer næst inn, klappar á vangann eða magann, horfir alls ekki í augun og fer aftur út.
- Barnið grætur enn hærra!
- Foreldrar þ.a.s. maðurinn minn og ég engjumst...
- Þegar hún loksins gefst upp og sofnar, - er málið að taka hana ekki upp og gefa henni yfir nóttina.
Vefsíðurnar og bækurnar segja að þetta taki venjulega þrjá daga. Litla mín virðist hafa þrjóskuna frá öllum öðrum en mér (ég hef mína enn þá ) og gaf sig ekki fyrr en fimmtu nóttina. Við vorum orðin illa sofin, úrill og með hrikalegt samviskubit. Svo hjálpar ekki að nánast öllum í fjölskyldunni finnst við vera óskaplega grimm.
En í þetta sinn höfum við eldri dótturina sem sönnunargagn nr. 1! Hún þurfti að fara í gegnum Ferber (fyrst barna í fjölskyldunni) og hefur sofið heilu næturnar frá 9 mánaða aldri, sefur í sínu eigin rúmi, skríður (nánast) aldrei upp í og finnst það bara ekkert tiltökumál.
Þannig að maður verður bara að halda áfram að telja sér trú um að þetta sé barninu fyrir bestu og að stundum verða góðir foreldrar að vera vondir.
Hér eru svo tvær góðar greinar fyrir þá sem eru að tapa baráttunni...
Big story: The best sleep advice you´ve never heard
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Veistu það Eygló mín að ég heyrði í útvarpinu í sumar þar sem einhver fræðingurinn var að tala um refsingu barna. Hann sagði að það versta sem við gerðum barninu væri að horfast ekki í augu við það. Því barnið liti á það sem algjöra höfnun. Ég varð reyndar mjög hugsandi yfir þessu og setti það því mér í minni. Þú ættir ef til vill að skoða það betur, áður en þú ferð lengra í þessari aðferð. Ekki viltu rjúfa þau tengsl.
Annars sendi ég þér knús, það er rosalega erfitt þegar þessi litlu kríli eiga erfitt með svefn.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.3.2007 kl. 15:28
Úfff kanski er málið að prófa þetta á minn litla þrjóskupúka... Hann er nefnilega farinn að taka uppá því að sofna kanski uppúr 10 og vakna svo allavega 2svar á nóttunni til að fá að drekka en samt er hann vaknaður uppúr 7- 7:30 og vill fara á fætur! Og ég sem var svooo ánægð þegar hann fór að sofa alla nóttina fyrir þónokkru síðan *dæs*
Saumakonan, 1.3.2007 kl. 15:29
Takk Ásthildur,
já, - enda er bara talað um að maður eigi ekki að horfa í augun á þeim þegar þau eiga að sofna!!! Því þau sperrast öll upp við það og halda á nú sé kominn stuðtími.
Ég hef nú bætt mínu eigin inn í Ferber-prógrammið, sem er nú held ég meira fyrir mig en hana og það er að segja henni að ég elski hana um leið og ég klappa á vangann eða magann.
Eygló Þóra Harðardóttir, 1.3.2007 kl. 15:34
Í greininni þarna á New York Times var talað við fullt af svefnsérfræðingum og þeir töluðu allir um mikilvægi þess að ná að koma svefninu í lag sem fyrst. Þetta skipti máli fyrir öll samskipti innan fjölskyldunnar og jafnvel samband foreldranna.
T.d. þegar börnin venjast að sofa upp í, getur það leitt til að foreldrarnir hreinlega flýja, leita sér að nýju rúmi þar sem eitthvað pláss eða friður er í.
Og öll þekkjum við muninn á velhvíldu barni og úrvinda og úrillu barni. Gildir nákvæmlega um foreldra líka.
Eygló Þóra Harðardóttir, 1.3.2007 kl. 15:37
Já alveg rétt það er mjög nauðsynlegt að þau viti að maður elskar þau. Gangi þér bara vel að ná svefninum hennar í lag ykkur öllum til góðs.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.3.2007 kl. 16:47
Sonur minn svaf alltaf eins og steinn á nóttunum, enda á brjósti til tveggja ára aldurs (að vísu ekki mínu brjósti). Mjólkin skaðaði hann alla vega ekki mikið og ef þú trúir því ekki getur þú séð hann í Sjónvarpinu hjá Jóni Ólafs 10. mars.
Steini Briem (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 18:51
Við hjónin erum nýlega gengin í gegnum þetta ferli með yngri dóttir okkar. Gekk fljótt og vel þannig séð, þessi umtöluðu 3-5 kvöld og er miklu betra fyrir alla. Þegar við gerðum þetta við okkar eldri gekk það erfiðar, sjálfsagt vegna þess að hún var eldri. Erfitt þegar á því stendur. Gangi ykkur vel.
Ragnar Bjarnason, 1.3.2007 kl. 21:54
Já, hef ekki sjálfur trú á þessu. Stelpan mín svaf uppí til 11 ára aldurs. Hún sofnaði sjálf en á miðri nóttu kom hún á ferðinni nokkuð þungstíg og skutlaði sér yfir mig og lenti á milli okkar hjóna. Sem betur fer var rúmið stórt. Við tókum á þessu þegar hún var 2 og að mig minnir 4 ara. En vandamálið er að þegar þessi litlu kríli veikjast þá fara allar varnir og allt verður leyfilegt. Stelpan mín er einbirni og það er ennþá erfiðara.
Annars kynntist ég einu sinni lítilega stúlku utan af landi. Hún tjáði mér að hún hafi sofið uppí hjá foreldrum sínum til 14 ára aldurs. Í framhaldi af því stökk hún uppí til fyrsta kærasta sem var að auki 10 árum eldri en hún og átti með honum 4 börn. Hún er víst búinn að eignast tvö í viðbót með núverandi eiginmanni og gengur bara vel í líflhlaupinu.
Birgir Guðjónsson, 2.3.2007 kl. 02:16
Frábært hjá ykkur og þetta er SSSVVVVOOO mikill léttir þegar að þau byrja að sofa, þið eruð ekki vond og langt því frá Það er rosalega erfitt að venja börn af því en SB var rosalega oft mætt og alltaf reis ég á lappir og fór með hana aftur... svo var hún alltaf mætt þannig á endanum ræddi ég bara vel og lengi um hvað rúmið hennar væri æðislegt og þá hætti hún þessu nánast alveg
knúsaðu litlu þrjósku skottuna frá okkur öllum
knús Ásta Björk og co
Ásta Björk (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 12:03
Smá update: Þrátt fyrir slappleika hjá þeirri litlu þá sofnaði hún sjálf í gærkvöldi í sínu eigin rúmi og svaf nánast alla nóttina!
Lengi lifi svefninn!!!
Eygló Þóra Harðardóttir, 2.3.2007 kl. 13:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.