Já, forseti

Skyldi Ólafur Ragnar Grímsson vera að íhuga að skipa sinn forsætisráðherra eftir næstu kosningar?  Í Silfri Egils um helgina tjáði forsetinn sig um skilning hans á stjórnskipulegri stöðu forsetaembættisins og benti á að forsetinn heyri ekki undir neitt ráðuneyti, - og frekar mætti líta á að stjórnskipulega séu ráðuneyti deild í forsetaembættinu.

Ef þetta er svo, er eitthvað því til fyrirstöðu í stjórnarskrá Íslands að forsetinn skipi hvern þann sem honum hugnast sem forsætisráðherra?  Bara Jón Jónsson út í bæ? Kemur einhver staðar fram í stjórnarskránni að ráðherrar verði að vera alþingismenn eða að Alþingi verði að samþykkja skipun ráðherra?

Ekki hef ég rekist á það í stjórnarskránni, en það kemur skýrt fram að forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn.  Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim (15. gr.) og hann getur vikið þeim frá embætti, er hann hefur veitt það. (20.gr.) Lög nr. 33/1944.  Alþingi getur hafnað þessu með því að leysa hann frá störfum (3/4 atkvæða) og þá þarf að kjósa um hvort skipta eigi út forsetanum í þjóðaratkvæðagreiðslu... (11.gr.) og svo til að gera starfið enn skemmtilegra ber hann  enga ábyrgð á nokkru sem ráðherrar hans gera.   

Haldið þið ekki að það væri gaman að skoða forsíðu Moggans og leiðarann morguninn eftir? Grin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Segja má að þetta hafi eitt sinn verið gert - þar átti í hlut Sveinn Björnsson, að vísu meðan hann var enn ríkisstjóri, hálfu öðru ári áður en lýðveldið var stofnað og hann varð forseti. Og, vel að merkja, utanþingsstjórnin sem tók við völdum í desember 1942 sat eftir sem áður þótt lýðveldi væri stofnað ...

Hlynur Þór Magnússon, 19.2.2007 kl. 21:13

2 identicon

Ólafur Ragnar og þingmenn allir hafa verið kosnir af þjóðinni. Og allir ráðherrarnir hafa verið kosnir á þing af þjóðinni, nema einn, Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins. Hver kaus hann, kallgreyið, og hvert sækir hann vald sitt? Ætti Ólafur Ragnar að bera ábyrgð á honum? Þegar stórt er spurt... 

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 19.2.2007 kl. 21:31

3 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Hlynur Þór, athyglisvert.  Þetta hefur sem sagt þegar verið gert.

Eiríkur, svarið er víst já og nei.  Hann skipar Jón sem ráðherra en ber aftur á móti enga ábyrgð á einu eða neinu sem formaður minn gerir sem ráðherra.   

Eygló Þóra Harðardóttir, 19.2.2007 kl. 21:44

4 Smámynd: Haukur Nikulásson

Forsetinn hefur hér mjög takmörkuð völd. Þeir sem ætla sér að mynda meirihluta láta einfaldlega forsetann vita af því í langflestum tilvikum. Forsetinn getur ekki skipað í forsætisráðherraembættið af eigin geðþótta. Þá fær hann bara þingið upp á móti sér sem samþykkir vantraust. Slíkt bara gerist ekki.

Haukur Nikulásson, 19.2.2007 kl. 22:34

5 identicon

Framsóknarmaddaman kom með skjóðuna og henti Jóni inn í ríkisstjórnina. Og Ólafur Ragnar gat ekki úthýst Jóni þaðan fyrst hann var einu sinni kominn inn. Hann gat ekki sagt si svona: "Nei takk, ég vil ekki þennan jólasvein í ríkisstjórnina!" Og þar af leiðandi ber hann náttúrlega enga ábyrgð á því sem einhverjir jólasveinar í ríkisstjórninni gera. Framsóknarmaddaman hlýtur því að bera ábyrgð á Jóni og hafa hleypt honum úr skjóðunni. Og Ólafur Ragnar getur ómögulega komið honum ofan í skjóðuna aftur. Það gerir þjóðin í vor og ber ábyrgð á því.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 19.2.2007 kl. 22:57

6 Smámynd: Ellert V. Harðarson

Ja ég held bara að karlinn sé farinn að ruglast, mér heyrist hann halda að hann hafi verið gerður að konungi yfir Íslandi, Ólafur I. Allavega er öll ríkistjórnin bara orðin deild í konungsveldinu, og hvorki henni né þjóðinni kemur við hvað hann gerir eða gerir ekki.

Ellert V. Harðarson, 19.2.2007 kl. 23:17

7 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Skelfingar læti eru þetta um blessaðan forseta okkar, hann Ólaf Ragnar Grímsson. Jafnvel þótt, hann hafi talað af sér, hvað um það ? Við ættum að líta til Svía, sem eiga kóng, Kalla, sem er ágætis kóngur, þótt hann geti ekki talað blaðalaust og Bandaríkjamenn áttu forseta; Ford, sem

ekki gat tuggið jótur, meðan hann gekk að kúlunni á golfvellinum, þar var valdamesti maður heims að dunda sér og gaf skít í heimsmálin og vandamál sinnar eigin þjóðar á meðan. Ég man ekki betur, en að Ford hafi fengið sómasamlega útför, þrátt fyrir þessa annmarka. Svo ætlar allt vitlaust að verða í kotríkinu, nær Ólafur Ragnar mismæli sig í beinni, ef hann hefur þá mismælt sig yfir höfuð ? Þetta er líkt okkur, Íslendingum, að fara úr límingunum út af ekki merkilegra máli. Ég nenni ekki að ræða þetta frekar. Séra Bjarni Jónsson, sem fermdi mig fyrir næstum 60 árum, hafði alltaf rétt fyrir sér, nær hann vildi halda tryggð við nafna minn Kristán X. Við sætum þá ekki í súpunni núna. Því ekki að snúa dæminu við, breyta Stjórnarskránni og

koma okkur upp Ólafur Rex I ásamt Dorrit Regina I í stað Ólafs Ragnars og Dorritar? Það finnst mér dágóð hugmynd. Með góðri kveðju, Kristján P. IX ( No REX)-KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 20.2.2007 kl. 08:16

8 identicon

Ólafur verður þá konungur Íslands og Danmerkur, fyrst við höfum náð undir okkur Magasíninu. En kóngurinn í Kaupinhafn var kóngur yfir bæði Danmörku og Íslandi, þannig að kóngurinn yfir Íslandi var líka kóngurinn yfir Danmörku. Hvort hann sat í Kaupinhafn eða á Bessastöðum var algjört aukaatriði í þessu sambandi.

Eiríkur Kjögx, hirðstjóri á Bessastöðum (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 10:39

9 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Í fyrsta lagi þá tel ég að við eigum að halda Ólafi Ragnari fyrir utan þetta.  Ég er enginn sérstakur stuðningsmaður hans og hef aldrei kosið hann.  Það breytir því ekki að ég er sammála túlkun hans á lögunum og tel að þarna hafi ekki verið nein mismæli hjá honum.  

Í öðru lagi: Keli, ég er alveg sammála þessu sem kemur fram í þessum texta sem þú bentir á.  Fólk er alltaf að vísa í þingræðisregluna, en sú regla er hvergi skrifuð niður. Ég hvet ykkur líka til að lesa áfangaskýrslu stjórnarskrársnefndar.  Í henni segir á bls 13: "Mörg ákvæði í þessum kafla [um forsetann] eru orðuð þannig að þau draga ekki upp rétta mynd af raunveruleikanum nema þau séu lesin í samhengi hvert við annað og skýrð í ljósi ýmissa venjuhelgaðra reglna sem hafa í raun öðlast stjórnarskrárvarða stöðu, svo sem þingræðisreglunnar, sem er þó ekki nefnd.  Þetta á til að mynda við um valdheimildir forseta og ráðherra." Varðandi þessar svokölluðu vanhelguðu reglur þá var væntanlega sú regla að forsetar skrifuðu undir lög möglulaust í þeim hópi þar til forsetinn ákvað að skrifa ekki undir lögin um fjölmiðla.  Þarna viðurkennir stjórnarskrárnefndin að stjórnarskráin segir ekkert um þingræðisregluna og hvernig getur hún þá verið stjórnarskrárvarin?

Einnig finnst mér alveg dæmigert að litlar undirtektir hafa verið í nefndinni við þeirir hugmynd að ráðherrar gegni ekki jafnframt þingmennsku (bls. 14) og sumir þar telja víst að það breyti heldur engu um aðskilnað framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins og þá er aftur vísað til hinnar svokölluðu þingræðisreglu.  "Framkvæmdavaldið yrði áfram háð löggjafarvaldinu á grundvelli þingræðisreglunni." 

Greinilegt er að stjórnarflokkarnir eru bara sáttir við sín völd og stjórnarandstaðan ásælist sömu völd og er því ekki tilbúin að taka undir að gera raunverulegar breytingar. Segið svo að það sé ekki sami rassinn undir okkur öllum

Eygló Þóra Harðardóttir, 20.2.2007 kl. 12:50

10 identicon

Þingræðisreglan kom inn í íslenskan rétt kringum 1904 þegar ráðherra Íslands, Hannes Hafstein, var kosinn af þinginu í fyrsta sinn. Hún var síðan staðfest í framkvæmd þegar, að ég held 4 árum síðar, var samþykkt vantraust á hann. Með nýrri stjórnarskrá 1920 var 1. gr. botnuð með orðunum "með þingbundinni stjórn" og samsvarar það 1. gr. núgildandi stjórnarskrár frá 1944. Þingræðið hefur ákveðna stoð í 1. gr. þótt það ákvæði segi ekki allt. Það gerir sagan hins vegar.

Í flestum löndum þar sem þingræði tíðkast er sú regla hvergi beint skráð. Oft hefur þingræði komist á fyrir þrýsting þjóðþinga landa á óvinsælar konungsstjórnir til að fá aukin ítök í landsstjórn. Það sem viðurkennt er sem lög í þessu landi ekki allt skráð svart á hvítu. Ákveðnar reglur geta helgast af venju (ekki vanhelgaðar), þ.e.a.s. reglur sem fylgt er í framkvæmd og viðurkenndar eru af yfirvöldum og e.t.v. þegnum landsins. Þingræðisreglan er orðin svo rótgróin í íslenskum rétti, viðurkennd af þjóðþingi, öðrum valdhöfum og fræðimönnum, að hún hefur öðlast stjórnarskrárrétthæð, þ.e.a.s. hún er stjórnarskrárvarin og verður þ.a.l. aðeins afnumin með sama ferli og þarf til að breyta stjórnarskránni. Þú færir ekki fyrir dóm og héldir öðru fram.

Að forseti undirriti lagafrumvörp er hins vegar skráð berum orðum í 26. gr. stjórnarskrárinnar. Það er engin venjuhelguð regla. Málsskotsréttur forseta er þar líka.

Friðrik Árni Friðriksson (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 13:23

11 identicon

Keli Group segir "Haukur, þetta er ekki alveg rétt hjá þér. Formenn flokkana sækja um að fá að mynda stjórn og gettu hver veitir þeim umboð til þess í nafni þjóðarinnar."

Ertu að segja að það sé háð vilja forsetans hverjum hann veitir umboð til stjórnar? Forsetinn er kosinn sem þjóðhöfðingi eða sameiningartákn, ekki sem pólitískur fulltrúi. Alþingismenn eru hins vegar kjörnir pólitískir fulltrúar og í ljósi þingræðisreglunnar ber forseta að skipa þá flokka í ríkisstjórn sem hafa meirihlutastöðu á Alþingi. Ella væri vantrauststillaga næst á dagskrá, eins og  Haukur benti réttilega á. Ef engum flokkum tekst að mynda ríkisstjórn, er það forseta að hlutast til um að sjóða hana saman, t.d. minnihluta- eða utanþingsstjórn. Sé meirihlutaviljinn skýr, þá er forsetinn ekkert nema stimpill.

Friðrik Árni Friðriksson (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 18:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband