16.2.2007 | 10:14
Samfylkingin og konurnar
Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar grein í FBL í gær sem hann titlar Konur og Samfylkingin. Í greininni reynir hann að færa rök fyrir því Samfylkingin muni fagna umræðu um jafnréttismál í vor. Ég hefði einmitt haldið að Samfylkingin hefði takmarkaðan áhuga á að ræða jafnréttismál, allavega jafnréttismál eins og snýr að uppröðun á listum hjá þeim.
Miðað við þær forsendur að þeir sem leiða lista eigi að verða ráðherrar þá er bara eina kona ráðherraefni hjá Samfylkingunni, þ.e.a.s. Ingibjörg Sólrún sjálf. Að öðru leyti eru listar Samfylkingarinnar leiddir af körlum. Og jafnvel ef leitað er neðar á listana í 2. sætið fjölgar væntanlegum ráðherraefnum flokksins aðeins um tvær konur, þær Katrínu Júlíusdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttir. Enda minnist Ágúst Ólafur ekki einu orði á að konur eru aðeins 16,7% þeirra sem leiða lista Samfylkingarinnar. Hann reynir í staðinn að benda á hvernig hlutirnir eru núna í þingflokki Samfylkingarinnar (9/20), en nefnir ekki einu orði um hversu karllægur þingflokkurinn mun væntanlega verða eftir kosningar.
Trúverðugleiki skiptir miklu máli fyrir stjórnmálaflokk, og í þessu máli líkt og svo mörgum öðrum hafa Vinstri Grænir vinninginn gagnvart Samfylkingunni. Þeir leggja mikla áherslu á að þeir eru feminístaflokkur, og konur eru 33,3% þeirra sem leiða lista hjá VG.
Frábært hugsaði ég, - en hvernig er staðan hjá mínum eigin flokki? Hún er nú bara ansi ásættanleg ... þar sem Framsóknarflokkurinn er með helming konur sem leiða lista fyrir þessar Alþingiskosningar, eða 50%. Hlutfallið minnkar lítið þótt farið sé niður listann, en af 12 efstu mönnum eru 42% konur.
Þetta er víst enn eitt dæmið um muninn á umræðu- og framkvæmdastjórnmálum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:04 | Facebook
Athugasemdir
Er það ekki þetta sem er að fella samfylkinguna.
Auðvelt að reka ofan í þau flest sem þau halda fram
Ágúst Dalkvist, 16.2.2007 kl. 11:32
Væri ekki best að senda Samfylkinguna bara í sveit! Kannski til þín Ágúst
Guðmundur H. Bragason, 16.2.2007 kl. 11:44
Ef aðeins er litið á efstu sætin eru þrjár konur efstar hjá Framsókn, tvær hjá VG en EIN hjá bæði Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu.
Ef litið er á efstu tvö eru hlutföllin svona: VG 7 konur, 5 karlar, Framsókn 5 konur, 7 karlar. Hér er nokkurn veginn jafnrétti hjá báðum flokkum. Hjá Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki 3 konur, 9 karlar.
Ef litið er á efstu 18 eru Framsókn og VG ennþá yfir S-flokkunum. Listar Frjálslyndra eru ekki komnir fram.
Á (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 11:46
Nákvæmni í orðræðu er ekki aðal Samfylkingarfólks.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 16.2.2007 kl. 12:58
Ég er ákaflega ánægður með þessa tölfræði hjá Framsóknarflokknum. Í prófkjörskosningum í NA-kjördæmi var kosið um 10 sæti og þar voru 6 konur kosnar. Og það sem er mikilvægast í þessu öllu saman er að allir einstaklingarnir eru kosnir vegna verðleika sinna, ekki vegna kyns.
Ragnar Bjarnason, 16.2.2007 kl. 13:18
Þetta er undarleg nálgun hjá þér Eygló. Frá stofnun hefur Samfylkingin ætíð lagt mikla áherslu á réttindabaráttu kvenna og sýnt það, svo um munar, í verki. Eftir Alþingiskosningarnar 1999 var þannig meirihluti þingmanna flokksins konur og í kosningunum fyrir fjórum árum voru níu Samfylkingarkonur kjörnar á þing og komu hlutfallslega langflestar konur inná þing það árið fyrir Samfylkinguna.
Þegar litið er til æðstu embætta flokksins sést vel hve mikil áhersla er lögð á jafnræði milli kynjanna. Talsmaður flokksins í kosningunum 1999 var kona. Af tveim einstaklingum sem hafa gegnt embætti formanns, hefur annar verið kona. Einungis einn af þremur varaformönnum flokksins hefur verið karlkyns og þrír af fjórum þingflokksformönnum hafa verið kvenkyns.
Við þetta má bæta að borgarstjórnarflokkur Samfylkingarinnar um þessar mundir er einungis skipaður konum. Er það í fyrsta sinn síðan á dögum kvennaframboðs og kvennalista að pólitískt afl í borgarstjórn er eingöngu skipað konum.Hvaða stjórnmálaflokkur á Íslandi getur státað af árangri eins og þessum eins og ég tel hérna upp?
Því miður virðist það ætla að taka enn lengri tíma fyrir konur að njóti sjálfsagðra réttinda til jafns við karlmenn. Það er verkefni sem allir verða að taka þátt í hvar í flokki sem þeir standa.
Magnús Már Guðmundsson, 16.2.2007 kl. 13:23
Allir velkomnir í sveitina
Miðað við þessa athugasemd frá Magnúsi þá á að kjósa samfylkinguna af því að "einu sinni var" en ekki vegna þess sem yrði ef þau næðu kjöri.
Athyglisvert ...... eða nei, reyndar er það það ekki.
Ágúst Dalkvist, 16.2.2007 kl. 13:54
Ég neita því ekki að í sumu hefur Samfylkingin staðið sig ágætlega, og má þar nefna æðstu embætti flokksins. Varðandi borgarstjórnarflokkinn þá er ástæðan fyrir því að þar eru allt konur ekki vegna þess að hann hafi verið kosin þannig, heldur vegna þess að karlarnir eru annað hvort hættir eða farnir í frí. Með sömu rökum hefði fyrrum Frjálslyndir getað tilkynnt um að allur borgarstjórnarflokkurinn hjá þeim væri búin að skipta um kyn þegar Margrét Sverris tók við af Ólafi. Þetta er allavega ekki aðferð sem ég vil hvetja til að sé notuð til að gera veg kvenna meiri innan stjórnmálaflokks.
Ef við ætlum að fara rifja upp fortíðina þá held ég að minn flokkur geti nú flaggað fjölda kvenráðherra, fyrsti flokkurinn til að skipa jafnréttisráðgjafa, fyrsti flokkurinn til að samþykkja ákvæði um 40/60 hlutfall á milli kynja í allar stöður á vegum flokksins o.s.frv.
Samfylkingarfólk talar líka mikið um þá staðreynd að Ingibjörg Sólrún sé eina konan sem sé formaður flokks og fyrsta konan sem eigi möguleika á að verða forsætisráðherra. En mun það hafa úrslitaáhrif varðandi jafnrétti kynjanna? Skipti einhverju máli að Margaret Thatcher var kona fyrir framgang kvenna í stjórnmálum í Bretlandi? Eins og þú bendir á Magnús þá var meira jafnræði á milli kynjanna á listum Samfylkingarinnar undir stjórn Össurar en Ingibjargar.
Það hefði verið Samfylkingunni í lofa lagt að setja ákvæði um skiptingu kynja á listana hjá sér, líkt og VG gerði og Framsókn, ef það hefði verið áhugi fyrir því.
En það er bara alltaf mun auðveldara að tala en að gera!
Eygló Þóra Harðardóttir, 16.2.2007 kl. 15:15
Næsta ríkisstjórn gæti litið svona út og hér eru jafnmargir karlar og konur, svo og jafnmargir ráðherrar frá Samfylkingu og Vinstri grænum. Engin vandræði, Eygló, en auðvitað gætu til dæmis Katrín Júlíusdóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson allteins verið í ríkisstjórninni í staðinn fyrir einhverja aðra úr Samfylkingunni. Nóg af hnallþórum í búrinu og fáðu þér meira, sögðu konurnar í sveitinni þegar gesti bar að garði:
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir forsætisráðherra
Steingrímur J. Sigfússon utanríkisráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra
Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra
Þórunn Sveinbjarnardóttir samgönguráðherra
Þuríður Backman landbúnaðarráðherra
Össur Skarphéðinsson sjávarútvegsráðherra
Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra
Kristján L. Möller fjármálaráðherra
Ögmundur Jónasson menntamálaráðherra
Mörður Árnason iðnaðarráðherra
Atli Gíslason dómsmálaráðherra
Katrín Júlíusdóttir forseti Alþingis
Ágúst Ólafur Ágústsson formaður þingflokks Sf
Katrín Jakobsdóttir formaður þingflokks Vg
Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 17:06
Ég á bara eftir að sjá Björgvin G., Gunnar Svavarsson og Guðbjart (man ekki nafn hans) gefa eftir hið svokallaða ráðherrasæti sitt fyrir konu sem er í þriðja sætinu í Kraganum og karl í þriðja sæti í Reykjavík. Sérstaklega eftir hringl ISG í kringum álverið í Hafnarfirði.
Að því gefnu að sjálfsögðu að allir þínir draumar rætist í kosningunum í vor, ekki bara skoðanakönnunum :), Eiríkur.
Eygló Þóra Harðardóttir, 16.2.2007 kl. 18:19
Enda þótt Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri Aðalskoðunar hf. í Hafnarfirði og Guðbjartur Hannesson skólastjóri á Akranesi séu í 1. sæti í sínum kjördæmum hafa þeir ekki setið á Alþingi og það verður einnig að líta til annarra hluta, til dæmis þingreynslu Þórunnar Sveinbjarnardóttur, Katrínar Júlíusdóttur og Björgvins G. Sigurðssonar. Margir vilja einnig að konur verði jafnmargar körlum í ríkisstjórninni og kona verði forsætisráðherra. Jafnrétti í reynd á æðstu stöðum og tími til kominn. Það væri líka gaman að sjá Steingrím J. Sigfússon sitja NATO-fundi sem utanríkisráðherra.
Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 20:10
Sammála þér þið í framsókn vitið að án kvenn er ekkert líf! Ég veit að það er ekki flokkurinn sem að er að missa fylgi heldur fortíð hans. Þið í núinu þurfið að sanna fyrir okkur hinum að þið þvoið hendur ykkar.
Til hamingju með góða grein Eygló.
,
Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 20:27
Næstum því þess virði að skipta um ríkisstjórn
Eygló Þóra Harðardóttir, 16.2.2007 kl. 20:27
Ágæta Eygló
Ég hnaut um þessa setningu hjá þér: "Það hefði verið Samfylkingunni í lofa lagt að setja ákvæði um skiptingu kynja á listana hjá sér, líkt og VG gerði og Framsókn, ef það hefði verið áhugi fyrir því."
Hvernig fór þetta aftur í Suðrinu þar sem þið eigið veika von um 2 menn? Mér finnst nú hvorki Guðni eða Bjarni sérlega kvenlegir. Ef Hjálmar hefði ekki ákveðið að hætta hefðu verið þrír karlar í þremur efstu sætunum hjá ykkur.
Það er svo dæmi um eininguna innan flokksins og virðinguna fyrir þeim konum sem ákveða að skella sér af fullri hörku í slaginn að þér sjálfri, ágætlega frambærilegri stjórnmálakonu, var strax um nóttina skákað út af borðinu. Og af hverjum, jú auðvitað strákunum!
Held þið ættuð að fara varlega í að tala aðra flokka niður hvað þetta varðar.
Bið að heilsa í þúfurnar þarna suður frá.
Kv. Dofri Hermannsson
Dofri Hermannsson, 16.2.2007 kl. 20:33
, - já. En 40/60 reglan hjá okkur gilti. Það var kosið um 6 efstu sætin og þau skiptast 50/50. Ég hefði talið betra að hafa karl, konu, karl (enda sóttist ég eftir 2. sætinu) og teldi best að setja þá reglu fyrir næsta prófkjör.
Einmitt út frá þessari reglu og jafnréttissjónarmiðum tel ég að Hjálmar hafi fljótlega séð að það yrði að koma kona frá Suðurnesjunum, ekki karl. Enda var staðan hjá S og D hér í Suðurkjördæmi ekkert til að hrópa húrra fyrir út frá kynjasjónarmiðunum og niðurstöðu prófkjöra.
Svo skaltu bara rabba við hana Guðrúnu Erlingsdóttur um þúfupólitík og það fordæmi sem Samfylkingin í Suðurkjördæmi setti um virðingu fyrir konum sem taka þátt í prófkjöri. Allavega fékk ég nógu oft að heyra um það dæmi þegar verið var að ákveða listann hjá okkur.
Takk fyrir hrósiðEygló Þóra Harðardóttir, 16.2.2007 kl. 20:56
Blessuð Eygló
Mig langar til að upplýsa þig um það að það var opið prókjör í Suðurkjördæmi hjá Samfylkingunni allir þar á meðal þú máttu taka þátt í kosningunni. þessi var niðurstaðan Konur og Karlar réði niðurstöðunni. Gaman væri að heyra þessar sögur um Guðrúnu Erlingsdóttir, ekki kannast ég við þessi dæmi ég sit í kjördæmaráði Samfylkingarinnar á Suðurlandi,og um mig verður seint sagt að ég standi ekki með KONUM. Kannski voru bara karlar að segja þér þessi dæmi. Ég veit af langri reynslu að KONUR þurfa að standa saman hvar sem þær eru. Ekki er ég hrifinn af skrifum þínum um konur.
Kveðja Sólveig Adólfsdóttir
Sólveig Adolfsdóttir (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 00:05
Sæl Sólveig,
Guðrún Erlingsdóttir, búsettur Eyjamaður, tók þátt í prófkjörinu ykkar. Hún náði ágætis árangri en síðan tók kjördæmisþing Samfylkingarinnar ákvörðun um að setja inn konu sem hefði svokölluðu tengsl við Suðurnesin fyrir ofan hana. Þarna er fordæmið og sýnir "...virðinguna fyrir þeim konum sem ákveða að skella sér af fullri hörku í slaginn..." svo ég vitni í hann Dofra.
Ég vona að þessi aðgerð hafi ekki farið fram hjá þér, sitjandi í kjördæmisráðinu.
Svo bíð ég enn spennt eftir dæminu um hvað Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur gert fyrir Vestmannaeyjar eða yfirhöfuð á þingferlinu eftir að hún hætti í Framsóknarflokknum.
Eygló Þóra Harðardóttir, 17.2.2007 kl. 11:29
Ég vona að Framsókn nái aftur sínu fylgi þá ætti ríkisstjórnin að halda velli sem ætti að vera mikið gleðiefni fyrir alla íslendinga.
Dofri ætti ekki að þurfa að hafa neinar áhyggjur á Framsókn á suðurlandi, Bjarni kemst örugglega inn, ég er ekki viss með gengi Sf í þessu kjördæmi, töpuðu 2 bæjarfulltrúum í síðustu sveitarsjórnarkosningum og eru þar að auki með Björgvin sem oddvita.
Óðinn Þórison (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 13:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.