15.2.2007 | 15:51
Græna lestin hans Dofra
Dofri Hermannsson, einn höfunda að Fagra Íslandi eða hinni misheppnuðu stefnumótun Samfylkingarinnar í umhverfismálum, fjallar um lestarsamgöngur á vefsíðu sinni í gær. Í þeim pistli gefur hann sér að ráðherrar Framsóknarflokksins séu að reyna að ná einhverri grænni lest. Ekki er alveg ljóst hvað Dofri á við með þessari samlíkingu sinni. Ég veit ekki betur en að einkennislitur Framsóknarflokksins sé enn grænn, og við erum þannig hinir upprunalegu grænir í íslenskri stjórnmálaflóru og höfum verið síðustu 90 árin. En ég hef lítið heyrt af lestum hér á landi, nema vera skyldi hugmyndir Samfylkingarfólks í R-listanum um lest á milli Rvk og Keflavíkur.
En svo ég leyfi mér að giska þá tengist þetta væntanlega hinni miklu fylgissveiflu sem Samfylkingin hefur þurft að upplifa þar sem fylgi hennar hefur streymt yfir til Vinstri Grænna, m.a. vegna andstöðu við virkjanaframkvæmdir á Kárahnjúkum. Var hið Fagra Ísland örvæntingarfull tilraun flokksins til að hægja á flóttanum.
Ekki tókst betur til en að rammakvein kvað við frá hinum ýmsu samflokksmönnum hans, fólki sem hafði verið að vinna í bestu trú að hagsmunum síns bæjarfélags og var ekki tilbúið til að hafna virkjanaframkvæmdum eða fresta eins og forystukonan Ingibjörg Sólrún orðaði það. Enda erfitt fyrir flokksmenn að átta sig á hver er stefna flokksins í þessum málum þar sem ISG skiptir um skoðun á hálfsmánaðarfresti?
Má þar bara nefna orð hennar um stækkunina í Straumsvík:
- ISG 27. janúar 2007: Þetta er þeirra bær og þetta er þeirra ákvörðun. Og það er ekki við hæfi að ég taki afstöðu til þess hvað Hafnfirðingar eigi að gera í því sambandi.
- ISG 6. febrúar 2007: Og ég tel að til þess að við getum náð utan um þetta tekið raunverulega í taumana að þá þurfi að fresta þeim stóriðjuframkvæmdum sem nú eru fyrirhugaðar á næstu árum og þá er ég auðvitað að vísa til áforma um stækkunina í Straumsvík og álver í Helguvík.
Og svo segir hún að þjóðin treysti ekki þingflokknum!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Og það heldur áfram. Trúa menn virkilega að ef sama bullið sé sagt nógu oft, þá verði það sannleikur?
Ég hef þrisvar áður gert athugasemd við þessa túlkun á ummælum Ingibjargar Sólrúnar og spáði því síðast í gær að ég ætti líklegast eftir að gera það oftar.
Ég spyr því nú, eins og ég hef spurt þrisvar sinnum áður (og engin svör fengið): Að hvaða leyti eru þessi tvö ummæli andstæð?
Ég get þvert á móti fært gild rök fyrir því að ummælin séu einmitt í fullkomnu samræmi og sýna að Samfylkingin vinnur með íbúum nærumhverfisins á sama tíma og horft er á heildarmyndina.
Ákvörðun Hafnfirðinga er Já/Nei ákvörðun. Á að heimila stækkun álversins í Straumsvík eða ekki. Það er fullkomnlega eðlilegt að þegar búið er að taka ákvörðun um að færa valdið til fólksins, þá séu mótandi aðilar ekki að gefa yfirlýsingar sem áhrif geta haft á niðurstöðu þeirra sem ákvörðun eiga að taka.
Seinni yfirlýsingin snýst um tímasetningu framkvæmda. Hvenær eigi að framkvæma það sem sagt verður já við. Yfirlýsing um frestun á framkvæmdum þar til mótuð hefur verið framkvæmdaáætlun sýnir fyrst og fremst forgangsröðun og styrk til að taka erfiðar ákvarðanir.
Miklu réttara er að lesa út úr orðum Ingibjargar Sólrúnar að í framkvæmdirnar verði farið ef Hafnfirðingar segja já - en ekki strax, því það væri óskynsamlegt vegna skorts á skynsamlegri framtíðarsýn um náttúru Íslands. Að reyna að snúa ummælunum uppí andstæður (væntanlega til þess að rökstyðja meintan hringlanda) verður ekki túlkað öðruvísi en sem pólitískt skak.
Elfur Logadóttir, 15.2.2007 kl. 18:35
Okkur finnst væntanlega bara svo gaman að hafa þig á síðunum hjá okkur
Hann Dofri litli virðist allavega skilja málflutning hennar öðruvísi, að það eigi að fresta framkvæmdum eða eins og hann vill helst, - hætta þeim. Rökstuðningur þinn virðist vera mjög svipaður rökstuðningi ISG eftir að kosið var um flugvöllinn í Reykjavík. Þetta er væntanlega ástæðan fyrir því að mér finnst þeir Samfylkingarmenn sem ég þekki persónulega og þá sem ég hef fylgst með í fjölmiðlum finnst voða gaman að tala um að láta kjósa um hlutina, en reyna síðan eins og þeir geta að koma sér undan niðurstöðunni ef þeim líkar hún ekki.
Og að sjálfsögðu stunda ég pólitík á þessum vef, - flokka meira að segja skrif mín undir stjórnmál og samfélag, er flokksbundin og ég veit ekki hvað. Alveg eins og hún Ingibjörg Sólrún þín og hann Dofri litli.
Eygló Þóra Harðardóttir, 15.2.2007 kl. 19:42
Ég las pistilinn hans Dofra og fannst mér hann alveg fráleitur, skildi ekki þessa samlíkingu.
Margrét Annie Guðbergsdóttir, 15.2.2007 kl. 22:44
Er þetta ekki týpísk smjörklípa.
Pistillinn hjá Dofra fjallaði um hvernig Framsóknarflokkurinn reynir allt í einu að selja sig sem umhverfisvænan flokka.
Þú svarar hins vegar með því að tala um eitthverja íslenskar lestarhugmyndir og reynir síðan að mistúlka orð Ingibjargar eins og eitthver stuttbuxnadrengur nýkominn úr stjórnmálaskóla Valhallar.
Samfylkingin má allavega eiga það að hafa undirbúið sína umhverfisstefnu í eitthver ár sem er í alla staði meira traustvekjandi en að Framsókn sem reynir núna að sannfæra fólk um að stóriðjustefnan þeirra sé í raun umhverfisstefna og að "Kárahnjúkavirkjun sé eitt stórostlegasta framtak sem lagt hefði verið út í í umhverfisverndarskyni".
Umhverfisvernd fellst ekki bara í litnum á merkinu.
P.S. Svo ætti Framsókn með sín 3,9% að segja sem minnst um fylgi annara flokka.
Ingólfur (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 23:43
Ingólfur, ég veit ekki til þess að við séum að reyna að "selja" okkur sem umhverfisvænan flokk. Við höfum ekki komið fram með einhverja umhverfisstefnu sem ekki einu sinni okkar eigin flokksmenn eru sammála, líkt og Samfylkingin hefur gert. Og hver hefur talað um að stóriðjustefna sé umhverfisstefna? Ekki ég. Ég hef hins vegar talað um trúverðugleika og traust, og mikilvægi þess fyrir kjósendur. Það selur enginn neitt almenningi í pólitík. Fólk er sjálft fullfært um að taka afstöðu.
Ég hef ekki séð neinar tilkynningar frá Framsóknarflokknum um fylgi annarra flokka, - en ég hef hins vegar sagt heilmikið bæði um Ingibjörgu Sólrúnu og Samfylkinguna.
Svo er nú venjan að spyrja að leikslokum. Skoðanakannanir eru ekki kosningar, líkt og Samfylkingin komst að fyrir fjórum árum síðan og aftur í sveitastjórnarkosningunum í fyrra.
Eygló Þóra Harðardóttir, 16.2.2007 kl. 09:01
Ég kalla það að reyna að selja Framsókn sem umhverfisverndarflokk að boða framvirka þjóðarsátt í virkjunnarmálum (reyndar eftir að búið verður að virkja helling í viðbót) og að segja að Kárahnjúkavirkjun hafi verið reyst í umhverfisverndarskyni eins og félagi þinn Bjarni Harðarson sagði síðustu helgi.
Ingólfur (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 17:52
Já, - ég held að umhverfisverndarsjónarmið hafi nú ekki ráðið ferðinni þegar Alcoa ákvað að koma hingað, heldur verð á rafmagni. Því hefu ég verið að tala fyrir því að mikilvægt sé að við gerum auknar kröfur til stjórfyrirtæki á borð Alcoa, Alcan, sjávarútvegsfyrirtækjanna og okkar sjálfra varðandi að draga saman útblástur gróðurhúsalofttegunda.
En ég hef nú tekið skýrt fram að ég ætla ekki að kalla mig umhverfisverndarsinna þótt ég leggi til ákveðnar tillögur um hvernig við getum snúið við þróuninni í heiminum. Kíktu endilega á grein mína It´s hard to be "umhverfisverndarsinni".
Páll Vilhjálmsson talaði um í grein á heimasíðu sinni af hverju hann teldi óráðlagt fyrir framboð að fara fram með eitt málefni því þeir gætu lokast inni með það og aðrir flokkar ekki gert þau að sínu. Hann var þar að tala um málefni aldraðra og öryrkja. Ég held að það sé hægt að segja það sama um umhverfismálin. Þau eiga ekki að lokast inn í ákveðnum stjórnmálaflokkum, eða ákveðnu ráðuneyti heldur að vera hluti af öllum pólitískum ákvörðunum og lífsstíl okkar. Aðeins þannig náum við árangri.
Svo verðurðu að hafa meiri trú á almenningi en þetta. Það selur enginn kjósendum neitt. Fólk vegur og metur sjálft, út frá sínum hagsmunum og því hversu trúverðugt það telur viðkomandi einstaklinga og flokka vera í sínum málflutningi.
Eygló Þóra Harðardóttir, 16.2.2007 kl. 20:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.