14.2.2007 | 19:34
Hjálmar og Birkir styðja eyjamenn
Hjálmar Árnason og Birkir J. Jónsson, alþingismenn Framsóknar, hafa brugðist hratt og vel við áskorun Vestmannaeyinga um endurskoðun á gjaldskrám ferja, og ekki bara fyrir þá heldur alla eyjamenn sem búa fyrir utan hið svokallaða þjóðvegakerfi.
Ályktunin er svohljóðandi: "Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að undirbúa setningu reglugerðar er feli í sér að kostnaður farþega við að sigla með ferjum til staða utan þjóðvegakerfisins verði sambærilegur við þann kostnað er hlytist af akstri á þjóðvegum. Verki þessu skal lokið fyrir 1. maí 2007."
Greinargerð með ályktuninni er svohljóðandi:
"Til nokkurra byggða á Íslandi verður ekki komist landleiðina. Ferðir þangað og þaðan eru bundnar við skipa- eða flugferðir. Dæmi um slíka staði eru Vestmannaeyjar, Grímsey, Hrísey og Flatey á Breiðafirði. Fólk sem vill komast þaðan eða þangað er bundið af skipferðum eða flugferðum. Fyrir vikið má segja að íbúar þessara svæða séu bundnari en aðrir við áætlunarferðir. Þá má segja að ferðakostnaður fólks á umræddum svæðum geti verið hærri en almennt tíðkast vegna gjaldtöku. Þannig má taka dæmi af hjónum með einn ungling, tvö börn og bíl undir fimm metrum að lengd. Kostnaður þeirra við að ferðast fram og til baka frá Vestmannaeyjum með Herjólfi er á bilinu 813.000 krónur. Til samanburðar væri kostnaður þeirra við að fara Hvalfjarðargöng aðeins veggjaldið (6001.000 kr.), óháð fjölda í bíl.
Hér er mikið ójafnræði meðal þegna landsins eftir því hvort þeir búa á eyjum við landið eða geta ferðast landleiðina á bílum sínum. Með rökum má halda því fram að siglingar með Herjólfi séu þjóðleiðin til Vestmannaeyja. Því er ekki óeðlilegt að gjaldskrá farþega með Herjólfi sé sniðin að því, þannig að kostnaður við að ferðast milli lands og eyja verði sambærilegur við það sem yrði ef ekið væri á milli. Hið sama gildir um önnur eyjasamfélög.
Þingsályktun þessi gerir ráð fyrir því að samgönguráðherra undirbúi breytingar á gjaldskrá ferja á fyrrgreindum forsendum og ljúki því verki fyrir 1. maí. nk.
Ein lausn vandans gæti verið sú að íbúar með lögheimili á umræddum stöðum fengju að sigla gjaldfrjálst með hinum ríkisstyrktu ferjum. Með því móti væri aðstöðumunur jafnaður en kostnaður ríkisins af þessu væri óverulegur."
Ég hvet alla eyjamenn, hvar sem þeir eru búsettir til að hafa samband við sína þingmenn og hvetja þá til að samþykkja þessa ályktun.
.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæl. Ég á félaga sem býr í eyjum. Við höfum oft rætt það hvað það er ósanngjarnt og í raun ólíðandi að eyjamenn séu með miklar álögur í sjálfu sér. Það er skiljanlegt að eyjamenn séu háðir samgöngum, en samt sárt að sjá hvað það er dýrt fyrir þá að fara upp á land.
Það er eins og að fara til útlanda að skreppa til Eyja. En, æðislegur staður. Frábært fólk og skemmtilegt, húmoristar og prúðmenni. Ein af perlum Íslands!
Sveinn Hjörtur , 14.2.2007 kl. 20:08
Já Kristinn. Þú segir nokkuð. Púff...ég myndi þá oftast keyra ansi hratt. Hryllir við að aka svona langa leið. En kannski vennst það? Göng yrði bylting fyrir Eyjar. En missir það þá ekki sjarminn? Herjólf, flugið óstöpula, kemst ég eða kemst ég ekki heim....eftir þjóðhátíð?
Jú, kannski er jarðgöng best. Árni Jonsen er amk. örugglega með það sem sitt fyrsta verk sem Samgönguráðherra.
Sveinn Hjörtur , 14.2.2007 kl. 20:39
yrði hálf hræddur að keyra svona langa vegalengd í göngum,en lýst vel á ferju á bakka, stutt að skreppa í einn bjór í eyjym á góðviðrisdögum, en ríkið að styrkja þetta er soldið rugl, á ríkið að styrkja akureyringa með bensínkostnaði til að komast til RVK eða alla hina sem búa út á landi?
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 22:13
en smá spurn, því vilja eyjamenn koma svona oft til menningarinnar? ef það er svona dýrt, er ekkert að gerast í vestmannaeyjum?
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 22:27
Gott framtak. Ég held reyndar að það sé frítt farið með ferjunni út í Hrísey ef ég man rétt. (Ágætt að fá leiðréttingu ef svo er ekki). Ef göng eru raunhæfur kostur þá er um að gera að koma því af stað.
Ragnar Bjarnason, 14.2.2007 kl. 23:18
Ætli kostnaðurinn við að sigla neð Herjólfi á milli Eyja og Þorlákshafnar ætti ekki að vera lágmark 1.500 kall á bíl ef hann ætti að vera sambærilegur við að jafnlöng vegalengd væri ekin. Vegalengdin er um 90 kílómetrar og meðalkostnaður á hvern ekinn kílómetra er lágmark 17 krónur en þá er eingöngu tekið tillit til kostnaðar vegna bensíns, viðhalds og hjólbarða, samkvæmt FÍB. Ég held að hver fjölskylda með bíl ætti að geta ráðið vel við 3.000 kall fram og til baka. Hins vegar gengi nú varla að láta suma fullorðna farþega borga fargjald en aðra ekki, því gæta yrði jafnræðis og hér er um "þjóðveg" að ræða. Ríkið myndi síðan greiða rekstrartapið, líkt og það greiðir viðhald þjóðvega.
Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 23:35
Hrísey sameinaðist Akureyri nýlega. Strætisvagnafargjöld voru afnumin á Akureyri um áramótin og farþegum fjölgaði mikið við það. Jafnframt er frítt í Hríseyjarferjuna fyrir Hríseyinga en hún tekur ekki bíla. Fyrir aðra er fargjaldið 700 krónur fyrir fullorðna og siglingin á milli Hríseyjar og Árskógssands tekur 15 mínútur. Í Reykjavík hækkuðu framsóknar- og sjálfstæðismenn strætisvagnafargjöldin aftur á móti nýlega.
Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 02:57
Vestmannaeyingar eru ekki að fara fram á niðurgreiðslu bensínkostnaðar eða að greiða ekki neitt. Þeir vilja bara að kostnaðurinn við þessa vegalengd sé sambærilegur fyrir þá og vöruflutninga og það væri að keyra þessa vegalengd.
Í dag er ég að greiða 6.000 kr. á almennu verði fyrir mig, manninn og bílinn. Boðið er upp á afsláttarkjör, en þá verð ég kaupa afsláttarkort fyrir lágmark 16.200 kr.
Mér fannst þetta frábært framtak hjá Akureyringum að fella niður fargjaldið fyrir Hríseyinga og í strætó. Skilst að Reykjanesbær sé líka búin að taka þetta skref. Ég tek líka undir það hjá þér Eiríkur að það var einkennilegt að vera hækka fargjaldið í Strætó í Rvk, sérstaklega þar sem farþegum hefur fækkað mikið (virðist vera sama hugsun og þegar orkuveitan hækkaði verðið af því fólk hafði verið að hita húsin sín svo lítið). Hins vegar á RVK ekki ein í Strætó, og væntanlega hefur þetta verið samþykkt af öllum sveitarfélögunum?
Eygló Þóra Harðardóttir, 15.2.2007 kl. 11:17
Mér líst vel á að það verði gjaldfrítt fyrir fólk með lögheimili á viðkomandi stöðum. Hm, líst ekki vel á göngin, finnst það frekar óöruggt þarna á þessu svæði.
Margrét Annie Guðbergsdóttir, 15.2.2007 kl. 12:24
Strætó bs. er í eigu Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Hafnarfjarðarbæjar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar, Seltjarnarnesbæjar og sveitarfélagsins Álftaness. Fyrirtækið rekur strætisvagnakerfi sem nær til allra þessara sveitarfélaga og Akraness að auki. Strætó bs. er rekið sem byggðasamlag, samanber endinguna bs., og eignarhlutföll hvers sveitarfélags eru í samræmi við íbúafjölda þess. Aðildarsveitarfélögin skiptast á að vera með formennskuna og stjórnin er þannig skipuð:
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Reykjavík
Ármann Kr. Ólafsson, Kópavogsbær, formaður
Guðmundur R. Árnason, Hafnarfjarðarbær
Erling Ásgeirsson, Garðabær
Haraldur Sverrisson, Mosfellsbær
Inga Hersteinsdóttir, Seltjarnarnesbær
Erla Guðjónsdóttir, sveitarfélagið Álftanes
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra lögðu fram svohljóðandi bókun nýlega: Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra í umhverfisráði mótmæla harðlega þeirri borgarstjórahagfræði sem nú birtist í 6,7% - 33% hækkunum á fargjöldum Strætó bs. og ganga í berhögg við þá stefnu Reykjavíkurborgar að efla almenningssamgöngur með það að markmiði að bæta umhverfi, heilsu og borgarbrag..."
Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 16:03
En hefðu fulltrúar þessara flokka (og þá sérstaklega Björk Vilhelmsdóttir, VG/Samfylkingunni) átt að gera e-hv til að auka notkun almenningssamgangna, annað en að fækka strætisvagnaleiðum og stoppum þegar þeir voru við stjórnvölinn? Þetta rugl með leiðakerfið fækkaði notendum: börnum, unglingum, framhaldsskólanemendum og eldra fólki. Ég man ekki eftir að hafa nokkurn tímann heyrt Björk tala fyrir því að leggja niður fargjöldin, - bara að hún reyndi að fela svartar rekstrartölur frá Strætó fyrir síðustu kosningar.
Stundum eru fólk, fyrirtæki og jafnvel flokkar svo önnum kafnir við að ná sér í nýja "viðskiptavini" að þeir gleyma þeim gömlu og góðu sem hafa haldið tryggð við þá í gegnum þunnt og þykkt. En, ég er alveg sammála þér, að ég hefði talið mun eðlilegra til þess að auka notkun á strætó, draga úr mengun og umferðaröngþveiti á höfuðborgarsvæðinu að fella niður fargjaldið í strætó.
En af hverju lögðu S, VG og FF ekki það til?
Eygló Þóra Harðardóttir, 15.2.2007 kl. 17:23
Í yfirlýsingu frá Björk Vilhelmsdóttur frá því í fyrra varðandi Strætó bs. segir meðal annars:
"Slæm fjárhagsstaða Strætó bs. er tilkomin vegna þess að flest sveitarfélög sem standa að byggðasamlaginu hafa ekki verið tilbúin að greiða fyrir þá þjónustu sem þau sjálf hafa óskað eftir, að Reykjavík og Hafnarfirði undanskildum.
Það var skýr vilji Reykjavíkurborgar að greiða meira til Strætó bs. og reynt var að fá önnur sveitarfélög til samstarfs, án árangurs. Þau vildu halda stórbættri þjónustu, neituðu að greiða og vildu fresta frekari ákvörðunum um fjárhagsmálin fram yfir sveitarstjórnarkosningar, enda töldu margir að það þjónaði hagsmunum Strætó best m.t.t. kynningar á nýjum og jákvæðum breytingum á leiðakerfinu. Eftir á að hyggja hefði verið réttara að láta mismunandi sjónarmið um almenningssamgöngur koma fram, sem endurspeglast í þeirri staðreynd að sveitarfélögin sem fengu stórbætta þjónustu með nýju leiðakerfi en vildu ekki greiða fyrir þá þjónustu sem þau þáðu.
Slæm fjárhagsstaða Strætó bs. var rædd á fjölmörgum stjórnarfundum síðla árs 2005 og á fyrstu mánuðum þessa árs og fundargerðir voru lagðar fyrir borgarráð og borgarstjórn. Þá var framkvæmdastjórum sveitarfélaganna fullkunnugt um stöðuna, enda rædd á þeirra vettvangi, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Ennfremur boðaði stjórn Strætó bs. sérstakan eigendafund um fjárhagsstöðuna sem var haldinn 22. mars sl., þar sem lögð var fram endurskoðuð fjárhagsáætlun í krafti þess að Reykjavík var tilbúin að axla ábyrgð á 70% kostnaðarins. Þessu höfnuðu hin aðildarsveitarfélögin og að lokum varð það ákvörðun framkvæmdastjóranna, með vilja stjórnar Strætó bs., að þetta verkefni biði nýrra sveitarstjórna, þar sem skammt var til kosninga.
Engu var leynt, öllum þeim sem ábyrgð báru í málinu var fullkunnugt um stöðuna en það var ekki vilji allra sveitarfélaga að greiða fyrir veitta þjónustu."
Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 19:03
Við bændur erum bestir, hinir svín, svona nokkurnvegin inntak alls þess sem þú skrifar um innlenda pólitík...
Ef fólk vill fleiri þýðingar á "Við versus þeir" pólitík og ræðum þá bara sendið skilaboð á mig.
Gísli Friðrik Ágústsson (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 22:22
Vertu kurteis við dömurnar, góurinn. Það er betra ef maður vill lífi og limum halda.
Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 09:44
Takk Eiríkur.
Það er til lítils að ræða mál við menn sem nota svona orð, -enda dæma þeir sig svo sem sjálfir úr leik.
Bkv, Eygló
Eygló Þóra Harðardóttir, 16.2.2007 kl. 10:48
Vil nú í fyrsta lagi ekki taka þátt í þessum leik, læt pólitíkusana og þeirra orðagjálfur um það.
Kveðja
-ekki ekta Vestmannaeyingur samkvæmt frægri skilgreiningu Eyglóar.
Gísli Friðrik Ágústsson (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 21:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.