Kjalvegur og Sundabrautin

Skv. könnun Fréttablaðsins er meirihluti höfuðborgarbúa andvígur Kjalvegi.  Meirihluti landbyggðarbúa er hlynntur því að vegurinn verður lagður. 

Könnunin sýnir enn á ný að í landinu búa tvær þjóðir.  Höfuðborgarbúar sem vilja hafa allt óhreyft og "óspillt" og helst banna allar framkvæmdir austan 101 líkt og félagi minn Bjarni Harðar orðar svo vel í grein á vefsíðu sinni og íbúar landsbyggðarinnar sem vilja gjarnan fá að lifa og starfa í sínum byggðarlögum.  

Eitt af rökunum sem hafa verið notuð gegn Kjalvegi er að hann muni aðeins stytta vegalengdina á milli Reykjavíkur og Akureyrar um 47 km.  En það gleymist alveg í umræðunni að hann mun sytta vegalengdina á milli Suður- og Norðurlands um 141 km og munar nú um minna.  

Kjalvegur myndi opna mikla möguleika fyrir þetta e-hv annað sem maður heyrir stöðugt í umræðunni um uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni.  T.d. yrði hugsanlega hægt að gera Kerlingarfjöll að heilsársskíðasvæði og auðvelda almennt aðgang ferðamanna að hálendinu.  

Síðan bíð ég spennt eftir að fá að heyra könnunina um viðhorf allra landsmanna til Sundabrautarinnar, eða hafa höfuðborgarbúar kannski engan áhuga á að heyra hvað landsbyggðarfólki finnst um þá umræðu alla?


mbl.is Meirihluti andvígur nýjum Kjalvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Eygló. Sem áhugamaður um þetta málefni langar mig til þess að fá hjá þér örlítið betri skilgreiningu á því hvaða tækifæri það eru sem skapast við styttingu milli Suðurlands og Norðurlands. Framsóknarmenn hafa verið ákaflega duglegir við að gagnrýna þá sem vilja umgangast náttúruna af nærgætni fyrir að nota orðin eitthvað annað en núna verða þau skyndilega rök ykkar fyrir einkavæðingu Kjalvegar. Hvaða tækifæri skapast sem ekki væri hægt að skapa án þessa vegar? Og hvenær komst þú síðast í Kerlingafjöll? Ef þú skoðar vefsíðu þeirra aðila sem reka þar þjónustu sérðu að þar hefur lítið snjóað og ef ég man rétt er langt síðan menn renndu sér þar á skíðum, aðallega vegna snjóleysis. Sama snjóleysis og sumir nota sem rök fyrir því að láta leggja þennan veg.

Tryggvi Már Gunnarsson (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 14:23

2 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Þetta er góð grein hjá þér Eygló og það er alveg ágætt að benda höfuðborgarbúum á að það búi fólk með þarfir líka á landsbyggðinni. sjálfur er ég alinn upp á landsbyggðinni en bý á höfuðborgarsvæðinu. ber mikla virðingu fyrir landsbyggðarfólki og finnst að það eigi að hafa miklu meira að segja um þá hluti sem snúa beint að þeim og hafa í raun bein áhrif á lífsviðurværi þeirra. Því miður er of mikið af sjálfskipuðum sérfræðingum hér á 101 svæðinu, fólk sem situr á kaffihúsum(lítil kaffibandalög kannski!!) og telja sig vita betur hvað landsbyggðarfólki er fyrir bestu. Og oft er þetta fólk sem fer frekar til útlanda en að eyða tíma sínum í að "fara út á land".

Guðmundur H. Bragason, 13.2.2007 kl. 14:29

3 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Góðar samgöngur er eitt þeirra lykilatriða sem verða að vera í lagi hvað varðar búsetugæði.  Að eyða takmörkuðum fjármunum (peninga þarf hvort sem framkvæmdin er opinber eða einka) til vegamála að búa til nýja hraðbraut yfir Kjöl og Eyvindarstaðaheiði hljómar eins og firra í mínum eyrum á meðan stór hluti landsmanna þarf að aka á moldar- og malarvegum í sinni heimabyggð.  Sama sérhagsmunahyggjan ræður ríkjum í heimtufrekju Sunnlendinga varðandi tvöföldun Hellisheiðar þegar margbúið er að sýna fram á það með skýrum klárum rökum að 2+1 dugi betur.  Þetta minnir mig á óþekka krakka í kjörbúð sem kasta sér í gólfi og grenja: "Ég vil, ég vil samt, mamma kauptu nammið".

Mér finnst margt áhugavert sem þú hefur fram að færa Eygló og þú komst með ferska vinda inn í framsóknarpólitíkina á Suðurlandi.  Ekki veitti nú af þar.  Synd var og skömm að þú skyldir ekki lenda hærra í prófkjörinu en raun bar vitni.  Þess vegna þykir mér miður þegar þú og aðrir ætla að fiska í gruggugu vatni með því að etja saman Landsbyggðinni vs Höfuðborgarbúum.  Svona pólitík er mér ekki að skapi og veldur óþarfa flokkadráttum og deilum.

Ég tek það fram að að ég er Íslendingur, fæddur úti á landi og hef bæði búið þar og á svokölluðu höfuðborgarsvæði.  En fyrst og fremst er ég Íslendingur og ég ætla mér að búa þar áfram og ég vil komast greitt og örugglega um landið.  Hálendið skulum við láta eins mikið í friði og mögulegt er.  Það er of dýrmætt til að spreða því í svona vitleysu.

Sveinn Ingi Lýðsson, 13.2.2007 kl. 14:45

4 identicon

Sammála þér, Eygló.  Gervi-umhverfissinnarnir sem búa makindalega í 101 Reykjavík, sjá ekki bjálkann í eigin auga, en flísina í augu síns bróður. 

  • Það er alltof mikil bílaumferð í Reykjavík, því vil ég banna Sundabraut. 
  • Það á ekki að byggja á Geldingarnesi, því þetta er einstök náttúruperla. 
  • Það hefði aldrei átt að byggja í Grafarvogi eða í Grafarholti, því þar var óspillt náttúra.  
  • Að byggja í Elliðavatnslandinu var umhverfisglæpur, því þetta var útivistarparadís fólks í Reykjavík. 
  • Það átti aldrei að byggja í Urriðaholtslandi við Garðabæ, því þar var óspillt hraun sem eru miklar náttúrumenjnar. 
  • Það á að banna að byggja í Úlfarsfellslandi, því þar er einstök útivistar- og náttúruperla í nágrenni Höfuðborgarinnar. 
  • Það hefði aldrei átt að leyfa byggingu álvers og járnblendiverksmiðju á Grundartanga, í þessari náttúruperlu sem Hvalfjörðurinn er.

Sjá ekki umhverfisfasistarnir í 101 Reykjavík þessa eyðileggingu á náttúruperlum í nágrenni Höfuðborgarinna??  Nei, því þeir eru blindir á svoleiðis.  Þeir vilja lifa makindalega á hávaxtasvæði og þykjast vera umhverfisvinir, vilja banna landsbyggðarfólki allar bjargir, en vilja sjálfir ekki láta neitt af eigin munaði. 

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 15:01

5 identicon

Það er nú bara verið að tala um Kjalveg í þessu sambandi, elsku dúllurnar mínar. Ég veit ekki til þess að nokkur meirihluti sé á móti Sundabraut, eða tvöföldun þjóðvegarins á milli Selfoss og Akureyrar. Bættir vegir hafa hins vegar leitt til þess að margt fólk á landsbyggðinni keyrir nú mun lengri vegalengd en áður til að kaupa í matinn og fleira, til dæmis frá Hvammstanga til Reykjavíkur, Dalvík til Akureyrar og Húsavík til Akureyrar. Verslun á minni stöðunum hefur því minnkað mikið vegna bættra samgangna og ekki eru nú allir hrifnir af því. Og ekki eykst verslunin á Blönduósi ef þjóðvegurinn yrði styttur í Húnavatnssýslunni, enda hafa margir á þeim bæ sett sig upp á móti þessum samgöngubótum, mýslurnar mínar.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 15:15

6 identicon

Svo virðist sem línur séu að skýrast. Þeir sem vilja vera nærgætnir við náttúruna eru umhverfsifasistar í 101. Aðrir eru landsbyggðarmenn. 

Ég vona svo sannarleg Eygló að þú fallir ekki í þá gryfju að stilla málum svona upp og haldir uppi umræðu um málefnin og svarir þessari einföldu spurningu: Hvaða tækifærum myndu Sunnlendingar og Norðlendingar missa af ef trukkaumferð um Kjöl verður ekki samþykkt? Þú afsakar að ég skuli spyrja svona kjánalega en sennilega er það vegna þess að ég er sko íbúi í 200, upprunnin að norðan með tilheyrandi viðringu fyrir öllu fólki í landinu og ferðast þar að auki mjög mikið um landið með tilheyrandi rykaustri og ónærgætni við náttúruna og passa kannski ekki nógu vel í flokkunarkerfi þeirra félaga Kristins og Arnar.

Tryggvi Már Gunnarsson (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 16:24

7 identicon

Sæl Glingló,

Þú ert bara eins og hinir framsóknarmennirnir - hálfgerður kjáni.

Baráttukveðjur ,

Listalín

Þjóðrekur Listalín (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 16:30

8 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Sæll Tryggvi Már,

takk fyrir málefnalega athugasemd og já, - ég reyni alla jafna að fjalla um málefnin.  Það er rétt að hækkandi hitastig virðist hafa dregið úr snjóþyngslum á hálendinu.  Ég sá fyrir mér að hægt væri að búa til snjó líkt og verið er að gera fyrir norðan og útbúa þannig fjallaparadís. Það getur vel verið að þar sé ég farin á svona 101 - Framtíðarlandsflug en það getur verið gaman að velta svona hlutum fyrir sér.  Sjálf hef ég meiri áhuga á auðveldari flutningi á fiski á milli landshluta og almennt fólksflutningi á milli þessara svæða.  Það er mun umhverfisvænna að flytja fólk í rútu á milli landshluta en að fljúga með það í Fokker.  Ég hef líka séð fyrir mér möguleika sem opnast fyrir að taka ferðamenn í skemmtiferðaskipum á land í Eyjum, ferja þá yfir í Bakkafjöru, og keyra síðan með þá yfir hálendið.  Hugsanlega gætu skemmtiferðaskipin síðan tekið við þeim á Akureyri og siglt síðan áfram.  Allt jafnvel án þess að eiga viðkomu í Reykjavík   

Sæll Sveinn Ingi,

takk fyrir hlý orð og takk einnig fyrir góða athugasemd.  Ég er líka orðin mjög þreytt á því að þurfa að vera alltaf að stilla þessu svona upp, landsbyggðin gegn höfuðborginni.  En af hverju verður allt vitlaust ef það á að gera eitthvað á landsbyggðinni s.s. að staðsetja nýja/gamla opinbera stofnun þar eða fara í einhverjar framkvæmdir sem skipta máli?  Af hverju er í lagi að virkja Hellisheiðina, en allt verður vitlaust yfir Kárahnjúkum? Af hverju segir enginn neitt þegar störfum í opinbera geiranum fækkar stöðugt á landsbyggðinni en fjölgar á höfuðborgarsvæðinu?  Af hverju segir enginn neitt við því að við séum í raun orðin borgríki, með um 70% af íbúum landsins í Reykjavík og sveitarfélögunum þar í kring.

Nú síðast sat ég og hlustaði á Mörð Árnason tala um Náttúruminjasafn, - en að hans mati kemur alls ekki til greina að staðsetja þetta safn annars staðar en í Reykjavík.   Ekki einu sinni Reykjanesið kemur þar til greina að hans mati.  Þrátt fyrir að búið sé að benda á mikið af lausu húsnæði á varnarliðssvæðinu, húsnæði sem myndi vera hægt að taka fljótlega í notkun án þess að eyða hundruðum milljóna kr. í endurbætur.  Þrátt fyrir að stefnt sé að því að koma þar upp háskóla, sem gæti verið í nánu samstarfi við Náttúrufræðistofnun um rannsóknir o.s.frv.

Þetta er höfuðborgarstefnan, - byggðastefna í framkvæmd

Þjóðrekur Listalín,

Ég hef gengt nafninu Glingló og Glóey í gegnum tíðina, - en aldrei hef ég talið mig vera kjána.  Ákveðin, kjörkuð, baráttuglöð, fljótfær, glaðlynd, traust en aldrei kjána.  En svona ummæli segja náttúrulega mest um þann sem skrifar þau, sérstaklega þegar menn þora ekki einu sinni að koma fram undir nafni.  

Með bestu kveðju, Eygló 

Eygló Þóra Harðardóttir, 13.2.2007 kl. 17:32

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bendi á að 48,5 prósent landbyggðarfólksins var á móti Norðurvegi en 51,5 með. Þetta er yfirleitt ekki talinn marktækur munur og þess vegna langt seilst að túlka þetta jafntefli á landsbyggðinni sem algera andstæðu niðurstöðunnar í þéttbýlinu.  

Ég minni á það sem ég hef skrifað óg bloggað um þetta mál að það er vel hægt að gera "ferðamannaveg" um Kjöl í líkingu við vegina fyrir norðan Þingvallavatn ef menn vilja leita málamiðlunar.

Ómar Ragnarsson, 13.2.2007 kl. 19:27

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bendi á að 48,5 prósent landbyggðarfólksins var á móti Norðurvegi en 51,5 með. Þetta er yfirleitt ekki talinn marktækur munur og þess vegna langt seilst að túlka þetta jafntefli á landsbyggðinni sem algera andstæðu niðurstöðunnar í þéttbýlinu.  

Ég minni á það sem ég hef skrifað óg bloggað um þetta mál að það er vel hægt að gera "ferðamannaveg" um Kjöl í líkingu við vegina fyrir norðan Þingvallavatn ef menn vilja leita málamiðlunar.

Ómar Ragnarsson, 13.2.2007 kl. 19:33

11 identicon

Ágæta Eygló,

ég skrifaði svo langt komment hér að ég ákvað að pósta það bara á blogginn minn. Sjá hér.

Herdís Schopka (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 19:35

12 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þetta er ekki neitt á móti Landsbyggðinni alls ekki meggnið að fólki er komið þaðan herna á Stör Rvikur svæðinu!!!En við borgum cirka helming af vegafénu til Rikisins og vel það/ber ekki að skylja það lika!!!!!!/Við erum alls ekki Landsbyggðarfendur!!!!!!!Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 13.2.2007 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband